Þetta er skemmtileg pæling sem ég rakst á á vafri mínu um netið. Pælingin er hvort að þetta séu aðeins vangaveltur eða hvort J.K.Rowling sé alltaf að skilja eftir vísbendingar handa okkur.
Í Spádómafræði er Ron alltaf að gera grín af þeim hlutum sem hann “sér” í telaufunum sínum. Hann og Harry fíflast líka með að búa til alls konar “stórslys”, sem þeir eiga að lenda í, fyrir heimavinnu í Spádómafræði.
Þið haldið kannski að þar sem Ron og Harry búa þetta til viljandi þá telst þetta ekki með. Það hélt ég líka, þess vegna missti ég af þessu. J.K.Rowling er til alls líkleg…..
Ég ákvað að athuga brandarana hans Rons (og Harrys) í Spádómafræði og óvænt! Það lítur út fyrir að þeir hafi allir ræst!!!
Hér er grínið og svo hvað það gæti þýtt í raun:
Bók 3
Grínið: Harry les í bollann hans Rons: “Ja, hérna sé ég einhvers konar skakkan kross… Það þýðir að þú munir mæta þrautum og þjáningum…
en þarna er eitthvað sem gæti verið sólin… það þýðir mikil hamingja.
Svo þú átt eftir að þjást en vera mjög hamingjusamur.
Í raun: Í bók 3 geta þjáningarnar verið aftaka Grágoggs en hamingjan að komast að því að hann væri enn á lífi.
Grínið: Ron les svo í bollann hjá Harry: “…..núna líkist þetta frekar akarni… óvæntur gróði. Frábært, þá getur þú lánað mér peninga…..”
Í raun: Í bók 4 fær Harry í raun 1000 galleón í óvæntan gróða.
Grínið: Ron heldur áfram að lesa í bollann: “hér er einhver vera….sem lítur út eins og dýr..já, ef þetta er höfuðið..virðist vera hippó….”
Í raun: Þó að Ron hafi stoppaði í miðju orði þá er augljóst að hann ætlaði að segja hippógriffín. Er ekki skrítið að hann minntist á höfuð og hippógriffín þegar það átti einmitt að höggva höfuðið af Grágoggi?
Bók 4
Grínið: Þegar Harry og Ron sitja í setustofunni að spinna upp spár fyrir Spádómafræði, “spáir” Ron í gríni að hann fái slæman hósta.
Í raun: Ja, hann og Hermione fá hósta útaf hryllilegum rakspíra Hagrids í 16.kafla.
Grínið: Er Ron og Harry héldu áfram að grínast með heimavinnuna sína, komu þeir með mjög sérstaka spá….
~ Harry segir: “Á mánudag mun ég eiga á hættu að fá - öh – brunasár.”
~ Næst reyndi Ron að finna spá og Harry hjálpaði honum. “ Á þriðjudaginn mun ég..öömm…” “Týna uppáhalds hlutnum þínum” sagði Harry. “Góður” sagði Ron og skrifaði það niður.
~ Harry sættist svo við: “Og á miðvikudaginn…jæja, ég tapa þá veðmáli.”
Í raun: Ef maður skoðar þetta nánar minna þessir atburðir, á mánudag, þriðjudag og miðvikudag, mann óhugnanlega á þrautirnar þrjár í Þrígaldraleikunum.
~ þraut 1 – Harry er í hættu á að fá brunasár frá drekunum.
~ þraut 2 – Ron var uppáhalds “hlutur” Harrys, sá hlutur sem hann myndi sakna mest.
~ þraut 3 – Harry vann í raun ekki Þrígaldraleikana einn, svo hann tapaði veðmálinu fyrir Bagman.
óhugnanlegt, ekki satt?
Grínið: Ron kemur með aðra spá: “Af hverju verður þú ekki stunginn í bakið af einhverjum sem þú hélst að væri vinur þinn?”
Í raun: Áts! Hvað með prófessor Illauga?
Grínið: Ron kemur með enn eina spána: “Og á miðvikudag verð ég undir í slagsmálum.
Í raun: Ron kom nú ekkert sérstaklega vel út úr rifrildum sínum við Harry og Hermione….
Grínið: Harry spáði fyrir um dauða sinn með aftöku (neðst á bls. 168).
Í raun: (bls. 290) “..Hausinn af fiskinum sem Harry hélt á datt hljóðlaust á gólfið – Gauksgoggur Rons hafði höggvið hann af búknum andartaki áður…”
Kannski ættum við öll að hafa auga á spánum sem koma upp úr þeim félögum í Spádómafræði.
Eru þetta vísbendingar sem J.K.Rowling er að gefa okkur eða er Spádómafræði bara einn stór brandari???