Loksins, eftir margra vikna bið, kemur tólfti kapítuli þessa spuna. Þið verðið að fyrirgefa þetta langa hlé og ég ætla að reyna að láta þetta ekki koma fyrir aftur.
Mig langar til þess að þakka bæði samot og Tzipporuh fyrir að lesa yfir og gefa mér góð ráð.
Þessi er gangur mála: Harry dreymdi annan draum, hann var á klósetti Völu væluskjóðu ásamt hópi af stelpum sem varalituðu sig og kysstu svo spegilinn. Þá kom Dumbledore með rödd frk. Norm, ásamt Filch sem þreif speglana með klósettbursta. Harry trúir því að Síríus sé á lífi því hann sá svörtum hundi bregða fyrir og dreymdi (ásamt fleirum) að hann hefði sloppið undan fallinu inn um bogahliðið. Smám saman er þríeykið að kynnast Laufeyju nokkurri Needle, vinalausum Slytherinnema.
Tólfti kapítuli
Út, loksins út!
Næsti tími var ummyndun hjá McGonagall og hann leið án tíðinda. Harry var á báðum áttum um hvort hann ætti að segja Hermione frá þessum stórfurðulega draumi sem hann hafði dreymt í vörnum gegn myrku öflunum og var því annars hugar. Hann var smeykur um að hún myndi stinga upp á fleiri hughrindingartímum hjá Snape og það vildi hann ekki heyra á minnst. Þar að auki stangaðist þessi draumur á við þá kenningu hans að fyrri draumurinn hefði haft einhverja merkingu. Hann var fár á manninn allan morguninn en þegar hann settist við hádegisverðarborðið í Stóra salnum leitaði hann ósjálfrátt að Ginnyju. Hann kom auga á hana þar sem hún sat hjá vinkonum sínum hinumegin við borðið, tíu sætum til vinstri við hann. Hún virtist finna fyrir augnaráði hans því hún leit upp og úr augnaráði hennar gat hann lesið að hún hafði verið í draumnum hans. Bókstaflega. Harry stóð svo snöggt á fætur að hann hrinti næstum glasinu sínu um koll. Ginnyju brá en hún stóð samstundis á fætur, föl á svip og flýtti sér að hlaupa hringinn í kring um borðið til hans.
„Harry! Hvað í…?“ kallaði Hermione upp yfir sig þegar hann hljóp af stað á móti Ginnyju.
Þau mættust við endann á Gryffindorborðinu og skullu næstum saman, þvílíkur var asinn á þeim.
„Harry,“ spurði Ginny óðamála, „Varst þú þarna?“ Hún var föl og henni virtist augsýnilega brugðið. Harry kinkaði kolli.
„Já ég var þarna. Þú líka?“
Hún kinkaði sömuleiðis kolli og í smá stund stóðu þau bara og störðu hvort á annað. Ginny var fyrri til að rjúfa þögnina.
„Hvað var þetta? Hvað gerðist? Hvað átti þetta að þýða?“
„Sko,“ sagði Harry hikandi, „Ég… held ég þurfi að segja þér frá svolitlu,“ og svo hvíslaði hann að henni öllu sem viðkom draumnum um Síríus og hverja aðra hafði dreymt þennan sama draum.
„…og ég held að þetta sé eitthvað svipað,“ endaði hann á því að segja.
„En… Þetta var bara bull!“ svaraði Ginny, „Draumurinn núna var bara bull! Hann hafði enga merkingu fyrir mig, þetta er ekki eitthvað sem ég hef upplifað áður.“
„Ekki? En ég kannaðist ekki heldur við neitt þarna,“ sagði Harry hissa. Ég var ekki einu sinni í neinu hlutverki.“
„Tölum við Hermione,“ áræddi Ginny, „Og Ron og Neville. Reynum að komast til botns í þessu.“
„Okkur dreymdi draum,“ sagði Harry um leið og hann og Ginny settust sitt hvoru megin við Hermione. „Dreymdi ykkur draum?“ át Hermione upp eftir honum, „Sama drauminn?“
Harry og Ginny kinkuðu bæði kolli, alvarleg í bragði en voru nú farin að anda rólegar.
„Þegar ég sofnaði í vörnum gegn myrku öflunum,“ sagði Harry og bætti síðan beisklega við „Og fékk eftirsetu fyrir.“
„Ég var í spádómafræði,“ sagði Ginny frá, „Og Flórens og Trelawney, sem annars eru aldrei sammála, vildu bæði að ég túlkaði drauminn fyrir næsta tíma. Hvað á ég að segja?“ spurði hún angistarfull á svipinn, „Þetta var langt frá því að vera eðlilegur draumur og ég vil ekkert að þau séu að hnýsast í mitt einkalíf. Sérstaklega ef þetta tengist einhverju öðru; ef Harry á í hlut gæti það verið eitthvað stórt! Svo þarf ég að segja öllum bekknum frá.“
„Þú skáldar bara,“ sagði Hermione, „Það hefur dugað strákunum í þrjú ár. En hvað segið þið, ykkur dreymdi sama drauminn, Harry, var hann eitthvað svipaður hinum?“
„Nei,“ svaraði Harry sannleikanum samkvæmt, „Þessi var algerlega út í hött.“
Harry fann hvernig hann var að róast. „En þetta var samt bara draumur, það eina merkilega við hann er það að Ginny dreymdi hann líka.“
„Engar duldar merkingar?“ spurði Hermione ýtin en Harry hristi bara höfuðið.
„Ekki nema bara sú að virða starf Filch betur,“ sagði hann og leit á Ginnyju sem yppti öxlum í hlutlausu samþykki.
„Og er það allt og sumt?“ spurði Hermione áfram eins og hún byggist við fleiru en Ginny og Harry voru nú búin að jafna sig og brostu bara afsakandi.
„Já það… er allt og sumt,“ sagði Ginny eftir smá umhugsun.
„En við skulum láta þig vita ef okkur dettur eitthvað í hug seinna meir,“ bætti Harry við.
„Hæ krakkar! Hvað er í matinn? Ég er að sálast úr hungri!“ heyrðist þá fyrir aftan þau við undirspilið af gríðarlegu garnagauli.
„Úff, sko bara, heyriði ekki?“ sagði Ron um leið og hann tróð sér við hliðina á Harry og greip allan mat í seilingar fjarlægð.
„Ron?“ hváðu Harry og Hermione í kór.
„Hvað ert þú að gera hér? Ég hélt að þú værir fárveikur,“ sagði Harry, „Þú gast varla staðið í lappirnar áðan.“
„Ég veit,“ svaraði Ron um leið og hann tróð heilli pylsu upp í sig. Þegar hann var búinn að kyngja hélt hann áfram.
„Ég svaf þetta bara úr mér.“
„Á nokkrum klukkustundum?“ spurði Hermione vantrúuð. Ron yppti kæruleysislega öxlum.
„Já ætli það ekki? Harry, réttu mér safann… Takk.“
„Þetta er frekar ótrúlegt,“ sagði Hermione skeptísk við sjálfa sig.
Ron glotti með fullan munninn af kjúklingi.
„Ég er hraustur maður!“ sagði hann og bankaði með krepptum hnefanum á bringuna á sér.
„Varstu veikur?“ spurði Ginny, sem vissi ekki af hverju þau voru svona hissa á að sjá Ron á fótum.
Ron kinkaði kolli.
„Já, eða slappur bara.“ Hann tók gúlsopa af safanum og hellti meiru í glasið. „Ég varð bara allt í einu svona hryllilega slappur svo ég staulaðist upp í rúm og sofnaði um leið. Svo þegar ég vaknaði var ég orðinn hress.“
„Hann hefur aldeilis verið orkufrek lækning, þessi svefn,“ sagði Hermione og fylgdist með Ron sporðrenna annarri samlokunni í tveimur bitum og fá sér súpu með. Hún hafði sínar hugmyndir um þessi skyndilegur veikindi Rons. „Jæja, það er gott að þú skulir vera orðinn svona hress,“ sagði hún svo og bætti formálalaust við „Harry dreymdi annan samtengdan draum. Tengdan við Ginnyju.“
Ron hætti að tyggja í smá stund og varð litið á litlu systur sína. Var Ginny nú að flækjast í málið? Harry vissi hvað hann var að hugsa, Ron hafði nefnilega alltaf ofverndað systur sína aðeins. Eða reynt það að minnsta kosti. Það hafði til dæmis orðið til þess að vinskapurinn á milli þeirra Deans var orðinn dálítið stirður, nú þegar þau Ginny voru saman; Ron vildi ekki sjá Ginnyju særða.
„Hvað dreymdi ykkur?“
„Bara rugl,“ svaraði Ginny og Hermione sagði honum frá því sem henni hafði verið sagt.
„Og er það allt og sumt?“ spurði Ron, rétt eins og Hermione hafði gert.
„Já,“ svaraði Ginny, „Og svo það að ég fattaði að ekki væri allt með felldu áður en ég vaknaði.“
„Ég tók eftir því en skildi ekki neitt sjálfur,“ sagði Harry.
Ron kinkaði kolli.
„Og hvað nú?“ spurði hann.
„Og hvað nú hvað?“ spurði Harry.
„Hvað ætlið þið að gera í draumamálunum?“ ítrekaði Ron.
„Gera?“ Harry var hissa, það var ekkert að gera, „Ekkert,“ sagði hann hreinskilnislega.
„Ætlið þið ekki að tala við Dumbledore?“ spurði Hermione þá.
Harry fór í varnarstöðu, hann þrjóskaðist enn við að fyrirgefa Dumbledore en fannst hann um leið haga sér barnalega. Hann bara réð ekkert við sig.
„Nei,“ sagði hann, „Þetta var bara venjulegur draumur, sem okkur Ginny dreymdi bæði. Þetta var ekkert hættulegt, ekki einu sinni neitt merkilegt, engar duldar merkingar. Við værum bara að eyða dýrmætum tíma Dumbledores.“ Hann stakk síðasta pylsubitanum upp í sig og gaf til kynna að málinu væri lokið.
* * *
Þau hittu Laufeyju nokkuð oft þessa dagana, hún sótti líka í bókasafnið, eins og Hermione hafði kennt strákunum, og bað þau oftar en ekki um hjálp. Sérstaklega í vörnum gegn myrku öflunum sem virtist vera það fag sem henni gekk verst í. Hún spurði Harry auðvitað spjörunum úr, enda var hann sérfræðingurinn í skólanum, og reyndi að nema allt það sem hann kenndi henni. VD fundirnir voru ekki enn þá byrjaðir því Harry vildi að tímatafla hinna klúbbanna í skólanum væri komin á hreint áður en hann tæki ákvörðun um fundartíma. Þannig gæti hann best passað upp á að allir kæmust.. Svo þurfti hann líka að hafa áhyggjur af Quidditch og undirbúa æfingar.
Þríeykið var sammála því að Laufey væri skemmtileg stelpa og enginn hafði neitt út á það að setja að hún lærði með þeim. Í hádegishléinu á föstudeginum áttaði Harry sig þó á nokkru sem hann undraðist mjög. Þau höfðu fengið að fara snemma úr jurtafræði og ákveðið að nota tímann til þess að gera einfalt verkefni sem þeim hafði verið sett fyrir og stefndu því á bókasafnið. Þar sat Laufey, ein að vanda, og var að rýna í talnagaldrabók. Hún stundi þungan og virtist vera við það að gefast upp.
„Hæ Laufey,“ hvísluðu Harry og Ron í kór um leið og þeir settust við borðið hjá henni.
Laufey leit upp og brosti breitt.
„Hæ strákar! Hæ Hermione!“ Hún færði sig og bókina um set og settist við hlið Hermione, sem hafði ætlað að setjast á móti henni. „Getur þú nokkuð hjálpað mér augnablik með talnagaldrana, ég get ekki með nokkru móti skilið af hverju útkoman er ekki eins og hún á að vera.“
Hermione leit sem snöggvast á dæmið í bókinni en stóð svo upp og sagði „Æ, nei, veistu, láttu Harry bara gera þetta, hann kann þetta alveg líka. Ég var búin að gleyma að ég, hérna, á fund við McGonagall prófessor…“
Harry vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið.
„Hermione!“ sagði hann fullhátt en leiddi hjá sér reiðilegt augnaráð fröken Pince, „Ég kann ekkert í talnagöldrum!“
„Kanntu að leggja saman?“ spurði Hermione.
„Ha?“
„Þetta er stærðfræði Harry. Þú kannt þetta alveg. Útskýrðu þetta fyrir henni, ég þarf að þjóta.“
„Hvað er stærfæði?“ hvíslaði Ron en Harry var of gáttaður til þess að taka eftir því; hann var viss um að Hermione hefði rétt í þessu blikkað Laufeyju, sem hafði roðnað í vöngum og brosað á móti.
Og þá fór hann að muna eftir svipuðum atvikum síðustu daga, Hermione lét sig oftar en ekki hverfa þegar Laufey birtist. Honum hafði fundist það dónalegt en ekki hugsað mikið um það. En Laufey virtist ánægð með það. Hvað var í gangi? Stelpur, hugsaði hann og hristi höfuðið í uppgjöf.
Síðasti tíminn á föstudögum var varnir gegn myrku öflunum, svo að Harry fékk ekki tækifæri til þess að sjá skrifstofu fröken Norm í þetta skiptið. Hann sat bara kyrr í sætinu sínu eftir að hinir nemendurnir færu út, svo að hann gæti byrjað eftirsetuna sem fyrst. Hvað ætli hann yrði látinn gera? Skrifa setningar? Honum varð hugsað til Umbridge og hann greip ósjálfrátt um höndina þar sem örin voru enn sjáanleg ef hann rýndi nógu vel í.
„Mig langar út,“ sagði lág rödd fröken Norm allt í einu.
Harry leit upp. Fröken Norm stóð við gluggann og starði löngunarfullum augum út. Sól var á lofti en haustvindar voru farnir að blása og skrjáfið í laufum trjánna í Forboðna skóginum heyrðist eins og seiður úr fjarska. Aftur datt Harry nunna í hug þegar hann horfði á kennarann sinn.
„Mig langar svo út,“ hvíslaði hún lágt.
Harry ók sér vandræðalega til í stólnum og ræskti sig. Fröken Norm snéri sér snöggt við.
„Fyrirgefðu,“ sagði hún, „Við förum út.“
Svo gekk hún hröðum skrefum til Harrys, tók í höndina á honum, brosti breitt og dró hann af stað.
Hann hefði getað gengið við hlið hennar en lét hana samt draga sig áfram. Ástæðan var sú að hún vildi ekki sleppa af honum takinu og ef hann gengi við hliðina á henni, þá liti það út eins og þau væru að leiðast. Af hverju vildi hún ekki sleppa? Alla leiðina niður tvær hæðir, gegn um ganga og sali reyndi Harry kurteisislega að losa sig en fröken Norm sleppti ekki fyrr en þau voru komin út undir bert loft. Þar dró hún djúpt andann og teygði sig á móti sólu eins og hún hefði ekki komið út svo dögum skipti.
„Ég hef ekki komið út í viku!“ andvarpaði hún og brosti til Harrys. „Sem minnir mig á… Harry komdu með mér.“
Harry fylgdi möglunarlaust eftir hröðum skrefum. Hvert voru þau að fara? Þau sefndu á Forboðna skóginn en hann var bannsvæði…. Harry nam staðar þegar fröken Norm gekk fram hjá fyrsta trénu.
„Fröken!“ kallaði hann.
Hún stansaði og snéri sér við.
„Hvað?“
„Þetta er hættulegt,“ sagði hann. Hann mundi allt of vel eftir morðhótunni sem hann hafði fengið við síðustu heimsókn sína í skóginn.
Hún hugsaði sig aðeins um en sagði svo:
„Ertu með sprotann þinn?“
„Jaá,“ svaraði hann hikandi.
„Hefurðu komið hingað áður?“ spurði hún næst.
„Já og…“ Hann ætlaði að segja henni að síðast hefði hann næstum verið drepinn af kentárunum sem vildu engar manneskjur í skóginn en hún greip fram í fyrir honum.
„Og þú slappst alveg. Svo er ég með þér. Komdu nú!“ Hún veifaði honum að koma og lagði aftur af stað. Harry fylgdi hikandi á eftir.
Honum var órótt. Hann kunni kæruleysislegu fasi fröken Norm ekki vel og hafði sprotan tilbúinn til taks. Fröken Norm virtist bara njóta þess að vera komin útfyrir og ekki hugsa mikið um hættur skógarins. Trén þéttust í kring um þau. Harry hélt sig nálægt frökeninni og skimaði í sífellu í kring um sig. Hann hrökk í kút við hvert hljóð sem gæti hugsanlega verið mannýgur kentár. Að lokum leit hann aftur fyrir sig og sá ekki lengur skógarjaðarinn. Þá var komið nóg, hann stansaði og tók í handlegg kennskukonunnar.
„Þetta er nógu langt inn!“ sagði hann, vitandi að ef þau rækjust á kentára, þá gæfu þeir þeim engan séns og hann hefði enga möguleika á að sigrast á þeim. Þrátt fyrir að fröken Norm væri góður kennari, þá treysti hann henni ekki fullkomlega í raunverulegan bardaga. „Stoppum hér og segðu mér hvað ég á að gera og snúum svo við!“ bað hann. Unga konan leit á hann með umhyggju í augnaráðinu.
„Allt í lagi,“ sagði hún. Því næst bað hún hann um að hafa hljótt með því að leggja fingur á varir sér og benti honum á að hlusta. Hann gerði það og fylgdist með henni rýna inn á milli trjánna og hlusta á hljóð skógarins. Það fyrsta sem hann tók eftir var að það virtust ekki vera neinir fuglar í skóginum og einu hljóðin voru marr í trjánum og þytur í laufi. Einstaka rýt úr einhverri undarlegri skepnu kvað við og tíst í hinum og þessum trjáverum. Allt í einu heyrði hann léttan dynk rétt fyrir aftan sig og snéri sér snöggt við með sprotann í viðbragsstöðu. Fröken Norm starði hissa upp til hans þar sem hún sat á trjádrumbi sem hún hafði hlammað sér á.
„Slakaðu á Harry, það er ekkert hættulegt í grenndinni,“ sagði hún og klappaði á drumbinn, „Sestu hérna hjá mér augnablik.“
Harry hikaði eitt andartak áður en hann settist. Fröken Norm dró andan djúpt og brosti af vellíðan.
„Finnurðu ilminn?“ spurði hún, „Er ekki gott að vera hérna?“
Harry svaraði ekki. Hann var farinn að velta því fyrir sér hvað væri í gangi. Svo var óþægilegt að sitja þarna; hann sat alveg upp við kennarann, með grein sem stakkst í hann hinu megin. Svona sátu þau nokkra stund í þögn og Harry leið alltaf verr og verr. Hann bjóst við kentárum á hverri stundu og var með sprotann á lofti, greinin stakkst í hann og svo var eitthvað óþægilegt að sitja svona nálægt svona ungum kvenkyns kennara. Hann starði inn í skóginn, viðbúinn hverju sem væri.
Hann varð var við hreyfingu og herti takið á sprotanum. Það var eitthvað þarna inni á milli trjánna sem nálgaðist. Harry kyngdi munnvatni fylgdist stíft með því. Það var of lítið til þess að vera kentár, of loðið og með of stór augu. Silfurlit augu.
Harry stökk á fætur og hljóp í áttina að hundinum.
„Hvert ertu að fara Harry?“ spurði fröken Norm um leið og svarti skugginn með silfuraugun hvarf aftur á milli trjánna.
Harry stikaði fram og aftur og bölvaði.
„Harry Potter! Viltu að ég taki fleiri stig af Gryffindor vegna dónaskapsins í þér?“
„Nei. Nei. Fyrirgefðu fröken,“ svaraði Harry, „Getum við farið heim núna?“
„Já auðvitað,“ svaraði fröken Norm blíðlega, „Leggð þú af stað, ég fylgi á eftir.“
„Ha?“
„Þú situr eftir vegna þess að þú tekur ekki nógu vel eftir og sofnar í tímum Harry. Ég vona að þú hafir áttað þig á því og tekið vel eftir núna á leiðinni hingað, þú átt að koma okkur heim.“
„HA?“ spurði Harry aftur með vantrú. Var hún brjáluð? Hafði hún gengið með hann inn í Forboðna skóginn án þess að rata út aftur?
Jæja, munið að gagnrýna, hvað vakti athygli ykkar, gott eða slæmt eða bara forvitnilegt?