(Skrifað með aðstoð frá sérlegum aðstoðarmanni og lærlingi Ritu.)
Aesa, eða Æsa eins og hún vill frekar kalla sig, hefur verið til í netheimum í þrjú ár. Að baki þessu nicki er þó 19 ára fögur verslunarkona sem glápir á eitthvað furðutæki sem kallast “sjónvarp” (tæki sem Muggar nota til þess að sjá hluti á hreyfingu) sér til afþreyingar og skrifar einhverjar sögur. Hún segist vera búin að lesa bækurnar um Harry Potter nokkrum sinnum en á meðal þeirra sé sú þriðja, Fanginn frá Azkaban, í uppáhaldi hjá henni. Æsa er þó ekki jafn hrifin af kvikmyndunum sem gerðar hafa verið um piltinn. Hún telur fyrstu tvær myndirnar hreinasta sorp en sú þriðja heillaði hana meira og segir hún að sú mynd hafi verið eins og úr öðrum heimi þökk sé nýjum leikstjóra, þó hún telji hana ekki gallalausa. Henni fannst atriðið þar sem Harry kemst að sannleikanum um tengsl Siriusar og Potterhjónanna vera ruglningslegt og illa gert en það atriði var aftur á móti nánast fullkomið í bókinni að hennar mati.
Hér kemur svo fyrsti skandallinn um hana Æsu: Uppáhalds persóna hennar í bókunum er Sirius Black. Æsa skrifaði hér á vefinn grein þess efnis að Sirius Black væri vondur maður en svo nefnir hún hann sem uppáhalds persónuna sína og segir svo að hann sé heillandi og að saga hans hrífi hana. Það var þá aldeilis eitthvað til að hrífast af. Við vitum öll að Sirius Black er alræmdur morðingi sem elti Harry Potter uppi til þess eins að myrða hann. Hinn ungi og hugaði Harry slapp naumlega og síðan þá hefur herra Black verið á flótta undan réttvísinni eða þar til hann lét lífið í bardaga þar sem hann barðist við hlið Drápara hins Myrka Herra síðastliðið vor. Hún segist þó vera búin að sætta sig við dauða hans. Við skulum allavegana vona að hún fari ekki að gera tilraunir til að vekja hann upp frá dauðum. Lifandi var Sirius Black nógu slæmur, ekki vildi ég hitta hann sem uppvakning.
Æsu líkar verst við okkar fríða galdramálaráðherra Cornelíus Fudge. Hún segir að sá herramaður sé sjálfelskur og hugsi bara um mannorð sitt en ekkert um veruleikann. Sem dæmi um veruleikafirringu ráðherrans telur hún að hann skyldi ekki trúa sögu Harry Potters er hann birtist í lokakeppni Þrígaldraleikanna með lík hins unga Cedrics Diggory og sagði frá upprisu Hans-sem-ekki-má-nefna. En af hverju átti hr. Fudge að trúa einhverjum fjórtán ára skólapilti sem allir vissu að er brjálaður af frekju og með ör sem boðar ekkert gott? Undirrituð telur þessi viðbrögð galdramálaráðherrans afar eðlileg og skilur ekkert í kvenmanninum að láta þessi ummæli falla um vorn dásamlegan ráðherra sem hefur gert þessu samfélagi galdramanna svo fjölmargt gott.
Æsa var spurð hvað hún teldi að framtíðin fæli í skauti sér fyrir Harry og félaga hans. Henni til mikillar gremju hefur J.K. Rowling nú ýtt undir þann orðróm að einhver rómantík sé að spretta upp í Gryffindorþríeykinu. Hún hefur í gegn um árin statt og stöðugt neitað því að Ronald Weasley og Hermione Granger eigi eftir að enda saman en telur nú að í ljósi þessara nýju upplýsinga sé það nokkuð augljóst. Æsa býst við því að þau klári öll skólann og að Sá-sem-ekki-má-nefna muni lúta lægra haldi fyrir Harry á sjöunda ári hans við skólann. Heyr á endemi! Að halda því fram að strákpjakkur sem varla hefur náð lögaldri geti sigrað Þann-sem-ekki-má-nefna þegar færustu galdramenn okkar tíma hafa allir reynt sitt besta og það hefur ekki dugað til. Þvílíkir draumórar. Hún dirfist svo að halda því fram að Harry Potter sé að slá sér upp með Lunu nokkurri Lovegood, dóttur Lovegoods ritstjóra sorptímaritsins “Skrumað og skælt”. Það væri nú skandall af hæstu gráðu. Hún telur nokkuð líklegt að Neville Longbottom eigi eftir að vera meira með þríeykinu á næstunni.
“Skytturnar þrjár urðu að fjórum í lokin,” bætir hún við og vitnar þar í sögu Alexandre Dumas um skytturnar þrjár en þar er það fjórða skyttan, ungur piltur að nafni D’Artagnan, sem hún líkir Neville við.
Æsa tók persónuleikapróf sem segir að hún sé líkust Hermione Granger og líkt henni sé Æsa gáfuð og þyki vænt um annað fólk. Hún sé þá föst fyrir þegar kemur að áleitnum siðferðilegum efnum. Samkvæmt þessu prófi finnst Æsu mikið til um menntun sína og er stolt af árangri sínum. Þrátt fyrir það er hún ekki montin og hrokafull heldur vingjarnleg og laðar að sér vini. Hún segir að hún hafi tekið önnur svona persónuleikapróf og þá verið talin líkust Harry Potter sjálfum. Undirrituð leyfir sér að efast um það.
Æsu finnst hún vera gömul á /hp á huga, en sú vitleysa! Enginn slær út öldunginn hana Tzipporuh! Æsa segir að sér hafi komið mjög á óvart þau hörðu viðbrögð sem hún fékk við grein sinni um Sirius Black og sagðist ekki hafa átt von á svona ummælum og á því að svo mörgum svörum hafi þurft að eyða út.
Ekki er nú allt upptalið enn. Æsa fékk að setja á sig Flokkunarhattinn góða en hann neitaði blákalt að setja hana á nokkra af heimavistum Hogwartsskóla. Einhverjar hafa ástæður hattsins verið fyrir því að vilja ekki fá dömuna í skólann. Eitthvað er nú af óhreinu mjöli í pokahorninu hjá henni Æsu.
Eftir að hafa skoðað þessa stúlku og hennar skoðanir vel hefur undirrituð komist að niðurstöðu um hvert leyndarmál Æsu er í raun og veru. Skoðum hér fljótlega staðreyndirnar:
1. Hún heillast af hættulegum mönnum svo sem Siriusi Black
2. Hún hrífst af hræðilegum sögum fullum af morðum og hörmungum.
3. Hún leggur fæð á Cornelius Fudge, þann mikla og frábæra mann.
4. Sjálfur Flokkunarhatturinn hefur sitthvað út á stúlkuna að setja.
Niðurstaðan getur einungis verið ein: Æsa er þjónn Hans-sem-ekki-má-nefna!
Með þetta að leiðarljósi ráðlegg ég lesendum mínum að forðast þessa stúlku og vara sig á að treysta henni um of.
Rita Skeete