Ég veit ekki afhverju ég vandi mig á að skrifa nokkur orð á undan öllu sem ég skrifa en þar sem það er orðið að vana verðið þið bara að sætta ykkur við það. Eflaust gerði ég það til þess að byrjun kaflans kæmi ekki fram á aðalsíðunni, hvað um það. Hérna kemur framhaldið af Týnda þjóninum, ég var spurður afhverju ég breytti frá Trygga þjóninum yfir í Týnda þjóninn og get ekki öðru svarað en að það komi í ljós í lok sögunnar. Ég vill Þakka Tzipporah fyrir frábærar ráðleggingar sem vonandi skila sér í betri sögum nú, jafnt sem í framtíðinni. En… ég vona bara að þið hafið gaman af, endilega skrifið hvað ykkur fynst, fátt meira hvetjandi en nokkur vel valin orð um það hvernig þið upplifið söguna.
Að lokum, hér er ein tilvitnun, úr HP að sjálfsögðu.
There is no good and evil, there is only power… and those too weak to seek it.

4. Kafli
Það var tekið að dimma og Harry var búinn að pakka fötunum aftur niður. Eða hann kallaði það að pakka niður en Hermione horfði hneyksluð á það þegar hann henti fötunum úr skápnum aftur í koffortið.
“Þetta verður allt orðið krumpað þegar við komum að Hroðagerði.”
Sagði Hermione og bjó sig til að opna töskuna. Harry vissi að hún mundi brjóta saman hverja einustu flík og jafnvel þótt þær væru ekki margar þá ætlaði hann nú ekki að láta hana gera það. Hann settist ofan á koffortið og sagði:
“Það er fínt, þá hafa húsálfarnir eitthvað að gera.”
Um leið og hann sagði þetta varð honum hugsað til þess hvort það væri ennþá húsálfur í Hroðagerði eftir að Kreacher hafði svikið þau, og svo datt honum það í hug. Hvað hafði orðið um Kreacher, var hann kannski ennþá á Hroðagerði. Harry hugsaði um það hvernig hann mundi bregðast við ef hann sæi smettið á þessum svikula húsálfi. Hermione hlýtur að hafa tekið eftir hversu utangátta Harry var, þar sem hann sat ofan á koffortinu og spurði:
“Harry, er allt í lagi, hvað ertu að hugsa um?”
Harry snéri höfðinu rólega í átt að Hermione þangað til að augu þeirra mættust og spurði ískaldri röddu.
“Hvað varð um Kreacher? Hvar er hann núna?”
Hermione brá við, ekki við það að Harry skildi spyrja að þessu, það skildi hún vel, heldur við því hvernig hann spurði, röddin alveg laus við tilfinningar og í augum hans sá hún einhvern glampa sem hún hafði aldrei séð áður. Hún hélt að hún væri búin að þekkja hann nógu lengi til að þekkja svipbrigði hans, hún var farin að sjá úr augum hans hvað hann meinti og hvernig honum leið, en þessi glampi… hann minnti hana á eitthvað en hún vissi ekki hvað. Hún hafði ekki tíma til að hugsa um það þar sem hún þurfti að svara Harry.
“Ég bara veit ekkert hvar hann er núna. Ég þarf að fara niður og athuga hvenær við förum.”
Hún sagði þetta allt í einni bunu og áður en hún hafði sleppt síðasta orðinu var hún hlaupin út um dyrnar. Harry grunaði að hún vissi meira en hún segði og þessi óvissa gerði hann mjög pirraðan. Þessi ólga innra með honum var eins og eldfjall sem beið eftir að gjósa. Það hafði nú losnað um smá spennu fyrr um daginn þegar hann öskraði á Hermione en sú spenna var bara eins og vatnsdropi, spennan sem bjó innst í Harry var líkari hafsjó, einn dropi til eða frá breyttu engu. Harry var hræddur um hvað mundi gerast ef þessi orka slyppi út, en jafnframt hræddur um hvað mundi gerast ef þessi orka slyppi ekki út. Hann varð að tala við einhvern. Þetta voru innri átökin sem Harry var búinn að glíma við á hverjum degi, hann gat ekki hugsað sér að segja nokkrum manni hvernig honum leið, því innst inni vissi hann að tilfinningar hans væru rangar eða illar en á sama tíma þráði hann svo heitt að segja einhverjum frá þessu. Bara ef Sirius væri hérna ennþá.
Hermione kom til baka og burðaðist með koffortið hennar Tonks með sér. Hún skellti aftur hurðinni og stundi upp:
“Mikið verð ég fegin þegar við megum nota galdra utan Hogwarts, þetta koffort er níðþungt án galdra.”
Hún ýtti koffortinu í áttina að Harry og sagði:
“Tonks sagði að þú þyrftir að færa dótið þitt úr koffortinu hennar yfir í þitt. Hún þarf að nota plássið.”
“Hvenær förum við?”
Spurði Harry um leið og hann opnaði hið mjög svo skrautlega koffort Tonks.
“Bara þegar þú ert búinn að pakka niður og Tonks að koma sínu dóti fyrir í koffortinu.”
Þau sátu á gömlu viðarlögðu herbergisgólfinu, það var svo gamalt að það brakaði í því við það eitt þegar þau snéru sér frá kofforti Tonks og að kofforti Harrys. Það tók þau óþarflega langan tíma að pakka niður og eins og Hermione benti honum á var það aðallega vegna þess að fötin hans Harrys voru í hrúgu í miðju koffortinu þannig að í stað þess að taka aðeins fjórðung koffortsins þá fylltu fötin rúmlega helming. Það var þó ekki vandamál fyrst, en búnaður og bækur fyrir skólann voru bara einfaldlega svo fyrirferðamikil að undir lokinn var Harry farinn að troða pergament rullum og minni bókunum meðfram köntum koffortsins. Þegar hann ætlaði síðan að loka gekk það ekki fyrr en í fjórðu tilraun eftir að hafa sest og stappað á efsta lagið af bókum. Hermione stóð álengdar meðan á þessum aðförum Harrys að koffortinu stóð, stór hneyksluð á svip.
“Það er ekki furða að allar bækurnar ykkar Rons líta út fyrir að vera fornbækur, þú kannt engan veginn að fara með bækur.”
Harry brosti bara til hennar.
“Það er nú ekki eins og ætli að lesa mikið af þessum bókum eftir að ég klára Hogwarts, við Ron erum meira að segja búnir að skipuleggja bókabrennu í lok 7. ársins. Allir í Griffindor ætla að taka þátt, reyndar að Neville undanskildum.”
Þetta minnkaði nú ekki hneykslun Hermione. Hún lagði hendurnar á mjaðmirnar, dró djúpt inn andann og hallaði höfðinu örlítið til hliðar. Harry var búinn að þekkja Hermione nógu lengi til að vita hvað þetta táknaði. Nú var von á ræðu.
“Í fyrsta lagi veist þú aldrei hvenær þú átt eftir að þurfa að nota þessar bækur, þær eiga allar eftir að geta nýst þér ef þú ferð í frekara nám, sem ég vissi nú ekki betur en að þú stefndir á. Í öðru lagi, af hverju var enginn búinn að láta mig vita af þessari brennu ef allir vita af henni. Er ég ekki nógu merkileg til að frétta svona hluti? Fyrir utan það að ég mundi aldrei taka þátt í svoleiðis vitleysu. Að brenna bækur!!! Þið hljótið að vera gengnir af göflunum. Bækur kosta líka talsverða peninga og ekki skil ég hvernig þið getið séð ykkur fært um að brenna peningana ykkar. Hvað haldið þið að Molly segi? Það er ekki eins og þau séu ríkasta fjölskyldan á Bretlandi”
Hermione var orðin rauð í framan. Harry vissi að það var ekki af reiði því hún var langt frá því að vera reið, þetta var bara hrein hneykslun. Harry vissi ekki alveg hverju hann gat svarað svona pistli en hann vissi að hann yrði að svara einhverju.
“Þetta var nú bara svona hugmynd sem við komum fram með einhvern tímann á setustofunni í fyrra, þú varst á bókasafninu að læra þannig að þú hefur líklegast ekki frétt af þessu. Auðvitað vissum við að þetta yrði eflaust aldrei gert.”
Hermione brosti, þetta var einn af eiginleikum hennar sem Harry elskaði, hún gat umbreyst frá því að vera mikið niðri fyrir yfir í að vera glöð og hamingjusöm, eða svona eins og hægt var miðað við að foreldrar hennar væru líklegast í haldi drápara, á augabragði.
“Við skulum koma koffortinu hennar Tonks niður svo að hún geti tekið sig til, svo komum við upp og náum í múrsteininn þinn.”
Sagði Hermione og kinkaði kollinum í átt að koffortinu hans Harrys. Þau báru koffortið niður til Tonks, það var tæplega hálffullt af hinu og þessum galdramunum en var samt fislétt. Þegar þau komu niður var Dumbledore að tala við Tonks en þegar Dumbledore heyrði í Harry og Hermione leit hann upp og sagði.
“Jæja börnin góð, þá getum við alveg farið að leggja af staf, Tonks þarf bara aðeins að skjótast.”
Hann leit á Tonks á meðan hann sagði þetta og um leið og hann sleppti orðinu hafði hún tilflust eitthvert með koffortið. Án frekari útskýringa tilfluttist Dumbledore líka. Harry og Hermione litu á hvort annað, ypptu öxlum og snéru við. Þau ætluðu að ganga upp stigann til að ná í koffortið hans Harrys. Áður en þau komu að stiganum var Dumbledore kominn aftur með koffortið hans Harrys sér við hlið.
“Datt í hug að þetta væri einfaldara. Óþarfi að láta ykkur burðast með þetta fram og til baka yfir hálft England.”
Sagði Dumbledore og glotti. Þau heyrðu brak í gólffjölunum uppi en fyrir gólffjalir að braka í þessu húsi var þeim eins náttúrulegt eins og fyrir súkkulaðifroska að hoppa. Niður stigann kom frú Figg og Harry áttaði sig á því að hann hafði allt sumarið hlakkað til þess að geta talað við frú Figg og nú var hann búinn að eyða hálfum degi heima hjá henni og lítið sem ekkert búinn að tala við hana. Það var bara hvorki staður né stund til að tala við hana núna þannig að hann brosti bara til hennar. Dumbledore gekk á móti frú Figg og rétti út hendurnar. Faðmaði hana og sagði:
“Elsku Arabella, alltaf er jafn indælt að koma til þín, því miður gefur maður sé alltof sjaldan tíma til að heimsækja þig. Vonandi mun ég geta komið fljótt aftur til þín og pönnukakanna þinna.”
Hann sagði þetta á sinn kímna, vinalega hátt. Hann kyssti hana á kinnina og snéri sér að Harry og Hermione.
“Jæja, þá komum við okkur, ég býst við að Skröggur og Tonks séu þegar komin fyrir utan.”
Harry og Hermione þökkuðu frú Figg fyrir sig og gengu út.
Úti blés léttur andvari, grasið á lóð frú Figg var vel slegið og Harry velti fyrir sér hvort hún gerði það sjálf eða hvort hún fengi smá aðstöð töfra. Harry tók eftir að það hafði líklega verið óþarflega heitt inni hjá frú Figg, allavega fannst honum ótrúlega ljúft að komast í ferska loftið. Hann andaði djúpt að sér og honum fannst eins og hver andadráttur frelsaði hann frá agnarögn af spennunni sem bjó innra með honum. Himininn var stjörnubjartur og þrátt fyrir að Skröggur fussaði og sveiaði yfir því að það væri ekki lengur hægt að treysta á enskt veðurfar til að veita sér leynd, fannst Harry þetta vera besta mögulega flugveðrið. Hann hafði ekkert flogið allt sumarið og það eitt að finna fyrir kústskaftinu í lófanum gaf honum gamla góða fiðringinn í magann. Fyrsta flugferðin á haustin var eins og fyrir kálf að sleppa úr fjósinu á vorin. Tonks festi koffortið hans Harrys aftan á kústinn hans og allir gerðu sig tilbúna til þess að taka á loft. Það að svífa yfir London er ólýsanleg tilfinning, fyrir Harry þá var þetta eins og að komast loks í sitt náttúrulega umhverfi. Hann langaði til að steypa sér niður og fara á fulla ferð en Skröggur gaf honum merki um að fylgja hópnum sem þó ferðaðist á töluverðum hraða. Harry velti því fyrir sér hversu hratt Dumbledore gæti flogið, hann hafði aldrei heyrt hvort Dumbledore hafi verið góður Quidditch spilari á sínum yngri árum. Harry grunaði þó að hann væri fær í loftinu því af þeim öllum í hópnum virtist Dumbledore vera afslappaðastur, hallaði sér lítið eitt fram og virtist jafnvel vera annars hugar. Skyndilega, án nokkurs fyrirvara fann Harry nýstandi sting og allt byrjaði að sortna fyrir augunum á honum, hátíðni sónn hljómaði fyrir eyrunum og þegar hann reyndi að kalla eftir hjálp fann hann að hendurnar voru máttlausar, hann fann alla vöðvana slakna og sársaukinn í örinu var svo mikill að hann hélt að Voldemort hlyti að sitja á kústinum hjá honum. Hann sá furðulega mynd af Voldemort hangandi á kústnum fyrir sér og það var það síðasta sem hann sá áður en allt varð svart.
Voldemort is my past, present and future.