Persóna mánaðarins að þessu sinni er hinn eini og sanni Harry James Potter.
<br>
<br>
Harry er langur og renglulegur strákur, með mjög óstýrilátt dökkt hár sem virðist helst vilja standa beint út í loftið og kringlótt gleraugu yfir grænum augunum. Hann er gangandi eftirmynd föður síns en með grænu augun frá móður sinni.<br>
Harry fæddist þann 31. júlí 1980. Foreldrar hans voru þau James Potter og Lily (Evans) Potter. Hann er þekktur um allan galdraheiminn sem “drengurinn sem lifði”. Það kom til af því að á hrekkjavökukvöldi þegar hann var rúmlega eins árs kom Voldemort, einn sá allra versti og myrkasti galdramaður sem nokkurn tímann hefur gengið á jörðinni, heim til hans í þeim tilgangi að myrða hann. Ástæðan fyrir því var sú að spákona nokkur hafði spáð fyrir um að drengur, hvers lýsing passaði vel við Harry litla, myndi einhvern daginn sigra hinn myrka herra. Voldemort hafði hins vegar ekki árangur sem erfiði því að foreldrar Harrys fórnuðu lífi sínu fyrir hann og þegar röðin var komin að Harry að deyja kom gerðist eitthvað skrýtið sem leiddi til þess að í stað þess að Harry litli léti lífið missti Voldemort allan mátt sinn og hvarf sporlaust í rúman áratug. Á Harry sást ekkert nema sár sem seinna varð ör, lagað eins og elding, á enni hans. Harry litli var þó orðinn munaðarleysingi og neyddist til að búa hjá móðursystur sinni og fjölskyldu hennar þar sem hann þurfti að líða harðræði þar til hann varð 11 ára og fékk ekkert að vita um uppruna sinn eða galdraheiminn í heild.<br>
Á ellefta afmælisdegi hans fékk hann að vita hver hann í raun og veru er og hver arfleifð hans er. Þá um haustið fékk hann að fara í Hogwartsskóla galdra og seiða þar sem hann nemur galdra og fjölkyngi af ýmsum gerðum. Hann lenti í Gryffindor heimavistinni sem er heimavist hinna hugdjörfu. Í heimavistinni hefur Harry eignast fjöldann allan af góðum vinum og er bestu vinir hans þau Ron Weasley og Hermione Granger. Harry keppir með heimavistarliðinu sínu í Quidditch sem er aðalíþróttaleikur galdramanna og kvenna. Hann var yngsti leikmaðurinn í heila öld til að keppa í innanskólakeppninni. <br>
Harry á líka fleiri vini sem ekki eru á heimavistinni hans og má þar fremstan í flokki nefna prófessor Dumbledore sem er skólastjóri Hogwartsskóla. Þeir eiga mjög sérstakt samband og virðist oft sem Harry eigi erfitt með að viðurkenna fyrir Dumbledore þegar hann á í vandræðum eða þegar honum líður illa, en þó virðist skólameistarinn alltaf vita nokkurn veginn hvað er að gerast hjá honum og virðist gera sitt besta til að líta eftir stráknum.<br>
Aðrir sem vert er að nefna eru Hagrid, sem sér um lóðir Hogwartsskóla og öll dýr og furðuverur sem þar búa. Hann er hálfrisi og ekki manna klókastur en vænni og indælli mann er ekki hægt að hugsa sér. Sirius Black er guðfaðir Harrys og eru þeir góðir vinir. Í honum fann Harry föðurinn sem hann man ekkert eftir og í Harry sér Sirius besta vin sinn endurborinn. Remus Lupin var annar af bestu vinum James og kenndi hann Harry í skólanum eitt árið. Hann er varúlfur og það er í raun honum að þakka að Harry og Sirius fengu tækifæri til að kynnast. Hann er einn sá besti kennari sem Harry hefur nokkurn tímann haft í skólanum og það sem hann hefur kennt Harry hefur nýst honum vel í gegn um árin og á án efa eftir að nýtast honum vel um ókomna tíð. Svo má alls ekki gleyma húsálfinum Dobby sem Harry frelsaði frá ofbeldisfullri fjölskyldunni sem hann þjónaði og verður hann “hinum mikla Harry Potter” ævinlega þakklátur.<br>
Harry á líka ýmsa óvini. Þar ber helstan að nefna Voldemort sem er núna kominn aftur til valda. Harry er tengdur honum á ákveðinn hátt þar sem hann ber ennþá örið eftir hann. Í gegn um örið finnur hann þegar Voldemort er einstaklega glaður eða þegar hann er einstaklega reiður. Þetta getur varað hann við ýmsu en það getur líka leitt hann í vandræði. Töfrasprotar Harrys og Voldemorts eru líka tengdir þar sem þeir eru bræðrasprotar og er kjarni þeirra úr fjöðrum af fönixinum Fawkes. Þessar tvær fjaðirir eru einu fjaðrirnar sem þessi ákveðni fönix (sem reyndar er í eigu Dumbledores) hefur nokkurntíman gefið af sér til töfrasprotagerðar. Voldemort gaf Harry einnig ýmsa af kröftum sínum (óvart að sjálfsögðu) þegar hann missti máttinn. Honum að þakka er Harry talsvert máttugri en aðrir jafnaldrar hans og jafnvel fullþroskaðir galdramenn og auk þess talar hann slöngutungu sem er sjaldgæfur hæfileiki meðal galdramanna. Þennan hæfileika hafði Voldemort líka.<br>
Aðrir óvinir sem vert er að nefna eru feðgarnir Lucius og Draco Malfoy. Draco er jafnaldri Harrys og er í Slytherin heimavistinni, en sú heimavist hefur gefið af sér fleiri af myrkum galdramönnum en nokkur hinna, þar á meðal Voldemort sjálfan. Þeir sem eru í Slytherin og þeir sem eru í Griffindor eru nánast sjálfkrafa óvinir svo það er varla hægt að búast við öðru.<br>
Harry á eina uglu sem hann notar gjarnan til að senda bréf til vina sinna. Hún er hvít snæugla og heitir Hedwig. <br>
Á fjórða ári sínu í Hogwarts tók Harry þátt í Þrígaldraleikunum sem voru þá haldnir í fyrsta skipti í yfir 100 ár. Hann var yngsti keppandinn og hefði í raun ekki átt að taka þátt en brögðum var beitt til að hann yrði fyrir valinu. Sá sem stóð fyrir því var yfirlýstur stuðningsmaður Voldemorts og sá hann einnig til þess að Harry stæði uppi sem sigurvegari leikanna þar sem bikarinn var leiðarlykill sem flutti hann beina leið til Voldemorts og þjóna hans. Þar var Harry notaður, gegn eigin vilja, í athöfn til að endurreisa hinn myrka herra. Eftir mikið og erfitt einvígi við Voldemort komst Harry þó heilu og höldnu heim til Hogwarts þar sem hann gat sagt frá því sem fram hafði farið um kvöldið.
<br><br>
Einnig er hægt að skoða tímalínu Harrys: <a href="http://www.hugi.is/hp/greinar.php?grein_id=63358“>Árin 1980-1991</a> og <a href=”http://www.hugi.is/hp/greinar.php?grein_id=63405">árin 1992-1995</a>
<br><br>
<h5>“I don't go looking for trouble. Trouble usually finds me.”
-Harry Potter </h5>
<h5>“Ég fer ekki að leita að vandræðum. Vandræðin virðast yfirleitt finna mig.”
-Harry Potter</h5