1. kafli
Dursley fjölskyldan.
Jafnvel á enskum mælikvarða var þetta sumar mjög kalt og blautt. Ekki hafði sést til sólar í fleiri vikur og rignt hafði svo mikið að rósirnar hennar Petuniu voru dauðar, henni til mikillar gremju. Það var rólegt sunnudagskvöld og Harry sat uppi í herberginu sínu og skrifaði bréf til vina sinna sem loksins gátu svarað að vild án þess að þurfa að tala í gátum. Hedwig sat í búrinu sínu og fylgdist með hálfopnum augum með eiganda sínum hripa nokkur orð niður á blað. Hún lokaði loks augunum og hjúfraði hausinn ofan í bringuna. Harry gat ekki annað en dáðst að fegurð hennar, hún var snjóhvít og það ríkti svo mikill friður og yfirvegun yfir henni að allar áhyggjur urðu lítilvægar við það að horfa á hana. Bréfið sem hann var að byrja á var til Ron, hann hafði verið á Jan Mayen hluta sumarsins með fjölskyldu sinni en hún hafði haft efni á því þar sem Arthur hafði fengið talsverða launahækkun eftir allt tilstandið í kringum endurkomu Voldemorts. Hann var jafnvel kominn með glugga inn á skrifstofuna eins og hann hafði beðið um í mörg ár. Skrifstofan hafði einnig verið stækkuð og nú komst meira að segja bókaskápur inn á hana sem Arthur notaði reyndar undir rafmagnsklær, rafhlöður og gúmmíendur. Á engan hátt var Weasley fjölskyldan þó rík, því Arthur hafnaði víst boði um stöðuhækkun yfir í annað ráðuneyti sem hefði þýtt mun meiri peninga. Ron sagði Harry að þegar hann hefði spurt pabba sinn af hverju hann hefði ekki viljað skipta hefði Arthur stunið og sagt:
“Peningar koma aldrei í stað þeirrar ánægju sem ég hef af samskiptum við mugga, þeir eru svo saklausir og fáfróðir að það er ekki annað hægt en að líka vel við þá, auk þess hefði ég þurft að fara yfir skattskýrslur galdramanna allan daginn hefði ég skipt, og satt best að segja hef ég aldrei verið mikill talna maður”.
Harry var þegar farinn að hlakka til þess að komast í Hreysið. Hann og Ron höfðu um lítið annað skrifað undanfarið en það hvenær hann fengi að koma og hvað þeir ætluðu að gera.
Harry sat og var ekki viss hvað hann ætti að skrifa og byrjaði hægt og rólega, hugsaði hvert orð en eftir að hann komst á skrið urðu pergament rúllurnar tvær og klukkan að ganga eitt svo hann lagði frá sér fjaðurpennan og lagðist dauðþreyttur upp í rúm. Hann vildi ekki vekja Hedwig þar sem ekkert merkilegt stóð í béfinu, heldur ákvað hann að senda það um leið og hann myndi vakna. Áður en hann fór að sofa reyndi hann að tæma hugann en það reyndist honum erfitt, því við það rifjuðust upp minningar síðasta árs. Það hafði ekki liðið sá dagur að Harry hafði ekki hugsað, “hvað ef ég hefði lagt meira á mig til að læra hugvörn, þá hefði ég aldrei farið að “bjarga” Siriusi og þá hefði Sirius ekki dáið." Þessar hugsanir héldu oft vöku fyrir Harry langt fram á nótt og fram undir morgun. Að lokum sofnaði hann en það var jafnvel verra en að vaka, því Voldemort, sem var einn af öflugustu hugstjórnar galdramönnum allra tíma, lék sér að huga Harrys og lét hann endurlifa dauða Siriusar aftur og aftur og aftur, alveg þangað til Harry vaknaði með andköfum, kófsveittur og gráti næst. Hann hafði ekki sofið almennilega allt sumarið og var orðinn svo þreyttur að hann var hættur að vakna við hróp og köll Dursley fjölskyldunnar. Vernon var meira að segja búinn að tengja dyrabjöllu upp í herbergið hans Harrys, sem gaf frá sér óþolandi væl þegar ýtt var á takka í eldhúsinu. Þetta hafði vakið Harry fyrstu morgnana eftir að hún var sett upp en síðan hafði hann alveg hætt að heyra í henni. Vernon hafði svo loksins gefist upp eftir að nágranni hafði komið og kvartað undan látunum.
Dursley fjölskyldan var ekki næstum eins slæm og undanfarin sumur, en það stafaði ekki af góðmennsku eða skilningi, heldur hreinni hræðslu. Það var greinilegt að littla “spjallið” sem þau höfðu átt við Skrögg, Lupin og Tonks hafði skilað tilætluðum árangri. Auðvitað voru þau alls ekki góð við Harry en þorðu ekki fyrir sitt litla líf að banna honum neitt, hann var jafnvel farinn að fá jafnstóran matarskammt og Dudley, Dudley til mikillar gremju. Hann vogaði sér þó ekki að segja nokkurn skapaðan hlut, því ekki aðeins var hann hræddur við manninn með skrýtna augað, heldur var hann líka farinn að bera óttablandna virðingu fyrir Harry eftir vitsuguárásina. Og jafnvel innst inni, þrátt fyrir harða baráttu Dudleys til að bæla niður þessa pirrandi tilfinningu, örlaði fyrir þakklæti í garð Harrys.
Þessi nótt var þó aðeins öðruvísi, því eftir að hafa upplifað dauða Siriusar nokkrum sinnum hætti það skyndilega og hann fann að örið brann. Hann vaknaði og greip um höfuðið og fann hvernig reiði Voldemorts braust út í gegnum örið. Harry var hættur að finna fyrir tilfinningum Voldemorts nema í eitt og eitt skipti og þá voru það sterkar tilfinningar. Hermione, sem skrifaði nánast daglega og sagði honum fréttir úr galdraheiminum, taldi líklegast að Voldemort lokaði á Harry svo hann fyndi ekki hvernig honum liði, en missti stjórn á sér þegar hann yrði sérstaklega glaður eða reiður.
Hann stóð upp, labbaði að skrifborðinu, dró upp nýtt pergament og byrjaði að skrifa:
“Kæri Sirius” hann byrjaði að tárast og fékk kökk í hálsinn við það eitt að sjá nafnið. Hann hélt þó áfram og skrifaði:
“Ég vildi óska að ég gæti talað við þig, ég hugsa um þig á hverjum degi og gæfi allt til að sjá þig. Ég vona að þú fyrirgefir mér einhvern tímann fyrir heimsku mína sem dró þig til dauða. Það hefði átt að vera ég, en ekki þú, sem þessi bölvun lenti á.” Tár lak niður kinnina og lenti á grófu pergamentinu, myndaði dökkan blett og blekið rann aðeins til.
“Vildi bara segja þér að Voldemort er bálreiður og ég get enn ekki sofið. Ég veit ekki hvað ég þoli þetta mikið lengur, vona bara að þér líði vel og að þú vitir að ég sakna þín og ráðanna þinna. Harry.” Hann vakti Hedwig og sagði henni að fara með bréfið til Siriusar. Hann vissi auðvitað fullvel að Sirius væri dáinn, en hann hafði gert þetta allt sumarið ef honum lá eitthvað á hjarta. Honum leið alltaf miklu betur eftir að Hedwig flaug út um gluggann með bréfið og hvarf upp í skýin. Harry vissi ekkert hvert hún flaug en hún kom alltaf tveim dögum seinna án bréfsins. Harry hafði stundum velt fyrir sér hvert hún flygi en honum var sama, innst inni varð hann rólegri í smá tíma og það var það eina sem hann vildi. Hann steinsofnaði og aldrei þessu vant dreymdi hann ekki Sirius, heldur sá hann Hogwarts. Allt var snævi þakið og uglur sveimuðu inn og út úr ugluturninum. Stórar snjóflygsur svifu hægt og rólega til jarðar. Ekkert annað gerðist í draumnum, hann bara sveif í kringum Hogwarts. Þegar hann vaknaði fjórum klukkutímum síðar, vaknaði hann með bros á vör og hann var úthvíldur, tilfinning sem hann var nánast búinn að gleyma.
Hann gekk niður stigann en þegar hann kom niður í anddyrið heyrði hann að Vernon og Petunia voru að tala saman inni í eldhúsi. Hann ákvað því að stoppa og hlusta á þau áður en hann gengi inn.
“Við getum ekki lokað hann inni, þá sendir hann þessu hræðilega fólki bréf” heyrði Harry Vernon segja.
“Hugsaðu þér hvað nágrannarnir myndu segja ef pönkari með bleikt hár og eineygður maður birtust skyndilega fyrir utan húsið okkar” Harry greindi hrylling í rödd Petuniu.
“Nei, við verðum að gera eitthvað annað” svaraði Vernon.
“Hvað um að biðja frú Figg um að hafa hann” stakk hann upp á.
“Guð minn almáttugur, nei” sagði Petunia og tók andköf.
“Hann myndi senda bréf samstundis, hann þolir hana ekki.
Þess vegna höfum við alltaf sent hann þangað” sagði hún, en Harry, sem hafði allt sumarið vonast til að fá að fara til Figg,
gat ekki staðið á sér og gekk inn í eldhúsið og sagði:
“Ég skal alveg fara til frú Figg.”
Vernon og Petunia horfðu rannsakandi á hann.
“Varstu að hlera okkur, litli ormurinn þinn.
Mér er alveg sama um eineygð viðrini eða pönkara, ég líð ekki að vera hleraður á mínu eigin heimili”
Vernon varð eldrauður í framan en Harry hafði séð það of oft til að kippa sér upp við það. Petunia, aftur á móti, þaggaði niður í Vernon og sagði:
“Svo þér er sama þó að við skiljum þig eftir hjá frú Figg í tvær vikur, mundu að þú sagðir þetta, þú sjálfur samþykktir það, svo það þýðir ekkert að fara að skrifa þessu pakki bréf.”
Harry varð svolítið pirraður en hann var of spenntur til að vera tilbúinn að fórna möguleikanum á að komast frá Dursley fjölskyldunni.
“Hvert eruð þið annars að fara” spurði hann.
“Það kemur þér nú ekkert við” hreytti Vernon út úr sér.
“En við erum að fara til Bandaríkjanna til Aspen á skíði, væntanlegur viðskiptavinur vill að ég og fjölskyldan mín komum á skíði í tvær vikur og ef ég fæ hann til að skrifa undir samninginn sem við erum að semja um þá verður það stærsti samningur sem ég hef gert.”
Vernon sagði þetta með miklum eldmóð og Harry sá votta fyrir glampa í augum hans. Harry þurfti samt að berjast við að hlæja ekki, því hann hafði alveg hætt að hlusta á Vernon þegar hann sagði “á skíði”. Hann gat ekki hætt að ímynda sér Dudley á skíðum. Dudley, sem hafði verið rekinn úr boxliði Smeltings skóla fyrir að lemja nokkra fyrstu bekkinga fyrir að gefa honum ekki nestispeningana sína, var aftur orðinn að hvali og Harry gat ómögulega skilið hvernig hann ætti að komast niður brekku á skíðum.
“En hvað kemur til að þú viljir fara til frú Figg?” Spurði Petunia og horfði rannsakandi á Harry. Harry gat auðvitað ekki sagt þeim að hún væri skvib svo hann reyndi að hugsa upp afsökun sem myndi gera Dursley fjölskylduna ánægða.
“Þið eruð búin að vera miklu betri við mig í sumar heldur en undanfarin sumur, og þess vegna vil ég að þið fáið að gera þetta. Þótt það þýði að ég þurfi að búa hjá frú Figg í tvær vikur.” Harry setti upp englabros og horfði framan í Vernon og Petuniu. Þau horfðu á hann jafnvel enn tortryggnari augum og Vernon byrjaði: “Þetta er mesta bull sem ég hef he…” en Petunia greip fram í fyrir honum.
“Jæja, það er gott af þér, þá er þetta frágengið, við getum farið og skrýtnu vinir þínir fá ekkert bréf.”
Svipurinn á Vernon lýsti miklum innri átökum, annars vegar mikilli ánægju með að komast til Bandaríkjanna án þess að eiga á hættu að fá hóp af galdramönnum á Runnaflöt en hins vegar óánægju með þessar ófullnægjandi skýringar Harrys.
“Hann er að bralla eitthvað, hann er að bralla eitthvað” tautaði Vernon og gekk út úr eldhúsinu.
“Farðu þá upp í herbergið þitt og taktu það sem þú þarft, því þú færð ekki lykil að húsinu” sagði Petunia, sneri sér frá Harry og gekk að símanum, vafalaust til þess að hringja í frú Figg.
Harry beið ekki boðanna, heldur hljóp upp í herbergið sitt og pakkaði því sem hann taldi sig þurfa. Harry var tilbúinn á fimm mínútum og hann dröslaði koffortinu niður. Vernon hnussaði þegar hann kom niður.
“Við erum nú ekki að fara fyrr en eftir tvo daga svo þú getur farið aftur upp með þetta drasl þitt.” Hjarta Harrys sökk. Þótt þetta væru bara tveir dagar hafði hann vonað að hann kæmist burt strax, en Petunia, sem var að leggja á, gat ekki leynt ánægjunni í rödd sinni þegar hún sagði:
“Frú Figg er tilbúin að hafa þig og stakk upp á að þú kæmir strax til hennar svo við fengjum frið til að pakka niður.” Harry varð svo ánægður að allar martraðir, svefnleysi og sektarkennd virtust hverfa. Innst inni vissi Harry þó að það yrði aðeins í skamman tíma.
Voldemort is my past, present and future.