Helga Haraldsdóttir hefur nýlokið við þýðingu á sjöundu og síðustu bókinni um galdrastrákinn Harry Potter. Hefur hún fengið nafnið Harry Potter og dauðadjásnin og kemur í búðir hinn 15. nóvember.
„Þetta er hálfgerð tómleikatilfinning. Ég held ég sé ekki búin að átta mig á því að þetta sé síðasta bókin. Þetta er frekar skrýtin tilfinning,“ segir Helga, sem lauk þýðingunni á um tveimur og hálfum mánuði.
Hún segist hafa fengið frekar stuttan tíma til að þýða bókina vegna þess að hún kom út mánuði seinna en venjulega úti í Bretlandi. Það kom þó ekki að sök því hún fékk góða hjálp við þýðinguna frá tveimur konum sem starfa hjá útgefandanum Bjarti.
„Fanginn“ í uppáhaldi
harry potter Galdrastrákurinn Harry Potter kveður í sjöundu bókinni sem kemur út á íslensku í næsta mánuði. Nýja bókin er töluvert frábrugðin hinum Potter-bókunum enda gerist hún að mjög litlu leyti í Hogwartsskóla. Fjallar hún um það þegar Harry fer í leiðangur til að leita að ákveðnum hlutum ásamt vinum sínum. Helga segir þýðinguna hafa verið mjög skemmtilega, rétt eins og með hinar bækurnar. Nefnir hún þó þriðju bókina, Fangann frá Azkaban, sem uppáhaldsbókina sína. Svo skemmtilega vill til að hún er jafnframt uppháldsbók höfundarins, J.K. Rowling.
Algjör forréttindi
„Þetta hafa verið alveg hreint forréttindi að taka þátt í þessu en ef maður hefði stundum haft meiri tíma hefði þetta verið enn þá skemmtilegra,” segir Helga um Potter-ævintýrið sem hófst fyrir átta árum með bókinni Harry Potter og viskusteinninn.
Komin í langþráð frí
Helga, sem starfar sem sálfræðingur, ætlar að taka sér góða pásu frá þýðingum við brotthvarf Harrys Potter og gefa sér meiri tíma fyrir fjölskylduna. „Þetta er kannski orðið gott. Ég fer ekki aftur að þýða nema það komi eitthvað sérstakt upp."