Harry Potter og dauðadjásnin, fékk email um þetta frá forsölucrewinu í hagkaup.
Hvað finnst fólki um þennann titil?
Hér er fyrsta fréttabréfið sem sent er til þeirra sem keypt hafa sjöundu og síðustu bókina um Harry Potter í forsölu á hagkaup.is. Fyrir neðan má meðal annars sjá vinningsnúmer í forsöluhappdrætti, glænýjan íslenskan titil bókarinnar og bréf frá þýðandanum Helgu Haraldsdóttur.
Fádæma viðtökur
Síðasta bókin um Harry Potter hefur hlotið fádæma viðtökur um allan heim síðan hún kom út á frummálinu fyrir rúmum mánuði síðan og er hamagangurinn í heimspressunni eftir því. Fyrir stuttu var til dæmis sagt frá því að 16 ára franskur skólapiltur hefði verið handtekinn á heimili sínu fyrir að dreifa ólöglegri þýðingu úr bókinni á netinu.
Þrátt fyrir allan æsinginn hafa tillitssamir lesendur um gjörvallan heim gætt sín á að ljóstra ekki upp um endinn til að spilla ekki fyrir þeim sem enn eiga eftir að njóta bókarinnar.
Áhugi á eldri bókunum um Harry Potter og félaga hefur líka verið mikill upp á síðkastið, bæði meðal þeirra sem vilja endurnýja kynni sín af galdrastráknum en einnig laða bækurnar stöðugt til sín nýja aðdáendur.
Íslenskur titill kominn á síðustu bókina
Það er helst að frétta af íslensku þýðingunni að nú hefur verið kunngjört að titill síðustu Harry Potter bókarinnar á íslensku verði hvorki meira né minna en Harry Potter og dauðadjásnin. Hér fyrir neðan er einmitt að finna skemmtilegt bréf þar sem þýðandinn Helga Haraldsdóttir leyfir okkur að gægjast eina örskotsstund á bak við tjöldin í þýðingarbúðunum. Helga þekkir vel til í heimi Harry Potter og félaga því hún hefur þýtt allar Harry Potter bækurnar yfir á íslensku.
Forsöluhappdrættið
En fyrst verður dregið í forsöluhappdrættinu. Í vinning að þessu sinni er glæsileg safnaskja með fjórum fyrstu Harry Potter kvikmyndunum á DVD ásamt sérstökum Harry Potter stuttermabol. Vinningshafarnir heppnu eru eigendur bókmerkjanna sem bera eftirfarandi númer:
67
139
Ef þú ert önnur/annar hinna stálheppnu vinningshafa geturðu vitjað vinninga í Hagkaupum, Skeifunni (þjónustuborð, munið eftir að taka bókamerkið með!) eða sent póst til vefstjori@hagkaup.is með ljósmynd af bókamerkinu og munum við þá senda vinninginn til þín um hæl.
Bréf frá þýðanda Harry Potter bókanna
Í næsta fréttabréfi verður svo meðal annars tilkynnt um nýja vinningshafa í forsöluhappdrættinu. Og hver veit, kannski mun þýðandinn luma á glaðningi fyrir óþreyjufulla Harry Potter aðdáendur? Hugsanlega broti úr fyrsta kaflanum á íslensku …? Við sjáum hvað setur og kveðjum að sinni með bréfinu góða frá þýðandanum Helgu Haraldsdóttur:
Ekki-fréttir úr þýðingarbúðum:
Það vakti hjá mér blendnar tilfinningar að fá í hendur síðustu bókina í bókaflokknum um Harry Potter. Þar toguðust á gleði yfir því að fá loksins að vita hver örlög Harrys yrðu (hér á heimilinu var stórt veðmál í gangi um endalokin sem ég vann!) og söknuður yfir því að hér lýkur kynnunum við Harry og félaga. Hann var farinn að minna á fjarskyldan ættingja sem skýtur upp kollinum með reglulegu millibili.
Nú eru þýðingar komnar á fullt en verkið sækist frekar hægt svona til að byrja með. Það þarf að dusta rykið af orðaforða galdraheimsins og svo eykst hraðinn smám saman. Enn sem fyrr er unnið í kappi við tímann með tilheyrandi svitaköstum og hjartaflökti, en einhvern veginn hefst þetta alltaf á endanum með góðri hjálp.
Án þess að ég vilji upplýsa nokkuð um söguþráðinn á ýmislegt eftir að koma skemmtilega á óvart. Lykilpersónur eru ekki allar þar sem þær eru séðar og bókin gerist ekki nema að litlu leyti innan veggja Hogwartskóla. Mikið er um dauðsföll og bardaga upp á líf og dauða. Sagan er ansi myrk og þarf Harry að takast á herðar mikið hlutverk sem hann er ekki alltaf sáttur við og óskar þess oft að hann væri bara venjulegur unglingur.
Æðið sem greip um sig eftir að sjöunda bókin var gefin út á sér ekki hliðstæðu. Í Kína birtist kínversk þýðing á netinu aðeins tveimur dögum eftir útgáfu bókarinnar í Bretlandi en þar tóku saman höndum 60 þýðendur til að mæta eftirspurn ákafra aðdáenda sem ekki gátu hugsað sér að bíða í þrjá mánuði eftir útgáfu bókarinnar hjá bókaforlagi. Ég er hrædd um að íslenskir aðdáendur verði að láta sér biðina lynda, en vona að ánægjan við að fá bókina í hendur í nóvember verði þeim mun meiri. Góða skemmtun!
Helga Haraldsdóttir