Þó að margir aðdáendur Harry Potter hafi beðið föstudagsins með eftirvæntingu er Helga Haraldsdóttir þar í sérflokki. Helga er þýðandi bókaflokksins og er nú í startholunum fyrir síðustu þýðinguna.
„Ég var búin að bíða í ofvæni eftir þessum degi,“ sagði Helga, sem kveðst vera mikill aðdáandi bókanna sjálf. Hún starfar sem sálfræðingur á Miðstöð heilsuverndar barna og hefur því í nógu að snúast þessa dagana. Þegar Fréttablaðið náði tali af Helgu í gær var hún að ljúka við að lesa Harry Potter and the Deathly Hallows. „Núna er farið að bíða svolítið eftir íslenskum titli, svo það þarf að drífa hann af stað. Svo byrja ég að þýða og sendi kaflana til yfirlestrar jafnóðum og ég klára þá,” útskýrði Helga.
Þýðingarferlið á bókunum um Harry Potter er talsvert hratt, en íslenska útgáfan er væntanleg 15. nóvember næstkomandi. Álagið á Helgu og þýðendur Harry Potter-bókanna erlendis er því afar mikið. Helga veit til þess að þýðandi bókanna á frönsku hafi fengið taugaáfall við þýðingu fjórðu bókarinnar. Þá hafði hann unnið sleitulaust í tíu klukkustundir á dag, í 63 daga samfleytt.
„Ég hef oft fengið hjálp við þýðingarnar, annars hefði þetta hreinlega ekki gengið,“ sagði hún og hló við. „Þetta er náttúrulega hörkupúl, en þetta er líka bara markmið sem maður vinnur að í takmarkaðan tíma. Maður sér alltaf fyrir endann á þessu,” sagði Helga.
Þar sem þýðandi hefur enga frekari innsýn en hinn almenni lesandi í hvað höfundurinn J.K. Rowling ætlast fyrir hefur það reynst nokkuð snúið að þýða bókaflokkinn. „Það eru kannski litlir hlutir í fyrri bókunum sem ég hélt að skiptu ekki miklu máli, en verða svo veigamiklir síðar, og þýða þar að auki allt annað en maður hélt í upphafi,“ útskýrði Helga, sem segist hafa rekið sig á marga slíka hluti í þýðingunum. „Já, Jesús minn,” sagði hún. „Ég er að lesa bókaflokkinn fyrir sex ára son minn núna, og ég verð stundum að loka augunum þegar ég sé hluti sem passa ekki lengur. En maður hefði þurft að vera skyggn til að skilja það, svo það verður bara að hafa það,“ sagði hún hlæjandi.
Helga segir tilfinningar sínar gagnvart lokum verkefnisins, sem nú er í sjónmáli, vera blendnar. „Ég held að ég eigi eftir að sakna Harrys mjög mikið. En á hinn bóginn er ég í fullu starfi og með tvö börn, svo þetta er töluvert álag,” sagði hún sposk.
Þýðing á Harry hörkupúl
Úr visir.is