Það getur vel verið að margir af þessum punktum hafi komið fram áður hérna á /hp .. en ég vil endilega fá að benda á þá samt sem áður.
Vinky: Hvað í fjandanum var málið með að sleppa henni? Hún var mjög stórt hlutverk í 4. bókinni og hafði mikil áhrif á framvindu söguþráðarins. Þegar maður er að gera mynd eftir bók sleppir maður ekki bara heilu persónunum.. nema þær skipti litlu sem engu máli. Vinky kom á heimsmeistaramótið í Quidditch með Barty Crouch, átti að hafa kallað fram myrkratáknið með sprota Harrys (héldu menn allavega í byrjun), átti að vera húsálfur í Hogwarts til að geta hjálpað Barty Crouch Jr og allt þetta. Skipti hún þá litlu máli? Ég held nú síður.
Barty Crouch Jr: Er enginn sammála mér í því hversu asnalegur greyið maðurinn var? En það er ekki bara það sem ég vildi sagt hafa um hann, heldur fannst mér fáránlegt að hafa hann í herberginu í byrjun myndarinnar þar sem hvergi var minnst á hann í bókinni fyrr en í réttarhöldunum. Já, og talandi um réttarhöldin.. það hefði tekið langan tíma að taka upp og sýna þau öll þannig að það var svosem ágætlega gert hjá þeim að steypa þeim svona í eitt. En Barty sjálfur var allt öðruvísi í útliti en lýst var í bókinni.. “hörgult hárið hékk ofan í augun og freknótt húðin var mjólkurhvít” og hann átti að vera á unglingsaldri. Og hann átti að biðja um miskunn við föður sinn og móður. Hvar var allt þetta?
Hvers vegna var hann líka sýndur við og við í gegnum alla myndina? Til þess að staðfesta það að hann væri svo sannarlega vondi kallinn? Þannig virkar ekki Harry Potter! Maður á ekki að hafa hugmynd um hvað er í gangi fyrr en í bláendann þegar allt er útskýrt fyrir manni. Þetta er allt orðið svo kvikmyndavænt núna að það má ekki lengur hafa spennu í gangi – áhorfendur verða að skilja sjálfir. Það er nú meiri þvælan – bestu myndirnar eru einmitt þær sem maður botnar ekkert í.. fyrr en allt í einu: Jáá! Svona var þetta!
Bréfin og blaðagreinarnar: Greinarnar sem Rita Skeeter skrifaði um Harry og félaga, þær voru ekki næstum því jafn áberandi í myndinni og í bókinni. Þessu var lýst svo rosalega vel í bókinni – augnatillitin á göngunum, háðið frá Draco Malfoy, misskilningurinn í kringum þetta allt – ekkert af þessu kom fram í myndinni. Og bréfin sem Hermione fékk, komment Rons um hana sem ‘fallna konu’ sem mér fannst svo æðislegt. Æ, ég veit það ekki. Mér fannst þetta vanta.
Ludo Bagman: Hvar, ó hvar var þessi yndislegi karakter? Gamall Quidditchleikmaður – yfirmaður Íþrótta- og galdraleikjastofnunarinnar, sem er ennþá lítill strákur inni í sér. Hann átti að lýsa úrslitaleiknum á heimsmeistaramótinu, var ásakaður um að tengjast myrku öflunum í réttarhöldum sem Dumbledore sat og Harry sá í þankalauginni og var dómari í Þrígaldarleikunum ef mér skjátlast ekki. Hann sárvantaði fannst mér.
Já, þetta er það sem mér fannst mega bæta í myndinni, en hún er víst búin og gerð og ekki hægt að breyta því. Aukaefni á DVD-diski? Kannski. En eftir því sem ég best veit er engin leið að bæta allt sem ég myndi vilja bæta í þessum myndum, nema þá að endurgera þær frá grunni. Og það er ekki mikill möguleiki á því.
En það er bara mitt álit.. endilega komið með ykkar.