Kínverskur Harry Potter
Kínverskir aðdáendur Harry Potter geta orðið sér úti um kafla og útdrátt úr nýjustu bókinni, Harry Potter og Fönixreglan, á kínversku þremur mánuðum eftir að bókin kom út á enskri tungu.
Útgefandi bókarinnar þar í landi segir að þýðingin sé léleg en óttast engu að síður að dreifing kínversku útgáfunnar komi niður á sölu bókarinnar á kínversku í október.
Hann kveðst hins vegar ekki hafa bolmagn til þess að koma í veg fyrir dreifinguna á Netinu. Svo virðist sem að netútgáfan innihaldi fjóra fyrstu kaflana og útdrátt úr næstu 34 köflum.
Útgefendur JK Rowling, höfundar Harry Potter, í Bretlandi, eru uggandi vegna þess hve margir dreifa textum, köflum og jafnvel allri bókinni á eigin tungu, en slík mál hafa komið upp í talsverðum mæli í Pakistan. Þá var birting á innihaldi bókarinnar bönnuð á þýsku vefsvæði.
Fyrstu fjórar bækurnar um Ha-li Bo-te, eins og Harry Potter heitir á kínversku, hafa selst í fjórum milljónum eintaka frá því að þær komu út í október 2001. Þá hafa fimm þúsund eintök selst af fimmtu bókinni, sem kom út í júní.