Þegar Richard Flynn, 16 ára, var að lesa bókina Harry Potter og Fönixreglan um helgina brá honum í brún þegar hann kom að 29. kafla og uppgötvaði að hann var byrjaður að lesa 9. kaflann aftur. Þetta reyndist þó ekki vera galdur heldur mistök í prentun.
Flynn fór í morgun í bókaverslunina, þar sem hann keypti bókina og þá kom í ljós að fleiri höfðu komið þangað til að kvarta. Svo virðist sem mistök hafi orðið við prentun 10 þúsund eintaka af 750 þúsund eintökum sem prentuð voru í Ástralíu og sett á markað þar og á Nýja-Sjálandi og vantar tvo kafla í þessar bækur. Forlagið Allen and Unwin gefur bókina út í Eyjaálfu.
Flynn fékk að vita að það gætu liðið þrjár vikur þar til hann fengi nýtt eintak af bókinni en eins og annarstaðar í heiminum seldist fyrsta prentun bókarinnar nánast upp um helgina. „Mér mun ekki líða vel fyrr en ég hef lesið bókina alla," sagði Flynn og andvarpaði.