Catie var í 18 mánuði á Ronald MacDonald í New York (sem er gististaður fyrir krabbameinssjúk börn sem MacDonalds-keðjan setti á stofn) ásamt móður sinni sem las allar Harry Potter bækurnar fyrir hana. Hún varð að ganga í gegnum erfiðar geisla- og lyfjameðferðir, missti hárið og þjáðist mikið.
Mæðgurnar voru að klára þriðju bókina þegar læknar sögðu þeim að Catie væri að tapa baráttunni við krabbameinið. Catie átti sér þá ósk heitasta að mamma hennar læsi fjórðu bókina en það var ekki hægt vegna þess að hún var ekki væntanleg næstu mánuðina og Catie átti ekki það langt eftir.
Vinur vinar hennar sendi útgefanda HP á Englandi tölvupóst og sagði sögu Catie litlu. Bráðlega kom svar frá Rowling í tölvupósti: „Kæra Catie. Ég er að vinna hörðum höndum að fjórðu bókinni." Og Rowling sagði henni ýmislegt um það sem hún var að skrifa.
Rowling sendi Catie fallega gjöf á Valentínusardaginn og skrifaðist reglulega á við hana. Á afmæli Catie í mars bárust enn fleiri gjafir og heillaóskir frá Rowling. Stuttu seinna var Catie orðin fárveik og ljóst að það væri dagaspursmál um hvenær hún skipti um dvalarstað. Móðir hennar skrifaði Rowling tölvupóst og sagði henni hvernig málin stæðu.
Rowling hringdi til þeirra og á meðan Catie lá í sófanum í stofunni heima hjá sér las Rowling fyrir hana kafla úr fjórðu bókinni sem enn var óútkomin. Rowling hringdi þrisvar eða fjórum sinnum í viðbót til að lesa fyrir hana úr bókinni en brátt var stelpan orðin svo veik að hún gat ekki lengur tekið á móti símtölum.
Catie Hoch lést 18. maí árið 2000, 9 ára að aldri. Þremur dögum síðar skrifaði Rowling foreldrum hennar ákaflega fallegt samúðarbréf. Eftir það hefur hún skrifað þeim annað slagið.
Foreldrarnir settu á stofn hjálparsjóð sem styrkir gististaði fyrir krabbameinssjúk börn. Nýverið barst sjóðnum stórt framlag frá Glasgow, Skotlandi, næstum 10 milljónir ísl. krónur. Það kom frá J. K. Rowling. Þá ákvað móðirin að segja sögu Catie. Sjóðurinn er með vefsíðu hér.