Á einhvern óskiljanlegan hátt hafði Katherine Jackson endað í ugluturninum. Kannski var það ekki svo óskiljanlegt, hún hafði tekið tilviljanakenndar beygjur og gleymdi því strax hvort hún var nýfarin upp eða niður stiga. En núna vissi hún næstum því hvar hún var. Í það minnsta yrði ekkert mál að komast á jarðhæð í þetta skiptið. En hvernig vissi hún hvenær hún væri komin á jarðhæð? Hvað ef hún færi og stutt eða alla leið í dýflissurnar? Þá birtist hún, eins og kölluð….
“Prófessor McGonagall?” kallaði Kate og tók nokkur stór skref til að ná í ummyndunarkennarann sinn. Hún sneri sér undrandi við.
“Já?”
“É-ég er í Huffelpuff, ég byrjaði hérna bara núna í haust, stelpan frá Finnlandi. Gætirðu verið svo væn og sagt mér hvernig ég kemst í Stóra salinn eða í setustofuna mína? Ég er rammvillt,” útskýrði Kate fyrir henni.
“Ég skal leiðbeina þér langleiðina að anddyrinu,” svaraði McGonagall og gekk af stað. Kate var með stutta fætur og þurfti að hafa sig alla við að hlaupa ekki á eftir hinni stikandi McGonagall. Eftir nokkrar mínútur í vandræðalegri þögn leit prófessorinn við og spurði:
“Hvernig líkar þér að vera komin hingað eftir námið úti?”
“Bara ágætlega, takk. Þetta er aðeins öðruvísi, sérstaklega þetta með húsin og stigin. Mér gengur ágætlega í flestum tímunum, held ég.”
“Ertu nokkuð búin að lenda í einhverju skrítnu? Ég veit fyrir víst að flestir nýjir nemendur lenda í einhverju svakalegu…”
“Neinei. Eða, jú, reyndar. Ég veit ekki hvort ég eigi að segja það, en Harry Potter og þrír vinir hans tóku mig á eintal áðan, reyndu að komast að því hvort ég væri eitthvað sérstök,” sagði Kate, og leið mjög kjánalega þegar hún sagði þetta.
“Ég lái þeim það ekki. Ég ætla sjálf að taka það fram að þú getur ekki verið dóttir eða barnabarn Dumbledores, því að ég veit að hann lítur ekki við kvenkyninu, og ég þekki börnin mín og þau hafa ekki enn komið með barnabörn. Bara svo að þú vitir það.” Hún stoppaði.
“Já, ég veit, ég veit líka alveg hverjir forfeður mínir eru svo að…”
“Anddyrið er niður þennan stiga og svo til hægri. Vertu sæl, ungfrú Jackson,” sagði McGonagall snúðugt og hélt áfram. Kate stundi. Þetta átti ekki að vera svona erfitt. Hún vissi alveg hver fjölskylda hennar var, móðurættin hafði búið í Manchester í marga ættliði og föðurættin var dönsk og ensk.
“Hvað er að fólkinu hérna?” muldraði hún og hélt niður stigann. Hún var nýkomin á ganginn til hægri þegar hún rakst á annan kennara. Snape prófessor.
“Kvöldið,” sagði hún kurteislega þegar hún gekk framhjá, en hann í greip í öxl hennar.
“Ég vil koma einu atriði á hreint. Ég á ekki dóttur. Þú getur ekki vaðið hérna inn eins og allar hinar og látið alla komast að því yfir jólin að ég sé faðir þinn. Ég hef aldrei barnað eina einustu konu, allra síst móður þína,” urraði hann. Kate starði stóreyg á hann. Hvað var AÐ fólki?
“Nei, herra. Þú ert ekki pabbi minn, ég veit það alveg,” stundi hún upp. Hann kinkaði kolli.
“Gott. Mundu það.” Svo strunsaði hann burt.
Kate leit í kringum sig. Hún var orðin hrædd við að hitta fólk. Hvað ef einhver færi að ráðast á hana til að lemja því inn í hausinn á henni að hún ætti ekki að reyna við einhvern eða eitthvað svoleiðis kjaftæði? Hún gat alveg orðið pirruð út í fólk, en gat hún barið það þótt það væri í sjálfsvörn? Hún lét augun reika um ganginn, hljóp að næsta horni og leit varlega fyrir það. Það var enginn í anddyrinu svo að hún greip tækifærið og hljóp gegnum það, niður stigann í átt að setustofunni og stoppaði ekki fyrr en hún var komin inn í herbergið sitt. Þar sátu Hannah Abbot og Megan Jones.
“Af hverju halda allir að ég sé eitthvað… eitthvað… spes?” spurði hún örmagna. Hannah stóð upp og lét hana setjast á rúmið sitt.
“Það er af því að þú ert ný hérna. Í hvert einasta skipti hingað til sem nýr kvenkyns nemandi hefur komið er hún eitthvað undarleg. Dóttir Þú-veist-hvers, Snapes eða Siriusar Blacks, systir Harrys, verðandi kærasta hans, frænka Dumbledores eða arftaki Gryffindors. Bara nefndu það. Ef ekkert af þessu, þá er hún varúlfur, getur breytt háralitnum sínum, á hálsmen með sérstaka krafta, veit lykilinn að falli Þú-veist-hvers eða skilur einhver furðuleg tungumál. Flestar hafa verið teknar af drápurum, nauðgað, drepnar og komið aftur til lífsins í öðrum heimi, þess vegna er engin eftir hérna. En þú spjarar þig,” sagði Hannah og gaf henni lítið bros. Megan kinkaði kolli til samþykkis.
“Þú ert með okkur þér til halds og trausts. Við erum í Huffelpuff, við getum gengið í gegnum allt saman.” Í þeim töluðu orðum kom Susan Bones hlaupandi inn.
“K-Kate… þú vilt kannski sleppa kvöldmatnum,” sagði hún andstutt og studdi sig við rúmstólpa. Kate hnyklaði brýrnar.
“Nú?”
“Ginny Weasley heldur að þú ætlir að stela Harry frá henni og að þú sért barnabarn Tom Riddles, hver sem það er. Það er allavega ekki gott ef þú ert skyld honum,” sagði Susan, ennþá frekar andstutt, hún hafði greinilega hlaupið þangað.
“En ég er ekkert hrifin af Harry Potter! Hann er með úfið hár og horaður!” hrópaði Kate, núna alveg í öngum sínum.
“Það þýðir ekkert að segja Ginny það, hún verður alveg snar þegar hún er reið. Vertu bara hérna yfir kvöldmatinn, við getum komið með afganga handa þér að borða,” sagði Megan.
“Þú vilt frekar bíða hérna í smá stund heldur en að mæta henni reiðri, trúðu mér,” sagði Susan og reyndi að hljóma hughreystandi. Kate kinkaði kolli.
“Ekki málið. Ég bara… bíð hérna. Komið samt með eitthvað gott, ég er orðin svöng,” kallaði hún á eftir þeim þegar þær fóru út. Jæja, þessar þrjár voru í það minnsta rólegar og eðlilegar, og reyndu ekki að ráðast á hana fyrir að vera skyld einhverjum sem hún var ekki skyld. En hvernig hafði þetta gerst? Hún þekkti strák sem fór í Eton þegar hann var 15 án þess að lenda í nokkrum vandræðum.
Til allrar hamingju þurfti Kate ekki að bíða lengi eftir herbergisfélögum sínum. Þær voru fljótar að koma inn, hlaðnar mat og dýrlegum eftirrétt.
“Þakkaðu svo fyrir, þú veist ekki hvað okkur leið kjánalega með allt þetta,” sagði Hannah og týndi fram flösku af graskerssafa, skál af beikoni og tómata.
“Þú ættir samt að vita hvað við heyrðum þarna!” sagði Susan og settist spennt fyrir framan Kate, sem horfði efasemdaraugum á hana.
“Hvað nú?”
“Það eru alls konar sögur í gangi um þig! Þetta er verra en seinasta stelpan sem var hérna,” bætti Megan við og fékk sér líka sæti á rúminu hennar Kate. Hannah kinkaði áköf kolli, augun uppglennt.
“Núna er ég farin að hafa áhyggjur.”
“Sko, Ginny kom til okkar og spurði um þig, við sögðum að við hefðum ekki séð þig síðan í hádeginu, hún varð ennþá rauðir í framan og fór bara burt…”
“Og svo birtist mjög stressaður Lupin, hann var að kenna okkur hérna á þriðja ári og er varúlfur, og hann spurði líka um þig…”
“Síðan voru kennararnir alltaf að fylgjast með borðinu okkar, sérstaklega þar sem við sátum…”
“Og líka Slytherin krakkarnir!”
“Og þau á Gryffindor!”
“Sko, þetta var ótrúlegt, ég get ekki beðið eftir því að þú farir í tíma á morgun, þú færð engan frið fyrir fólki!”
“Síðan voru einhverjir að segja að þú gætir breytt þér í alla fugla sem þú vildir…”
“Og að hárið þitt hlýddi hugsanaskipunum, þú gætir ekki bara skipt um lit á því heldur líka lengt það og látið það kyrkja fólk.”
“Sumir sögðu að þannig ætlaðirðu að drepa Þú-veist-hvern.”
Kate starði hrædd á þær.
“En… almáttugur. Ég gæti aldrei drepið neinn. Og… og ef ég gæti gert hvað sem er við hárið mitt, haldið þið þá ekki að það liti öðruvísi út? Að ég væri búin að gera það ljósara og með smá liði, í staðinn fyrir þetta dauða hár og músabrúna lit?” sagði hún, í nettu áfalli eftir þessar upplýsingar. Susan yppti öxlum.
“Maður veit aldrei.”
“Já, en þetta er svo fáránlegt! Hvað er að ykkur hérna? Ég er ekkert sérstök, ég fékk gott og ástríkt uppeldi af foreldrum sem eru ekki skilin og elska hvort annað. Ég er mjög lík föðurættinni minni í útliti og það er til myndbandsupptaka af því þegar ég fæddist. Ég veit ekkert um Þið-vitið-hvern og þori ekki að segja nafnið hans og er ekki skyld einum einasta kennara. Og síðast en ekki síst, ég er ekki hrifin af Harry Potter eða Draco Malfoy! Harry Potter er horaður og Draco Malfoy er alltof lúmskur á svipinn fyrir minn smekk. Þetta er bara allt djöfullsins kjaftæði!” Seinustu setninguna öskraði hún, svo að glumdi í setustofunni.
“Við erum bara orðin svo vön því að nýir nemendur sem eru ekki á fyrsta ári hafi einhverja sérstaka hæfileika og geti fullt af hlutum.”
“Jæja, látið það þá ganga um skólann að það eina sérstaka við mig er það að ég sé ekkert sérstök. Er það ekki nóg?”
Stelpurnar litu á hvor aðra.
“Hefurðu heyrt þetta með nýju stelpuna? Hún getur ekki ráðið yfir hárinu sínu og getur ekki talað fuglamál.”
“Ég veit! MacMillan var líka að segja mér að hún ætti góða foreldra sem höfðu aldrei misnotað hana og að hún væri í raun og veru ekki blóðtengd Snape.”
Kate gekk ánægð um gangana. Planið hafði virkað. Það var svo sérstakt hvað hún var ekki sérstök að allir gleyptu við þessu. Núna var bent á hana og hvíslað hvað hún væri eðlileg og hvað einkunnirnar hennar væru mikið í meðallagi. Með mikilli gleði hélt hún því til Hogsmeade með Susan, Hönnuh og Megan, en þær höfðu átt mikinn þátt í því að dreifa kjaftasögunum um eðlilegheit hennar. Þær voru búnar að fara í Sælgætisbaróninn og Zonkos, og meðan Kate ætlaði að taka myndir af Draugakofanum ætluðu hinar að bíða á Þremur kústum. Myndirnar ætlaði hún síðan að senda til foreldra sinna, en þeim hafði lengi langað til að skoða Hogsmeade og umhverfi þess. Hún tók nokkrar myndir og gerði sig síðan tilbúna til að fara aftur í þorpið, þegar hún sá hvar hávaxinn maður stóð og horfði á hana. Hann gekk rólegum skrefum til hennar.
“Góðan daginn, ungfrú Jackson,” sagði hann silkimjúkri röddu. Kate hallaði undir flatt. Hver var nú þetta?
Þeirri spurningu var fljótsvarað þegar hann tók hettuna af sér og hún starði í náfölt snáksandlitið. Hún fraus í sporunum og gapti framan í Voldemort.