Já, þá sendi ég inn mitt framlag í þessari spunakeppni. Það koma einungis fram tvær persónur í þessum spuna. George Weasley og tilbúin persóna eftir mig sem heitir Emily.
Þetta snýst mestmegnis, eða einungis, um það að George er að vinna úr söknuði sínum til bróður síns.
Ég biðst fyrirgefningar á öllum stafsetningar- innsláttar og málfræðivillum sem gætu leynst í textanum.
—————————-
George gekk niður göngustíginn í forboðna skóginum og virti fyrir sér umhverfið. Það var allt grænt og í blóma. Engin merki um hörmungarnar sem höfðu átt sér stað viku fyrr. Hann staðnæmdist og leit niður fyrir fætur sér. Jörðin var gegnsósa af vatni, það hafði ringt eins og hellt væri úr fötu eftir orustuna og það hafði stytt upp fyrst klukkutíma áður, rétt áður en hann hafði farið út í göngutúr til þess að reyna að tæma hugann … Eins og honum tækist það. Hann fór af stað aftur og kreppti hnefana. Hann vissi ekki hvernig honum leið. Hann fann að það var tilfinningaflóð innra með honum, en hann vissi ekki hvaða tilfinningar það voru. Þetta voru engar ánægjutilfinningar, það vissi hann. En hann þekkti þær ekki allar. Það var öldurót og hann var áralaus. Hann hélt áfram að labba smá spöl og nam staðar þegar hann kom að litlu rjóðri. Hann gekk að gömlu tré sem hafði fallið fyrir mörgum árum og settist þar niður. Viðurinn var saggakenndur og það óx mosi upp úr honum. Hann gróf andlitið í höndum sér og andvarpaði. Hvað átti hann að gera?
Emily trítlaði niður eftir mjóum göngustígnum og hummaði lag með sjálfri sér. Hún þekkti ekki lagið, en vissi samt alveg hvaða nótu hún ætti að humma næst. Hún elskaði hann; mátt sköpunargáfunnar. Hún brosti með sjálfri sér og skoðaði sig um í laufþykkninu. Hún var komin lengra í burtu frá heimili sínu en hún hafði nokkurn tíman áður komist. Hún hafði heyrt gífurlegan hávaða úr norðri fyrir sjö dögum og þá hafði áhugi hennar kviknað. Það höfðu alltaf borist hljóð þaðan, þau komu í bylgjum. Stundum mikið, en stundum lítið. En þarna hafði verið svo mikill hávaði og asagangur að hún stóðst ekki mátið að fara og athuga hvað væri á seiði. Hún var að verða komin á leiðarenda, hún fann það á sér. Jörðin var orðin litlausari og dýring styggari. Hvítur, síður kjóllinn sveiflaðist um fætur hennar og vindurinn blés hárinu á henni upp í loftið. Allt í einu fann hún eitthvað ýta við henni. Hún staðnæmdist og þefaði út í loftið, vindáttin hafði breyst og hún fann lykt sem hún hafði aldrei fundið áður. Hún leit í þá átt þaðan sem lyktin kom og brosti með sjálfri sér. Það gat nú ekki skaðað að kíkja.
Fred stóð frammi fyrir honum. Ljóslifandi. En George var glöggari en svo. Hann vissi að þetta var ímyndun. Sköpuð af hans eigin hugsunum. Þetta hafði gerst áður í lífi hans. Þegar afi hans dó. Þá hafði hann ekki vitað betur og elt myndina. Þegar mamma hans og pabbi komust að því sendu þau hann til Sánkti Mungós í skoðun. Það hafði komist í ljós að hugur hans væri mjög viðkvæmur fyrir miklum breytingum, og þegar eitthvað sem fékk mikið á hann tilfinngalega gerðist, skapaði undirmeðvitund hans eitthvað til þess að slaka á því. Eitthvað til þess að hugga hann og koma honum í eðlilegt ástand. En það kom honum einungis í meira uppnám. Þegar þetta gerðist þurfti hann að fara til Sánkti Mungós í einhvers konar særingu. Hann var svæfður meðan aðgerðin tók sér stað, þannig að hann vissi ekki hvernig það fór fram. En hann vissi þó að það virkaði. Vitranirnar hættu og hann gat jafnað sig á eðlilegan hátt. Hann hafði bara ekki komist á Sánkti Mungós seinustu vikuna vegna erils. Allt var á fullu vegna endaloka stríðsins fræga. Hann andvarpaði og beit í jaxlinn, það lá eitthvað þungt á herðum hans og hann gat ekki losnað við það. Hann hafði ekki grátið þegar hann heyrði af dauða bróður síns. Hann hafði fundið fyrir sorginni, reiðinni … yfibugununni. En ekki eitt tár rann niður vanga hans. Allt í einu heyrði hann þrusk fyrir aftan sig og hann sneri sér snöggt við. Hann sá að mynd bróður síns hvarf fyrir sjónum sér. Augu hans opnuðust upp á gátt. Hver, eða hvað, var þetta?
Emily hafði falið sig bak við tré og gægðist á drenginn sem sat inni í rjóðrinu. Hann sat með bogið bak og rauður hárbrúskurinn stóð út í allar áttir. Hann virtist stara á eitthvað í loftinu. Hún hló með sjálfri sér. En sérstæð vera. Hún brosti uppörvandi með sjálfri sér og fór úr leyni og gekk gætilega inn í rjóðrið. Drengurinn varð var við hana og sneri sér snöggt við og leit í áttina til hennar. Hann stirðnaði upp og hún fann einhvers konar ótta samanblönduðum forvitni og áhuga streyma frá honum. Hún brosti og labbaði til hans.
“Halló. Ég heiti Emily.” Hann starði enn á hana. Hann var með mjóslegið andlit, hvasst nef og freknur. Rautt hárið stóð út í allar áttir og hann leit út eins og hann hafði ekki sofið í marga daga. Hann var klæddur í undarlegan, svartan kufl sem náði frá herðum og alveg niður að ökklum. Hann leit út fyrir að vera einhver sem brosti alla jafna, leit út fyrir að vera einn af þeim sem lætur lífsgleðina ráða för. En eitthvað hlaut að hafa gerst, því að svipurinn á honum var dauflegur og það var ósýnileg slikja yfir augunum á honum sem gerði hann fjarlægan, eins og hugurinn væri fyrir utan líkamann. Allt í einu virtist hann ranka við sér og virti hana fyrir sér. Augun hvörfluðu frá augum hennar og niður á fætur hennar og upp á hárið.
“Það er nú yfirleitt kurteisi að kynna sig á móti.” Sagði hún með særðan tón í röddinni. Hann leit á hana og virtist hissa á því að hún kynni að tala. Hún setti stút á varirnar og krosslagði höndunum ósátt.
“Ó, já. Fyrirgefðu. Ég heiti George.” Sagði hann og lyfti hendinni og veifaði til hennar. Hún brosti og flissaði.
“Sko, þetta var nú ekki það erfitt. Var það?” Hann brosti í kampinn og stóð upp. Hún labbaði nær honum og virti hann fyrir sér. Hún þefaði af kuflinum og snerti ókunnugt efnið. Hún færði sig ofar og virti járnpinna fyrir sér sem virtist hafa verið stungið í gegnum eyrnasnepilinn á honum og skilinn þar eftir. Það var fallegt, ókunnugt tákn á endanum. Hún vissi ekki hvað það þýddi, en henni líkaði við það. Hún lyfti hendinni og snerti það. Það var svalt viðkomu. Augu hennar hvörfluðu í burtu frá pinnanum og yfir að priki sem sat bakvið eyrað á honum. Hún tók það og skoppaði tvö fet í burtu frá honum. Hún þefaði af viðnum og fann að prikið var búið til úr hnotu og einhverju öðru efni sem sat innra með henni. Hún fann kraft streyma frá því og skildi að krafturinn samanstóð af samspili töframáttar óþekkta efnisins innra með því og hæfileika hnotunnar til þess að geta leitt hann fram og út um annan endann á prikinu. Hún ætlaði að reyna að brjóta sprikið til þess að geta skoðað efnið og beygði annað hnéð og bar prikið að því haldandi í sinn hvorn endann á því.
“Ah! Nei, ekki gera þetta!” Sagði George allt í einu og teygði sig í prikið. Emily áttaði sig og stökk í burtu svo að hún komst utan seilingar.
“Hvað er þetta?” Spurði hún og bar prikið að andlitinu. Viðurinn var fáður og prikið fór vel í hendi. Þetta var eitthvað sem hann geymdi, hann hafði ekki tekið þetta upp af jörðinni nokkrum mínútum áður. Hún leit á hann með spurnarsvip og beið eftir svari. Hann virtist hissa á því að hún vissi ekki hvað þetta væri, en svaraði engu að síður.
“Þetta er sprotinn minn. Ég nota hann til þess að galdra.” Hún brosti spennt og virti sprotann fyrir sér.
“Er það? Get ég líka galdrað með þessu? Það er alltaf svo pirrandi að þurfa að nota puttana, stundum hitti ég ekki og ef ég beini þeim öllum út þá fer það bara í allar áttir!” Hún lyfti sprotanum og undirbjó sig til þess að kasta álögum.” George tók á rás og áður en Emily gat nokkurt viðhafst þá var hann kominn með sprotann til baka. Hún setti upp súran svip og ullaði á hann.
George skildi ekki hvers konar vera þetta gæti verið. Hún var vissulega mannleg í útliti, og ekkert í háttalagi hennar virtist benda til neins annars. En hún var samt einhvern veginn allt of fullkomin og framandi til þess að vera mennsk. Andlit hennar var hjartalaga og ljós húðin var gallalaus. Nefið var mjótt og varirnar voru mjúkar og bleikar. Hún var hávaxinn með langa útlimi og fíngerða fingur. Kjóllinn sem hún klæddist huldi mestallann líkamann og var hvítur og flæðandi. En augun og hárið kölluðu þó á alla athyglina. Stór augun virtust vera marglit, líkt og horft væri innan í skel og sítt, liðað hárið var ljós fjólublátt. Hún brosti með blíðu brosi og kynnti sig.
“Halló. Ég heiti Emily.” Hún brosti en hann kom ekki upp orði. Hann starði í augu hennar í nokkra stund en rankaði síðan við sér. Hann leit niður og sá að skórnir hennar voru einfaldir og brúnir, hann leit aftur upp á hárið á henni og sá fallega silfurlita spöng sem sett hafði verið í það til þess að reyna að hamla á lokkunum. “Það er nú yfirleitt kurteisi að kynna sig á móti” Sagði hún með stút á vör og krosslagði granna handleggina. Hann leit aftur í andlitið á henni og reyndi að brosa.
“Ó, já. Fyrirgefðu. Ég heiti George.” Sagði hann og lyfti hendinni og veifaði til hennar. Hún hló og setti upp glettinn svip.
“Sko, þetta var ekki svo erfitt. Var það?” Spurði hún og kipraði augun í brosi. Hann gerði tilraun til þess að brosa á móti en gat það eiginlega ekki. Hann stóð upp og virti hana fyrir sér. Allt í einu virtist hún fá kipp og skoppaði yfir að honum og grandskoðaði hann. George brá svo að hann stirðnaði upp. Hún virti fyrir sér kuflinn sem hann var klæddur í og þefaði að honum, svo fór hún yfir að hinni hliðinni á honum og virti fyrir sér eyrnalokkinn sem var í eyranu á honum. Hann og Fred höfðu fengið sér sinn hvorn þegar þeir voru fjórtán ára. Lokkurinn var úr silfri og það var kínverskt tákn á honum sem stóð fyrir gleði. George hafði ekki viljað fá sér lokk, það var muggasiður að drengir fengju sér lokk í eyrað og meira að segja þar voru það ekki næstum því allir sem fengu sér. Kingsley hafði einn, en hann var líka að muggaættum. En Fred hafði talað hann í það og þeir höfðu fengið sér sinn hvorn einn sumardaginn sex árum fyrr. Nú var hann aðeins minning. Minning sem hafði dofnað og gleymst, orðið vani, en hafði orðið miklu mikilvægari allt í einu sjö dögum áður. Hann leit upp og sá að Emily var komin með sprotann hans og illt gerði enn verra, hún virtist vera að fara að reyna að brjóta hann.
“Ah! Nei, ekki gera þetta!” Sagði hann og stökk fram til þess að reyna að ná sprotanum af henni. Hún stökk í burtu, enn með sprotann í höndunum og kom sér utan seilingar með grunsemdaraugnaráði.
“Hvað er þetta?” Spurði hún og bar sprotann upp að andliti sínu. Hann setti í brýrnar. Hann hafði aldrei vitað af neinum sem vissi ekki hvað töfrasproti væri. Jafnvel muggar vissu hvað þeir voru, þó að þeirra algengnasta mynd af þeim væri svart prik með hvítum svæðum á sitt hvorum endanum.
“Þetta er sprotinn minn. Ég nota hann til þess að galdra.” Sagði hann tónlaust og starði á hana. Hún brosti og skoðaði sprotann með spenningi.
“Er það? Get ég líka galdrað með þessu? Það er alltaf svo pirrandi að þurfa að nota puttana, stundum hitti ég ekki og ef ég beini þeim öllum út þá fer það bara í allar áttir!” Munnurinn á honum opnaðist í undrun. Hver, eða hvað, var þetta? Hvaðan kom hún? Og hvers vegna birtist hún núna? Hann sá að hún lyfti upp sprotanum til þess að galdra, en þá kom líf í hann og hann stökk fram og reif sprotann af henni áður en hún gæti gert nokkurn skaða af sér. Hún leit hissa á hann, en undrunin vék fyrir pirringi og hún beindi tungunni að honum. Hann lét sér lítið um að finnast og settist aftur niður. Hann hafði ekki orku til þess að viðhafast neitt. Hún sleppti grettunni og horfði á hann með spurn í augum. Hann leit þó ekki á hana og starði niður í grasið. Gat hún ekki bara látið hann í friði? Gat hann ekki fengið að vera látinn einn með hugsunum sínum? Hann fann að hún þokaðist nær og allt í einu birtist andlit hennar frammi fyrir honum. Hún hafði beygt sig niður og var nú á hvolfi með höfuðið fyrir framan hann. Hann horfði á hana í smá stund en lyfti síðan annarri augnabrúninni.
“Hver ertu eiginlega?” Hún rétti úr sér og leit út fyrir að vera móðguð. Hann virti hana fyrir sér með spurnarsvip og hugsaði með sjálfum sér að hann hafi aldrei áður hitt neinn með jafn miklar skapsveiflur. Eina sekúnduna var hún að hlæja en þá næstu var hún í fýlu út í hann.
“Ég er búin að segja þér það. Ég heiti Emily.” Hann horfði á hana með heimskusvip í smá stund en gafst síðan upp. Hún mátti eiga sig.
Emily fannst þessi George svolítið undarlegur og afundinn. En hún var orðin forvitin og skyldi ekki fara í burtu fyrr en hún yrði sátt. Hún settist niður á grasið fyrir framan hann og starði á hann í smá stund með eftirvæntingu í svipnum. Hann hlaut að vera voðalega gleyminn fyrst að hann gleymdi hvað hún hét aðeins nokkrum mínútum eftir að hún hafði sagt honum það. Hún skoðaði svipinn á honum og ákvað að þessi sorg sem hann virtist fastur í væri eitthvað sem henni væri illa við og ætlaði að láta hana fara.
“Hvað er að?” Spurði hún. Hann leit aftur á hana og starði á hana í smá stund, en síðan andvarpaði hann og undirbjó sig til þess að segja henni allt af létta. Hún brosti tilhlakkanlega og jók sér til og frá.
“Manstu eftir orustunni sem átti sér stað við Hogwarts fyrir sjö dögum?” Hún horfði aðeins á hann í smá stund og braut heilann. Síðan áttaði hún sig á því að hann átti örugglega við hávaðann sem hún hafði heyrt.
“Ó, þú meinar hávaðann? Já, ég man eftir honum. Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég er hérna.” Sagði hún og brosti. Hann starði í undrun á hana, sem Emily skildi alls ekki, vegna þess að hún vissi hvað hann var að tala um.
“Uh … já, nákvæmlega það.” Sagði hann og hélt áfram að útskýra. “Allavega. Ég tók þátt í orustunni. Í henni var líka öll fjölskylda mín, vinir og bandamenn. Við vorum að berjast fyrir því sem rétt var.” Hún brosti. Hann var einn af góðu köllunum!
“Já, og gerðist eitthvað þar? Er það, það sem er að angra þig? Er það þess vegna sem þú ert svona leiðilegur?” Spurði hún. Hann gretti sig.
“Ef þú orðar það þannig. Þá er það eiginlega ástæðan. En það var samt ekki orustan sjálf, heldur það sem gerðist í henni.” Hann fékk kökk í hálsinn og þagnaði. Hann kreppti hnefana og leit niður í kjöltu sér. Emily horfði á hann og þekkti söknuðarmerkin.
“Hmm. Svo að þú misstir einhvern sem þér þótti vænt um þar?” Spurði hún. Hann hætti að kreppa hnefana og stirðnaði upp. Svo leit hann aftur upp á hana og beit í jaxlinn.
“… Já. Ég missti einhvern þar. Og ég veit ekki hvað ég á að gera núna. Ég er villtur.” Hann starði á hana með sorg í augunum og varirnar titruðu.
“En af hverju ertu þá ekki búinn að gráta? Af hverju ertu ekki búinn að leyfa sjálfum þér að vera jafn dapur og þú ert.” Hún starði opinmynnt á hann og og hallaði höfðinu til hliðar. Hann horfði á hana með spurn í augum, síðan leit hann aftur niður.
“Vegna þess … vegna þess að … ég bara … get það ekki.” Hann andaði þungt frá sér og leit til hliðar á runna sem óx þar. Hún setti í brýrnar, stóð upp og horfði stíft á hann.
“En þú verður að gráta!” Sagði hún. George leit upp til hennar og sá pirringinn í svip hennar.
“En ég get það ekki.” Sagði hann og fórnaði höndum. Hvað meinti hún með að hann varð?
“En þú verður! Þú mátt ekki verða fastur! Þú verður að geta orðið þú sjálfur á ný og getað brosað á ný!” Sagði hún og tosaði hann á fætur. George var orðinn máttlaus og leyfði henni að leiða sig í mitt rjóðrið. Emily var orðin æst. Hann skildi ekki hvað var í gangi, en hann vissi að hann myndi ekki sleppa í burtu í bráð.“ Segðu mér, hvað þýddi þessi manneskja fyrir þig?” Spurði hún og stóð fyrir framan hann með ákveðni í augunum. Hann horfði á hana og sárðnaði. Hún átti ekkert með að spyrja hann hvað hans eigin bróðir var fyrir honum.
“Hann var … mér mjög mikilvægur.” Sagði hann og herpti varirnar. Hún leit upp til himins með pirringi og byrjaði að labba í kringum hann.
“Láttu ekki eins og asni! Hann var mun mikilvægari en svo. Annars myndirðu ekki láta eins og það væri kominn heimsendir!” Hún barði lítt í hann og hann seig í öxlunum.
“Allt í lagi. Hann var mun meira en það. Hann var hinn helmingurinn af sjálfum mér.” Sagði hann og hélt um höfuðið á sér með báðum höndum. En hún virtist ekki ætla að gefast upp. Hún byrjaði að labba hraðar í kringum hann.
“Segðu mér hvað hann var mikilvægur! Segðu það hærra!” Sagði hún og var byrjuð að æpa. George var orðin svolítið smeykur en reyndi þó að hækka róminn lítillega.
“Ha-hann var-”
“Segðu það hærra!” Æpti hún og labbaði enn hraðar. Hann ræskti sig.
“Hann var-”
“Enn hærra!” Hann andaði inn og leit upp til himins.
“Hann var svo mikilvægur!” Byrjaði hann en hún stoppaði hann af.
“Hvað var hann mikilvægur? Ég heyri ekki í þér!” Æpti hún og labbaði enn í kring um hann. Honum var byrjað að svima, en hélt áfram að æpa, líkt og dáleiddur.
“Ég get ekki-” Sagði hann fullum rómi. En hún staðnæmdist beint fyrir framan hann og horfði ákveðin á hann.
“Hvað sagðirðu?”
“Ég get ekki … Ég get ekki…” Hann snökti og beit í vörina.
“Segðu mér það! Láttu mig vorkenna þér! Ég vil vita hvað þú ert sorgmæddur!”
“Ég get ekki lifað án hans!” Sagði hann og tárin brustu fram. Hann hneig niður og hágrét. Bróðir hans átti ekki að fara. Þeir áttu eftir að gera svo mikið. Þeir höfðu ætlað sér svo margt. Svo margt lá eftir ókannað. Emily hætti að æsa sig og leit niður á hann með mýkt í svipnum.
“Nú vorkenni ég þér.” Sagði hún og kraup niður og faðmaði hann. Hann leit í marglitu augun og sá stór tár renna niður vanga hennar.
“Takk.” Sagði hann. Hún brosti dauflega.
“Ekki þakka mér strax. Þakkaðu mér þegar þú ert búinn að vinna heiminn, og veist að þú hefðir aldrei getað það ef þú hefðir falið tilfinningar þínar. Núna ertu að skapa pláss í hjarta þínu fyrir eitthvað meira en einungis sorg. Ég skal segja þér það að þessi manneskja hefði aldrei viljað að þú myndir syrgja alla þína ævi. Ekki gleyma þér í sorg, en ekki heldur gleyma algerlega.” Hann brosti í kampinn og kinkaði kolli. Hún hafði staðið upp og tárin runnu niður vanga hennar, en hún var samt glöð. Gleðin skein í gegnum sorgina. Eins og ljóstýra í myrkri.
“Takk. Ég skil núna. Ég veit. Ég skil.” Hún brosti og tók nokkur skref til baka.
“Ég verð að fara núna. Ég veit núna af hverju ég fór af stað, en það er þörf á mér þar sem ég á heima.” og áður en hann gat kvatt þá var hún horfin. George sat eftir í grasinu. Myndi hann nokkurn tíman fá að vita hver þetta var?
Takk, Emily.