Ég trúi því í alvörunni ekki að ég sé að gera þetta. Í fullri og fúlustu alvöru, ég trúi því ekki. Það er brjálæði af mér að gera þetta og ég veit fullvel að þetta er ein mín versta hugmynd sem ég hef fengið seinast liðin 16 ár. En, ég hlusta aldrei á þessa litlu rödd sem segir mér hvað þetta sé slæm hugmynd, svo að ég mun halda áfram með Feneccu Crock og Auga Eilífðar. Plottið mun samt líklegast breytast aðeins frá því sem það var seinast hjá mér, bara svo að líf mitt sé einfaldara. Ég er ekki búin að ákveða það. Guð minn góður, núna er ég í slæmum málum, ég held áfram með þessa steypu… fjandinn sjálfur….
Formáli
“James!” kallaði Lily og hljóp niður stigann. James, sem sat í stofunni með Harry í fanginu, leit upp.
“Já?”
“Manstu… manstu þegar Sirius og Fenecca voru saman? Hann gaf henni hálsmen, manstu eftir því?” spurði Lily og settist við hliðina á honum.
“Bíddu, hvernig leit það út?”
“Það var fullt af einhverjum táknum á því. Hann gaf henni það í jólagjöf, hún er ennþá með það og tekur það næstum aldrei af sér. Rauðleitt. Gyllt. Manstu?” Hún fór að stika um gólfið.
“Jú! Ég man eftir því. Hvað með það?”
“Hvaðan fékk hann það?”
“Ah…” James klóraði sér aðeins bakvið eyrun og roðnaði aðeins. Lily hvessti augun á hann.
“James, segðu mér það. Það gæti verið mikilvægt.”
“Hann keypti það af Munda,” muldraði James skömmustulega.
“Munda? Mundungusi Fletcher?” hrópaði Lily. “Og hvaðan fékk hann það? Vissuð þið það?” hélt hún áfram.
“Nei, reyndar ekki….” sagði James. Skyndilega hætti hann að vera skömmustulegur og leit snöggt út um gluggann.
“Hvað?” spurði Lily og leit líka út.
“Ekkert. Ég er sennilega bara orðinn taugaveiklaður. Mér fannst eitthvað… skiptir engu. Haltu áfram.”
“Já… já! James, þetta hálsmen, það gæti verið hættulegt.”
“Nú? Það hefur ekki gert neitt ennþá.”
“Nei, ekkert sem þú veist um. Fenecca hefur alltaf fengið martröð á jólanótt síðan hún fékk þetta hálsmen. Og veistu hvað henni dreymir um? Einhver undarleg lönd, eldslogar, drungalegar raddir sem hvísla kvæðum, bölvunum og skrítnum orðum að henni. Eitthvað um ást. Eitthvað um missi, að festast einhversstaðar,” sagði Lily og fór aftur að stika um.
“En þetta eru bara draumar. Þetta hefur ekki haft áhrif á raunverulegt líf hennar ennþá,” sagði James.
“Ekki ennþá. James, ég held ég viti hvað þetta hálsmen er. Það er bölvun á því! Fenecca, Remus og Si…” James rauk upp áður en hún náði að klára.
“Ég veit að ég sá eitthvað núna!” sagði hann og horfði einbeittur út um gluggann.
“Hlustaði á mig, James,” sagði Lily og dró gluggatjöldin fyrir. “Þetta hálsmen er stórhættulegt. Við verðum að láta einhvern úr reglunni vita og fá þau til að eyða því áður en eitthvað kemur fyrir.”
“Hvað gæti komið fyrir? Hvað er þetta hálsmen annars?” spurði James og hagræddi Harry í fanginu.
“Þetta hálsmen sem hann gaf henni gæti haft bölvun Auga Eilífðar á sér,” sagði Lily lágt. Augun í James stækkuðu.
“Sem þýðir að ef…. þá mun Fenecca…?” Hann gat ekki einu sinni sagt það.
“Nákvæmlega. Það stenst allt! Martraðirnar, þetta með ástina, allt saman! Við verðum að láta þau vita áður en það gerist,” sagði Lily. Þau voru bæði orðin föl og horfðu óttaslegin á hvort annað.
“En ég hélt að bölvun Auga Eilífðar væri bara goðsögn, eitthvað til að hræða pör með. Það er ekki raunverulegt, það getur ekki verið,” hvíslaði James.
“Því er haldið leyndu. Hefurðu hugsað út í það hvað þetta getur verið vandræðalegt fyrir manneskjuna. Þetta er ekki beinlínis eitthvað sem maður vill að fréttist.”
“Reglan ætlar að hafa samband við okkur eftir tvo daga, þá getum við sagt þeim þetta. En Fenecca er í Rússlandi, hún fær ekki að vita af þessu strax,” sagði James.
“Það er nóg að við getum látið einhvern vita, þeir geta komið skilaboðunum til hennar. Guð minn góður, hvað ef við hefðum aldrei uppgvötað þetta og þau…” Lily stoppaði og starði yfir öxlina á James. Útidyrahurðin opnaðist hægt og rólega. James sneri sér við og starði á náfölt andlit með rauð augu.
“Lily, þetta er hann! Taktu Harry og flýðu!” hrópaði hann, lét Lily fá Harry og ýtti henni í burtu. Harry starði óttasleginn í kringum sig, græn augun risastór þegar hann horfði á Voldemort ganga inn og draga sprotann fram.
“Gott kvöld. Var ég að trufla mikilvægar samræður?” sagði hann lágt. James tók fram sprotann sinn og dró djúpt andann.
“Þú færð Harry ekki án þess að myrða okkur bæði,” svaraði hann.
“Er það vandamál?” spurði Voldemort og gekk nær. Lily flýtti sér upp stigann en þegar hún var komin upp sá hún leifturgrænt ljós endurkastast um allt húsið. Hún komst ekki hjá því að öskra, en hljóp samt áfram og skellti á eftir sér hurðum. Hvar hafði hún látið sprotann sinn?
“Lillian. Ætlar þú líka að segja mér að ég þurfi að drepa þig til að komast að honum?” sagði Voldemort. Hún hafði ekki heyrt í honum koma.
“Já,” hvíslaði hún og hélt þéttar utan um Harry.
“Farðu frá honum og þú færð að lifa.”
“Þú ert ekki þekktur fyrir miskunnsemi þína. Ég trúi þér ekki,” sagði Lily.
“Nei, enda er ég ekki að gera þetta fyrir sjálfan mig. Severus nokkur Snape bað um að þér yrði þyrmt ef það væri kostur á því og þar sem ég hef miklar mætur á honum sá ég ekkert því til fyrirstöðu. Nema náttúrulega að þú værir of þrjósk,” útskýrði hann. Lily hristi höfuðið.
“Aldrei í lífinu. Ekki einu sinni fyrir hann. Ég ætla að vernda Harry þótt það verði það seinasta sem ég geri.”
“Sem það mjög líklega verður. Farðu frá!”
“Aldrei!”
“Farðu frá honum, heimski blóðníðingur!”
“Ég sagði Severusi að ég hefði valið James. Þú getur sagt honum það!” öskraði Lily og hélt enn þéttar utan um Harry. Höfuð hans hvíldi við brjóst hennar svo hann heyrði öran hjartslátt hennar greinilega.
“Þvílík sóun. Avada Kedavra!” Seinasta hugsun Lilyar var jafn skýr og græna leiftrið sem kom óðfluga að henni.
“Harry verður að lifa!”
27.kafli – Minningar og nýtt upphaf
Það var snjór yfir öllu. Stórar snjóflyksur féllu rólega niður á jörðina. Lítill snjótittlingur sat á grein og snyrti fjaðrirnar. Öðru hvoru leit hann upp til að athuga hvort einhver væri að koma. Jú, þarna kom ein mannvera. Hún var hávaxin og klædd í skikkju með hettu yfir höfðinu. Hún hélt á marglitum rósum og zinnium og gekk rólega eftir snævi þakinni jörðini. Eftir að hafa hlykkjast um kirkjugarðinn fann hún leiðið sem hún leitaði að. Það var beint fyrir neðan snjótittlinginn svo hann heyrði vel hvað hún sagði.
“Sæl Lily,” sagði hún. Hún tók af sér hettuna og í ljós kom axlarsítt hár, fallega dökkbrúnt. Augun voru einnig brún og húðin frekar dökk.
“Ég sá Harry aðeins um daginn. Ég held að Petunia hafi þekkt mig svo að hún flýtti sér í burtu. Þú sagðir mér aldrei að hún ætti líka strák. Hann er eins og bolti í laginu! Afsakaðu ef ég móðga þig, en hann minnti svolítið á grís. Remus gat ekki komið. Fullt tungl, þú skilur.” Hún þagnaði og lét vöndinn við hliðina á legsteininum.
“Ég á aldrei eftir að geta haldið upp á hrekkjavöku brosandi. Veistu hvað ég sé mest eftir? Að hafa ekki getað sagt þér nógu oft hversu yndisleg þú varst. Að hafa flúið til Rússlands í staðin fyrir að vera áfram hérna og berjast. Remus varð eftir. Þú og James. Jafnvel…” Snjótittlingurinn sá nokkur tár renna niður kinnar hennar. “Jafnvel Sirius og Peter. Ég trúi ekki að Sirius hafi gert þetta! Hann gat verið kvikindi, hann var kvikindi við Severus, en hann og James voru eins og bræður! Þeir voru bestu vinir, hann var svaramaðurinn hans, hann var guðfaðir Harrys! Hann stóð alltaf uppi fyrir ykkur tvö. Ég trúi því ekki að hann hafi gert ykkur þetta. Manstu þegar hann hélt á Harry í fyrsta sinn? Hann leit svo undarlega út. Honum þótti svo vænt um hann, hann ætlaði alltaf að verða frændinn sem gerði hann óþekkan. Hann var búinn að plana það að gefa honum kúst þegar hann yrði fimm ára, bara til að pirra þig. Hann ætlaði að verða uppáhalds frændinn hans.” Hún stoppaði og dró djúpt andann.
“Ekki að hann var frændi hans í raun og veru, en við vorum öll ein stór fjölskylda. Svo þegar þú, ég og Jackie vorum að plana að láta börnin okkar alast upp eins og systkin. Harry og Sylvía hefðu orðið góðir vinir, heldurðu það ekki? Jackie er flutt til Frakklands. Hún sagði að það væru of margar minningar hérna. Hún flúði eftir á. Ég flúði áður. Seinasta skiptið sem við hittumst. Fyrsta afmælið hans Harrys. Æi, litla dúllan var brosandi út að eyrum allan tímann. Með svarta, úfna hárið sitt og fallegu augun þín.” Hún stoppaði aftur og hallaði aðeins undir flatt.
“Fallegu augun þín sem ég held að Severus hafi orðið ástfanginn af. Veistu, hann er ennþá að kenna. Hann hatar það, en hann lætur sig hafa það. Spæjarinn sjálfur. Manstu eftir James Bond? Kannski Severus kynni sig þannig. “Snape. Severus Snape.” Ég myndi deyja úr hlátri á staðnum! Ég er ekki búin að fá hann til að halda á Sylvíu. Ójá, talandi um Sylvíu, ráðuneytið kom og sagðist hafa frétt það að varúlfurinn Remus Lupin ætti dóttur. Það væri ólöglegt, hún gæti verið varúlfur og þar af leiðandi skaðað annað galdrafólk. Fávitarnir, hún er meira en eins árs og þeir voru að uppgvöta hana fyrst núna! Nú jæja, ég sagði þeim einfaldlega að hún hefði verið fædd fyrir ári og hefði ekki sýnt nein merki um að vera varúlfur. Þeir störðu á mig eins og þeir skildu ekki lengur mannamál. Þeir héldu sennilega að hún hefði fæðst núna en ekki á seinasta ári. Möppudýrin gátu ekki gert neitt. Þeir gátu ekki tekið hana og drepið, allt galdrasamfélagið myndi brjálast! Eini glæpur hennar er að vera dóttir varúlfs. Eða… já.” Núna dró hún djúpt andann.
“Ég sagði þér það aldrei Lily. Ég hef ekki sagt neinum nema Remusi það. Sirius og Severus vissu það reyndar. Æi. Af hverju gat ég ekki sagt þetta meðan þú varst lifandi, þá fengi ég í það minnsta einhver viðbrögð!” Þegar hún hafði sagt þetta hristi snjótittlingurinn sig og snjór féll ofan á Feneccu. Hún leit upp.
“Jæja, þetta voru einhver viðbrögð þó, sama hvort þau séu frá þér eða fuglinum. Hvað var ég aftur að segja? Ójá, Sylvía. Dóttir mín og… já. Nákvæmlega það. Þetta byrjaði með drykkjukeppni á Leka seiðpottinum. Pabbi Boris hefur verið að kenna mér að drekka áfengi sem er í sterkara kantinum. Hann mælir reyndar ekki með því nema ég sé með einhvern sem getur séð um mig ef ég verð full. Nú jæja, ég fór í drykkjukeppni. Sirius var líka að keppa. Við vorum orðin nokkuð drukkin eftir 10 glös. Það eina sem ég man skýrt og greinilega er að mér fannst hann alveg rosalega flottur þarna! Næsta minning mín er að vakna við hliðina á honum í herbergi á Leka seiðpottinum, hann nakinn með nærbuxurnar sínar á hausnum og ég liggjandi ofan á öllum fötunum mínum, slefandi yfir þau. Ekki einn af mínum betri morgnum, ég get viðurkennt það. Við ákváðum að hvorugt okkar hefði vitað hvað við hefðum verið að gera, við höfðum verið drukkin og það væri best að gleyma þessu. Okkur hafði tekist að vera sæmilegir vinir, jafnvel með mig og Remus. Ég held samt að Sirius hafi alltaf verið aðeins öfundsjúkur. Svo fór ég til Remusar og viðurkenndi þetta allt, grátandi. Sagði að ég gæti alveg skilið hann ef hann myndi vilja slíta trúlofuninni, það yrði alveg skiljanlegt. Hann gerði það ekki. Hann sagði að maður gerði heimskulegustu hluti ef maður væri fullur. Um kvöldið fórum við einfaldlega að sýna hvað okkur þætti vænt um hvort annað, með kynlífi og súkkulaði að sjálfsögðu!” Hún hló aðeins og leit í kringum sig.
“Ég dey úr skömm ef það er einhver að hlusta á þetta,” muldraði hún. Enginn nema lítill snjótittlingur hlustaði.
“Kvöldið eftir fór ég í Hlykkjasund. Alein. Remus vissi af því og var ekki ánægður með það. Ég var að finna út hvort einhver væri að selja ólöglegar drekaklær eða tennur. Einhverjir dráparar gripu mig.” Hún horfði upp í himininn, týnd í minningunum.
“Þeir nauðguðu mér. Ah, ekki einu sinni þeir. Það var bara einn. Hinir hefðu áreiðanlega komið eftir á ef hann hefði ekki tekið mig í burtu.” Hún leit aftur á gröf vinkonu sinnar, “það var Severus. Hann var fullur. Þegar það rann af honum fékk hann kast. Hann grét og grét og grét og brotnaði algjörlega niður. Það var hrikalegt að sjá það. Svo kastaði hann einhverri gerð af Oblivate á mig þannig að ég vissi hvað hafði gerst, en gat ekki munað það nákvæmlega. Hann sá svo eftir þessu, hann ætlaði að gera sér eitur og drekka það og enda sitt ömurlega líf. Ég taldi hann af því. Ég veit ekki hvernig. Ég sagði honum að maður gerði oft hluti sem maður ætlaði sér ekki ef maður væri fullur. Ég talaði af reynslu.” Hún stundi aðeins.
“Ég held að þetta hafi verið að hluta til ástæðan fyrir því að hann fór til Dumbledores. Hin ástæðan varst þú, elsku Lily. Honum þótti ennþá vænt um þig, þótt þú valdir James fram yfir hann. En veistu hvað? Eftir allt þetta uppgvötaði ég að ég væri ófrísk! Ég sagði að Remus ætti barnið, en var ekki viss. Ég vil í raun og veru ekki komast að því. Severus er frændi minn, ekki það náskyldur að þetta sé ógeðslegt, en hann er samt frændi minn! Og ef það er Sirius… ekki get ég sagt að barnið mitt sé dóttir morðingja og svikara? Ég held mig við það að hún sé dóttir varúlfs. Hún er reyndar svolítið lík Remusi þegar hann var lítill. Æi, ætli ég þurfi ekki að fara núna. Það var gaman að tala við þig. James, ég held að Remus ætli að líta til þín þegar honum batnar. Verið þið sæl,” hvíslaði hún og stóð upp. Snjótittlingurinn horfði á eftir henni. Hún var ekki fyrsta manneskjan til að fara að þessu leiði í dag. Það hafði komið skuggalegur maður með arnarnef snemma um morguninn, sólin hafði verið nýkomin upp. Hann hafði haft eina, hvíta rós með sér sem hann hafði skilið eftir á leiði konunnar. Það var búið að snjóa yfir hana núna, en hún var þarna undir. Þetta leiði hafði verið þarna í næstum heilt ár. Það höfðu verið svo margir í jarðarförinni, snjótittlingurinn mundi að hann hafði setið og horft á. Konan sem var að fara hafði verið þarna með einhverjum manni. Hann var áreiðanlega varúlfur, það var eitthvað við hann sem minnti snjótittlinginn á úlf. Skuggalegi maðurinn hafði komið eftir á þegar allir voru farnir og lagt heilan rósavönd á leiðið. Hann mundi ennþá hvaða blóm höfðu verið í honum: rauðar og hvítar rósir, amaranth, hvítar og fjólubláar hýasintur, cyclamen, hvít heather, marglitur túlípani, heliotrope og hvítur periwinkle. Kannski höfðu þau einhverja merkingu.* Snjótittlingurinn hristi snjóinn af sér og hóf sig til flugs. Þetta voru mál mannanna, þau komu honum ekki við. Núna ætlaði hann til sinnar heittelskuðu.
“Hæhæ,” sagði Fenecca og opnaði dyrnar. Hrúga af snjó féll inn. Hún bölvaði aðeins en galdraði hann í burtu.
“Fenecca, hún getur næstum sagt afi! Sjáðu. Sylvía, hvað heiti ég?” sagði Boris og kom á móti dóttur sinni með barnabarnið sitt í fanginu.
“Avava!” sagði hún og veifaði höndunum.
“Sko hana!” sagði hann stoltur. Fenecca hristi höfuðið og tók af sér trefilinn.
“Takk fyrir að passa hana,” sagði hún og rétti út hendurnar.
“Voru einhverjir aðrir þarna?” spurði hann og rétti henni Sylvíu.
“Fyrir utan lítinn snjótittling þá held ég ekki. Hvað segirðu, Sylvía Lily? Hvernig var svo að láta afa passa sig?” sagði Fenecca og sparkaði af sér skónum.
“Ég er reyndar að hugsa um að láta hana kalla mig Boris. Þegar hún segir afi hljómar það eins og ég sé að verða gamall,” sagði Boris og renndi hendinni í gegnum hárið. Hann var kominn með nokkur silfurgrá hár við gagnaugun, annars leit það út eins og það gerði þegar hún sá hann fyrst fyrir u.þ.b. 5 árum í Hogwarts.
“Hvernig heldurðu að mér líði að vera mamma? Það er alveg nógu slæmt, það hljómar eins og ég sé þroskuð!” sagði Fenecca og settist við eldhúsborðið.
“Þú ert búin að þroskast. Þú ert drekameistari, fjandinn hafi það! Það þarf að hafa einhvern þroska í það!”
“Ekki tala svona þegar hún er nálægt. Ég vil ekki hafa dóttur mína bölvandi eins og fullan Rússa,” áminnti Fenecca föður sinn.
“En ef ég kenni henni að blóta á rússnesku? Hefði ekki verið gaman ef ég hefði kennt henni og Harry litla rússnesku? Þau hefðu getað haft það sem leynimál svo að Lily og James vissu ekki hvað þau segðu,” sagði Boris og potaði í nefið á Sylvíu. Hún fór að hlæja og veifa höndunum enn meira.
“Nei, takk,” sagði Fenecca og lét dóttur sína í stólinn sinn.
“Veistu hvort hann sé vakandi?” spurði hún og stóð upp.
“Ekki hugmynd,” sagði Boris. Fenecca yppti öxlum og gekk af stað. Sylvía reyndi að grípa í skikkjuna hennar og fá mömmu sína til að vera kyrr en varð annars hugar þegar Boris fór að veifa teskeið um.
“Remus?” hvíslaði Fenecca og opnaði hurðina að herberginu þeirra.
“Já?” hvíslaði hann hás á móti. Hún lokaði á eftir sér og gekk inn. Það var kolniðamyrkur, honum líkaði illa við mikla birtu daginn eftir að hann umbreyttist. Hún þreifaði fyrir sér með höndunum þangað til hún kom við rúmið og fann hendina hans.
“Þarna ertu. Ég sagði James að þú kæmir þegar þú yrðir hress,” sagði hún og settist á rúmstokkinn.
“Gott. Ekki má greyið vera skilið út undan,” svaraði Remus. Hann hóstaði lítillega.
“Veistu hvort Sylvía er eitthvað búin að leggja sig í morgun?”
“Miðað við skrækina sem hún hefur verið að gefa frá sér, nei. Boris er greinilega að njóta þess að fá að taka þátt í uppeldi barns. Hann á eftir að gera hana óþekka.”
“Ég veit. Þess vegna er ég að reyna fá Severus til að passa hana, en hann tekur það ekki í mál. Ég held að hann yrði frábær barnapía,” sagði Fenecca og brosti aðeins.
“Þarftu að fara alveg strax?” hvíslaði Remus eftir smá stund. Fenecca hristi höfuðið. Hann hafði nógu góða sjón til að geta séð það.
“Geturðu þá verið hérna aðeins lengur?” spurði hann varlega. Hún brosti, fór úr þykkri skikkjunni og lagðist svo við hliðina á honum.
“Auðvitað. Boris getur alveg gert skyldur sínar sem afi aðeins lengur,” sagði hún. Eftir smá stund sofnuðu þau hlið við hlið.
Fenecca rumskaði aðeins við það að hurðin opnaðist og ljósglæta féll yfir hana.
“Uss,” hvíslaði Boris. Svo hlupu litlir fætur hljóðlega yfir gólfið.
“Bö!” hrópaði Sylvía þegar hún kom að rúminu. Remus gerði mikil tilþrif við að látast sem honum hefði brugðið.
“Litla kvikindið þitt, ekki bregða mér svona!” sagði hann og togaði hana upp. Hún hló bara og benti á Boris eins og þetta væri allt honum að kenna.
“Remus, kallarðu þína eigin dóttur kvikindi?” sagði Fenecca og stóð upp og teygði sig eins og köttur.
“Eitthvað þarf að kalla hana,” muldraði Remus afsakandi.
“Ætlið þið ástardúfurnar að koma ykkur niður í hádegismat? Ekki að ég sé búinn að elda neitt,” sagði Boris. Remus klappaði Sylvíu á kollinn.
“Ég ætla að reyna að koma mér upp. Sylvía, vertu nú góð og farðu til afa Boris, allt í lagi?” sagði Remus. Hún kinkaði kolli með miklum tilþrifum og stökk síðan úr rúminu.
“Ef ég hefði bút af allri orkunni sem býr í henni…” muldraði Remus og settist almennilega upp.
“Komdu nú, hún vill ekki borða án þess að hafa pabba hjá sér,” sagði Fenecca og togaði hreina og óslitna skyrtu upp úr skúffu.
“Hvernig eigum við að segja henni þegar hún verður eldri að pabbi hennar sé dýr sem flest börn fá martröð útaf?” sagði hann og leit annars hugar á Feneccu.
“Seinni tíma vandamál. Henni finnst svo vænt um þig að henni verður sama,” sagði Fenecca og rétti honum skyrtuna.
“Hvernig geturðu verið svona viss?”
“Af því að,” sagði Fenecca og settist við hliðina á honum, “mér er sama. Boris er sama. Lily og James var sama. Dumbledore er sama. McGonagall er sama. Af hverju ætti Sylvía að vera öðruvísi? Af hverju ætti henni ekki að vera sama þótt pabbi hennar breytist í varúlf einu sinni í mánuði? Þú elskar hana, er það ekki? Hún elskar þig. Hún mun ekki hata þig.” Fenecca kyssti hann.
“Þú þarft að raka þig,” muldraði hún. Skeggrótin stakk hana aðeins, en henni var sama.
“Ég veit. Hjálpaðu mér nú að standa eðlilega.”
Hún og Remus höfðu, á einhvern undarlegan hátt, orðin ástfangin. Samband þeirra hafði byrjað sakleysislega, eins og flest önnur sambönd sem þau höfðu á þessum aldri. Það hafði samt verið allt öðruvísi en þegar hún og Sirius voru að dúlla sér saman. Hún og Remus töluðu. Þeim fannst vænt um hvort annað, þau gátu setið hlið við hlið klukkustundum saman án þess að segja orð en samt fengið á tilfinninguna að þau höfðu samskipti. Hún hjúkraði honum alltaf eftir fullt tungl og fékk hann til að skilja að hún myndi ekki fara frá honum bara útaf því að hann breyttist í varúlf einu sinni í mánuði. Sylvía hjálpaði til við það, hún var algjör pabbastelpa. Eftir að stríðinu lauk hafði lífið á undarlegan hátt orðið eðlilegt. Svona að mestu leiti, það voru enn allir í sjokki yfir því sem Sirius Black hafði gert. Svikið besta vin sinn og konu hans í dauðann. En svo var náttúrulega kraftaverkið sem umvafði Harry Potter. Hann hafði lifað af Avada Kedavra. Fenecca hafði haldið á honum og kysst hann á litla kollinn sinn þegar hann átti eins árs afmæli. Það hafði verið seinasta skiptið sem hann og Sylvía hittust, þeim hafði þótt mjög gaman að pota í hvort annað og hlæja og skoða hvort annað. En núna hafði Dumbledore bannað þeim að hafa samband við hann. Hann átti að fá að lifa í friði fyrir galdraheiminum þangað til hann kæmi í Hogwartsskóla. Dursley-hjónin höfðu fengið fyrirmæli í bréfi frá honum að segja Harry frá foreldrum sínum og uppruna sínum svo hann vissi eitthvað. Fenecca var ekkert of viss um að það myndi gerast, Petunia hafði alltaf haft óbeit á göldrum systur sinnar og vildi áreiðanlega ekki hafa galdramann í sínum húsum. En þrátt fyrir þessar hörmungar hélt lífið áfram.
——————–
*Ég hef ekkert nema litla ensk-íslenska vasaorðabók hér fyrir sunnan og get ekki látið inn Tölvuorðabók vinkonu minnar því að ég er með Apple tölvu. Svo að, þið verðið að sætta ykkur við ensku nöfnin á flestum blómunum. En í guðanna bænum kíkið á þessa síðu til að sjá merkingar blómanna, það gerir blómavöndinn mikilvægan: http://www.iflorist.com/en/act/meaning/
Núna ætla ég að skrifa eitthvað sem ég lofaði fantasiu fyrir mörgum mánuðum. Ég skil ennþá ekkert í mér að hafa haldið áfram með Auga Eilífðar, þetta er ekkert nema geðveiki í mér. Og Silvía verður EKKI Mary Sue!