Aðfangadagur, 21:40

“Aðeins lengra til vinstri…..aaaaðeins lengraaaa……ssssvona! Þetta er fínt!”
Remus Lupin lét sprotann sinn síga og leit á eiginkonu sína.
“Er þetta nógu gott?”
“Þetta er fullkomið.” sagði Tonks. Hún gekk til hans og kyssti hann léttilega aftan á hálsinn.
“Eigum við að skreyta að núna?” spurði hann.
“Nei, ég ætla að fá mér að borða og þú þarft að fara að leggja af stað. Ég skreyti það bara á eftir.”
“Ætlarðu að fá þér að borða aftur?! Við vorum að borða fyrir 45 mínútum síðan.”
“Remus, þú veist eð ég er að borða fyrir tvo. Þessi krakki er alltaf svangur. Það kæmi mér ekkert á óvart þótt hann yrði stór og stæltur ylfingur þegar hann kemur.” sagði Tonks brosandi. Svo leit hún á alverlegt andlitið á manninum sínum og flýtti sér að segja: “Aaahhh, Remus, fyrirgefðu. Þetta átti ekki að koma svona út, ég sver. Ég hugsaði ekki….”
“Þú veist að þetta er einmitt það sem ég er hrædastur um að muni gerast.”
“Remus….”
“Hvernig heldurðu að mér eigi eftir að líða ef að ég hef gefið barninu okkar þennan sjúkdóm?” það vottaði fyrir reiði í röddinni hans. “Ég á aldrei eftir að fyrirgefa mér það. Barnið á aldrei eftir að fyrigefa mér það. Hvaða barn vill eiga föður sem það þarf að lifa í stöðugum ótta við?”
“Remus, við vitum það ekki fyrr en einhvern tímann í apríl, svo að gerðu það viltu hætta að vera svona svartsýnn! Við tökum á þessu þegar þar að kemur….Ef að þar að kemur.”
“Hvað áttu við með svartsýnn? Ég er bara raunsær, Tonks. Vittu til, ég á eftir að verða ómögulegur pabbi og barnið á eftir að skammast sín fyrir mig alla ævi!”
Tonks, vitandi það að hún ætti aldrei eftir að geta rökrætt við manninn sinn þegar hann væri í svona skapi, ranghvolfdi augunum og sagði: “Ég þarf þá bara að sjóða tvöfalt magn af úlfsmáraseyði fyrir ykkur. Og talandi um úlfsmáraseyði, viltu fá skammtinn þinn eða ekki?”
Hún fylgdist með Remusi á meðan hann róaði sig niður.
“Jú takk.” sagði hann lágt.
Tonks fór inn í eldhúsið og kom aftur með könnu fulla af rjúkandi heitum vökva og rétti Remusi. Hann svolgraði innihaldinu í sig í einum rykk.
“Jæja,” sagði Tonks ákveðið, “farðu nú að leggja af stað.”
“Verður allt í lagi hjá þér að vera ein heima í kvöld? Ég get hætt við ef þú……”
“Þetta er allt í lagi. Ég ætla bara að klára að skreyta tréð og svo fara snemma að sofa. Mér er búið að vera dálítið flökurt svo að ég ætla bara að reyna að sofa það úr.”
“Ég veit ekki hvað við verðum lengi, en ég reyni að koma heim eins fljótt og ég get.”
“Allt í lagi. Farðu nú .”
“Ertu alveg viss…?”
“Jaaaá. Farðu! Og Remus!”
“Hmmm?”
“Þú átt eftir að verða frábær pabbi.”
Þau kysstust einu sinni enn og eftir það fór Remus út í litla garðinn framan við húsið þeirra, gekk nokkra metra frá honum út í myrkrið og lét sig hverfa með lágum hvelli.
***
Hann birtist aftur á sama tíma, lagt frá þeim stað sem hann hafði tilflust frá. Hann stóð nú fyrir framan reisulegt tveggja hæða raðhús í útjaðri stórborgar. Hann gekk upp að útihurðinni næst honum og bankaði atkvæðafjöldann úr fyrstu línunni af “Weasley er kóngurinn”.
Hurðin opnaðist og í gættinni birtist strákur með svarta dredda.
“Góða kvöldið, River.” sagði Remus.
“Kvöldið, Romulus.” sagði Lee Jordan, “Gakktu í bæinn.”
Remus steig inn á myrkvaðan stigagang og leit í kringum sig.
“Eru hinir komnir?” spurði hann.
“Ekki ennþá. Ég á von á þeim á hverri stundu. Farðu bara niður.”
Remus þreifaði fyrir sér og fann fyrir litlum tréhnúð á veggnum undir stiganum og opnaði litla hurð rétt svo nógu stóra til þess að meðalstór maður gæti farið í gegn. Fyrir innan hurðina var þröngur stigi sem Remus fór niður og kom inn í lítinn kjallara fullan af tækjum. Hann settist á lítinn koll og beið.
Nokkrum mínútum síðar heyrði hann litlu hurðina opnast og tvö pör af fótatökum í stiganum. Næst birtust tveir nákvæmlega eins rauðhærðir strákar hvor á eftir öðrum.
“Blessaður, Romolus. Hvað er að frétta?” sagði Fred brosandi.
“Rodent, Rapier, sælir. Allt gott að frétta af okkur. Við vorum að setja upp jólatré í dag. Hvernig gengur hjá ykkur?”
“Eh, við getum ekki kvartað.” sagði George, “Viðskiptin mættu alveg vera meiri, en fólk er víst alveg hætt að hætta sér út fyrir hússins dyr þessa dagana. Vantar ykkur nokkuð jólaskraut?”
“Vonandi ekkert sem bítur eða hverfur eða syngur dónaleg lög?” spurði Remus.
“Heh, nei, en góð hugmynd. Þú getur samt fengið kúlur sem breyta um lit, syngjandi jólaengla og hita- og eldhættulaus kerti sem við ábyrgjumst að muni endast í allt að mánuð án þess að það þurfi að slökkva á þeim. Komdu bara með okkur í búðina eftir fundinn og við getum látið þig fá hvað sem þú vilt.”
“Frúin á eftir að verða ánægð með það. Allt í lagi; ég fæ það á hálfvirði er það ekki?”
“Auðvitað.”
“Hann er kominn!” heyrðu þeir sagt að ofan. Stuttu síðar birtist Lee í stiganum fylgt af hávöxnum svörtum manni með gylltan lokk í hægra eyranu.
“Sæll, Royal.” sagði Fred, “Hvernig gengur?”
“Svona upp og ofan.” sagði Kingsley með smá grettu á andlitinu, “Það er erfitt að vera alltaf að finna nýja og nýja felustaði, en ég kemst af.”
“Svo að hrifsararnir hafa ekkert truflað þig síðan?” spurði Remus.
“Nii. Þeir eru nú ekki þeir gáfuðustu í heiminum. Ég held að fæstir þeirra hafi nokkra hugmynd um hvað þeir eru að gera.”
“Allt í lagi,” sagði Lee skyndilega. “Eru allir tilbúnir?”
Hinir kinnkuðu kolli.
“Jæja þá. Byrjum á þessu.”
Hann ýtti á nokkra takka á einu tækinu og sagði:
“Góða kvöldið og verið velkomin á Pottervaktina.”
***
Með lágum hvelli birtist Remus aftur framan við litla húsið þeirra, með kassa fullan af jólaskrauti frá Galdrabrellum Weaslybræðranna í fanginu. Hann gekk inn á örugga svæðið, flýtti sér inn, lagði kassann varlega á gólfið og leit á klukkuna. Hún var orðin vel yfir miðnætti. Tonks hlaut að vera farin að sofa.
Hann fór inn í eldhús og fékk sér annan bolla af seyði og svo inn í stofu með kassann. Þar sá hann Tonks steinsofandi í sófanum. Hún andaði hægt og rólega gegnum nefið og ljósin á trénu köstuðu marglitum bjarma á andlit hennar. Hann brosti og horfð á hana sofa í smá stund áður en hann skreið sjálfur uppí til hennar. Um leið og hann var búinn að koma sér nógu vel fyrir fann hann fótinn á sér kippast til.
Hann andvarpaði. “Það er að byrja.” hugsaði hann.
***
Jóladagur, 10:15

Desembermorgunsólin reif Tonks upp af værum svefni.
“Fjandinn hafi það,” hugsaði hún um leið og hún sneri sér á hina hliðina. “Við verðum að fá okkur sólargluggatjöld!”
Vitandi að hún ætti ekki eftir að geta sofnað aftur ú þessu opnaði ún augun og leit á Remus steinsofandi við hliðina á sér. Hún klóraði honum á bak við eyrun. Hann opnaði augun, leit í augun hennar og brosti.
“Gleðileg jól, ástin.” sagði hún brosandi.
Remus gaf frá sér lágt bofs, sleikti hana í framan, og dillaði rófunni af gleði.

——————————————————
Allar persónur í undanfarandi sögu eru eign J. K. Rowling.

Þar sem að ég hef ekki lesið DH á íslensku þá eru nokkur hugtök í sögunni sem ég þurfti að finna sjálf upp á þýðingu á, án þess að vita hvernig þau eru þýdd í bókinni:
Hrifsararnir - the snatchers
Pottervaktin - Potterwatch

Og ég veit að ég sendi hana allt, allt of seint inn. Stjórnendur áhugamálsins verða bara að ákveða hvort hún vær að vera með eða ekki.