Nú, loks, hafa allar ár hafa runnið til sjávar: rússíbananum er lokið, Harry Potter serían er tilbúin. Sérstæða þessarar seríu í nútímaheimi er margföld og úr mörgu að taka þegar ferðinni er lokið. Serían hefur margfalt valtað yfir hverja hugmynda okkar á fætur annarri um hvað getur orðið vinsælt í bitrum nútímaheimi, hvað getur hreyft við mannkyninu, haft áhrif. Sem best selda bókasería allra tíma, vinur og ferðafélagi stórs hluta ungdóms hins vestræna heims inn í þroska og stórfellt bókmenntaverk sem höfðaði til allra aldurshópa er ýmislegt sem hægt er að sjá um hana eftirá. Hvað mun vera sagt á komandi áratugum er litið verður til baka á þessa seríu sem skók undirstöður bókmenntaheims nýs árþúsunds getum við einungis giskað á, en nú getum við þó myndað okkar eigin skoðanir um gildi bókanna í heild.
Við okkur blasir það verkefni að sjá boðskap seríunnar, hið besta og hið versta við hana. Mikilvægt er því að líta á heildarmyndina af hinum fjölmörgu persónum þessarar kynngimögnuðu seríu. Hið merkilegasta, og að mínu mati magnaðasta, við það er líklega hvernig við sjáum heildarhugmynd Rowling (eða hennar Jóhönnu okkar, eins og hún er gjarnan nefnd á mínu heimili) á persónubyggingu skýrast jafnhliða bókunum. Með því meina ég að persónur sem hún hefur hannað með dýpri ástæður og persónubyggingu eru kynntar samkvæmt því þroskastigi sem hæfir bókinni og augum þeirra sem við sjáum í gegnum í henni. Þetta myndar athyglisverða hliðstæðu við raunveruleikann þar sem við mannverurnar sjáum misjafnlega djúpt í gegnum hið grunna yfirborð sem flest okkar berum utan á okkur – og þá líklegast dýpra því eldri sem við verðum í flestum tilvikum.
Frá hinu einfaldaða til hins margbrotna við sjáum sumar persónurnar og sýn aðalpersónanna á þeim breytast. Hér í þessari grein ætla ég að líta dýpra inn í þær þrjár persónur sem geyma, að mínu mati, mesta og besta boðskapinn í þessarri sögu, ásamt stuttu yfirliti yfir bækurnar sjálfar og áhrif þeirra.
Við erum kynnt upprunalega fyrir heimi öfga, eins og einfaldari ímynd á heiminum reynist gjarnan vera: Voldemort hinn alvondi, Dumbledore hinn algóði og alvitri. Staðalímyndir er að finna hvert sem litið er: Strangi en góðhjartaði kennarinn Minerva McGonagall, einfalda og þröngsýna Dursley fjölskyldan, og svo mætti lengi áfram telja. Flestallir höfðu sterka staðalímynd innan hins aðlaðandi heims sem vitnaði til svo margs sem höfðaði til okkar og vóf þær sterkt saman eftir formúlu ævintýrabókmennta. En eins og við flest vitum, reyndist fátt vera eins einfalt og það leit út fyrir að vera.
Oft hefur verið haft á orði að seríurnar verði dekkri eftir því sem líður á, en að mínu mati er það þroskinn sem eykst. Persónurnar þroskast og vandamálin verða raunverulegri (sem symbólísk fyrir heiminn okkar, augljóslega er ég ekki að segja að krakkar séu almennt að lenda í lífshættulegum ævintýrum árlega). Það besta við þessa seríu er það að hún hefur hjálpað mörgum að finna sig í gegnum þessa þróun, sem innifelur margar viskuperlurnar.
Voldemort
Fyrst er að minnast á Tom Marvolo Riddle sjálfan, erkióvininn Voldemort. Þótt hann haldist að nokkru leiti erkiandstæðingur þá þróast ástæður hans og persónugerð meir en flestir átta sig á. Í bók sex fá lesendur innsýn inn í líf hans og hugarástand: hér sést siðblindur (e: sociopath) einstaklingur sem finnur ekki fyrir ást, vináttu eða slíkri tengingu við heiminn. Þetta er raunverulegt ástand sem útskýrir að miklu leiti hegðun hans og við sjáum brátt inn í hinn ruglaða heim sem hann erfir frá kolruglaðri Gaunt ættinni. Við sjáum þröngsýnina og fordómana sem hefur eyðilaggt líf móður hans. Við sjáum hvernig hún neyðir mann án galdra í hjónaband með göldrum, mann sem vill ekkert með hana hafa en táknar í vesælum heimi hennar allt sem gott er. Við sjáum þegar allt fer illa þegar andlega rugluð konan trúir því að hann elski hana í raun og sleppir honum, en hann fer frá henni.
Tom Riddle yngri hefur hér raunverulegar ástæður til að gera sterkan greinarmun á fólki með og án galdra: Siðblindur maður sér aðeins hvernig hlutir og fólk geta nýst honum. Galdar jafngilda því hreinu valdi og möguleika og undirstrika sérstæðu hans yfir öllum. Því er eðlilegt að hann grípi í þau völd og hefni sín á þeim sem vildu sem minnst með hann að gera, fólki sem kann ekki að galdra og hefur ”óhreinna” blóð en hann sjálfur – fólk eins og faðir hans sem dirfðist að yfirgefa hann, sérstaka hann. Þróun hans í það sem hann verður fylgir dökkri leið, en nokkuð raunverulegri. Hin einfalda sýn hans á heiminn sést á áráttum (e. Obsessions) hans: Hlutir sem einkenna vald hans, sérstöðu hans, og hvernig hann horfir fram hjá öllu öðru en því sem er táknrænt fyrir stöðu sjálfs síns. Til dæmis gerir hann ráð fyrir að heimurinn viðurkenni völd hans þegar hann leggur lík Harry Potters fyrir hann.
Tom Riddle er dæmi um geðsjúkan mann, ekki óútskýranlega illsku, og samskipti Dumbledores og Harrys kenna okkur mikilvæga lexíu: það borgar sig alltaf að líta fyrir neðan yfirborðið. Það er alltaf ástæða fyrir því sem gerist, sama hversu falin hún virðist vera, og það borgar sig frekar að hugsa áður en maður ræðst í aðgerðir.
Dumbledore
Næst lít ég á erkiandstæðu hans í fyrstu bókunum: Albus Percival Wulfric Brian Dumbledore, eða eins og ég kalla hann, Brian. ;)
Hann fyllir upphaflega algjörlega hin klassísku skilyrði fyrir leiðbeinandi öldrungi í þessu frásagnarformi, sem er mjög algengur hluti af fantasíulegasíunni sem Harry Potter byggir meðal annars á. Hann er nokkurnveginn alvitur, ljós og dularfullur, lætur aðeins í ljós það sem nauðsynlega þarf, nógu kröftugur til að takast á við flestallt einn en það lendir þó af tilviljun sjaldnast á honum í hita augnabliksins heldur valinni hetju hans. Sem sagan þróast fer hann að gera meira og meira af villum, sýna betur elli og þreytumerki, mannlegar tilfinningar og mistök. Ein stærstu mistakanna eru beint í æð staðalímyndarinnar: hann felur of mikið, hetjan lendir í stanslausum vandræðum vegna þess að upplýsingar koma í litlum skömmtum. Mér finnst mjög flott hvernig seinna meir í sjöundu bókinni fer maður að sjá dýpt þar bak við sem brýtur upp ímyndina, raunverulegar ástæður og komplexar sem valda þessarri hegðun hjá honum.
Dumbledore vex upp í fígúru sem við sjáum minna af en fyrr, sem vandamálin flækjast hættir hann að veiða fullkomnar lausnir við þeim öllum upp úr töfrahatti. Aðalpersónurnar verða að horfast í augu við að hann getur ekki alltaf reddað þeim úr vandamálunum þegar heimurinn snýst gegn þeim. Hann fer að játa mistök, vera fjarlægari, gagnrýndur og í sjöttu bókinni er hin visna hönd skýrt merki um að honum sé að förlast alvarlega. Nú í seinustu bókinni bætist loksins lokadýptin við hann, sem marga aðra:
Við sjáum hinn snjalla unga mann sem týnist í metnaðinum eins og oft vill verða – hann brennir sig á hinni fornu og margsönnuðu línu: ”Völd spilla, algjör völd spilla algjörlega”. Þegar systir hans deyr, að mörgu leyti vegna gerða hans, verður hann fyrir óafturkræfum skaða. Hann lék sér með eldinn, forðaðist að hugsa um fjölskyldu sína og þá fordóma sem hann var að samþykkja fyrir völd og þekkingu, og fékk harða lendingu fyrir vikið. Hann lifir lífi eftirsjár eftir það sem lýsir nýju ljósi á ’redemptive’ hegðun hans: fórnfýsi hans, ósjálfhverfan hugsunarhátt og hræðslu við völd. Hann lifir lífi sínu í leit sinni að því að bæta fyrir misgjörðir sínar, friða samviskuna og gera heiminn að betri stað. Einnig verður hann leiðarvísir okkar í að átta okkur á hvað er að hugmyndinni að ”the ends justify the means” og að gera hlutina fyrir ”the greater good”.
Reynsla hans samanblönduð við upplifun aðalpersónanna á samfélagi ”Magic is Might” bendur okkur á skuggalegri hliðar mannlegs eðlis, og minnir margt meðal annars á vinnubrögð nasista.
Snape
Fyrst og fremst vil ég, og finnst ég verða, að segja eitt: Meir en hinar ýmsu tegundir ástar sem bækurnar virða, er engin eins sterk og sú sem Snape bar fyrir Lily. Hans saga er líklegast sú sem snerti mig persónulega mest. Ef nokkur persóna brýtur klisjuformin í þessum bókaflokki, þá er það Severus Snape. Kolsvört persónugerð, geðillur, bitur og reiður; hann táknar andstæðu hinnar klassísku ljósu hetju. Það er virkilega góður boðskapur í formi verstu minningar Snape: Minningin sem byrjaði að sýna okkur inn í hugaheim hans, minningin sem virtist hafa að gera aðallega með auðlægingu og skömm, en reynist vera mun dýpri.
Hlutirnir voru aldrei sérlega góðir fyrir hann Sev, saga hans er sorgarsaga sem snerti mig mjög djúpt þar eð hún snertir suma strengi tilfinninga okkar sem sjaldan eru snertir. Djúp höfnun, misskilningur, hvernig slæmt uppeldi og einelti getur valdið varanlegum örum á sálinni. Slæmt samband hans við mugga föður hans, sem fór illa með hann, hið skítuga umhverfi sem hann var alinn upp í og fötin sem honum voru gefin: ímynd hans sjálfs mótast af viðbrögðum annarra við hvernig hann er, sem styrkir hann í þeirri ímynd og festir. Félagsfræðingar nefna þetta stimpilhegðun, einstaklingur tekur upp hegðun, aðrir fara að dæma hann eftir henni, og að lokum dæmir hann sig sjálfur eftir henni og er fastur.
Það er hægt að skilja hvaðan óbeit hans á muggum kom ef hann var illa liðinn af föður sínum fyrir galdra sína, hann aldist upp með slæma ímynd, og þegar hann reynir að breyta sér fyrir ástina, Lily Evans, er það of seint. Ást hans er sterkari skilaboð en nokkur önnur, ástin sem hélt honum hjartahreinum og sterkum í kringum illskuverk handan ímyndunar, í gegnum hatur allra og misskilning á honum fyrir það, ásakanir fyrir hluti sem hann gerði ekki og vanþakklæti frá þeim sem hann verndar. Biturleikinn og hatrið verður skiljanlegra þegar maður áttar sig á fórninni í því að lifa einungis til að vernda strák sem lítur alveg eins út og maðurinn sem stal ástinni hans frá honum. Í formi stolinna bréfa, rifinna mynda og Patronusins hans, lifir galdur ástarinnar í sinni dýpstu mynd.
Meir en meistaraleg plott Dumbledores, hugrekki Harry, þekking Hermione, er sagan djúp vegna Severus Snape og fórnar lífs hans, dauða hans og jafnvel sálar hans, allt fyrir ástina.
Lokaorð
Tíu ára ævintýri Harry Potter er nú lokið. Bækur þessar hafa sett mark sitt á bókmennir aldarinnar sterkar en nokkurntíman fyr, og hver veit hve langt verður þar til það verður jafnað á ný. Hvað verður sagt um Harry Potter eftirá, bækurnar sem drógu fjölda krakka og fullorðna inn í lestur á ný, inn í ævintýrin á ný, inn í töfraheim ímyndunar og tilfinninga sem hrærist innan góðra bóka, veit ég ei. Ýmislegt er núþegar sagt, og skoðanir misjafnar. Ég veit þó, að sama hvað mun verða, veitti þessi bókaflokkur mér og öðrum vinsemd og hjálp í gegnum árafjölda og mótaði líf margra að einhverju leiti.
Um allan heim flokkast fólk til að lesa, krakkar, unglingar, ungt fólk sem gamalt. Kínverjar sem englendingar, íslendingar sem tælendingar. Fólk frá Afríku og Ástralíu, Bandaríkjunum og Argentínu. Ég las fréttir af brúðhjónum sem fóru beint að kaupa bókina úr brúðkaupinu, heilar fjölskyldur sem fóru að kaupa eintak handa hverjum og einum. Ef eitt er víst, nú í lok þessa ævintýris, er það að hún Jóhanna okkar hefur allavega haft einhver góð áhrif á mannkynið.
Wrought of Flame,