Hún kyssti Remus.
Og það var án efa besta tilfinning sem hún hafði fundið. Þetta var ekki eins og þegar þau höfðu kysst undir mistilteininum, þetta var miklu, miklu betra. Fenecca giskaði á að hún hefði gefið frá sér eitthvað hljóð því að Remus færði sig aðeins frá henni.
“Sirius á eftir að verða brjálaður,” sagði hann, örlítið andstuttur.
“Mér er skítsama um Sirius, hann er það síðasta sem ég vil vera hugsa um núna,” heyrði Fenecca sjálfa sig segja. Jebb, hún var búin að missa vitið.
“Ég veit í það minnsta að þér líkar vel við mig núna. Vona ég,” stundi Remus upp. Fenecca kinkaði kolli og kyssti hann aftur. Remus hikaði aðeins núna.
“Hvað er að?” spurði Fenecca og leit upp í brún augu hans. Henni brá þegar hún sá alla hræðsluna og angistina í þeim, hann leit út eins og hjartað í honum væri að bresta.
“Fenecca, ekki. Ég er fjandans varúlfur, þú veist það! Ég get ekki verið í sambandi. Það er ekki hægt, ég myndi stofna þér í hættu. Ég held að það væri best ef þú myndir einfaldlega… fara. Núna.” Hún starði á Remus.
“Þú ert ekki að meina þetta. Við hvað ertu svona hræddur? Black og Potter?”
“Fenecca, það…”
“Horfðu í augun á mér Remus og segðu að þú hafir aldrei viljað og munir aldrei vilja kyssa mig eða vera með mér. Segðu það. Núna,” sagði Fenecca áður en hann gat sagt meira. Remus leit undan og reyndi að ýta henni burt.
“Segðu það!” hrópaði Fenecca.
“Ég ætla ekki að leggja þig í hættu, Fenecca Crock. Það er nógu hættulegt að vera hérna á Bretlandi, það að þú værir tengd varúlfi á einhvern hátt væri enn verra fyrir þig!”
“Ha?” Remus stundi. Hann vildi ekki þurfa að útskýra þetta fyrir henni, en…
“Þú veist að það er verið að reyna fá ungt galdrafólk til að gerast dráparar, er það ekki? Nei, kannski veistu það ekki. Prófessor Dumbledore var að tala við mig,” sagði Remus og renndi hendinni gegnum brúnt hárið. “Svo virðist sem að varúlfar séu eftirsóttir.”
“Áttu við…? Myndi hann reyna að fá… þig? Fá þig til að gerast drápari og drepa saklaust fólk eða breyta því í varúlf?” spurði Fenecca og starði óttafull á hann.
“Nákvæmlega það.”
“Þú myndir aldrei gera það, er það?”
“Nei. Ég gæti það aldrei,” hvíslaði Remus og lét sig síga niður með veggnum.
“Æi… Remus, ekki vera svona mikill kjáni,” muldraði Fenecca á endanum og settist við hliðina á honum. “Eins og þú sagðir, ég er hvort eð er í hættu með því einu að búa hérna.”
“Fenecca, ég er ekki eins og Sirius. Ég ætla ekki að vera að kela við þig uppi í Stjörnuturni í svona hálfan mánuð og finna svo einhverja aðra. Ég er ekki jafn… ég meina, það er….” núna roðnaði hann allsvakalega. Fenecca skyldi hvað hann var að reyna segja. Hann var ekki “player” þótt hann hefði útlitið með sér. Ef hann vildi byrja eitthvað með henni vildi hann láta það endast. En hann var að reyna útskýra eitthvað annað. Hvað var það?
“Remus, ég veit hvað þú ert að segja. Þú vilt ekki samband af neinu tagi sem endist ekki. Eitthvað meira?” Í staðin fyrir svara roðnaði hann meira. Augun í Feneccu stækkuðu aðeins. Hún færði sig nær honum svo hún gæti hvíslað að honum. Nefbroddurinn kom við eyrað á honum.
“Ertu hreinn sveinn, Remus Lupin?” hvíslaði hún. Núna urðu eyrun líka rauð.
“Ekki láta svona kjánalega, það er ekkert til að skammast sín fyrir. Ég er ekki beinlínis hissa, það hafa hingað til verið Black og Potter sem sjá um gellurnar, ekki þú. Þú hefur oftast bara huggað þær eða hjálpað þeim að læra,” sagði Fenecca hughreystandi. Það hefði komið henni meira á óvart ef Remus hefði þorað að sofa hjá einhverri stelpu.
“Og?” muldraði hann á móti.
“Er ekki kominn tími til að þú farir líka að hugsa um stelpur? Þú ert orðinn 17 ára Remus, á ég að segja þér söguna um býflugurnar og blómin?” Stríðnin í röddinni skein í gegn.
“Endilega, ég veit nefnilega ekkert um þá hluti.”
“Já, það er nefnilega þannig að býflugan ríður blóminu og blómið varð ófrískt og fæddi… uhm, mjög afbrigðilega blómaflugu. Endir!” Þegar Fenecca var búin að segja þetta sprungu þau úr hlátri af óútskýranlegri ástæðu.
“Þetta er ekki svona fyndið… Guð minn góður! Þetta er ekki nærri því svona fyndið!” stundi Fenecca upp á milli hláturrokanna. Hún var farin að tárast af hlátri.
“Það var bara hvernig þú sagðir þetta. Þetta hljómaði svo eins og McGonagall! Geturðu ímyndað þér ef hún færi að segja okkur svona?” Þau fór bara að hlæja meira þegar Remus sagði þetta.
“Við þurfum að fá okkur almennileg áhugamál. Þetta eru hræðilegir brandarar,” sagði Fenecca og hélt um magann á sér.
“Betri áhugamál? Eins og?” spurði Remus og þurrkaði nokkur tár. Fenecca glotti. Svo stökk hún ofan á hann.
“Fenecca, þú hagar þér eins og smástelpa sem var að eignast fyrsta kærastann sinn,” sagði Remus og reyndi að stöðva hláturinn. Fenecca varð alvarleg aftur.
“Já, er það?” sagði hún og fór að kyssa hálsinn á honum….

Það höfðu tveir klukkutímar liðið þegar þau fóru aftur úr stofunni.
“Umbreyttirðu öllu aftur?” sagði Fenecca og gáði varlega í kringum sig hvort einhver væri að koma.
“Ég vona það. Það lítur allt eðlilega út, er það ekki?” svaraði Remus og leit í kringum sig. Ekkert óvenjulegt.
“Og þú ert örugglega í öllum fötunum sem þú varst upphaflega í, er það ekki?” spurði Fenecca og glotti til hans.
“Ég held það, ef ekki þá veit ég hvar skal leita.”
“Komdu. Engin vitni á svæðinu,” sagði Fenecca og togaði Remus úr kennsluherberginu.
“Þú manst hvað þú samþykktir, er það ekki?” spurði hann og leit á Feneccu.
“Hvaða hluta?”
“Þann sem tengist vissri manneskju sem þú þarft að tala við,” útskýrði Remus þolinmóður. “Sem að þú hefðir átt að gera fyrir löngu reyndar, en það er algjört aukaatriði.”
“Auðvitað. En ég hef vikufrest er það ekki?”
“Illu best er aflokið.”
“Illu er best slegið á frest,” svaraði Fenecca. Remus togaði hana aðeins til hliðar, í lítið skot bakvið veggteppi.
“Því fyrr sem þú gerir þetta, því betra, trúðu mér.” Hann kyssti hana hughreystandi.
“Ertu enn á því að segjast bara hafa verið að tala?” spurði Fenecca leið.
“Það er satt, er það ekki? Að hluta til. Ég nenni ekki að hafa Sirius og James á móti mér. Gerðu það, ég er ekki að biðja um mikið, er það?” sagði Remus.
“Þú ert að koma í veg fyrir að ég stökkvi á þig í miðjum matartíma og fari að éta einhvern part af þér, ef það er einhver léttir fyrir þig,” sagði Fenecca og brosti aðeins. Hún skildi alveg af hverju Remus vildi ekki að þau segðu hvað þau höfðu í raun og veru verið að gera, en það breytti samt ekki því að hún gat ekki verið fúl.
“Eigum við þá að koma okkur á heimavistina?” sagði Remus og togaði Feneccu af stað. Þau gengu í þögn það sem eftir var. Hjartað í Feneccu barðist um. Hún myndi áreiðanlega klúðra þessu eins og öllu öðru sem hún gerði.
“Bítlarnir,” sagði Remus. Leyniorðið að setustofunni, eftir einhverri mugga-hljómsveit.
“Guð minn góður, guð minn góður, guð minn góður…” muldraði Fenecca og kreisti hönd Remusar. Hann gretti sig aðeins framan í hana svo hún linaði takið.
“Þú getur þetta alveg,” hvíslaði hann og ýtti henni á undan sér. Nokkrir Gryffindor-nemar sátu á víð og dreif um setustofuna. Fenecca lokaði augunum og dró inn andann, svo gekk hún í áttina til hennar. Lily.
“Lillian Evans, ég hef verið asni, auli, fáviti, fífl, heimskingi, hálfviti, bjáni, vesalingur, aumingi, viðrini, ömurleg og svo að segja allt annað sem þér gæti mögulega dottið í hug, en í það minnsta þá áttaði ég mig á því á endanum. Er einhver minnsti möguleiki að þú munir nokkurntímann fyrirgefa mér fyrir að hafa kallað þig… guð minn góður… fyrir að hafa kallað þig blóðníðing?” Jæja, þetta hafði ekki verið það erfitt, núna þurfti hún bara að bíða eftir viðbrögðunum.
Lily sagði ekkert, hún horfði einfaldlega á Feneccu í smá stund en stóð síðan upp og gekk í átt að stiganum sem lá upp í svefnálmurnar. Fenecca sneri sér við og leit á Remus.
“Það sakaði í það minnsta ekki að reyna,” hvíslaði hún með kökk í hálsinum. En áður en hún vissi af hafði eitthvað eldrautt stokkið á hana og næstum kæft hana.
“Elsku, elsku, elsku Fenecca! Tók það Remus tvo tíma að fá þig til að gera þetta?” sagði Lily og faðmaði hana.
“Svona meira og minna,” muldraði Fenecca og faðmaði Lily á móti. Þær höfðu ekki staðið nálægt hvor annarri í svo langan tíma að fyrst núna sáu þær hvað það var mikill hæðarmunur á þeim. Fenecca hlaut að vera í það minnsta tíu sentímetrum hærri en Lily!
“Ég skil ekki hvernig við lifðum af heilt ár án þess að tala við hvor aðra!” sagði Lily.
“Kannski af því að ég er fáviti, það gæti tengst því,” svaraði Fenecca með tárin í augunum. Núna var Jackie komin.
“Fenecca, þú…” hún hristi höfuðið, ekki viss um hvað hún ætti eiginlega að segja. Í staðinn faðmaði hún hana.
“Hópknús!” kallaði Remus og áður en Fenecca, Lily og Jackie vissu af var hrúga af fólki búið að hoppa ofan á þær. Eftir smá stund dreifðist hópurinn aðeins en þá stóð Sirius fyrir framan Feneccu. Hann ætlaði að segja eitthvað en hún greip frammí fyrir honum.
“Nei,” sagði hún einfaldlega. Hún var ekki tilbúin að fyrirgefa honum eitt né neitt. Síðan sneri hún sér við og slengdi höndunum utan um axlirnar á Lily og Jackie.
“Hvað segið þið um að koma í kvöldmat?” sagði hún brosandi.
“Með glöðu geði, ég er búin að sakna þess að hafa þig ekki fyrir framan mig,” svaraði Jackie.
“Annars, bíðið eitt augnablik,” muldraði Fenecca og sleppti takinu af þeim. Hún fór til Remusar, faðmaði hann og kyssti snöggt á kinnina.
“Takk,” sagði hún brosandi.
“Það var ekkert. Þetta er bara það sem allir eru búnir að vera reyna fá þig til að gera í heilt ár, mér einfaldlega tókst það.”

Fenecca tók eftir því að McGonagall horfði brosandi á þær þrjár þegar þær gengu inn. Hún lyfti glasinu sínu lítillega eins og til að skála fyrir þeim. Restin af fólkinu sem var þarna starði einfaldlega á þær. Óvinskapur þeirra þriggja hafði ekki beinlínis verið leyndarmál í skólanum.
“En Fenc, hvernig förum við að núna? Þú vilt ekki koma nálægt James og Siriusi og James er fjandans kærastinn minn!” sagði Lily. Fenecca yppti öxlunum.
“Seinni tíma vandamál, núna ætlum við þrjár að sitja einar og éta,” sagði hún.
“Heyrðu stelpa, þú þarft að sitja fyrir framan mig eins og í gamla daga,” sagði Jackie þegar þær komu að borðinu. Fenecca nennti ómögulega að hlaupa fyrir endann út af duttlungum Jackiear.
“Fólk, færið ykkur aðeins eða það verður sparkað í ykkur,” sagði hún við þau sem sátu hinu megin. Svo lét hún hendurnar á borðið og vippaði sér listilega yfir það.
“Hvar lærðir þú að gera þetta?” spurði Lily forviða og settist niður.
“Rússlandi. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað maður þarf að vera snöggur til að forðast eldstrók sem kemur allt í einu æðandi á móti manni!”
“Já! Boris Ivanovitsj er pabbi þinn, hvernig er það eiginlega? Var það ekki skrítið fyrst? Hann var kennarinn þinn,” sagði Jackie, augun galopin og eyrun áreiðanlega líka ef hún gæti opnað þau eitthvað betur. Fenecca fór að segja þeim hvað hafði gerst hjá henni yfir sumarið með Boris. Svona næstum því allt, hún sleppti hlutanum þar sem hún framdi næstum sjálfsmorð.

“Hið ótrúlega hefur gerst, Lily og Jackie hafa samið frið við Feneccu. Hvað segið þið við því?” sagði James Potter og kom til þeirra þegar þær voru að klára eftirréttinn.
“Ég veit það að ég þarf ekki að segja mikið við þig,” sagði Fenecca og gætti þess að horfa ekki á hann.
“Æi, Fenecca, ekki láta svona, það…” Fenecca lyfti upp hendinni fyrir framan andlitið á James.
“Talaðu við höndina,” sagði hún og brosti til Jackiear.
“Ég sagði að þetta yrði vandamál,” sagði Lily og leit á Feneccu. Hún yppti öxlum.
“Ekki skil ég hvernig þú fórst að því að byrja með kvikindi eins og honum, en ég hef á tilfinningunni að út af því að ég var ekki á svæðinu til að halda aftur af þér, þá hafir þú stokkið á hann,” sagði Fenecca. Lily gaf frá sér snöggan hlátur. Núna voru Remus, Sirius og Peter að koma inn í Salinn.
“Hvað segið þið um að fara ekki seinna en núna?” sagði Fenecca og stóð upp. Lily og Jackie stóðu líka upp, en Lily þurfti að kyssa James áður en hún fór burt.
“Fenc, getum við ekki aðeins talað,” sagði Sirius og flýtti sér að henni áður en hún fór lengra.
“Nei,” svaraði hún ákveðin. Sirius fórnaði höndum.
“Ekki láta svona, ég hélt að…” Fenecca stoppaði hann í miðri setningu með því að slá hann fast utan undir. Enn fastar en seinast, þökk sé vöðvum sem hún hafði fengið yfir sumarið í Rússlandi.
“Ah!” stundi Sirius og greip um kinnina.
“Verði þér að því,” muldraði Fenecca og strunsaði í burtu.
“Fenecca, ertu að reyna að gera síðasta ár okkar að sápuóperu? Þetta er verra en Leiðarljós!” hrópaði Jackie hlæjandi og hljóp á eftir henni.
“Það sakar ekki að gera seinasta ár okkar eftirminnilegt. Fólk má ekki gleyma okkur,” sagði Fenecca og hélt áfram að stika áfram.
“Geturðu ekki reynt að semja frið við þá líka?” sagði Lily og flýtti sér til að ná Feneccu og Jackie. “Hugsaðu aðeins, ég var við það að fara bara í burtu þegar þú komst en svo þegar þú varst næstum farin að gráta þegar þú sagðir eitthvað við Remus gat ég ekki gert meira. Ég hef talað við James um þetta, hann sagði mér að þetta hefði verið nokkurs konar lokaráð, svo langaði hann að sjá Sirius með stelpu lengur en mánuð,”
“Já, og þeir þurftu að velja mig. Ég vildi ekki segja ykkur það áðan, en ég framdi næstum sjálfsmorð í sumar því mér fannst líf mitt svo ömurlegt og viðbjóðslegt. Ég átti enga vini, mamma mín, stjúppabbi og litli bróðir voru myrt, ég var greinilega það ömurleg að eina ástæðan fyrir því að einhver myndi vilja byrja með mér var ef það var til að nálgast einhverja aðra stelpu…” Fenecca brast í grát núna en Lily og Jackie flýttu sér að gera skyldur sínar sem vinkonur og föðmuðu hana að sér
“Fenecca, geturðu ímyndað þér hversu ömurleg veröldin væri ef þú værir ekki í henni? Það væri hryllingur að hafa þig ekki hérna. Lofaðu okkur að þú munir aldrei nokkurn tímann reyna að gera svona lagað aftur. Það að fremja sjálfsmorð er leiðin sem gungan fer til að losna frá vandamálum sínum í staðin fyrir að takast á við þau. Þú ert ekki manneskja sem flýr, þú stendur sterk á móti öllu,” sagði Jackie. Fenecca starði á hana.
“Jacquline, þetta var án efa eitthvað það gáfulegasta sem þú hefur á allri þinni ævi sagt!” sagði hún.
“Og mun segja,” bætti Jackie við.
“Þið eruð yndislegar. Og ég veit að þetta er eins og versta sápuópera, en mér er alveg sama því þið eruð án efa bestu vinkonur sem ég gæti hugsað mér!”

Fenecca gekk rólega meðfram tjörninni. Það var morgunn og varla nokkur sála komin á fætur. Ekki skrítið, sólin var ekki einu sinni komin upp.
“Er þetta ekki aðeins of snemmt til að fara út að ganga?” sagði einhver. Fenecca hrökk við og leit í kringum sig. Það eina sem hún sá var tré.
“Ha?” sagði hún og gekk nær trénu. Þar fyrir aftan stóð Severus Snape glottandi.
“Þér brá,” sagði hann einfaldlega.
“Og hvað með það?” spurði Fenecca og roðnaði aðeins. “Hvað gerðist?” bætti hún svo við og hnykkti höfðinu í átt að sári sem hann hafði á kinninni. Það lak blóð úr því.
“Ég var ekki að fylgjast með því hvert ég var að fara og fór að Eikinni armlöngu,” útskýrði hann og þurrkaði blóðið með erminni.
“Ó.”
“Þú ert búin að semja frið við Evans og Toqué, er það ekki?” Þetta var ekki spurning, heldur sagði hann þetta sem blákalda staðreynd.
“En ekki við Black og Potter,” bætti Fenecca við. Severus kinkaði kolli.
“Ég veit. Fallegur kinnhestur sem þú gafst honum, sérstaklega glóðaraugað sem það skyldi eftir sig. Fékkstu alla þessa vöðva frá drekaumönnun í Rússlandi?”
“Jebb.”
“En Lupin og Pettigrew?”
“Remus er vinur minn. Mér er skítsama um Pettigrew, hann má halda áfram að vera tuskan þeirra,” sagði Fenecca og hélt áfram að ganga með Severus við hlið sér.
“Tuskan þeirra?” spurði Severus virðulega.
“Hann gerir allt sem þeir segja honum að gera, þótt það sé að þrífa nærfötin þeirra! Það eitt að hann fær að umgangast þá er honum næg umbun. Hann er aumingi út í gegn,” sagði Fenecca og leit í kringum sig. Sólin var að fara að koma upp.
“Heyr, heyr,” sagði Severus. Þau héldu áfram að ganga í þögn.
“Hvað ætlarðu að gera þegar þú klára skólann?” spurði Fenecca forvitin.
“Ég er ekki viss. Eitthvað með töfradrykki býst ég við.” Fenecca sá votta fyrir roða á kinnunum. “Ég er að hugsa um að reyna að gerast töfradrykkjameistari.” Fenecca brosti til hans.
“Í alvöru? Ef það er eitthvað sem þú gætir gert, þá er það þetta. Severus Snape, töfradrykkjameistari. Það hljómar vel!” sagði Fenecca. Eitthvað sem hefði getað verið lítið bros sást á Severusi.
“Hvað með þig?” spurði hann til að beina umræðunni frá sér.
“Eitthvað með dýr. Ég er að hugsa um að gerast drekameistari, það yrði frábært,” sagði Fenecca dreymin.
“Drekameistari?”
“Já. Þá get ég tamið dreka, séð um dreka og gert svo að segja hvað sem er sem tengist drekum,” útskýrði hún. Boris hafði minnst á það um sumarið að hún ætti að hugleiða að gerast drekameistari. Hugmyndin var nokkuð góð.
“Það eru til vitlausari hlutir sem þú gætir orðið,” sagði Severus. Fenecca kinkaði kolli. Þau voru að nálgast Hogwarts aftur og sólin var komin upp.
“Kvíður þú fyrir prófunum?” spurði Fenecca.
“Aðeins.”
“Ég á eftir að fá taugaáfall,” stundi Fenecca.
“Þú ert of sterk. Þú getur þetta alveg ef þú lætur þig hafa það að lesa aðeins meira.”
“Ég reyni, ég reyni.”

Janúar flaug hjá ásamt febrúar og mars. Allt í einu voru kennararnir farnir að tala um M.U.G.G.ana sem þau áttu að taka í júní. Það var apríl, fjandinn hafi það! Það voru þrír mánuðir í prófin.
“Ég ætlast til þess að þið gerið ykkar besta og fáið háar einkunnir. Ég vil að þið sýnið að þið hafið í raun og veru lært eitthvað hérna síðastliðin 7 ár,” sagði McGonagall við 7.árs Gryffindor-nemana. Þau kinkuðu hlýðin kolli.
“Framtíð ykkar getur oltið á því hvað þið fáið á þessum prófum svo það er ykkur í hag að gera ykkar besta,” hélt hún áfram. Þau umluðu jájá og kinkuðu aftur kolli.
“Ef þið hafið einhver vandamál í sambandi við prófin megið þið koma og tala um þau við mig og við reynum í sameiningu að laga það. Takk fyrir, þið megið fara,” sagði hún. Allir stóðu fegnir upp og flýttu sér út.
“Sjáið þið þetta ekki þetta fyrir ykkur, McGonagall að hlusta á vandamál okkar!” sagði Jackie og brosti út að eyrum.
“Guð. Minn. Góður,” stundi Fenecca. Það var nokkuð sem hún gat ekki séð fyrir sér.
“Talandi um hið ómögulega, Fenecca, ætlarðu að semja frið við…” byrjaði Lily en Fenecca hristi höfuðið.
“Nei, ég ætla ekki að semja frið við þá. Mér er nokk sama þótt hann sé kærastinn þinn, ég ætla ekki að fyrirgefa honum. Búið mál,” sagði Fenecca. Lily stundi. Það hafði verið hræðilegt álag á hana að hafa Feneccu sem vinkonu aftur og James sem kærasta. Fenecca hafði tekið upp á því að láta sem James og Sirius væru ekki til og það gekk mjög vel. Hún vissi ekki af hverju Remus var í náðinni hjá Feneccu, en það gæti tengst því að hann hafði fengið hana til að friðmælast við sig. Maður vissi aldrei.
“Það sakar ekki að reyna,” áminnti Jackie. Fenecca hnussaði.
“Ég ætla ekki að láta heimska stráka koma upp á milli okkar aftur,” sagði hún.
“Ah, en hvað með karlmenn? Ég get ALVEG fullvissað þig um að James er ekki strákur,” sagði Lily og glotti aðeins.
“Of miklar upplýsingar,” muldraði Fenecca og stakk puttunum í eyrun.
“Hvernig heldurðu að mér hafi liðið, alein, að hlusta á hana? Guði sé lof að þú ert komin aftur!” sagði Jackie.
“Þú áttir það örugglega skilið. Heyriði, ég ætla að skreppa á bókasafnið. Sjáumst!” sagði Fenecca og flýtti sér í burtu. Lily og Jackie litu á hvor aðra. Fenecca Crock að fara sjálfviljug á bókasafnið?
“Bö,” sagði Fenecca sem stóð fyrir aftan Remus.
“Ég heyrði þig koma,” sagði hann og dró fram stól við hliðina á sér. Fenecca settist niður og leit á pergamentið hans sem var útkrotað.
“Hvað í ósköpunum ertu búinn að gera við aumingja pergamentið?” hvíslaði hún forviða. Það var útkrotað í línum og fígúrum og bara krassi yfir höfuð.
“Ég gat ekki einbeitt mér,” svaraði hann afsakandi.
“Þú ert verri en ég í sögu galdranna.”
“Ég þakka hrósið,” sagði Remus og brosti til hennar. Fenecca skellti skólatöskunni sinni á borðið.
“Viltu hjálpa mér að fara yfir? Það getur enginn séð neitt undarlegt við það, er það nokkuð?” sagði hún. Remus hafði verið harður á því að halda sambandi þeirra leyndu fyrir öllum, líka Lily og James og hinum.
“Gætirðu kannski gert mér greiða, Fenc?”
“Hvað?”
“Talað við Sirius. Hann er að verða brjálaður,” sagði Remus og leit snöggt í kringum sig til að vera viss um að Sirius væri hvergi nálægt.
“Ég hef ekkert við hann að segja.”
“Gefðu honum í það minnsta ástæðu fyrir því af hverju þú vilt ekki sættast við hann, það gæti fengið hann til að þegja. Ég er yrði mjög ánægður,” sagði Remus.
“Æi. Ég get ekki talað við hann án þess að vilja lemja hann, ég ræð ekki við það. Því miður.”
“Ég held að þú hafir orðið árásargjörn af því að vera í Rússlandi.”
“Gætir þú allavega verið nálægt ef ég tala við hann?”
“Jájá!” sagði Remus, feginn því að hafa fengið hana til að samþykkja þetta.

En örlögin höfðu annað í huga fyrir þau. Varnarmaður Gryffindor-liðsins hafði meiðst á æfingu fyrir þremur dögum og því sárvantaði varnarmann. Sirius Black, sem var formaður liðsins, fór því á fund Feneccu og bað hana að taka þátt í einum leik. Hún samþykkti það með semingi. Þannig atvikaðist það að þau þurftu að vera í kringum hvort annað og hafa friðsamleg samskipti. Allar persónulegar erjur átti að skilja eftir fyrir utan völlinn. Svo unnu þau leikinn, þökk sé frábærri markvörslu Feneccu sem hafði varið næstum öll skotin. Allir í liðinu föðmuðust og Fenecca snerti Sirius og James í fyrsta skipti í meira en ár. Þeir vildu endilega fá hana aftur sem markvörð, hún var miklu betri en sá sem hafði verið. Hún bað um smá frest til að svara. Lily var í skýjunum yfir þessu, viss um að núna væri Fenecca að fá smá vit í kollinn aftur. Eins og skáldið sagði, maður veit aldrei.
“Þið verðið aftur vinir og þá getum við öll verið saman! Það yrði svo gaman!” sagði Lily á leiðinni upp í Gryffindor-turn.
“Gaman saman,” muldraði Fenecca kaldhæðnislega.
“Já, er það ekki? Svona nú, þeir eru búnir að vera algjörir englar, er það ekki?”
“Það þýðir ekki að þeir geti ekki breyst aftur,” benti Fenecca á. Því miður gátu þær ekki farið í fýlu, andrúmsloftið í setustofunni var svo fullt af gleði að þær réðu ekki við brosin sem komu.
“Koma svo, viljið þið ekki aftur fá Feneccu í liðið?” kallaði Sirius sem stóð á öxlunum á Remusi og studdi sig við vegg. Allir hrópuðu já.
“Ég hef engan kúst, Black! Ég sá enga ástæðu til að taka minn með, þannig að því miður get ég ekki keppt,” kallaði Fenecca til að yfirgnæfa hávaðann. Sirius ætlaði að segja eitthvað en í því opnaðist málverkið og McGonagall kom inn.
“Málverkin eru að kvarta undan hávaðanum í ykkur. Herra Black, viltu koma þér af Remusi eins og skot!” sagði hún. Jackie gaf Feneccu olnbogaskot.
“Sirius að fara af Remusi? Það má misskilja það aðeins,” sagði hún.
“Elsku prófessor McGonagall,” sagði Sirius og gekk til hennar. Hann skellti annarri
hendinni á öxlina hennar. “Þér er mjög annt um Quidditch-lið Gryffindors, er það ekki? Væri það ekki gott að fá ungfrú Feneccu Crock aftur í liðið sem varnarmann? Hún er án efa sú besta sem við getum fengið.”
“Ef þú hættir að íþyngja mér með því að vera með hendina á öxlinni minni skal ég íhuga að svara þér,” sagði McGonagall. Sirius var snöggur að kippa henni burt.
“Jú, það væri mjög gott að fá Crock aftur í liðið ef hún vill koma aftur,” sagði hún og leit á Feneccu.
“Ég hef ekki kúst. Ég get þar af leiðandi ekki keppt.”
“Boris gaf þér einn, ekki satt? Fáðu hann sendan hingað.”
“Boris eða kústinn?” sagði Fenecca áður en hún gat ráðið við sig.
“Endilega, láttu senda Boris hingað. Ungfrú Crock, auðvitað er ég að tala um kústinn! Ekki vera svona mikill kjáni,” sagði McGonagall. Fenecca roðnaði aðeins en hélt áfram að brosa.
“Mér þætti ekkert að því að þú færir aftur að æfa með liðinu. Reyndar eigum við bara einn leik eftir, en það gæti orðið úrslitaleikurinn ef Huffelpuff vinnur Ravenclaw.”
“Þú ætlar að koma aftur er það ekki? Þetta er seinasti leikurinn sem þú getur spilað hérna! Síðasti leikurinn fyrir Gryffindor-liðið,” sagði Sirius.
“Ef Boris nennir að senda kústinn,” sagði Fenecca á endanum. Öll setustofan fagnaði.
“Gott er, viljið þið núna vinsamlegast lækka aðeins í ykkur hljóðið svo málverkin fái smá frið,” sagði McGonagall og gekk út.

Þeim hafði tekist það! Þau höfðu klárað M.U.G.G.ana! Fenecca var jafnvel viss um að henni hefði ekki gengið svo illa. Það hafði verið mikill kostur fyrir Remus að vera varúlfur núna, annars væri Fenecca búin að kreista hendurnar hans svo mikið að þær væru orðnar afmyndaðar. En núna gengu eftir auðum gangi og nutu þess að þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu nema lífinu. Reyndar, það var fullt tungl í kvöld. Remus hafði sagt henni frá Eikinni armalöngu og að strákarnir væru kvikskiptingar. Þegar hann sagði að Sirius væri svartur hundur fór Fenecca að hugsa.
“Mér finnst eins og ég eigi að muna eitthvað í sambandi við svartan hund. Ég er ekki alveg viss. Æi, vesen,” muldraði hún. Það var eitthvað sem hún átti að muna, hún var viss um það.
“Þeir ætla samt ekki að vera með mér í nótt. Þeir ætla að reyna að stelast í Hogsmeade og ná í hunangsöl og nammi,” sagði hann. Fenecca kinkaði kolli annars hugar.
“Má ég kíkja á þig í sjúkrahússálmuna á morgun?” spurði hún.
“Ætli það ekki.”
“Vonandi gengur þér vel. Bless,” sagði Fenecca og kyssti hann á órakaða hökuna. Svo gekk hún í burtu. Hún mætti pirruðum Severusi og glottandi Siriusi á leiðinni upp í turninn.
“Hvað gerðirðu núna?” sagði Fenecca við Sirius.
“Þetta var bara smá spjall á milli okkar,” sagði hann kæruleysislega. Fenecca leit tortryggnislega á hann. Hann var að plana eitthvað.

“Ef þú ferð ekki og stoppar hann þá sver ég að ég tala ALDREI við þig aftur!” var öskrað. Fenecca hrökk við og flýtti sér í setustofuna. Hún hafði verið sofandi í ca. 2 tíma. Lily stóð fyrir framan James og Sirius og leit út fyrir að ætla drepa þá með augnaráðinu.
“Ég fer, ég fer!” sagði James og flýtti sér út um málverkið.
“Ég er farin að tala við Dumbledore,” urraði Lily á Sirius.
“Lily! Hvað er að gerast?” kallaði Fenecca og flýtti sér niður.
“Ekkert sem kemur þér við,” urraði Lily.
“Tengist það Remusi?”
“Veistu….?” spurði Lily. Fenecca kinkaði kolli. Lily leit á Sirius. Fleiri hausar voru núna að athuga hvaðan þessi hávaði kom.
“Þú kemur með!” hvæsti hún á hann. Sirius stóð hægt upp.
“Hvað gerðist?” spurði Fenecca óþolinmóð. Lily svaraði ekki fyrr en þau voru komin fram á gang.
“Heimskinginn fyrir aftan okkur sagði Severusi Snape að hann gæti komist að því hvert Remus hverfur mánaðarlega ef hann potaði í kvistinn á Eikinni armalöngu. Fenecca, getur þú náð í McGonagall, ég næ í Dumbledore,” sagði Lily. Fenecca kinkaði kolli og beygði til hægri.
“Black, þú kemur með mér!” urraði Lily þegar hann ætlaði að fara á eftir Feneccu. Fenecca var of djúpt sokkin í hugsanir sínar til að taka eftir því. Ef James gæti ekki stöðvað Severus myndi Remus annaðhvort drepa hann eða breyta honum í varúlf. Það yrði hryllingur! Remus myndi aldrei geta lifað eftir það.
“Prófessor McGonagall!” kallaði hún og bankaði fast á skrifstofuhurð hennar.
“Prófessor!” hrópaði hún aftur. Eftir smá stund kom McGonagall fram.
“Hvað er að?”
“Sirius plataði Severus til að fara að Eikinni armalöngu! James fór að reyna stoppa hann, en það gæti verið of seint, Lily er að ná í Dumbledore og…” Fenecca gat ekki haldið áfram því McGonagall var farin að stika hratt af stað. Hjartað í Feneccu hamaðist. Það yrði ágætt að láta nemendur Hogwarts muna eftir þessum árgangi, en ef það féllst í því að í þessum árgangi var fyrsti nemandinn til að drepa annan… nei takk.
“Ég drep Sirius ef það hefur eitthvað komið fyrir hann,” muldraði Fenecca á meðan hún elti McGonagall. Þær voru fljótar að komast út en Dumbledore, Lily og Sirius voru þegar komin út.
“Albus?” kallaði McGonagall og fór enn hraðar. Fenecca velti því snögglega fyrir sér hvernig svona gömul kona gat farið svona hratt. Dumbledore ætlaði að svara henni þegar þau sáu hreyfingu hjá einni rótinni. Augnabliki síðar kom James út, dragandi Severus Snape á eftir sér. Hann virtist rotaður.
“Er í lagi með hann?” hrópaði Lily og hljóp til þeirra. Fenecca flýtti sér líka til hans.
“Hann sá Remus. Ég held að hann hafi ekki bitið hann eða neitt, en hann rak höfuðið í þegar ég togaði hann niður,” stundi James og renndi hendinni gegnum hárið sitt. Dumbledore ýtti Feneccu og Lily aðeins frá til að komast að Severusi.
“Severus?” kallaði hann. Hann tók undir höfuðið á honum og sló hann aðeins utan undir.
“Uhm?” muldraði hann og reyndi að opna augun.
“Severus, gerðu það vaknaðu,” sagði Lily og greip í höndina á honum. James og Sirius gátu ekki gert neitt annað en að stara.
“Svona nú frændi. Ekki vera þessi aumingi,” sagði Fenecca. Eftir smá uml opnaði hann augun alveg og leit undrandi í kringum sig. Fenecca stundi af feginleika. Svo leit hún á Sirius.
“Hvað er eiginlega að þér? Hann hefði getað dáið! Hann hefði getað verið bitinn! Ertu algjörlega búinn að missa vitið, fíflið þitt! Hvernig heldurðu að Remusi hefði liðið ef það hefði gerst? Ef hann hefði vitað að það væri honum að kenna að einhver annar sé varúlfur eða dáinn, hvernig heldurðu að honum hefði liðið? Heldurðu að hann gæti lifað með það á samviskunni?” öskraði Fenecca. Hún hafði verið farin að trúa því að kannski væri Sirius ekki svo slæmur, en þá þurfti hann að klúðra öllu með þessu.
“Hann getur kennt sjálfum sér um að vera með sitt stóra nef í því sem kemur honum ekki við. Hann er viðrini,” sagði Sirius.
“Segir sá sem notaði mig til að besti vinur hans kæmist nær Lily!” urraði Fenecca. McGonagall tók í öxlina á henni.
“Róaðu þig aðeins niður. Ef þú heldur áfram að hrópa svona vekurðu allan skólann,” sagði hún róandi. Fenecca herpti saman varirnar.
“Þakkaðu fyrir að ég sé ekki búin að gelda þig,” urraði hún þegar McGonagall fór frá henni.
“Albus, er í lagi með hann?” spurði McGonagall.
“Já, hann er bara aðeins vankaður eftir höfuðhöggið. Gætir þú farið með hann á sjúkrahússálmuna? Ég þarf að tala við herra Black, ég tala við Severus á eftir,” sagði Dumbledore.
“Dömur, gætuð þið farið með honum og haldið honum vakandi?” sagði hann og benti Feneccu og Lily á að fara með Severusi og McGonagall.

Það sem eftir var af nóttinni leið hægt. Fenecca og Lily töluðu við Severus til að halda honum vakandi næsta hálftímann eða svo, þangað til Dumbledore kom. Hann talaði við Severus í einrúmi, á meðan sátu þær og störðu út í loftið og biðu eftir að sólin kæmi upp. Einhverntímann án þess að þær tóku eftir því sofnuðu þær órólegum svefni, sitjandi upp við vegg. Þær vöknuðu þegar Pomfrey kom inn með Remus. Hann vissi ekki ennþá hvað hafði gerst um nóttina. Hver myndi segja honum það?
“Endilega verið kyrrar þarna aðeins lengur. Dumbledore ætlar að segja honum hvað gerðist,” hvíslaði Pomfrey að þeim. Þær kinkuðu kolli. Hvað annað áttu þær að gera?
“Og ég sem hélt að allt yrði gott fyrst við erum búin með prófin,” hvíslaði Lily með kökkinn í hálsinum.
“Nákvæmlega,” svaraði Fenecca. Hurðin opnaðist og James stakk úfnu höfðinu inn. Hann leit út fyrir að hafa ekkert sofið í nótt. Ekki að það kæmi á óvart. Lily stóð upp, hljóp til hans og faðmaði.
“Áttir þú einhvern þátt í því að senda hann þangað?” sagði hún.
“Nei! Ég vissi ekki af þessu fyrr en Sirius sagði það í gærkvöldi. Það var heimskulegt af honum, ég veit það. En það er allt í lagi með Snape, er það ekki?”
“Jú, ég held það. Hann er kannski í sjokki, en annað ekki. Hvar er Sirius?”
“Úti að hlaupa. Hann er svolítið pirraður. Pirraður er reyndar vægt til orða tekið. Ég veit ekki hvað Dumbledore sagði við hann,” sagði James. Fenecca leit undan. Hún gat ekki horft lengur á Lily og James vera svona fullkomin saman. Ótrúlegt en satt, þau pössuðu vel saman. Lily togaði James niður á jörðina og hann lét hana hlæja. Hún stundi lágt og gróf andlitið í höndunum. Hvað myndi gerast þegar þau færu úr skólanum? Það var í alvöru allt að fara til fjandans í galdraheiminum. Þeim breska í það minnsta. Reyndar voru fréttir af drápurum í Frakklandi og á Írlandi farnar að aukast. Hvað ef þeir færu til Rússlands? Nei, fyrst þyrftu þeir að komst fram hjá Danmörku, Þýskalandi og öllum þeim löndum. Boris og drekarnir voru líka það norðarlega, það yrði nærri ómögulegt að finna staðinn nema maður vissi af honum fyrir.
“Fenc?” sagði Lily. Fenecca leit snöggt upp, hún hafði ekki heyrt þau koma nær.
“Hvað?”
“Dumbledore var að fara til Remusar. Við fáum að heilsa upp á hann bráðum,” sagði Lily lágt. James hélt utan um axlirnar á henni. Fenecca kinkaði kolli. Hún fann tár brjótast fram og renna niður kinnarnar. Lily kraup fyrir framan hana.
“Hvað er að? Þetta er í lagi, það verður allt í lagi með Severus og Remus,” sagði hún. Fenecca hristi höfuðið, tárin léku enn.
“Nei, það er ekki það. Þið bara… hefur einhver sagt ykkur það? Þið eruð svo ótrúlega… ég á ekki einu sinni orð yfir það. Fullkomin. Þið eruð svo fullkomin saman, í alvöru,” sagði hún á milli ekkasoganna. Lily brosti og faðmaði hana að sér.
“HVAÐ ÞÁ?” hrópaði Remus allt í einu. Þau hrukku við og litu upp. Honum hafði greinilega ekki líkað það sem Dumbledore var að segja honum.
“Það verður gaman að vita hvað hann segir við Sirius næst þegar hann hittir hann,” sagði James.
“Það verður gaman að sjá hvort ég get haldið aftur af mér og drepi hann ekki næst þegar við hittum hann,” sagði Fenecca og glotti illkvittnislega.
“Þið megið fara til hans,” sagði Dumbledore þegar hann var á leiðinni út.
“Er herra Black ennþá úti?” spurði hann áður en hann lokaði hurðinni.
“Já. Hjá vatninu held ég,” sagði James. Svo flýttu þau sér að heilsa upp á Remus. Fenecca greip andann á lofti. Hún hafði aldrei fengið að sjá hann eftir fullt tungl. Hann leit hræðilega út! Það voru skrámur um allt andlitið og hann hafði aldrei verið svona veiklulegur.
“Remus…” hvíslaði hún og faðmaði hann varlega. Hann hélt utan um hana með annarri hendinni, hin var í fatla. Allt í einu varð Fenecca hrædd við framtíðina. Vinátta þeirra allra hékk á bláþræði, maður átti á hættu að verða myrtur ef maður var á vitlausum stað á vitlausum tíma og maður gat ekki treyst neinum. Bráðum myndi hún klára skólann, og hvað biði hennar þá? Óörugg framtíð? Hvernig myndi þetta allt enda?



Þetta var skrifað á innan við 24 tímum. Ég fékk vöðvabólgu o_O Svo hef ég hlustað á Hips don’t lie ca. hundrað sinnum, það var eina lagið sem ég hlustaði á meðan ég var að skrifa þetta. Mínus þetta sem ég er að skrifa núna, þá er kaflinn 10 blaðsíður. Og er þetta endirinn á Auga Eilífðar? Þið komist að því, ef ég sendi ekki inn annan kafla þá er þetta líklega endirinn, annars ekki. Mwahahaha!
Munið svo að gefa Aesu kex fyrir að hafa farið yfir kaflann! Eða… allavega fyrri hlutann. Þið verðið bara að afsaka það ef seinni hlutinn inniheldur fljótfærnisvillur eða einhverjar aðrar villur. Verið þið sæl.