Frá því hann var lítill hafði hann alltaf fengið meira en nóg af gjöfum. Undir trénu í stofunni var allt troðið af pökkum bara til hans. Hann fékk allt sem hann vildi. Allt sem hugurinn girndist og hann hendi gat lagt á. En ekki núna. Núna var allt breytt. Hann var einn og yfirgefinn. Faðir hans ennþá í Azkaban og móðir hans var horfin. Átján ára og einn á jólunum.

Hann sparkaði í steinvölu í garðinu þar sem hann var á gangi. Það var snjólítið þetta árið en samt nístingskuldi. Hann vafði þykkri og hlýrri ferðaskikkjunni að sér. Hann var meira einmana en nokkurn tímann áður. Þetta átti að vera tími gleði, friðar og fjölskyldutíma. En hann átti enga fjölskyldu, ekki sem var viðstödd allavega, og hann var ekki glaður.

Garðurinn var gjörsamlega tómur. Ekki ein einasta hræða var úti á þessum tíma enda allir að fagna jólunum. Það voru jólaboð hér og þar eða einfaldlega fjölskyldur að njóta matsins og gjafanna. Jóladagur var gleði í hugum flestra en ekki hjá Draco Malfoy. Hann gróf fölar hendurnar í vösunum á ferðaskikkjunni og gekk áfram. Þögnin og myrkrið umlukti hann í þessum almenningsgarði lítils bæjar í Suður-Englandi.

Það var nöpur gola sem lék um ljóst eyrnasítt hárið hans og hann gróf hökuna ofan í hlýtt hálsmál ferðaskikkjunnar. Allt í einu sá hann snjókorn falla og tók hendina úr vasanum og greip það. Hann opnaði lófann aftur til að sjá það bráðna við hitann sem streymdi frá honum. Hann andvarpaði og leit up til himinsins. Það var byrjað að snjóa og hann ætti kannski að fara að koma sér heim.

Hann tilfluttist aftur til Malfoy setursins og settist niður í stofunni. Ekkert tré, engar skreytingar, ekki neitt. Svo svona var það að vera einn. Það var ergjandi og þér fannst tíminn ekkert líða. Allt í einu birtist í huga hans mynd af Harry Potter í faðmi Weasley fjölskyldunnar.

Draco greip það sem hendi var næst og fleygði í vegginn af bræði og öfundsýki. Það vildi svo til að þetta var uppáhalds vasi móður hans, en honum var sama. Hann gat ekki hrist myndina úr hausnum á sér. Hann sá fyrir sér fullt hús af fólki að skemmta sér við söng og borða á sig gat. Draco gat borðað á sig gat líka! Og núna þegar hann hugsaði útí það var hann orðinn svangur eftir göngutúrinn sinn.

Hann stóð upp og gekk inn í borðstofuna um leið og hann kallaði á einn af húsálfum sínum og bað þá um að færa sér mat. Húsálfurinn hvarf samtundis og hóf matreiðslu fyrir meistara sinn. Draco hlammaði sér á einn stólinn við stórt borðið og gróf andlitið í höndum sér. Hann dró djúpt að sér andann og blés frá. Enn einn leiðindadagurinn. Ekki einu sinni ein lítil gjöf því engum var umhugsað til hans.

Matur birtist loks fyrir framan hann og hann byrjaði að borða. En það leið ekki á löngu áður en hann missti matarlystina aftur. Hann ýtti disknum frá sér og hallaði sér aftur í stólnum. Augun voru tómleg og starandi. Draco sat þarna í drjúga stund áður en hann ákvað að fara út aftur. Hann gat ekki verið hérna inni. Honum leið illa svo hann ákvað að tilflytjast annað. Heilsa uppá gamla vini.



Hermione Granger settist niður á bekk einum í St. Ottery Catchpole. Henni hafði verið boðið í jólamat hjá Weasley fjölskyldunni í Hreysinu. Hún hafði verið í stöðugu sambandi við Weasley fjölskylduna eftir stríðið og eftir að Ron dó. En hún gat ekki farið þangað akkurat núna. Hún vissi að Harry, Lupin, Tonks og fleiri yrðu þarna. Það voru bara minningarnar sem stoppuðu hana.

Öll sumrin sem hún hafði eytt með fjölskyldunni í Hreysinu og sérstaklega síðustu jól með Ron. Hún treysti sér ekki til að fara þangað strax. Þar sem hún sat á bekknum og hugsaði til þess að í Hreysinu hafði hún eytt einum af síðustu stundunum með Ron, láku tárin niður kinnarnar. Hún hengdi haus og spennti greiparnar og reyndi að finna styrkinn innra með sér til að tilflytjast þangað og hitta fólkið.

“Granger? Hvað ert þú að gera hér?” Sagði kuldaleg rödd ein alltíeinu. Rödd sem hún hafði ekki heyrt í langan tíma. Hermione leit upp og sá fölt andlit, ljóst hár og grá augu. “Malfoy!” Hreytti hún útúr sér og stóð upp, augun tárvot. “Það kemur þér ekkert við hvað ég er að gera hérna!” Hún snéri á hæl og ætlaði að storma í burtu frá honum því frekar vildi hún vera ein en með honum.

Draco ætlaði nú ekki að leyfa henni að hlaupa frá sér. Hann greip í upphandlegginn á henni og snéri henni við. “Ég spurði þig bara saklausrar spurningar! Óþarfi að bregðast svona við.” Sagði hann harkalega og kreisti hendina á henni. Hún starði á hann á móti og gnísti tönnum. “Slepptu mér!” Hvæsti hún á hann. “Nei.” Svaraði hann einfaldlega og lét hana setjast á bekkinn.

Hún starði fyrst á hann dolfallin. “Hvað viltu mér eiginlega?” Sagði hún svo og krosslagði hendur og fætur og leit frá honum.

“Fyrst ég sé þig hérna vildi ég biðjast fyrirgefningar.” Sagði hann og gróf hendurnar í vasana sem var orðinn vani hjá honum.

Augun á Hermione þöndust út og munnurinn opnaðist lítillega af undrun. “Ha?” Var það eina sem hún náði að stynja upp.

Draco kveinkaði sér og sneri sér undan. “Ég trúi ekki að ég sé að gera þetta!” Muldraði hann og snéri sér aftur að Hermione. Hann dró djúpt andann áður en hann endurtók það sem hann sagði. “Ég vil biðjast fyrirgefningar á hegðun minni frá því við kynntumst. Líf mitt er búið að vera ein kaós núna upp á síðkastið, eftir að hinn myrki herra féll, og hef ég reynt að byggja það aftur en fólk leggur lítið traust á mig. Ég er nú Malfoy eftir allt saman.” Síðasta setningin var sögð með stolti, en augun sviku hann og virtist hann vera pirraður af því fólk treysti honum ekki.

Hermione gapti og hendurnar féllu niður með síðum. Hún átti ekki til orð. Hver var þetta? Hvað var að gerast? Þetta var ekki Malfoy! Þetta myndi ekki nokkur skapaður maður heyra frá Malfoy! Það fyrsta sem hún sagði eftir stundarþögn var: “Hver ertu?”

Draco ranghvolfdi augunum og kreppti hnefana í vösunum. Hann kom til að biðjast einfaldrar afsökunar og hann fær enn minna traust frá henni en öllum öðrum! Þegar hann hugsaði útí það var það svosem ekki skrítið miðað við hvernig hann kom fram við hana.

“Draco Malfoy! Ég er ekki að grínast í þér, ég er ekki bara að þessu til að vinna mig upp metorðastigann til að koma mér í mjúkinn hjá ráðuneytinu, ég vil bara að einhver hafi það í sér að fyrirgefa mér!” Hálfæpti Draco á hana. “Og ég var að vonast til að þú myndir gera það í kvöld núna þegar ég rakst á þig.” Hann lækkaði röddina og renndi höndinni órólega í gegnum hárið á sér.

Hermione starði á hann. Margar tilfinningar börðust innra með henni. Í fyrsta lagi var hún reið. Hvað í andskotanum var hann að gera hérna, rétt hjá heimili Rons?! Sársaukastingur fór um hjartað þegar hún hugsaði um Ron. Í öðru lagi vorkenndi hún honum smá. Í þriðja lagi var hún hissa á að hann væri að biðjast fyrirgefningar fyrir hegðun sína. Ó svona síðustu 8 árin. Af hverju núna? Hvað var svona öðruvísi núna?

En hann hafði samt sannað sig síðasta árið við vinnu hjá ráðuneytinu. Samt var Malfoy alltaf Malfoy og ekkert átti að geta breytt því. Er það?

Of margar spurningar sveimuðu um í kollinum á henni en hún fór eftir tilfinningum sínum. “Segðu mér eina ástæðu af hverju ég ætti að fyrirgefa þér. Eina MJÖG góða ástæðu og ég skal íhuga málið.” Sagði hún kuldalega og beið.

Draco hugsaði málið vel og vandlega. Af hverju ætti hún að fyrirgefa honum? Góð spurning. Of góð. Því hann var breyttur? Einamana og yfirgefinn? Hann braut þvert á bak allar lífsreglur sem voru honum lagðar með því einu að tala við hana. Hún var blóðníðingur en hann var með hreint blóð. En hann vissi að hún var skynsöm. Að það sem Hermione stóð frammi fyrir, hugsaði hún röksamlega um málið. Hann varð að reyna á það.

“Af því að þú ert skynsöm. Skynsamari en allir aðrir sem ég þekki og þótt að þú hafir þekkt mig í gegnum öll þessi ár sem þann sem níddist alltaf á þér, þá vonaðist ég til að þú reyndir að sjá málið frá öllum hliðum. Að það sem hefur gerst núna síðustu 6 mánuði hefur breytt okkur öllum. Mér þar með töldum.” Hann hikaði og leit snöggt í kringum sig á allar muggajólaskreytingarnar. “Svo eru nú jólin. Það hefur alltaf verið tími fyrirgefningar ekki satt?” Og hann brosti dauflega. Þetta var hans síðasta von.

Hermione hélt að það ætlaði bókstaflega að líða yfir hana. Var Malfoy að brosa til hennar? Þetta var of mikið fyrir eitt kvöld! “Ég trúi þessu ekki!” Tuldraði hún og leit niður á hendurnar á sér sem núna gripu í sætisbrúnina. Hann hafði góðan punkt. Síðustu 6 mánuðir höfðu breytt þeim öllum á einn hátt eða annan. Og bara þetta, að biðjast fyrirgefningar var mikil breyting fyrir hann. Var það nokkuð um of?

“Jú, satt er það.” Sagði Hermione en gat ekki með nokkru móti brosað. Hún andvarpaði. Átti hún að fyrirgefa honum? Eiga allir virkilega skilið annan séns, sama hvernig þeir hafa komið fram við mann? Og í guðanna bænum þetta var Malfoy! Hún renndi augunum einu sinni yfir piltinn sem stóð fyrir framan hana. Hann bar sig vissulega öðruvísi. Ekki sami hrokinn og yfirgefnin, þó það væri enn til staðar. Hvernig gat hún samt verið viss um að þetta væri hann? Glott breiddist stuttlega um varir hennar.

“Aðeins ein spurning áður en ég segi þér hvað ég hef ákveðið.” Svaraði Hermione loks og Draco kinkaði ákaft kolli, vongóður að núna fengi hann loks fyrirgefningu. “Ég vil bara vera viss um að þú sért sá Draco Malfoy sem ég gekk í skóla með.” Hún lyfti annarri augnbrúninni illkvittnislega. “Hvaða ár var það sem ég sló þig utanundir?”

Draco stundi. “Þurftiru að spurja að þessu? Veistu hvað það var smánarlegt að láta stelpu slá sig? En það var á þriðja árinu okkar. Sátt?” Svaraði hann æstur og bandaði frá sér höndunum.

Glottið hélst ennþá á henni og hún kinkaði rólega kolli. “Viðbrögðin voru allt sem ég þurfti.” Hún stóð upp og í þetta skipti hélt hann ekki aftur að henni. Hún gekk upp að honum og starði inn í augun á honum til að reyna að leita að einhverju merki um að hún ætti að hætta við ákvörðun sína. Hún fann að andardráttur hans varð stuttur og hugsaði að hann vildi virkilega fá þessa fyrirgefningu þar sem hann var svona taugaóstyrkur.

“Ég vil trúa því að flest fólk á skilið annan séns. Og já við höfum öll breyst, þú hefur rétt fyrir þér. Ekki að gleyma að jólin eru tími fyrirgefningar rétt eins og þú sagðir sjálfur Malfoy. Ég gef þér þinn annan séns. Ég fyrirgef þér. En ég vona það þín vegna að þú klúðrir honum ekki!” Sagði hún ákveðið og gat ekki að því gert en að endurgjalda daufa brosið. Þetta var byrjun.

Miklu fargi virtist af Draco létt. Hann lokaði augunum andartak og andaði frá sér. Svo opnaði hann augun þar sem þau mættu hennar. Hann brosti. Hann virkilega brosti. Það var einhver sem fyrirgaf honum og hann gat ekki lýst tilfinningunni. Áður en hann náði að stoppa sjálfan sig, kyssti hann hana á munninn. Hann fann hvernig hún stífnaði upp við það í varnarskyni en honum var sama. Hann vildi sýna þakklæti sitt.

Þegar hann dró sig frá henni þá horfði hún skringilega á hann. Eins og blandaðar tilfinningar væru innra með henni og vissi ekki hvernig hún átti að sér að vera. “Ég verð eiginlega að játa að ég bjóst aldrei við að segja þetta við þig en…” Hann hikaði. “Takk fyrir Hermione. Þetta er mér mikils virði.” Hann brosti aftur, steig frá henni og tilfluttist aftur heim.

“Það var lítið Draco.” Hvíslaði hún þegar hann var farinn, starandi útá götuna þar sem hann hafði staðið. Hún tók varla eftir því þegar hún sjálf tók sprotann sinn og tilfluttist í Hreysið.

Þegar hún gekk inn um dyrnar með fjarrænt augnarráð, hnyklaðar brýnnar og glott á vörum þá hoppaði Harry á hana. “Hermione! Ég var svo áhyggjufullur! Við öll vorum það. Ég er fegin að þú ert loksins komin. Hvað…” Harry lyfti brúnum þegar hann leit á svipinn á henni. “Hvað kom fyrir þig?” Spurði hann forvitnilega.

“Ó þú átt aldrei eftir að trúa mér!”



Eep, svolítið langt. En jæja. Vona að fóli líki vel. :)
Non fui, fui, non sum, non curo.