Lucia White - Undarlegir atburðir í Hogwarts - 5. kafli
Eftir síðasta tíma á fimmtudeginum var Lucy í virkilega vondu skapi. Þetta var fyrsta vikan, og Snape var búin að setja þeim fyrir eins og hálfs metra ritgerð, McGonagall ætlaðist til þess að þau gætu breytt teskeið í blýant fyrir næsta tíma, og prófessor Grubbly-Plank vildi fá nákvæma mynd af einhyrningum og heila pergamentsrúllu um atferli þeirra.
“Oh, sjáið veðrið!” Hvæsti Lucy þegar hún, Steph og Eve gengu framhjá einum glugganum á fimmtu hæðinni. Úti var glampandi sólskin og yngri nemendur sem ekki höfðu heimanámshrúgu yfir höfði sér spókuðu sig í góða veðrinu, kitluðu risa-smokkfiskinn undir örmunum og tefldu í skugga trjánna.
Steph leit út og dæsti, en Eve virtist ekki vera að hlusta. Hún var horfin bakvið gamlan og krumpaðan pergamentsbút. Lucy stoppaði og hnippti í Steph sem leit við.
“Hvað er þetta, varstu að stela frá fornminjasafninu?” spurði Lucy og bakkaði til Eve.
“Ha, fornminja, hvað?” svaraði Eve annars hugar, “þetta er eitthvað undarlegt kort.” Hún leit upp og hristi ljóst hárið frá andlitinu.
“Má ég sjá” Lucy tók við kortinu sem Eve rétti henni. Á pergamentinu virtist vera nákvæmt kort af Hogwarts og skólalóðunum. Litlir svartir deplar hreyfðust útum allt kortið, og þegar hún rýndi betur í það sá hún að deplarnir voru örsmáar manneskjur, og fyrir ofan hverja manneskju var letrað nafn. Hún skimaðu um kortið og sá að á fimmtu hæð, nákvæmlega þar sem hún stóð, var teiknuð lítil mannvera og fyrir ofan hana var skrifað “Lucia White”, fyrir aftan hana stóð svo agnarsmá Steph og við hliðina á þeim ofurlítil Eve.
“Vá!” stundi Steph, sem hafði verið að lesa yfir öxlina á Lucy “þetta, þetta er einhverskonar lifandi kort! Sko, sjáiði, þarna er Filch að elta Peeves, og þarna” hún benti á staðin þar sem Lucy sýndist Griffyndorturninn vera “þarna eru Meredith og Katie!”
Lucy snéri sér að Eve. “Hvar fannstu þetta eiginlega?”
“Þetta lá bara þarna, rétt hjá stóru brynjunni,” hún benti á herklæði við hornið á ganginum. Lucy leit þangað, og sá tvo eldrauða hausa koma í ljós handan hornsins. Fred og George Weasley komu skálmandi eftir ganginum, mjög æstir að sjá.
“Hvar heldurðu að þú hafir misst það?” spurði annar þeirra hinn.
“Ég veit það ekki, en ég leit síðast á það þegar við komum upp stigann,” svaraði sá sem Lucy sá núna að var Fred.
Hún leit niður á kortið í höndunum á sér, og svo aftur á áhyggjufulla tvíburana sem færðust nær þeim eftir ganginum án þess að taka eftir stelpunum. Þetta kort væri alveg örugglega eitthvað sem þeim þætti sniðugt…
“Hæ strákar” sagði hún og horfði rannsakandi á þá. Þeir snarstoppuðu, litu á Lucy og svo kortið í höndunum á henni. Þeir litu vonleysislega á hvorn annan.
“Hvað er þetta eiginlega, eitthvað lifandi ko-“
“Uss!” Greip George fram í fyrir Steph “komiði, hingað inn”
Hann dró þau inn í tóma kennslustofu.
”Jæja” Eve setti hendur á mjöðm og horfði rannsakandi á Fred og George “Hvað er þetta?”
***
“Jæja, megum við þá fá það aftur?” spurði Fred þegar George var búinn að útskýra eiginleika kortsins fyrir stelpunum.
”Já, auðvitað. En, vitiði hvort það sé til einhverstaðar annað svona kort?” spurði Steph vongóð og rétti Fred kortið.
”Nei, örugglega ekki” svaraði hann annars hugar “Ætlunarverk heppnaðist.” Muldraði hann svo og sló létt á kortið með sprotanum.
”Hvernig sögðuð þið aftur að maður kæmist til Hogsmeade?” spurði Lucy. Það gæti alveg örugglega verið nytsamlegt að geta skroppið þangað þegar maður vildi.
George leit á Fred, en sagði svo “ Ef við segjum ykkur það, lofiði þá að segja engum, hvorki frá kortinu né göngunum?”
”Já” svöruðu þær allar í einu.
”Sko, við vorum búnir að segja ykkur frá eineygðu norninni, já, þið sláið bara laust á kryppuna á henni með sprotanum og segið ‘Dissendium’.Ánægðar?” Þeir litu út fyrir að vera frekar spældir.
”Já, alveg himinsælar” Svaraði Lucy fyrir munn þeirra allra og brosti breitt.
Þegar þær voru aftur komnar fram á ganginn byrjuðu þær allar að tala í einu.
”Við verðum að prófa þetta!”
”Hvar ætli þeir hafi fengið það?”
”En hvað með heimanámið?”
”Heimanámið? Við vorum að uppgötva” Steph lækkaði róminn niður í hvísl þegar þær löbbuðu framhjá hópi af flissandi fjórða árs nemum “að við getum farið og skemmt okkur í Hogsmead, og þú hugsar um heimanám?”
”Jæja, allt í lagi þá…” Og eftir tíu mínútur stóðu þær tilbúna fyrir framan eineygðu nornina.
”Ætli sé ekki best að tvær fara og athugi hvort nokkur sé að koma?” stakk Steph uppá. Hinum tveim fannst þetta góð hugmynd, svo Lucy og Eve hlupu að sitthvorum enda gangarins. Eftir að hafa gengið út skugga um að enginn væri alveg á leiðinni að koma, hlupu þær til Steph sem var búin að opna kryppuna og renndu sér svo niður, hver á fætur annari.
Lucy fannst þær vera að renna á einhverskonar rennibraut ofan í jörðina. Hún heyrði Eve súpa kveljur fyrir aftan sig og Steph flissa fyrir framan sig. Þetta var næstum því gaman þangað til hún féll niður á jörðina. Steph gaf frá sér hljóð einsog þegar loft lekur úr blöðru þegar Lucy og Eve hlunkuðust ofaná hana.
”Ái! Passið ykkur!” stundi Steph neðst úr hrúgunni.
”Hey, við gátum ekkert af þessu gert” svaraði Eve og stóð upp.
Gólfið var rakt og kalt, úr mold. Þegar þær voru allar komnar á lappir aftur sáu þær, ja, ekki neitt. Það var kolsvarta myrkur. Þær lyftu sprotunum sínum og muldruðu ‘Lumos’. Ljóstýrurnar af sprotunum lýstu upp umhverfið og sáu þær að þær voru staddar í þröngum og lágum göngum.
Lucy fann hvernig Eve greip um handlegginn á sér og hélt með hinni hendinni í vegginn.
”Svona, Eve, þetta er allt í lagi. Fred og George hafa farið hérna örugglega milljón sinnum” sagði hún hughreystandi.
”Já, en sjáðu, þetta er bara úr mold, kannski hrynur þetta og við verðum lokaðar hérna til eilífðar!” svaraði Eve, frekar skrækum tón. Hún hafði þjáðst af innilokunarkennd síðan hún lokaðist inni í kústaskáp þegar hún var 6 ára.
”Við verðum bara fljótar” svaraði Steph hress og hraðaði göngunni.
Þó þær hröðuðu sér einsog þær gátu í þröngum göngunum tók það langan tíma, og Eve var farin að skjálfa örlítið þegar þær fundu að hlykkjóttur stígurinn var farinn að halla upp í móti. Eftir stutta stund komu þær að steinþrepum sem virtust hafa munað sinn fífil fegurri. Þrepin virtust ætla að liggja uppí himnaríki, þangað til loksins Steph snar stoppaði með þeim afleiðingum að Lucy og Eve rúlluðu næstum því niður tröppurnar aftur.
”Af hverju þarf ég alltaf að fara fyrst?” spurði Steph og nuddaði auman kollinn sem hún hafði rekið uppí loftið.
”Æjji, hættu að væla” svaraði Eve. Hún hafði hressts um helming á leiðinni upp tröppurnar og var orðin hin kátasta.
”Ókey, þessi hleri liggur örugglega upp í eitthvert hús í Hogsmead, þannig við verðum að læðast og hafa hljótt.” Hálf hvíslaði Lucy á meðan Steph ýtti hleranum varlega upp. Þær klifruðu upp, hver á fætur annarri. Þær voru staddar í kjallara. Hann var fullur af kössum og tunnum. Þær læddust í átt að tréstiganum sem lá uppá næstu hæð. Lucy heyrði óm af jazz músík berast innan úr herberginu. Steph ýtti upp hurðinni og Lucy sá að þær höfðu komið inní kjallarann á Sælgætis Baróninum. Hún læddist á eftir Steph, bogin í baki framhjá búðarborðinu. Bakvið það sat þéttvaxinn, sköllóttur maður, las í bók og hummaði með jazzinum.
Þær flýttu sér einsog þær gátu að hurðinni, og vonuðu að maðurinn tæki ekki eftir þeim. Steph tók í hurðina, opnaði hana og lokaði aftur. Þær réttu úr sér og gengu sakleysislega inn.
”Góðan daginn, dömur.” Sagði maðurinn og brosti.
”Góðan daginn” svarði Lucy.
Þær yfirgáfu búðina aftur hálftíma síðar með vasana fulla af Sykurfjaðurstöfum, Fjölbragða Baunum Berta Bott og Besta Kúlutyggjói Bubba.
”Vá, hvað það er heitt,” dæsti Lucy og fór úr svartri skikkjunni, “hvert eigum við að fara?”
”Umm… Komiði á Þrjá Kústa?” sagði Eve og benti í áttina að kránni.
”Halló, stelpur” sagði Rosmerta þegar þær gengu inn.
”Hæ, Rosmerta,” svaraði Steph og gekk að afgreiðsluborðinu “þrjár flöskur af einhverju köldu.”
Þær sátu og skemmtu sér á Þremur kústum í um það bil tvo klukkutíma.
Eve þurfti að fara á pósthúsið, svo um sex leitið yfirgáfu þær kránna og fóru út aftur. Sólin var gengin til viðar og byrjað að dimma úti. Þær flýttu sér yfir að pósthúsinu og Eve sendi afmælisgjöfina til mömmu sinnar með pósti.
Þegar pakkinn var kominn örugglega í hendurnar á gömlu norninni á pósthúsinu settust vinkonurnar á bekk úti í smá stund, tímdu ómögulega að fara heim strax.
Einsog þær voru ólíkar þá smellpössuðu þær saman og höfðu verið bestu vinkonur síðan á fyrsta ári. Eve var hávaxin og grönn, með sítt, næstum hvítt hár sem náði niður á rass, ljósblá augu og rósrauðar varir. Válublóð var í æðum hennar og þessi litli skammtur af genum sem hún fékk frá ömmu sinni virtist alveg virka á strákana, Eve til óblandinnar gremju.
Steph var næstum höfðinu styttri en Eve, kubbsleg og brosmild. Hún var með brúnt hár niður á axlir, mógræn augu og nokkrar freknur sátu á kinnunum.
Og svo þriðja brauðsneiðinni í hinni þreföldu samloku, Lucy. Með sín bláu augu, litla nef og undarlega hár.
Þarna sátu þær og töluðu saman um allt milli himins og helvítis þangað til allt í einu tók Lucy eftir að hún sá ekki Eve, sem sat á hinum endanum á bekknum, þó hún heyrði í henni.
”Stelpur, annaðhvort er ég að verða blind, eða það er komið kolniðamyrkur.”
”Ahh!”, skríkti Eve, “Og við eigum eftir allt heimanámið!”
”Herra minn trúr barn! Við vitum ekki hvernig við eigum að komast heim, og þú hugsar, enn og aftur, um heimanámið!” skaut Steph að henni.
”Bíddu, bíddu, bíddu”, Eve hélt uppi hendinni til merkis um að Steph ætti að þagna. “Hvað áttu við með að við vitum ekki hvernig við eigum að komast heim? Hvað með þessi”, hún hryllti sig “göng?”
Lucy heyrði bara bergmálið af samræðum þeirra þar sem hún hafði labbað að Sælgætis Baróninum. Á hurðinni þar var stórt appelsínugult skilti sem á stóð:
Velkomin í Sælgætis baróninn!
Opnunartími:
Mánudagar – fimmtudagar: 13:00 – 16:30
Föstudagar: 15:00 – 20:30
Helgar: 10:30 - 21:30
“Stelpur… Það lítur út fyrir að við höfum smá vandamál hérna…” andvarpaði Lucy og labbaði til Eve og Steph.
”Hvað?”
”Það er búið að loka.”