Her kemur sma saga, verdid ad afsaka gaedin, hef ekki skrifad neitt Harry Potter tengt i tvo ar, er hinsvegar staddur i Indonesiu naesta arid og hef meiri time til thess ad skrifa. Vildi bara senda inn thessa smasogu til thess ad koma mer i girinn. En allavega, her kemur thetta.

Harry steig varlega áfram, hjartað barðist um í brjósti hans, honum fannst sem hvert einasta tré fylgdist með sér. Hann vissi að einhverstaðar inn í þessum iðagræna skógi væri Voldemort falinn. Einhverstaðar inn í þessum skógi væri sál Voldemorts í felum, í formi rottu, snáks eða annars dýrs. Hann var um það bil að mæta manninum sem hafði eyðilagt líf sitt, myrt foreldra sína, myrt besta vin sinn.

Þetta var rétti skógurinn, það var hann viss um. Ormshali hafði sagt honum frá felustaði Voldemorts án mikilla vandræða. Þótt hann væri ekki lengur rotta, var hann en jafn huglaus og lítill í sér eins og rotta. Harry hafði aðeins þurft að hóta honum því að hann myndi festa Ormshala í formi rottu, eitthvað sem ekki var hægt að gera, en til allra lukku hafði Ormshali aldrei verið mjög fær í álögum og hafði því ekki hugmynd um það. Ormshali hafði sagt Harry hvernig líkami Voldemorts hafði brunnið þegar Harry eyðilagði síðasta helkrossinn, hvernig Voldemort hafði kvalist svo vikum skipti og væri nú í felum í skóg suður af Cork á Írlandi.

Sólin skein í gegnum ljósgræn laufin, á himninum einstaka skýhnoðrar sem liðuðust rólega yfir himininn. Þetta var einn fallegasti dagur sem Írar höfðu fengið á þessu annars kaldhranalega vori. Í huga Harry komst þó engin sól, hafði ekki verið lengi. Frá dauða Dumbledore hafði Harry ferðast um og leitað uppi helkrossa Voldemort, hann hafði ekki komið aftur til Hogwarts í þessi 2 ár sem liðin voru, að undanskildum einum degi. Harry fann hvernig hjarta hans herptist saman þegar hann hugsaði til dagsins í Hogwarts. Af hverju hafði hann ekki séð þetta fyrir.

Harry hélt áfram göngu sinni um skóginn en nú var hugur hans farinn á fullt að endurupplifa þennan örlagaríka dag í Hogwarts. Harry hafði verið staddur Albaníu í leit sinni að helkrossunum. Hann hafði verið staddur í skuggalegu húsasundi þar sem hann hvíslaðist á við mann á slöngutungu. Fólkið í kring kippti sér ekki upp við það enda litu flestir þarna út fyrir að vera ansi vafasamir galdramenn, svo vægt sé til orða tekið. Brún ugla kom flögrandi til Harry, augljóslega þreytt eftir langt flug. Hún rétti fram klóna og Harry leysti litla pergament rúllu af leggnum. Hann klappaði uglunni létt og gaf henni eilítið uglunammi sem hann geymdi alltaf fyrir Hedwig.

Harry stakk rullunni í vasann og hélt áfram að tala við manninn sem gekk undir nafninu Meistarinn, að hans sögn hafði hann og Voldemort ferðast saman eftir að Voldemort hafði lokið Hogwarts, sjálfur hafði meistarinn útskrifast úr Durmstrang tveimur árum fyrr.

Harry hafði með hjálp þykks svarts kufls, einföldum hárlit, og þeirri einföldu staðreynd að hann talaði slöngutungu, tekist að leyna því hver hann væri, og á skömmum tíma tekist að vinna traust Meistarans sem að eigin sögn fékk ekki oft tækifæri á að tala við ósvikna galdramenn myrku aflanna, þá sem tala slöngutungu.

Þeir höfðu verið að ræða um það hvað Meistarinn og Voldemort höfðu gert, hvert þeir höfðu farið og hvar þeir höfðu lifað lengst af. Harry hafði fengið svo mikið af mikilvægum upplýsingum í þessu samtali að þegar hann fór inn á herbergið sitt, sem hann leigði á efri hæð bókabúðar, um kvöldið, hafði hann steingleymt rullunni sem uglan hafði fært honum fyrr um daginn.

Það var ekki fyrr en Harry bjó sig undir að fara í sturtu að hann fann fyrir rullunni í vasanum. Hann tók upp rulluna sem virtist hafa verið rúlluð upp í flýti, því henni var mjög lauslega og ójafnt rúllað upp. Á henni stóðu aðeins þrjú orð, augljóslega skrifuð í miklu flýti, því varla var hægt að lesa þau.

Harry, hjálp!!!
Ron

Harry fékk sting í magann, hann hafði verið svo upptekinn af því að tala við Meistarann að hann hafði hunsað hjálpar beiðni frá besta vini sínum. Harry þurfti ekki að hugsa sig lengi um, hann greip Þrumufleginn og tilfluttist umsvifalaust til Hogsmeat þar sem hann tók strax á loft og flaug í átt að Hogwarts. Harry hafði ekki komið þangað síðan Dumbledore var jarðaður. Það kom Harry á óvart hversu lítil áhrif það hafði á hann að fljúga inn á svæði Hogwarts, hann hafði oft ímyndað sér hvernig það væri að koma aftur til staðarins þar sem hann hafði komist að og þróað galdra hæfileika sína, þar sem hann hafði lært Quidditch, þar sem hafði eignast bestu vini sína. Hann hafði alltaf ímyndað sér að hann mundi uppfyllast sterkum tilfinningum við það að koma til baka, en þess í stað var Hogwarts bara eins og hver annar stein kastali, og jafnvel Quidditch völlurinn virtist frekar lítill og ómerkilegur, þegar Harry þaut yfir hæðina sem veitti honum útsýni yfir þann hluta skólasvæðisins.

Klukkan var orðin nærri ellefu þegar Harry hljóp inn, í anddyrinu mætti hann McGonnagal sem tekið hafði við af Dumbledore sem skólastýra árinu áður. Svipurinn á McGonnagal lýsti, undrun, forvitni og áhyggjum og hún var fyrri til að ávarpa Harry.
,,Harry Potter, hverju megum við þakka þessa óvæntu heimsókn? Þú vildir sannarlega ekki koma hingað í haust.”
Það var ekki ásökunartónn í rödd hennar en Harry fékk samstundis samviskubit þegar hún minntist á þetta, hann hafði jú fengið ítrekaðar uglur frá McGonnagal þar sem hún hvatti hann til þess að koma og klára síðasta árið sitt í Hogwarts, uglur sem Harry hafði alltaf hunsað. Þá mundi hann eftir Ron og samviskubitið hvarf strax.
,,Prófessor, hvar er Ron?”
Spurði Harry, óþarflega harkalega. McGonnagal, bæði hissa á að hafa verið hundsuð svona en einnig skynjaði ákefðina í rödd Harrys svaraði rólega.
,,Þar sem klukkan er orðin ellefu ætla ég að vona að hann sé upp í Gryffindor turni, hvað liggur svona á?”

Harry hafði ekki fyrir því að svara en hljóp framhjá McGonnagal og upp í átt að Gryffindor heimavistinni. Hann heyrði að fótatak McGonnagal fylgdi honum taktfast á eftir. Þegar hann kom upp að Feitu konunni var opið inn í heimavistina og hann sá að Feita lá í hrúgu í einu horni málverksins. Harry hafði ekki tíma til þess að huga að Feitu konunni hann var viss um að McGonnagal mundi gera það. Hann fann á sér, hafði gert það alveg frá því að hann las rulluna að eitthvað mikið væri að.

Inni á heimavistinni var allt í rústi, borð og stólar út um allt. Borðið við arininn sveif í loftinu og fjólubláir kanarí fuglar flugu geltandi í kringum það. Harry sá tvo líkama liggja á gólfinu, hann leit samstundis á hárið á þeim, svart. Hann hljóp upp stigann að svefnherberginu og í stiganum lá annar líkami, Harry kannaðist ekki við hann, hlaut að vera fyrsta árs nemi, hugsaði Harry þegar hann klofaði yfir hann og steig inn í svefnherbergið.

Í svefnherberginu blasti við honum óhuggunarleg sjón, allir Gryffindor nemarnir lágu í hrúgu við enda herbergisins. Harry fann hvernig hann fraus upp, hann sá í hrúgunni hrokkna hárið sem var svo einkennandi fyrir Hermione, einnig sá hann Dean Thomas í West Ham bolnum sínum. Á þessu augnabliki hrannaðist yfir Harry allar þær tilfinningar sem hann hafði búist við að finna við að koma aftur. Nema að þegar hann hafði ímyndað sér hvernig það væri, var það ekki svona sárt, hálsinn herpist ekki saman, andadrátturinn varð ekki svona brennandi og þungur.

Harry heyrði McGonnagal grípa andann á lofti fyrir aftan sig, hún tók um axlirnar á Harry og færði hann mjúklega, en örugglega til hliðar. Hún tók upp vöndinn og með nokkrum sveiflum svifu Gryffindor nemendurnir rólega í rúmin, tveir og tveir í hvert rúm.

McGonnagal klappaði tvisvar og húsálfur birtist.
,,Farðu og náðu í prófessor Spíru og Pomfrey, strax”
Um leið og hún hafði sleppt síðasta orðinu var húsálfurinn horfinn.
,,Eru þau… hvað er… hvernig…”
Harry reyndi að koma orðunum og hugsununum saman en gat það ómögulega. McGonnagal skyldi hann hinsvegar fullkomlega og svaraði.
,,Þau virðast aðeins vera sofandi, ég veit ekki hvernig við getum vakið þau, þess vegna lét ég sækja Spíru og Pomfrey. En hver gerði þetta eða hvernig veit ég ekki. Þau virðast öll vera hérna.”
Þá var eins og eldingu lysti niður í minnið hjá Harry. Ron!! Hrópaði hann og hljóp á milli rúmanna. Hann fann Ron hvergi. Hann hljóp upp í svefnherbergi stelpnanna og af einhverri átæðu varð honum hugsað til þess að hingað hafði hann aldrei komið. Hann ýtti þeirri hugsun frá sér og leitaði út um allt herbergið, Ron var hvergi. Þá varð honum hugsað til Sjóræningjakortsins. Hann hljóp niður í herbergi strákanna og að rúmi Rons,

Spíra og Pomfrey stóðu og ræddu við McGonnagal sem Harry heyrði segja.
,,Við þurfum að kalla saman alla kennarana, við verðum að innsigla hinar heimavistirnar, þrír kennarar inn á hverri vist, hinir kennararnir koma með mér að leita að Ron Weasley.”
Ron opnaði kistilinn hans Ron og henti upp úr honum öllu sem í honum var, sem reyndar var ekki ýkja mikið. Loksins á botninum fann hann kortið. Hann opnaði það og eftir að hafa farið með þuluna birtist kortið. Harry þurfti að leita lengi áður en hann fann Ron, Harry rak upp stór augu. Ron virtist vera niðrí í dýflissunum, sem út af fyrir sig var undarlegt, en það sem var virkilega undarlegt var það að hann var á stað þar sem ekkert herbergi og engin dýflissa var skráð inn á kortið, kortið sem átti að hafa öll leynigöng og herbergi.

Þegar Harry hljóp út heyrði hann McGonnagal kalla á eftir sér, hann kallaði til baka,
,,Ron,”
og hélt áfram að hlaupa. Hann fylgdist með á kortinu og Ron virtist labba í hringi. Harry velti fyrir sér hvort þetta gætu verið mistök hjá kortinu, en hingað til hafði það aldrei brugðist honum. Þá gerðist nokkuð sem lét Harry vera alveg viss um að kortið væri farið að kalka. Nafnið Barty Crouch birtist á kortinu hliðina á Ron. Hvernig gat það verið? Í fyrsta lagi voru báðir Barty Crouch dánir, eða svo gott sem dánir þar sem vitsuga hafði sogið sálina úr Barty Crouch yngri. Hinsvegar var eina leiðin til þess að birtast svona, tilflutningur, ómögulegur á svæði Hogwarts eins og Hermione hafði svo oft minnt hann og Ron á. Harry velti fyrir sér að snúa við og tala við McGonnagal en litli depillinn sem táknaði Ron var hættur að hreyfast og það knúði Harry áfram, hann fann á sér að hann mátti engan tíma missa.

Hann mætti engum á leiðinni þökk sé kortinu, hann sá mikið af kennurum hlaupandi um, eflaust vinnandi í því að innsigla heimavistirnar. Hann sá þó Norris köttinn hans Filch, hún valhoppaði um, Harry komst ekki hjá því að brosa, því valhoppandi Norris var ansi skondin sjón. Norris virtist hinsvegar skynja bros Harrys, jafnvel þótt hún snéri baki í hann. Hún snéri sér við og hvæsti illilega að honum áður en hún valhoppaði fyrir horn.
Harry kom niður í dýflissurnar og eftir að hafa farið um ýmsa króka og kima var hann loks kominn fyrir framan staðinn þar sem punkturinn hans Ron var staðsettur. Fyrir framan Harry blasti hinsvegar steinveggur, málverk af átökum svartálfa og galdramanna og rauðbrún brynja sem eflaust hafði verið silfurlituð einhverjum öldum fyrr.

Harry prófaði að kalla,
,,Ron!!! Ron!!!”
Ekkert heyrðist hinumegin við vegginn, og Harry efaðist um að þótt Ron væri hinu megin að nokkuð mundi heyrast í gegnum þessa þykku, gömlu, steinveggi. Harry kallaði aftur, alveg upp við vegginn og lagðist á hann til þess að hlusta hvort eitthvert hljóð kæmi til baka. Þá gerðist nokkuð furðulegt, þegar Harry hallaði sér upp að veggnum þá seig hann rólega í gegnum hann. Þetta var þó ansi ólíkt því hvernig það var að fara í gegnum vegginn á lestarstöðinni, hann fann hvernig veggurinn þrýstist að honum úr öllum áttum og hann hafði ekki lengur neina stjórn, það var eins og veggurinn togaði hann inn í sig. Hann fór í gegnum vegginn og sér til undrunar tók við mold hinu megin við vegginn en áfram hélt hann áfram að síga lengra og lengra inn án þess að eiga þess kost að hreyfa legg né lim.

Hann kom að öðrum vegg og nú var orðið verulega erfitt fyrir Harry að halda niður í sér andanum. Honum til mikils léttis var veggurinn ekki ýkja þykkur og hann var fljótlega kominn inn í ferhyrnt herbergi. Herbergið var eins einfalt og hugsast gat, steinlagt gólf, veggir og loft. Herbergið virtist vera lýst en Harry gat ekki séð neina lampa né kerti. Í miðju herberginu sat Ron á stól með höfuðið falið í höndum sér. Harry sá að Ron hafði augljóslega ekki farið í klippingu í langan tíma því hann var kominn með ansi þykkan makka en að sama skapi úfinn. Barty Crouch var hvergi sjáanlegur. Harry hljóp til Ron, sem rétti úr sér þegar hann heyrði fótatakið. Svipur hans lýsti ánægju, undrun en breyttist svo fljótt í afar alvarlegan svip.
,,Harry, hvernig komstu hingað? Hvar erum við? Barty, Barty, hann er, hann var hérna og hann er lifandi”

Hann kom þessu öllu út úr sér á ótrúlegum hraða. Harry leit á besta vin sinn og hugsaði með sér af hverju í ósköpunum hann hafði ekki komið að heimsækja vini sína allan þennan tíma. En hann hafði verið að sinna mikilvægari verkum, sagði hann við sjálfan sig, en innst inn fann hann að það var lygi.

,,Ég fékk ugluna frá þér og kom eins fljótt og ég gat. Við erum í dýflissu sem er þó ekki á sjóræningjakortinu, ég sá þig og Barty Crouch hérna, hvar er hann? Og hvernig gast þú sent uglu héðan?”
Ron horfði á Harry, eins og hann væri að velta fyrir sér hvort hann væri með fullu viti.
,,Í fyrsta lagi hef ég ekki sent þér uglu í tvær vikur, síðan ég sagði þér frá því að væri að fara á stefnumót með Lavender Brown”
Hann varð svo rauður í framan þegar hann sagði þetta að Harry var í vafa hvort væri rauðari, hárið eða andlitið. En Ron hélt áfram.
,,Í öðru lagi þá týndi ég sjóræningjakortinu í byrjun annarinnar, í þriðja lagi eru allar dýflissurnar inn á kortinu og að lokum, hvernig komst þú hingað inn hérna er engin hurð, ég hef eitt þeim 30-45 mínútum síðan ég kom hingað í það að reyna að finna leið út, það er engin leið inn né út.”
,,Ef þú sendir mér ekki uglu hver gerði það þá? Og kortið, það var á botninum í koffortinu þínu.”
Harry spurði að þessu en var strax farinn að leggja tvo og tvo saman.
,,Barty”
Sagði hann lágt. Ron virtist átta sig líka en var ennþá ansi ringlaður og sagði;
,,En af hverju að gera þetta, til hvers að skila kortinu?”
,,Ég veit það ekki, hann hlýtur að hafa viljað að við værum báðir hérna. Hvað gerði hann þegar þið voruð báðir hérna inni?”
Spurði Harry og byrjaði að horfa í kringum sig, það var rétt hjá Ron, enginn útgangur sjáanlegur.
,,Hann stóð bara hérna og horfði á mig, ég reyndi að hlaupa að honum en hann einfaldlega henti mér í burtu með einhverjum galdri og hló svo að mér, hann sagði aldrei orð. Svo bara hvarf hann.”
Svaraði Ron og nuddaði bakið, þar sem hann hafði augljóslega meitt sig þegar honum hafði verið hent í burtu af galdri Barty Crouch.
,,En hvernig getur hann horfið? Það er ekki hægt að tilflytjast í Hogwarts.”

Skyndilega heyrðu þeir hlátur, kaldan, tilfinningalausan hlátur. Þeir snéru sér við og þar stóð Barty Crouch, enn grennri og fölari en áður, þótt hann hafi nú alltaf verið hvoru tveggja. Það sem Harry tók þó fyrst eftir voru augun. Augun voru tóm og köld, það var eins og að það væri ekki persóna bakvið þau. Sem að vissu leiti hlaut að vera rétt, vitsuga hafði jú, sogið persónu Barty Crouch úr honum. En hvernig, hvernig gat það verið að hann stæði þarna núna, það var ekki hægt, hugsaði Harry og þetta var engan veginn að ganga upp fyrir honum. Harry greip til vandarins en um leið og hann náði taki á honum kallaði Crouch;
,,Expelliarmus.”
Vöndurinn flaug yfir herbergið, en áður en hann komst í hendurnar á Barty þá kastaði Ron stólnum sem hann hafði setið á, í fluglínu vandarins, vöndurinn datt niður og rúllaði út í horn. Crouch lét sér ekki bregða, Harry efaðist einnig um að persóna með svo sálarlaus augu gæti mögulega brugðið. Hann hló aftur sama kalda hlátrinum.
,,Vel gert Weasley, þú sýndir ekki sömu hæfileika þegar ég kenndi hér. Því miður var þetta til einskis, vöndur mun ekki hjálpa ykkur neitt.”
Hann snéri sér að Harry og hélt áfram.
,,Ég þarf að fá að vita hvað þú gerðir við síðustu tvo helkrossana og þá fáið þið að lifa, ef þú segir mér það ekki, þá deyjið þið. Hvorn veginn sem er þá munu síðustu tveir helkrossarnir ekki verða eyðilagðir.”
,,Hvernig ferðu að því að birtast svona? Það er ekki hægt að tilflytjast í Hogwarts.”
Spurði Harry, en á andlit Barty Crouch kom bara kalt bros sem af einhverjum ástæðum lét Harry fá gæsahúð. Svo hvarf hann bara, án þess að segja orð.

Ron leit á Harry og eftirvænting leyndi sér ekki.
,,Ertu búinn að finna síðustu tvo helkrossana? Af hverju ertu ekki búinn að eyðileggja þá?”
Harry var djúpt hugsi og svaraði annars hugar;
,,Nei, það er nefnilega það undarlega, mér hefur ekki tekist að finna síðustu tvo helkrossana.”
Þeir þögðu báðir í nokkra stund, Harry rölti og náði í vöndinn sinn. Eftir að hafa farið yfir hann, séð hvort hann væri ekki alveg heill, stakk hann honum í vasann.
,,Hvað eigum við þá að gera?”
Spurði Ron og hálf skræk röddin hljómaði eins og hann væri umkringdur köngulóm.
,,Það hlýtur að vera leið út, ég komst inn, þú komst inn, Barty kemst inn og út, við hljótum að komast út.”
Svaraði Harry rólega, þótt innra með sér væri hann sjálfur ansi órólegur og skimaði í kringum sig til þess að sjá hvort honum hefði yfirsést eitthvað. Hann sá ekkert og snéri sér að Ron.
,,Hvernig komst þú hingað, hvað gerðist eiginlega inn á heimavistinni?”
Ron hugsaði sig aðeins um áður en hann hóf frásögnina.

,,Við vorum að farin að huga að því að fara að sofa, sumir komnir í náttfötin, ég og Dean Thomas vorum að spila skák, Hermione var að hjálpa Ginny með ritgerð fyrir galdra sögu. Skyndilega stóð þessi persóna, ég býst við því að það hafi verið Barty Crouch, inn í miðju herberginu, ég hafði ekki tekið eftir honum koma inn. Hann labbaði beint upp að mér og greip í mig, Neville reyndi þá að stoppa hann með því að nota einfaldan leggjabindandi galdur en það fór úrskeiðis og það eina sem gerðist var eitt borðið sveif upp. Hermione gerði eitthvað og það virtist koma Barty Crouch í opna skjöldu, hann snéri sér við og veifaði hendinni yfir herbergið öll borðin og stólarnir hentust til og frá. Seamus reyndi að skjóta einhverju að Barty en hann smellti fingrunum og ljósgeislinn sem skaust að honum breyttist einfaldlega í kanarífugla. Þá reyndi ég að afvopna hann en aftur smellti hann fingrunum og það eina sem gerðist var að kanarífuglarnir urðu fjólubláir. Þá náði Hermione að draga að sér athygli sem gerði mér kleift að losna og hlaupa upp. Þá voru eiginlega allir komnir upp, við reyndum að setja varnargaldra á hurðina en fyrst komu einhverjir Gryffindor nemar sem höfðu dregist aftur úr, þeir hentust aftur á bak, en hann einfaldlega labbaði inn. Hann leit í kringum sig og labbaði svo hægt og rólega að okkur. Sama hvað við gerðum þá virtist ekkert virka. Svo þegar við vorum alveg komin út í horn þá man ég ekki meir, ég bara vaknaði allt í einu inn í þessu herbergi.”

Þegar Ron lauk frásögninni heyrðu þeir klappað fyrir aftan sig, þar stóð Barty Crouch og kaldhæðið glott færðist yfir andlit hans.
,,Glæsilegt, vel sagt frá, hefði ekki getað sagt þetta betur, en svona til gamans vill ég segja þetta frá mínu sjónarhorni.”
Barty ræskti sig og gerði sig tilbúinn til þess að segja frá. Harry sá að Barty hlakkaði mikið til að segja frá, eflaust viljað lengi gorta sig af áætlun sinni.
,,Þegar Harry Potter fór að eltast við helkrossana vissi meistari minn að öruggast væri að breyta staðsetningunum á öllum helkrossunum. Því miður náðir þú að eyðileggja tvo áður en hann komst að þeim. Þetta olli meistara mínum miklum líkamlegum sárauka en alvarlegri var andlegi sársaukinn, áhyggjurnar af því að 17 ára, gríðarlega ofmetinn, strák asni, gæti fundið vel falda og varða helkrossana. Hinn myrki herra náði þremur helkrossum til baka, en tveimur náðir þú fyrir algjört glópalán að eyðileggja engu að síður. Þá komst meistari minn að því að þú hafðir náð að fjarlæga síðustu tvo helkrossana, án þess að eyðileggja þá. Hann hefur eytt löngum stundum í það að velta fyrir sér af hverju þú hefur ekki eyðilagt þá eins og hina helkrossana, en á sama tíma fór ég að velta fyrir mér hvernig ég gæti náð þeim aftur fyrir meistara minn, og þannig sýnt hollustu mína og snilli á einstakan hátt og þannig orðið hægri hönd hans. En hvað gæti fengið Harry Potter, hinn hugrakka og fífldjarfa galdramann til þess að láta eftir helkrossana.”
hann sagði síðustu setninguna með ýktum leikrænum tilburðum, fyrirlitningin skein úr andlitinu.

,,Ég vissi að þessi barnalega heimska þín, eða tryggð og hugrekki, væri þinn helsti veikleiki, ég yrði að nýta mér vini þína til þess að komast að þér. Vandamálið var þó að vinir þínir voru vel varðir sama hvert þeir fóru, og annars voru þeir innan vel varða veggja Hogwart. Hinsvegar datt mér nokkuð í hug þegar ég var að lesa sögu Hogwarts, kaflann þar sem talað er um það þegar tilflutnings bannið var sett á lóðir Hogwarts. Þá kom fram að ómögulegt væri að tilflytjast á lóðum Hogwart, óánægðir nemendur hefðu þá farið í dýflissurnar til þess að tilflytjast til Hogsmeat þar sem þeir gátu keypt það sem þeir vildu eða skemmt sér. Það var síðan Rawenclaw sem fór niður í dýflissurnar og setti bann á hverja fyrir sig, og það gerði að lokum ómögulegt að tilflytjast á öllu Hogwart svæðinu. Það sem mér datt hinsvegar í hug var, hvað ef að ný dýflissa yrði til undir Hogwarts, væri hægt að tilflytjast þar? Ég sagði hinum myrka herra frá hugmyndinni og eins og við var að búast frá þvílíkum meistara líkaði honum hugmyndin vel, og sagði mér hvernig ég gæti búið til dýflissu undir Hogwarts, vandamálið var hinsvegar það að dýflissan yrði aðeins til staðar í 24 tíma áður en sjálfvirkar endurbætur skólans myndu eyða henni út. Þetta skapaði vandamál en jafnframt tækifæri. Vandamálið var það að tryggja að þú kæmir í þessa dýflissu á þessum 24 klukkustundum, en tækifærið var það að dýflissan myndi sjálf drepa ykkur þegar hún félli saman ef þú yrðir ekki samvinnuþýður.
Það þýddi að ég þyrfti ekki að framkvæma neina stórvægilega galdra innan veggja skólans sem McGonnagal eða aðrir tækju eftir, því myndu þið eflaust aldrei finnast og ég aldrei grunaður. Einnig hefur þú sloppið óþarflega oft undan göldrum, jafnvel Avada Kadabra, þannig að öruggasta leiðin var að mínu áliti að láta náttúruna sjá um þig. Ég sendi því Uglu þar sem ég kallaði eftir hjálp, falsaði undirskriftina hans Weasleys, krumpaði pergamentið svo erfitt væri að lesa af því og sendi ugluna daginn áður. Á miðanum voru álög, þannig að þegar þú opnaðir hann fékk ég að vita af því. Þá ætlaði ég að taka Weasley þegar hann væri að labba á milli tíma, setja kortið í koffortið hans, þar sem ég vissi að þú mundir finna það og bíða.

Allan daginn var ég í formi Lavender Brown sem ég hafði nokkrum vikum fyrr lagt á álög sem tryggðu áhuga hennar á Ron, þetta vissi ég að myndi gera mér auðvelt fyrir að fá Ron einann á milli tíma. Hinsvegar leið dagurinn, og ég var alveg að verða búinn með ummyndunar drykkinn, ég velti fyrir mér af hverju þú værir ekki búinn að opna miðann, hvort uglan hefði villst eða hvað gæti verið að, drykkurinn kláraðist og ég átti bara um klukkutíma eftir áður en ég yrði ég sjálfur aftur. Þetta mátti ekki fara úrskeiðis, dýflissan var búin að vera til síðan um hádegi þegar skólinn klárar reglulega sjálfvirka viðhaldið, og ef að þetta tækist ekki í dag gæti ég ekki gert aðra dýflissu í 50 ár, því skólinn man hvar koma fram villur í viðhaldinu og kemur í veg fyrir að þær gerist aftur. Þá kviknaði á merkinu mínu, þú hafðir opnað miðann, ég vissi að þú kæmir mjög fljótt þannig að ég hafði um að bil 40 mínútur, ég var staddur inn í setustofu Gryffindor þar sem ég hafði fylgst með þessum viðvaningi tefla. Ég stóð upp til þess að fá Ron til þess að koma fram með mér einann en þá fann ég að ég byrjaði að breytast, þar sem ég hafði ekki áhuga á því að standa hálf nakinn fyrir framan alla fór ég fram og í kústaskápinn þar sem ég hafði falið ungfrú Brown, þar var einnig kuflinn minn, ég fór í hann og fór aftur upp að heimavistinni. Ég lagði álög á Feitu konuna og steig hljóðlega inn í setustofuna. Ég ákvað að einfaldast væri að fara einfaldlega upp að Weasley og taka hann í burtu án nokkurra galdra og treysta á ráðaleysi þessara krakka asna. Hvað gerðist eftir það hefur Weasley nú þegar sagt þér, viðvaningslegar tilraunir sem varla voru þess virði að svara, að lokum svæfði ég alla og tók Weasley í burtu. Núna er staðan sú að þið eruð fastir hérna inni, ég lagði bann á tilflutning allra, nema þeirra með myrka táknið á upphandleggnum. Það er engin leið út, ég hannaði dýflissuna án útganga, þannig að þið munuð deyja hér eftir 12 klukkustundir ef ég fæ ekki það sem ég vill. Ef ég hinsvegar fæ það sem ég vill mun ég tilflytja ykkur báða undir áhrifum svefnlyfs á öruggan stað.”

,,Hvernig vitum við að þú munir ekki samt drepa okkur?”
Spurði Harry.
,,Þið hafið ekki hugmynd um það, en hvað annað getið þið gert?”
Svaraði Barty Crouch og hló.
,,Ég ætla að gefa ykkur turtildúfunum tvo klukkutíma til þess að ræða þetta ykkar á milli, þegar ég kem til baka ætlast ég til þess að þú segir mér hvar helkrossarnir eru.”
Að svo sögðu hvarf Barty eina ferðina enn.

Harry og Ron stóðu eftir og horfðu hvor á annan.
,,Hvað í ósköpunum eigum við að gera?
Spurði Ron og starði á staðinn þar sem Barty Crouch hafði tilflust.
Harry horfði örvæntingafullur í kringum sig.
,,Ég hef ekki hugmynd, ég hef ekki helkrossana, ég get ekki látið hann hafa þá, og ef ég geri það ekki deyjum við.”
Harry reyndi að tilflytjast en ekkert gekk. Harry mundi eftir því hvernig Fawkes hafði bjargað honum á öðru árinu hans, og hann reyndi í örvæntingu að kalla á hann, ekkert gerðist.
,,Bara að Hermione væri hérna, hún mundi vita hvað við ættum að gera.”
Sagði Harry og hristi höfuðið.
,,Kannski komumst við út sömu leið og þú komst inn.”
Stakk Ron upp á.
Harry lagðist upp að veggnum eins og hann hafði gert þegar hann kom inn, ekkert gerðist.
,,Kannski þarf maður að labba á vegginn og búast við að komast í gegn eins og á Kings Cross.”
Sagði Ron og gerði sig tilbúinn að labba á vegginn. Á síðustu stundu hikaði hann þó og skall á vegginn. Harry gerði sig tilbúinn og labbaði hratt og örugglega á vegginn. Veggurinn gaf ekkert eftir en það sama var ekki hægt að segja um gleraugun, sem fóru í tvennt og annað glerið brotnaði í nokkra hluta.
,,Reparo.”
Sagði Harry þar sem hann sat á gólfinu og nuddaði hægra hnéð sem skollið hafði ansi harkalega á vegginn. Hugmynd fór að gerjast í höfðinu á Harry.
,,Barty Crouch þarf á mér að halda til þess að finna síðustu tvo helkrossana, hann færi ekki að drepa mig. Það sem við þurfum að gera er að koma þér út.”
Ron var fljótur að svara.
,,Það kemur ekki til greina að ég skilji þig hérna eftir, við finnum leið úr þessu saman eða deyjum saman.”
Svo settist hann niður við hliðina á Harry. Þeir sátu og þögðu í dágóða stund áður en þeir fóru að rifja upp allt sem þeir höfðu gengið í gegnum síðustu 7 árin.

Áður en þeir vissu af var Barty Crouch kominn aftur. Hann steig að þeim og með fyrirlitningu í annars tómu andlitinu, spurði Harry;
,, Tókstu rétta ákvörðun strákur?”
Harry hugsaði sig um í eitt augnablik en svaraði svo eins örugglega og hann mögulega gat.
,,Ég skal láta þig fá krossana með einu skilyrði.”
Barty Crouch gaf frá sér hljóð sem var sambland hláturs og undrunar.
,,Heldur þú, að þú getir sett mér skilyrði.”
Sagði hann áður en hann lyfti vendinum og kallaði;
,,Crucio.”
Harry reyndi hvað hann gat að berjast á móti sársaukanum en hatrið og illskan sem lágu að baki bölvuninni voru svo sterk að fljótlega gafst Harry upp og gaf sig á vald sársaukans sem nísti hvert bein og hverja taug líkamans. Harry lá og kipptist til þangað til Barty Crouch stoppaði.
,,Jæja strákur, segðu mér hvar þeir eru.”
,,Ég segi þér hvar þeir eru með einu skilyrði.”
Sagði Harry sem var máttlaus og móður, en hafði reyst sig að hálfu við.
,,Crucio.”
Harry var svo máttlaus að hann gat ómögulega varist bölvuninni, hann lá og kipptist til, lengur og lengur, hann bjóst við því að missa meðvitund hvað af hverju. Þá var eins og sársaukinn færi yfir þau mörk sem mannlegt getur talist og hann upplifði sársaukann eins og hann væri ekki lengur í eigin líkama. Honum varð hugsað til þess þegar hann, Ron og Hermione höfðu eitt dögum fyrir framan vatnið, að tala saman um heima og geima. Þegar Barty loksins hætti hafði Harry alveg hætt að taka eftir sársaukanum.
,,Er þetta nóg fyrir þig strákur? Segðu mér hvar þeir eru.”
Harry sem hafði í þessari leiðslu uppfyllst orku, stóð upp og stóð andspænis Barty.
,,Ég hef þegar sagt þér, ég skal segja þér hvar þeir eru með einu skilyrði.”
Hann sagði þetta af mikilli ákveðni, og kannski var það þessi ákveðni, eða ef til vill bara það að Harry skyldi hafa staðist tvær langar kvalabölvanir, en Barty virtist brugðið. Eftir að hafa hugsað sig um, sagði hann loks;
,,Jæja, segðu mér hvert þetta skilyrði er.”
,,Þú tilflytur Ron á öruggan stað og svo segi ég þér hvar þeir eru, ekki fyrr.”
Barty leit haturs augum frá Harry að Ron. Harry var ekki frá því að örið hefði hitnað örlítið.
,,Kemur ekki til greina, þú segir mér hvar þeir eru, eftir að ég staðfesti það, þá tilflyt ég ykkur báða.”
Harry hristi höfuðið og svaraði;
,,Þetta er undir þér komið, ef þú vilt fá helkrossana þá verður þú fyrst að tilflytja Ron á öruggan stað. Annars færðu þá ekki.”
Barty reisti vöndinn og gerði sig tilbúinn að leggja enn eina kvalarbölvunina á Harry. Harry stóð og horfði ögrandi á hann. Barty hrækti í jörðina og tilfluttist. Ron starði á Harry með augnaráði sem endurspeglaði ólýsanlega bræði.
,,Hvernig vogar þú þér? Ég var búinn að segja þér að ég færi ekki neitt án þín, ég er ekki að fara að skilja þig einan eftir hérna inni. Svo verð ég líka svæfður og þegar hann finnur ekki helkrossana þá á hann eftir að drepa mig áður en ég vakna.”
Harry var of máttlaus til þess að svara, eftir að Barty hafði tilflust hafði þessi tímabundna orka og staðfesta runnið af honum, hann limpaðist niður og horfði á Ron, án þess raunar að sjá hann, hann heyrði í Ron en tók ekki eftir neinu sem hann sagði. Ron tók loks eftir þessu og þá var eins og honum rynni bræðin og hann áttaði sig á að vinur hans hafði gengið í gegnum tvær gríðarlega langar kvalabölvanir með það eitt að leiðarljósi að bjarga sér. Hann snerti öxlina á Harry varlega og spurði hann;
,,Harry, er allt í lag.”
Harry hafði komist úr leiðslunni við það að Ron snerti sig, þegar hann heyrði spurninguna, brosti hann veiklega.
,,Aldrei liðið betur.”
Þeir sátu og flissuðu saman, þrátt fyrir að aðstæðurnar væru svartar var Harry rólegri en hann hafði verið undanfarið ár, hann var með vini sínum, það eitt skipti máli. Við þá hugsun virtist hugurinn hans fara aftur í gang. Hann varð að koma Ron héðan. Harry hallaði sér fram og sagði við Ron;
,,Ég er með Bezoar stein í vasanum, hef verið með hann alveg síðan Dumbledore drakk af bikarnum sem varði fyrsta helkrossinn, eða staðinn þar sem hann var. Hafðu hann upp í þér þegar þú ert svæfður, þá ættir þú að geta staðist svefninn, þóst sofa svo þegar Barty er búinn að tilflytja þig eitthvert mun hann sjálfur tilflytjast þangað sem ég sendi hann. Þá getur þú notað tækifærið og tilflust í burtu. Það er eina leiðin. Hann munn ekki drepa mig, hann þarf enn á mér að halda, til þess að finna helkrossana.”
Ron sá að Harry var búinn að gera upp hug sinn og að tilgangslaust væri að þræta við hann. Hann kinkaði því kolli og tók við steininum.
Þeir fóru aftur yfir áætlunina, þegar Ron gæti tilflust í burtu mundi hann tilflytjast að Runnaflöt. Fönix reglan gæti sent skilaboð með Patronus og þannig gætu Fönix meðlimir innan Hogwarts komið Harry til hjálpar.
Eftir það sátu þeir og biðu, það var eins og þeir hefðu búist við að Barty Crouch kæmi um leið og þeir hefðu farið yfir áætlunina en ekkert gerðist, í tvo langa klukkutíma, þeir sátu og störðu fram fyrir sig. Ron með steininn upp í sér og átti því erfitt með að tala, þannig að í tvo klukkutíma sátu þeir og störðu fram fyrir sig.
Loksins þegar Harry var alvarlega farinn að trúa því að Barty ætlaði að skilja þá þarna eftir til þess að deyja birtist hann. Hann labbaði hratt að Harry, reisti hann upp með vinstri hendinni, reisti sprotann upp með hægri og beindi honum að andliti Harrys.
,,Í síðasta sinn, hvar eru helkrossarnir? Annars fáið þið að kremjast hérna eins og pöddurnar sem þið eruð.”
Harry horfði rólega á Barty og svaraði;
,,Í síðasta sinn, tilflyttu Ron í burtu og þá segi ég þér það, annars færðu aldrei að sjá helkrossana og þeir verða eyðilagðir.”
Barty henti Harry harkalega niður og sagði loks, jæja þá, ég skal taka Weasley með mér, en hann verður svæfður. Hvert á ég að fara?”
,, Þú tekur Ron, kemur aftur og ég segi þér það.”
Andlitið á Barty kipptist til, hann átti í gríðarlegri innri baráttu, annarsvegar að láta eftir kröfum unglings sem hann fyrirleit meira en nokkra aðra lífveru á þessari jörð, jafnvel meira en mugga. Hinsvegar möguleikinn á að endurheimta helkrossana og verða í hávegum hafður af meistara sínum. Loksins virtist hann hafa tekið ákvörðun, hann veifaði vendinum að Ron sem varð samstundis máttlaus, greip svo í hann og án þess að segja orð tilfluttist með hann í burtu.
Eftir sat Harry einn í dýflissunni og vonaði að Ron mundi spjara sig. Hann gat þó ekki haft áhyggjur af því í langan tíma því mjög fljótt var Barty kominn aftur.
,,Nú segir þú mér hvar þeir eru, og enga stæla.”
,,Þeir eru í hvelfingunni minni í Gringots banka, hvelfing 713. Þú þarft að taka mig með til þess að komast inn.”
Sagði Harry og furðaðist sjálfur hve góð lausn þetta var, honum hafði dottið þetta í hug á þessari stundu. Hann hafði ætlað að senda Barty upp í Himalaya fjöllin að grafa undir jökla og snjóbreiður. Þetta var enn betra, ef bara hann fengi Barty til þess að taka sig úr þessari dýflissu, þá var hann sannfærður um að hann mundi sleppa.
Barty virtist hinsvegar ekkert kippa sér upp við þessa snilldar hugmynd Harrys, hann svaraði bara rólegri og yfirvegaðri röddu.
,,Það er eins gott að það sé rétt hjá þér, annars mun Weasley deyja.”
Harry sá að hann ætlaði ekki að segja neitt meira og fara. Hann kallaði að Barty;
,,Þú þarft mig til þess að komast inn!”
Barty stoppaði eitt andartak, hló sama kalda hlátrinum og tilfluttist. Eftir sat Harry og hann fann hvernig hjartað sökk dýpra og dýpra. Hvað ef Ron vaknaði ekki? Hvað ef hann hafði rangt fyrir sér og Barty mundi einfaldlega láta hann deyja hérna? Hvað ef þetta voru endalokin hjá honum og Voldemort mundi sigra? Allar þessar spurningar hringsnerust í höfðinu á Harry. Af hverju hafði hann ekki talað við McGonnagal? Af hverju hafði hann ekki haft samband við Fönix regluna?
Tíminn leið alveg ótrúlega hægt og eftir að Harry hafði setið í nokkra klukkutíma tók hann upp sprotann sem hann hafði þó enn. Hann lagði vöndinn á sléttan stein í gólfinu og sagði;
,,Apa tempus”
Vöndurinn snérist og sýndi að klukkan var í kringum níu að morgni. Hann hafði þrjá klukkutíma. Skildi Ron hafa 3 klukkutíma? Ekkert gerðist fyrr en klukkan var orðin ellefu. Þá birtist Barty Crouch í dýflissunni, sama hversu sálarlaust andlit hann hafði þá leyndi það ekki bræðinni sem braust um í Barty. Hann stígsporaði að Harry greip hann upp eins og hann hafði gert áður og sagði.
,,Ég vona að þér hafi þótt þetta fyndið. Því þessi brandari kostaði einn njósnara minn aðra höndina.”
,,En leitt, vonandi var hann ekki quiddich leikmaður.”
Svaraði Harry kaldhæðnislega. Barty brosti, aftur fékk Harry gæsahúð.
,,Já, það var mjög leitt, en við bættum það upp með því að pynta Weasley áður en hann var þess heiðurs aðnjótandi að hinn myrki herra sýndi okkur nokkra af þeim göldrum sem hann hefur verið að þróa. Sá síðasti sem hann sýndi okkur sprengi því miður hjartað í Weasley sem vældi eins og lítil skólastelpa þessi síðustu kvalarfullu augnablik af hans einskisvirði ævi.”
Hann brosti allan tíman sem hann sagði þetta og virtist njóta hvers augnabliks, hann naut þess að sjá hvernig hvert orð nísti Harry.
,,Ég veit ekki hvar helkrossarnir eru, ég er ekki með þá.”
Sagði Harry í algjörri uppgjöf, honum var sama um allt, hvers virði var lífið núna, hann hafði sent besta vin sinn í dauðann. Allt út af því að hann hafði ætlað að bjarga honum einn, í stað þess að fá hjálp.
,,Meistari minn var búinn að komast að því, hann sendi mig bara hingað til að segja þér þessar gleðifréttir og svo á ég að skilja þig eftir til þess að deyja. En af því að ég er í góðu skapi eftir þessa fínu skemmtun með Weasley þá ákvað ég að gefa þér smá kveðju gjöf, þar sem þetta er nú í síðasta sinn sem við sjáumst.”
Hann reisti vöndinn og með hálf gamansömum tón kallaði;
,,Crucio.”
Harry fann sársaukann koma en hann naut þess, hann átti hann skilið, hann fann líkama sinn kippast til, fann skinnið brenna, fann höfuðið við það að fara í tvennt. Hann naut þess. Hvernig gat hann hafa gert þetta við Ron. Hann af öllum átti ekki skilið að deyja. Harry óskaði þess helst að Barty mundi ljúka þessu af og drepa hann á stundinni. Voldemort hinsvegar virtist skilja andlegu kvalirnar sem hann mundi ganga í gegnum og hafði því skipað Barty að skilja hann eftir til þess að deyja kvalarfullum dauða eftir enn kvalarfullri bið.
Barty virtist verða hálf pirraður á því áhugaleysi sem andlit Harry sýndi þar sem hann lá í gólfinu og kipptist til. Hann greip því til hafbundnari mugga aðferða og sparkaði endurtekið í Harry. Í magann, rifbeinin og endurtekið í höfuðið, Harry fann hvernig hann var að missa meðvitund og hann vonaði að hann myndi aldrei vakna aftur.
Honum til mikillar gremju fann hann augnlokin opnast, hann blikkaði augunum nokkru sinnum þangað til að umhverfið varð í fókus. Hann var ekki staddur í dýflissunni eins og hann hafði búist við. Hann var staddur í sjúkraálmunni í Hogwarts. Útundan sér sá hann Pomfrey vera að hlúa að stelpu sem klædd var quiddich búningi Rawenclaw. Það leit út fyrir að hún hafi fengið rotara framan í sig. Harry sem svo oft hafði notið umönnunar Pomfrey, reyndi að kalla til hennar, hann varð að segja McGonnagal frá Ron, en þegar hann reyndi að kalla þá kom bara rámt muldur í staðinn og hann fann hvernig hálsinn var allur þurr og grófur.
Pomfrey varð þó vör við eitthvað því hún snéri sér við, þegar hún sá Harry sá hann kunnuglegt bros færast yfir andlit hennar. Hún kláraði að maka smyrsli yfir kinnbeinið á stelpunni lét hana leggjast og dró fyrir tjöldin að rúminu hennar, áður en hún kom labbandi að rúminu hans Harrys.
,,Harry! Gott að sjá að þú ert vaknaður, drekktu vatn þú þarft á miklu vatni að halda.”
Hún beindi sprotanum að náttborðinu og kanna full af vatni birtist þar. Harry fékk sér eitt vatnsglas en sagði svo strax við Pomfrey.
,,Ég verð að tala við McGonnagal.”
Röddin var enn mjög rám, en hún skildi hvað hann sagði. Hún leit samúðarfullum augum á Harry og sagði;
,,McGonnagal bað mig að láta sig vita þegar þú vaknaðir, þannig að hún mun koma niður fljótlega, við vitum hinsvegar hvað gerðist, þannig að þú þarft ekki að endurlifa það allt aftur.”
,,Hvernig vitið þið hvað gerðist, það var enginn annar þarna. Það var dýflissa og…”
Pomfrey greip fram í fyrir Harry sem var mikið niðri fyrir.
,,Snape las hugsanir þínar, það fyllti upp í eyðurnar.”
Við það að heyra nafnið varð Harry rauður í framan.
,,Snape! Hvernig gátu þið látið þann svikara koma inn fyrir dyr skólans aftur. Hann á ekkert erindi inn í hugsanir mínar, ef ég sé hann aftur skal hann fá að gjalda fyrir það sem hann…”
Harry sem hrópaði þetta þrátt fyrir að hvert orð rifi í raddböndin, þurfti að stoppa til þess að fá sér vatnssopa. Pomfrey nýtti sér tækifærið og sagði;
,,McGonnagal útskýrir þetta allt þegar hún kemur, sem hlýtur að vera hvað af hverju. Þangað til skaltu drekka mikið vatn og reyna að hvíla raddböndin.”
Hún strauk hendinni í gegnum úfið hárið á Harry og labbaði í burtu. Harry lá og hugsanirnar færðust á milli Ron og Snape. Hvernig gat hann vogað sér að koma hingað aftur. Hvernig gátu McGonnagal og Pomfrey hleypt honum nálægt sér. Um það bil tíu mínútum síðar kom McGonnagal labbandi inn. Hún var mjög alvarleg að sjá. Hún settist við hliðina á Harry.
,,Ég átti að skila samúðarkveðjum frá Weasley fjölskyldunni til þín, ég var að ljúka við að tala við Molly. Hún segir að þér sé meira en velkomið að koma til þeirra og dvelja þar eins lengi og þú villt.”
Harry fékk samstundis sting í hjartað, og samviskubitið helltist yfir hann, hvernig gat hann verið að velta sér upp úr hatri á Snape þegar besti vinur hans hafði dáið og honum hafði ekki einu sinni verið hugsað til fjölskyldu hans. Molly og Artúr sem höfðu bæði ávallt verið svo góð við hann. Þau höfðu misst son sinn og samt var þeim hugsað til hans. Hann átti ekki skilið að eiga svona gott fólk að.
McGonnagal virtist skynja hvað hann hugsaði, því hún sagði;
,,Þú hefur gengið í gegnum margt síðasta árið og það er skiljanlegt að hugsanirnar séu ekki alltof skýrir núna. En þú ert góður drengur og átt allt gott skilið.”
Harry velti fyrir sér hvort hún væri fær í hugsanalestri, en svaraði;
,,Ég hugsa nú samt nóg skýrt til þess að vita að Snape ætti aldrei að stíga fæti inn í Hogwarts aftur.”
Hann fann reiðina gagnvart Snape magnast upp.
,,Og hann átti aldrei að gera það, en hann gerði það til þess að bjarga þér.”
Svaraði McGonnagal rólega.
,,En hann drap Dumbledore, hann mundi njóta þess að drepa mig.”
Sagði Harry reiðilega.
Harry sá bregða fyrir reiði í augum McGonnagal en það breyttist fljótlega í samúð.
,,Dumbledore skildi eftir sig bréf, til mín, þar sem fram kom ósk um að ég tæki upp stöðu skólameistara ef þess yrði óskað af mér. Þar kom einnig fram að hann hafði beðið Snape að drepa sig, því hann vissi að tíminn var kominn, þá átti Snape aldrei að stíga fæti aftur í Hogwarts og það átti að sannfæra Voldemort um hollustu hans. Hins vegar var Snape viðstaddur þegar Voldemort myrti Weasley, og hann heyrði síðustu skipun Voldemorts varðandi þig, þannig að hann flýtti sér til baka, hætti þannig á það að koma upp um sig, tilfærði sig inn í dýflissuna og bjargaði þér.”
Harry lá eftir og gat ekki hætt að hugsa af hverju Snape hafði ekki bjargað Ron, en allaf þegar sú hugsun kom upp fékk hann sting í hjartað og lítil rödd sagði innra með honum;
,,Hann bjargaði lífi þínu.”
Harry hataði þá tilhugsun, maðurinn sem myrti Dumbledore hafði bjargað lífi hans. Hann ákvað þó að hann mundi kyngja stolti sínu og þakka fyrir björgunina þegar þeir hittust næst. Það yrði þó það eina sem hann mundi gera fyrir þessa fyrirlitlegu manneskju.
,,Hann bjargaði lífi þínu.”
Harry sofnaði út frá þessum hugsunum. Um nóttina vaknaði hann við fótatak, hann opnaði augun og sá Snape labba í áttina á sér. Harry reis upp og fann reiðina brjótast um í brjósti sér.
,,Hann bjargaði lífi þínu.”
Harry kyngdi og var við það að segja erfiðustu orð ævi sinnar en Snape lyfti upp hendinni.
,,Ekki segja orð, núna erum við jafnir.”
Hann snéri við og labbaði út. Það var í síðasta sinn sem hann sá Severus Snape.
Voldemort is my past, present and future.