18.kafli – sjaldan er ein báran stök

Meðan Boris yfirheyrði strákana hljóp Fenecca í burtu. Veðrið var svo langt frá því að vera í stíl við skap hennar. Það var sól, örlítil gola og hvarvetna voru fuglar á flugi. Hún sjálf var svo leið, reið og vonsvikin. Lily hafði haft rétt fyrir sér… þær höfðu verið óvinkonur út af engu! Eða… annars, þær höfðu orðið óvinkonur út af Siriusi Black.
‘Ég hata hann. Ég svo hata þennan djöfullsins, monthana þurs! Ef Boris hefði ekki komið askvaðandi væri hann dauður,’ hugsaði Fenecca reiðilega. Hún hélt áfram að þramma leiðina að Hogwartsskóla. Henni fannst gott að skólinn var að verða búinn, hún gæti ekki lifað það af ef hún þyrfti að þola að sjá glottið á andliti Lilyar þegar hún kæmist að því að hún hafði haft rétt fyrir sér. Né heldur þetta sjálfumglaða andlit Siriusar ömurlega Blacks.
“Ég ætti sennilega að henda þessu hálsmeni í burtu,” muldraði hún reiðilega. Hún hafði gengið með það á sér síðan hún fékk það. Það þoldi alveg að blotna, hún fann ekki fyrir því þegar það var um hálsinn og það flæktist ekki fyrir henni. Til hvers að taka það af?
‘Af því að það minnir þig á aumingjann Sirius Black!’ hvíslaði rödd sem hljómaði óhugnalega lík rödd Lilyar.
Fenecca stoppaði og klemmdi aftur augun til að stöðva nokkur tár sem reyndu af öllum mætti að brjótast fram. Hún ætlaði EKKI að gráta út af honum! Hann var ekki þess virði! Hún ætlaði að ganga aftur upp í Hogwartsskóla og láta sem ekkert væri. Ef einhver vildi vita, þá myndi hún segja að hún og Sirius væri hætt saman, annars myndi hún bara þegja. Það myndi hvort eð er fréttast hratt. Það var alltaf þannig í Hogwarts.
“Fenecca! Hvað gerðist!” kallaði Díana þegar hún og Fiona komu á sprettinum til hennar.
“Ó. Ekkert alvarlegt.. Ég og Sirius erum bara hætt saman,” sagði Fenecca yfirveguð eins og ekkert væri sjálfsagðara. Díana og Fiona snarstönsuðu hinsvegar og gláptu á hana.
“HÆTT með honum? Af hverju?”
“Aðallega út af því að Sirus og James voru að nota mig…” sagði Fenecca bitur.
“Þú ert að GRÍNAST!”
“En, bíddu, af hverju?”
“Hvað áttu við að þeir voru að NOTA þig? Ekki bara Sirius til að stunda kynl…”
“STOPPIÐI!” öskraði Fenecca. Hún var að verða hás út af öllum hrópunum. “Ég veit ekkert af hverju hann var að nota mig og vil helst ekki vita það!” Díana og Fiona þögnuðu og kinkuðu kolli. Eftir það gengu þær í þögn upp í Hogwartsskóla.
“Ertu alveg viss um að það sé allt í lagi?” spurði Díana að lokum þegar þær voru að nálgast Gryffindorturninn.
“Já. Hann er ekki þess virði að gráta yfir,” urraði Fenecca.
“Gott hjá þér!” sagði Fiona. “Hann hefur hryggbrotið helming allra stelpanna í Hogwartsskóla og helmingur þeirra grét ekkert yfir honum. Ég grét ekki yfir honum og þú skalt ekki gera það heldur. Við erum Gryffindornemar!” sagði Fiona og sendi Feneccu hughreystandi bros. Hún kinkaði kolli og brosti örlítið.

Eins og alltaf bárust fréttirnar af því að Fenecca og Sirius væru hætt saman eins og eldur í sinu um skólann. Sirius Black, stjarna Hogwartsskóla í öllu, var hættur með Feneccu Crock, Quidditchleikmanni Gryffindorliðsins og meðal sætustu stelpna í skólanum. Svona frétt lét enginn framhjá sér fara. Heldur ekki Lillian Evans eða Albus Dumbledore.
“Lily?” sagði hann lágt. Hann stóð nokkur skref fyrir aftan hana á ganginum. Honum hafði alltaf þótt vænst um Lily af nemendum sínum. Hún var næstum eins og dóttir hans og hún leit á hann sem aðeins meira en skólastjórann sinn.
“Já?” svaraði hún alveg jafn lágt á móti án þess að snúa sér við.
“Ætlarðu ekki að semja frið við Feneccu Crock núna? Boris sagði mér að hún væri alveg niðurbrotin.”
“Ég ætla ekki að biðja hana fyrirgefningar,” svaraði Lily með vott af reiði í röddinni.
“Ég var ekki að tala um það. Ég var að tala um það að þið yrðuð vinkonur aftur og hún myndi biðjast fyrirgefningar. Ég efast um að hún komi til þín þar sem hún er viss um að þú hatir hana meira en allt annað,” sagði Dumbledore.
“Og hvernig veistu að það sé ekki rétt hjá henni? Kannski hata ég hana meira en allt annað.” Dumbeldore brosti aðeins og lagði aðra höndina utan um axlir Lilyar.
“Af því að ég er pirrandi gamlingi sem veit of mikið. Þú og Jacqueline hafið ekki verið alveg jafn kátar og venjulega í hálft ár. Það sama get ég sagt um Feneccu.” Lily svaraði þessu ekki.
“Lillian, þetta er svo einfalt. Þú ferð með Jacqueline til Feneccu og spyrð hvort hún haldi enn að þú sért “blóðníðingsbjáni”. Ef hún segir já skuluð þið bara labba í burtu, ef hún segir nei verðið þið aftur vinkonur!” sagði Dumbledore eins og öll vandræði heimsins yrðu afmáð.
“Veistu um Jackie?” spurði Lily eftir smá þögn.
“Hún er sennilega að nýta síðustu stundirnar með kærastanum sínum,” svaraði Dumbledore glaðlega. Lily reyndi að kæfa hlátur.
“Takk fyrir,” sagði hún þegar hún var viss um að halda andlitinu.
“Það var ekkert. Eða jú, það voru reyndar nokkir piparmyntupokar eftir allar heimsóknirnar þínar upp á skrifstofuna mína….”
“Má ég ekki bara gefa þér nokkra í afmælisgjöf?” spurði Lily glottandi.
“Veistu hvenær ég á afmæli?”
“Nei… en það eru til árbækur á bókasafninu síðan skólinn byrjaði. Þar stendur fæðingarár, afmælisdagur og einkunnir allra. Ég kíki bara þar,” sagði Lily og glotti ennþá meira. Þegar hún var komin að næsta horni kallaði Dumbledore:
“Og á næsta ári vonast ég til að sjá mynd af þér og James Potter í faðmlögum í árbókinni ykkar. Þú ættir að gefa honum tækifæri!”

Tveir dagar eftir. Lily hafði ekki enn náð tali af Feneccu. Hún fór í burtu í hvert sinn sem Lily nálgaðist. Sneri við, fór út úr herberginu… bara fór.
“Remus,” hvíslaði Lily og settist við hliðina á honum í setustofunni.
“Já?” spurði hann lágt.
“Af hverju sagðirðu mér á jólaballinu hvað strákarnir væru að gera, ekki Feneccu? Hún hefði örugglega trúað þér frekar,” hvíslaði Lily og leit upp á Remus.
“Ég hélt einmitt að hún myndi frekar trúa vinkonu sinni heldur en mér. Það var bara líklegra,” svaraði Remus. Lily hristi höfuðið.
“Það yrði svolítið gaman að vita hvað hefði gerst ef þú hefðir sagt henni. Kannski hefði hún hætt strax með Siriusi áður en hún varð ástfangin af honum,” sagði Lily og brosti pínulítið.
“Og áður en hann varð ástfanginn af henni,” bætti Remus lágt við. Lily leit upp.
“Var HANN ástfanginn af henni?” stundi hún. Remus kinkaði kolli.
“Er þetta ekki alveg frábært….” muldraði Lily og lét höfuðið falla upp að stólbakinu. Svo leit hún aftur upp. “Ef hann var ástfanginn af henni af hverju sagði hann henni þá upp?” spurði hún hvasst.
“Því að hann var hræddur. Hann er ótrúlega hræddur um að einhver komist nálægt honum og særi hann. Þess vegna er hann aldrei með sömu stelpunni lengi,” útskýrði Remus. Lily kinkaði kolli.
“En hvað ég að gera í sambandi við Feneccu? Hún hleypur í burtu alltaf þegar ég nálgast,” sagði Lily með vott af örvæntingu í röddinni.
“Ég óttast að þú verðir að bíða með þetta fram á næsta skólaár. Eða fara í heimsókn til hennar í sumar. Þetta mun allavega ekki takast á næstu tveimur dögum. Sættu þig við það,” hvíslaði Remus. Hann var orðinn ótrúlega þreyttur og gat varla haldið augunum opnum.
“Remus, farðu að sofa. Þú ert alveg úrvinda,” sagði Lily móðurlega. Remus hristi höfuðið.
“Neinei. Ég… ég er ekkert þreyttur,” sagði hann og hristi höfuðið. Rétt á eftir mistókst honum að halda aftur af stórum geispa.
“Víst bjáninn þinn. Þetta er allt í lagi, ég þarf ekkert að úthella hjarta mínu meira,” sagði Lily og brosti. Remus brosti á móti og stóð upp.
“Góða nótt Lily,” geispaði hann og veifaði henni aðeins. Svo gekk hann upp í svefnálmu.

“Soffía, ef þú kemur þér ekki þarna inn í einum hvelli þá skil ég þig eftir!” sagði Fenecca og horfði í augun á kettinum sínum sem var falinn undir rúmi. Hún harðneitaði að vera inn í búrinu.
“Gerðu það kisa. Ég vil komast heim og ég get það ekki nema þú komir,” bað Fenecca og reyndi að teygja hendina eins langt og hún gat.
“Ungfrú Crock, hvað í ósköpunum ertu að gera? Flest allir eru farnir niður á lestarstöð!” sagði McGonagall ergileg fyrir aftan hana.
“Kötturinn minn neitar að koma undan rúminu því hún vill ekki vera í búrinu, prófessor,” útskýrði Fenecca og settist upp á hnén.
“Virkilega. Hvað heitir hún?”
“Soffía.”
McGonagall kinkaði kolli og á næsta andartaki var bröndóttur köttur fyrir framan Feneccu sem var á leiðinni undir rúm. Eftir smá stund kom McGonagall aftur undan rúminu með Soffíu á eftir sér og saman gengu þær út um dyrnar. Fenecca hristi höfuðið aðeins og tók koffortið sitt og búrið hennar Soffíu. Þegar þær komu að dyrunum sem lágu út á grundirnar fyrir utan Hogwartsskóla fór McGonagall í burtu, enn sem köttur.
“Jahérna Soffía. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt,” muldraði Fenecca og tók köttinn sinn upp. Það myndi þýða lítið að koma henni aftur fyrir í búrinu sínu, hún myndi hvort eð er losna úr því þegar þau kæmu inn í lestina.

“Fenecca!” var hrópað næstum um leið og hún var komin út fyrir vegginn á King Cross lestarstöðinni. Á næsta andartaki hafði mamma hennar, Rozalba, vafið höndunum utan um hálsinn á henni.
“Mamma… gaman að sjá þig líka. Viltu nú leyfa mér að anda aðeins meira?” sagði Fenecca og reyndi að teygja hálsinn til að fá loft.
“Auðvitað, afsakaðu! Ég var bara svo hrædd… ef eitthvað hefði nú komið fyrir þig á heimleiðinni, það hefði verið hrikalegt,” sagði mamma hennar með aðra höndina yfir öxlinni hennar.
“En það gerðist ekkert svo þetta er í lagi,” sagði Fenecca og brosti. Svo sá hún Eric og Tom standa aðeins hjá. Sem minnti hana á svolítið… hún hafði aldrei sagt mömmu sinni frá gjöfinni frá… pabba sínum en það var eitthvað sem hún ætlaði að gera í einrúmi.
“Akkúrat elskan! Komdu, við ættum að koma okkur heim. Ég er ekkert spennt fyrir því að vera hérna núna,” sagði Rozalba og fór með Feneccu til Erics og Toms.
“Halló, pirrandi,” sagði Fenecca og klappaði Tom á kollinn. Hann ýtti hendinni hennar í burtu og horfði fúll á hana.
“Sæl, vinan,” sagði Eric og faðmaði Feneccu þétt að sér. Hann var kannski leiðinlegur þegar hann talaði um “föður” hennar, en annars var hann bara fínn.
“Hæ Eric,” svaraði Fenecca og brosti.
“Jæja, í skottið með koffortið… jeminn eini, hvað ertu MEÐ í þessu stelpa?” stundi Eric og tók koffortið.
‘Slatta af bókum, fötum og kúst sem þið vitið ekki um.’ hugsaði Fenecca og faldi brosið.

“Uhm… mamma?” spurði Fenecca mömmu sína sem var á fullu í að búa til kvöldmatinn.
“Bíddu aðeins…. arriba!” hrópaði Rozalba og skellti pítsu inn í ofninn eftir að hafa skellt slatta af kryddum á hana. Svo sneri hún sér brosandi við.
“Já Fenecca?”
“Hérna… það var svolítið sem gerðist í vetur sem ég sagði aldrei frá….” byrjaði hún varlega. “Það var ein jólagjöf… hún var… þetta var kústur… og hann var frá pabba,” útskýrði Fenecca. Rozalba horfði á hana í smá stund.
“Pabba þínum? Ekki Eric?” Fenecca hristi höfuðið. “Hann veit af þér,” sagði hún og draumkennt bros lék um varirnar á henni.
“Mamma… hver er hann? Það eina sem ég veit er að hann er Rússi, búið! Hvað heitir hann?” spurði Fenecca örvæntingarfull. Hún vildi af öllum mætti vita hver hann væri.
“Ég vil helst sleppa því að segja þér það. Kannski gerir hann það sjálfur á endanum. Ef hann þorir,” svaraði Rozalba. Fenecca stundi og settist við borðið.
“Af hverju viltu ekki segja mér? Hvað er svona hrikalegt við það?”
“Ég bara… Fenecca, þessi maður sveik mig. Hann sá þig einu sinni þegar þú varst nýfædd og hvarf síðan. Stuttu seinna fékk ég uglu frá honum og stutt bréf þar sem hann sagðist einfaldlega ekki vera tilbúinn í að vera faðir því hann kynni ekkert á börn. Búið. Það eina sem ég frétti af honum eftir þetta var þegar hann lét slatta af peningum í fjárhirsluna mína í Gringotts og… tja, ég er viss um að það var hann sem lét Soffíu fyrir utan útidyrnar klukkan sex um morguninn á afmælisdaginn þinn. Hann elskaði alltaf dýr,” sagði Rozalba. Fenecca brosti.
“Geturðu í það minnsta sagt mér skírnarnafnið hans?” hvíslaði hún.
“Fyrst ég er búin að segja svona mikið. Það var, og er sennilega ennþá…” Á þessu andartaki ákvað einhver að hringja til þeirra!
“Indæl tímasetning,” muldraði Fenecca. Eftir nokkrar sekúndur kom mamma hennar aftur.
“Geturðu skotist til frú Daisy? Hún var að baka snúða og vildi endilega að Tom og þú fenguð nokkra,” sagði Rozalba. Fenecca stundi en kinkaði kolli. Frú Daisy var gömul kona sem bjó nálægt þeim og elskaði að baka.
“Þú LOFAR að segja mer nafnið á honum þegar ég kem til baka?” spurði Fenecca þegar hún var komin í útidyrnar.
“Auðvitað!”
Fenecca brosti og flýtti sér út.

“Gjörðu svo vel vinan mín,” sagði frú Daisy og rétti Feneccu stórt ílát sem var fullt af nýbökuðum snúðum. Sumir voru jafnvel með súkkulaði!
“Takk frú Daisy,” sagði Fenecca og brosti. Þessi gamla kona var stórskrítin en mjög góð. Fenecca hafði heyrt margar sögur af því þegar frú Daisy var yngri og hafði unnið hverja matarkeppnina á fætur annari.
“Endlega láttu hann litla bróður þinn fá eitthvað. Ójá, bíddu! Ég má ekki gleyma kisunni þinni!” Frú Daisy flýtti sér aftur inn í húsið og kom síðan aftur með lítinn poka.
“Kattamatur frá vinkonu minni, Emiliönu. Hún á dóttur sem heitir Arabella og stúlkan á ósköpin öll af köttum! Hún hefur verið að prófa sig áfram með að búa til ýmsan kattamat. Alveg yndislegt. Þetta á að vera mjög gott fyrir feldinn þeirra,” útskýrði frú Daisy og brosti. Fenecca kinkaði kolli.
“Takk kærlega,” sagði hún. Þessi gamla, skrítna og vinalega kona gat líka verið pirrandi til lengdar!
“Það var ekkert vinan mín. Farðu nú með þetta heim. Ég bið að heilsa honum Eric. Vertu sæl.” Fenecca brosti ósjálfrátt þegar hurðin lokaðist.
“Núna þarf ég bara að halda á þessu heim án þess að missa þetta,” muldraði hún og fór af stað
Hún var ekki komin langt áleiðis þegar hún sá glitta í húsið sitt í hinum enda götunnar. Hún fraus í sporunum og missti allt niður. Snúðarnir skoppuðu niður götuna og enduðu í holræsinu en Fenecca tók ekkert eftir því. Hún starði skelfingu lostin fram fyrir sig.
Yfir húsinu hennar sveif eiturgrænt myrkratáknið!

———————
Voila. Og takk allir sem fóru yfir kaflann :) Og ég er að hugsa um að taka sumt úr HBP og nota í plottið hérna. En ekkert mikið endilega. Og það er bara kannski. Og kemur örugglega ekki strax fram.