“Harry, ég verð að tala við þig.”
Ginny settist niður við hlið Harrys í setustofu Gryffindorturnsins og var greinilega mikið niðri fyrir.
“Allt í lagi,” svaraði hann óöruggur. Hvað hafði nú komið fyrir?
Ginny leit í kring um sig. Allt í kring um þau sátu nemendur sem voru að njóta síðustu samverustundanna áður en sumarfríið myndi hefjast.
“Í einrúmi,” bætti hún við alvarleg á svip.
Harry stóð á fætur og fylgdi henni fram á ganginn fyrir utan Gryffindorturninn. Hvað var eiginlega á seyði?
“Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að segja þér þetta,” sagði hún og hallaði sér taugaóstyrk upp að veggnum. “En mér finnst að þú þurfir að vita þetta og hvernig vinkona væri ég ef ég vissi af þessu og segði þér það ekki? Ég meina, ég myndi vilja vita af þessu ef ég væri þú,” hélt hún áfram og óð elginn.
“Ginny, hvað ertu að tala um?” spurði Harry sem var að verða áhyggjufullur.
“Ég sá Lunu vera að kyssa Zacharias Smith,” sagði Ginny lágt og úr augum hennar skinu áhyggjurnar.
Harry skellti upp úr.
Ginny starði á hann opinmynt og skildi greinilega ekki hvað var svona fyndið.
“Æ, fyrirgefðu, Ginny mín,” sagði Harry afsakandi, enn brosandi út að eyrum yfir léttinum. Þetta hafði þá ekki verið neitt alvarlegra en það. “Ég gleymdi að segja þér það, við Luna hættum saman í síðustu viku.”
“Ó,” Ginny virtist orðlaus um stund en það varði ekki lengi. Hún virtist í fyrstu undrandi, síðan reið að endingu virtist hún einungis ringluð.
“Hvað gerðist?” spurði hún. “Og er hún strax farin að vera með öðrum?” bætti hún við hneyksluð.
“Ginny, vertu róleg,” sagði Harry róandi. “Þetta var ekki slæmt. Við fundum það bara bæði að við erum mikið betri sem vinir en sem par. Við vorum alveg sammála um þetta. Ég hitti hana og bað hana að tala við mig en þá var hún fyrri til og sagði nákvæmlega það sem ég hafði ætlað að segja. Nema að hún sagði líka að hún væri hrifin af Zachariasi, það er ég ekki en mér fannst bara í fínu lagi að hún væri það,” sagði hann sannfærandi og brosti.
Ginny hló.
“Vá, ég átti kannski ekki alveg von á þessu,” viðurkenndi hún. “Og þú ert alveg viss um að þér sé sama þótt hún sé byrjuð með honum?” spurði hún og hleypti brúnum.
“Já, Ginny, mér er alveg sama,” fullvissaði hann hana um. “Auðvitað ætla ég rétt að vona, hans vegna, að hann fari vel með hana því mér þykir ennþá vænt um hana. Ég meina, hún er áfram vinkona mín og mér hættir til að hafa áhyggjur af vinum mínum, en ekkert meira af henni núna en til dæmis Neville,” sagði hann.
Ginny hló aftur og virtist loksins sannfærð um að hann væri fyllilega sáttur við stöðu mála.
“Þannig að þú ert þá bara orðinn laus og liðugur aftur,” sagði hún og einkennilegur glampi var komin í augu hennar. Eitthvað sem Harry kannaðist ekki við að hafa séð þar áður.
“Og ert að spá í Neville, segirðu?” bætti hún svo við spyrjandi og glotti út í annað.
“Nei, ég sagði það ekki!” galaði Harry upp og hljóp ógnandi á eftir henni í þann mund sem hún lét sig hverfa aftur inn í Gryffindorturninn.
Eftir kvöldmatinn var síðasta eftiseta vetrarins hjá Draco og Harry. Þeir höfðu tekið pásu frá hughrindingu í nokkurn tíma en eftir að Harry hafði séð Voldemort drepa Macnair höfðu þeir Snape ákveðið að halda áfram. Hann hafði undanfarið verið einn með Snape en núna ætlaði Draco að vera með til að undirbúa sig undir heilt sumar með föður sínum fjarri öryggi nýju vina sinna. Snape myndi reyndar geta litið til hans einstaka sinnum en það yrði ekki eins og í Hogwarts þar sem hann var alltaf til taks.
Harry kom niður í dýflissurnar fimm mínútum of seint. Hann gekk inn í kennslustofuna en hún var tóm. Hann furðaði sig á þessu því venjulega voru bæði Snape og Draco óhemju stundvísir. Hann tók eftir því að bókapoki Dracos var þarna á einu af fremstu borðunum en Draco sjálfur var hvergi sjáanlegur. Þá heyrði hann í þeim inni á skrifstofu Snapes. Hann gekk nær dyrunum og bankaði upp á.
“Komdu inn!” kallaði Snape til hans.
Harry opnaði dyrnar og gekk inn. Snape og Draco sátu þar saman við borð og drukku hunangsöl úr krúsum.
“Má bjóða þér?” spurði Snape og töfraði fram eina krús í viðbót.
Harry þáði það og fékk sér sæti.
“Hvað kemur til?” spurði hann forviða.
“Bara smá svona til að þakka fyrir veturinn,” sagði Snape og brosti. “Við erum búnir að eiga ágætar stundir hér saman í vetur og mér fannst alveg við hæfi að við enduðum veturinn svona.”
“Hver hefði giskað á það í haust að við þrír myndum sitja saman og sötra hunangsöl í lok vetrar?” sagði Draco í vantrú.
“Maður veit aldrei hvert lífið leiðir mann,” sagði Snape spekingslega og teygaði ölið.
Harry og Draco litu hvor á annan og sprungu úr hlátri.
“Hvað?” spurði Snape og var hálf særður yfir þessum óvirðulegu viðbrögðum.
“Ekkert,” svarði Harry og reyndi að bæla niður hláturinn.
“Þér eruð mjög svo djúpvitrir, mikli herra,” sagði Draco og um leið sprakk Harry aftur úr hlátri. Þeir Draco veltust um í stólunum sínum en Snape sat bara og hristi höfuðið yfir þeim. Það var þó ekki laust við að hann glotti lítið eitt.
“Æ, heyrðu, Snape” sagði Draco þegar hann hafði náð sér aftur eftir þetta hláturskast. “Ég er með töfraseyðabókina sem þú lánaðir mér um daginn. Hún er frammi,” sagði hann og gekk fram í kennslustofuna.
Harry fékk sér annan sopa af hunangsöli.
“Þarna felur þú þig þá, ónytjungurinn þinn!” Rödd Luciusar Malfoy barst há og hvell inn á skrifstofu Snapes.
Harry fraus í sæti sínu og Snape gaf honum merki um að láta ekki í sér heyra með snöggri handabendingu.
Þeir risu hljóðlega úr sætunum og gengu hljóðlaust að dyrunum.
“Þú litli óþokki, ræfill og aumingi!,” öskraði Lucius sem virtist viti sínu fær af reiði. Hann stóð og sneri baki í dyrnar að skrifstofu Snapes og varð þess vegna ekki var við að hann var með áhorfendur.
Draco stóð beinn í baki og starði á föður sinn. Það var ekki að sjá vott af hræðslu á andliti hans en Harry tók eftir að hann var talsvert fölari en hann hafði verið nokkrum mínútum áður. Hann vissi að Draco væri logandi hræddur þó að hann sýndi það ekki.
“Er það svona sem þú launar föður þínum uppeldið? Með svikum og prettum? Naðran þín!” hreytti hann út úr sér.
“Ég hlýt að hafa lært meira af þér en ég gerði mér grein fyrir,” sagði Draco og horfði stíft í augu föður síns.
“Þú ósvífni, hortugi krakki!” hreytti faðir hans út úr sér.
“Hélstu virkilega að þú kæmist upp með þetta? Það sást til þín um daginn. Það sást til þín á tali við Harry Potter, af öllum. Erkióvin myrka herrans. Krakkafíflið sem er honum stöðugur þrándur í götu.” Lucius var orðinn svo reiður að hann skalf. “Og hver var svo áætlunin, ef ég má spyrja? Að svíkja mig eða að svíkja hinn myrka herra? Eða okkur báða kannski?”
“Þú varst nú helsta takmarkið en ég ætlaði ekkert að stoppa þar,” svaraði Draco ögrandi og augu hans skutu gneistum.
“Veistu ekki að hinn myrki herra áttar sig alltaf á svona ráðagerðum og hann stöðvar þær alltaf á sinn hátt,” sagði Lucius ógnandi.
“Þar sem þú ert sonur minn er það í mínum verkahring að sjá um þig. Rétt eins og ég þurfti að sjá um móður þína fyrir að ala upp svona svikulan son. Hún var alltaf of lin við þig,” sagði hann með fyrirlitningu. Hann tók upp tinöskju á stærð við kökubox og skellti henni á borðið við hlið sér.
Í fyrsta sinn sýndist Harry hann sjá ótta í augum Dracos.
“Hvað er þetta?” spurði hann föður sinn hikandi.
“Þetta er lifrin úr henni móður þinni,” sagði Lucius blákalt. “Þín mun veita henni félagsskap eftir örskamma stund.”
Harry sá skelfingarsvipinn sem afmyndaði andlit Dracos og greip fast um sprotann sinn.
Lucius hóf sprota sinn á loft og beindi honum að Draco.
“Avada…”
BANG!
Hár hvellur hvað við og fyrr en varði lá Lucius Malfoy meðvitundarlaus á gólfinu, innyfli hans fljótandi út um öll op líkamans, misstór og sum virtust vera að stækka.
Harry, Snape og Draco stóðu allir með sprotana sína á lofti og horfðu með hryllingi á leifarnar af manninum fyrir framan þá.
Draco hrundi í gólfið, faldi andlitið í höndum sér og grét. Í fyrstu lágt en svo hærra og hærra. Snape gekk rösklega að honum og kraup við hlið hans.
“Harry, náðu í prófessor Dumbledore, eins og skot,” skipaði hann.
Harry lét ekki segja sér það tvisvar og hljóp af stað skjálfandi á beinunum.
Hann fann Dumbledore á skrifstofu hans þar sem hann sat og var að lesa.
“Dumbledore þú verður að koma strax,” sagði hann móður og másandi.
Dumbledore stóð á fætur og gekk yfir til Harrys.
“Hvað gerðist?” spurði hann rólegur en alvarlegur í bragði.
“Lucius Malfoy kom,” sagði Harry og reyndi að ná andanum. “Hann vissi um Draco, ætlaði að drepa hann, Vissi ekki af okkur Snape. Við bölvuðum hann allir. Held að hann sé dauður núna,” stundi hann upp áhyggjufullur á svip.
“Hvar eru Draco og Severus?” spurði Dumbledore ákveðinn.
“Í töfradrykkjastofunni,” svaraði Harry.
Dumbledore gekk með hann yfir að arninum á skrifstofunni, kastaði flugdufti inn í hann og örskammri stundu síðar voru þeir Harry komnir á skrifstofu Snapes.
Draco sat þar fyrir, í hnipri á stól og Snape við hlið hans. Snape stóð upp og tók á móti skólameistaranum.
“Ég held að hann sé dauður,” hvíslaði Snape og vísaði Dumbledore inn í kennslustofuna. Dumbledore gekk fram og kom innan skamms aftur til baka.
“Það er nokkuð ljóst að Lucius Malfoy stendur ekki upp frá þessu aftur,” sagði hann yfirvegaður en alvarlegur á svip. “Getið þið sagt mér frá hvað gerðist hérna inni?” spurði hann og horfði rannsakandi á þá.
Snape úskýrði í fljótu bragði það sem fram hafði farið, allt að því er bölvununum ringdi yfir Lucius.
“Ég sá að hann ætlaði að kasta drápsbölvuninni á Draco svo ég rotaði hann með Stupefy bölvuninni. Strákarnir sendu á hann einhverjar bölvanir líka en ég get ekki alveg sagt til hvaða bölvanir það voru,” lauk hann máli sínu og leit spyrjandi á Harry og Draco sem enn hafði ekki sagt eitt einasta orð.
“Ég sendi á hann stækkunarbölvun. Ég veit ekki afhverju. Ég fór bara alveg í pat og ég vissi að ég varð að gera eitthvað og þetta var það eina sem mér datt í hug,” svaraði Harry.
“Ég lagði á hann bölvun sem sendir öll innri líffæri út úr líkamanum,” sagði Draco með kaldari röddu en Harry hafði nokkru sinni heyrt hann nota. “Ég var nýbúinn að lesa um þessa bölvun og þetta var það ógeðslegasta sem mér gat dottið í hug að gera við hann og hann átti það skilið,” sagði hann og Harry sá hvað heiftin sauð í honum.
Dumbledore kinkaði kolli sorgmæddur á svip.
“Elsku drengur,” sagði hann og horfði á Draco. “Severus, ég held að Draco þurfi að fá að hvíla sig svolítið. Hann getur ekki farið aftur á Slytherinheimavistina því þar er hann ekki öruggur lengur. Getur þú tekið hann með þér í starfsmannaálmuna og leyft honum að gista í þínu herbergi í nótt?” spurði hann.
Snape kinkaði kolli.
“Ég held við ættum ekkert að láta það berast hvað gerðist hér niðri. Ég læt Arthur vita af þessu og við látum þagga þetta niður. Ég sé ekki að það sé neinum greiði gerður að láta ykkur fara í gegn um réttarhöld og slíkt þegar svona stendur á. Þetta var augljóslega slys og ef þið hefðuð ekki brugðist svona snögglega við væri Draco ekki með okkur lengur,” hélt hann áfram. “Þið ættuð að koma ykkur í bólið, við tölum betur saman á morgun.”
Daginn eftir gekk Harry á fund Dumbledores.
“Ég er búinn að vera að hugsa,” sagði hann þegar hann var sestur gegnt Dumbledore á skrifstofu hans. “Í haust sagðir þú mér að ég þyrfti að búa hjá frænku minni því að það væri eini staðurinn þar sem ég væri alveg öruggur. Svo lengi sem ég kallaði Runnaflöt heimili mitt þá væri ég öruggari þar en nokkurstaðar annarsstaðar,”
Dumbledore kinkaði kolli.
“Ég þarf ekki á því að halda lengur,” sagði Harry blákalt. “Ég vil ekki lengur búa á Runnaflöt. Ég vil ekki flýja í öruggt skjól. Það er ég sem þarf að vinna Voldemort og ég geri það ekki úr öruggu skjóli. Ég vil flytjast alfarið í Hroðagerði,” sagði hann ákveðinn.
Dumbledore leit hugsandi á hann.
“Mér datt svo sem í hug að það kæmi að þessu,” játaði hann. “Ég vonaði að það myndi ekki gerast strax en ég verð að játa að ég skil vel hvað þú ert að hugsa.”
“Ég fer ekki aftur til Dursley fjölskyldunnar. Ég er hættur að flýja, ég er hættur að þurfa skjól. Ég verð sautján ára í sumar og hef náð fullorðinna manna tölu í galdraheiminum. Nú fer ég til fjölskyldunnar minnar, Weasley fjölskyldunnar, á heimilið mitt í Hroðagerði,” sagði Harry ákveðinn. “Og ég ætla að bjóða Draco að koma með mér,” bætti hann við.
Dumbledore brosti örlítið og kinkaði kolli.
“Ég var að vona það,” sagði hann. “Hann þarf virkilega á vinum að halda núna.”
Harry sendi Dursley fjölskyldunni bréf til að tilkynna þeim um ákvörðun sína. Í bréfinu þakkaði hann frænku sinni fyrir að hafa gefið honum húsaskjól og vernd. Hann sagði að hann kæmi við einhvern tíman um sumarið til að sækja það sem hann ætti enn hjá þeim en þau skildu ekki búast við honum mikið meira en það.
Hann vissi að það yrði mikil geðshræring í Runnaflöt þegar Hedwig kæmi með bréfið en sú geðshræring myndi fljótlega breytast í kæti þegar innihald þess kæmi í ljós.
Hann hélt glaður í bragði upp í Gryffindorturn til að ljúka við að pakka niður eigum sínum.
Í turninum mætti hann Ginny sem kom skoppandi niður tröppurnar rjóð í vöngum og brún augu hennar geisluðu þegar hún sá hann.
Fiðrildin í maga hans gerðu vart við sig á ný.
“Ginny, ég þarf að tala við þig,” sagði hann. “Reyndar þyrftu Ron, Hermione og Neville að heyra þetta líka. Geturðu náð í Hermione og komið með hana upp í herbergið okkar?” spurði hann. Hann vissi að þau yrðu öll að fá að vita um Draco núna. Ef Draco kæmi með þeim heim í Hroðagerði urðu þau að vita hvað hafði gerst.
Ginny kinkaði kolli og stökk aftur af stað upp stigann.
Eftir stutta stund sat hópurinn allur saman í svefnsal drengjanna.
“Ætlarðu núna að segja okkur hvað er í gangi?” spurði Ron óþolinmóður. Hann sat á rúminu sínu og Hermione lá í fangi hans. Neville og Ginny sátu á rúminu hans Nevilles og Harry sat á sínu eigin rúmi.
“Lucius Malfoy dó í gær,” byrjaði Harry.
“Glæsilegt!” hrópaði Ron sigri hrósandi.
“Hvað gerðist?” spurði Ginny sem áttaði sig strax á að þetta var ekki öll sagan.
“Áður en ég segi ykkur það þarf ég að segja ykkur frá Draco,” sagði Harry alvarlegur í bragði.
“Er hann dauður líka?” spurði Ron vongóður á svip.
“Nei, Ron, sem betur fer ekki,” svaraði Harry pirraður. “Draco er ekki eins og þú heldur að hann sé. Hann hefur starfað sem njósnari fyrir Fönixregluna síðan í haust. Hann var vígður inn sem drápari, gegn eigin vilja, í janúar og hefur verið að hjálpa Snape við njósnir síðan þá. Það var að miklu leyti honum að þakka að við vissum af árásinni á Aberdeenshire,” benti hann á.
Kjálkinn á Ron hafði sigið niður á bringu og svo virtist sem augun ætluðu að detta úr tóftunum. Sömu sögu var að segja af Neville og Hermione virtist nokkuð brugðið líka.
“Við Draco erum búnir að vera saman í hughrindingartímum í vetur og erum orðnir mjög góðir vinir. Í síðustu viku sást svo til okkar þegar við vorum að tala saman og þá uppgötvaðist að Draco væri njósnari,” hélt Harry áfram.
Ginny greip andann á lofti. Hún vissi hvað það þýddi ef upp kæmist um Draco. Harry hafði ekki farið svo fáum orðum um það þegar hann sagði henni frá.
“Pabbi hans birtist hér í gærkvöldi til þess að drepa hann,” sagði Harry og hikaði. “Við vorum niðri í töfradrykkjastofu með Snape. Hann var einn í kennslustofunni, við Snape vorum inni á skrifstofunni. Lucius hafði fengið þær skipanir að drepa son sinn fyrir svikin og ekki bara hann heldur líka Narsissu fyrir að ala upp svona svikulan son.”
Aftur tók Ginny andköf og Hermione greip fyrir munninn. Kjálkinn á Ron virtist vera að ná sér á strik og nú lýsti svipur hans meira af undrun en einskærri vantrú.
“Lucius birtist hérna í gær með lifur Narsissu í boxi og ætlaði að drepa Draco en honum tókst það ekki. Ég, Snape og Draco sendum allir sitthvora bölvunina á hann sem endaði með dauða hans. Það var ekki fallegt en það er búið og Dumbledore sá svo um að það verða engir eftirmálar af því.”
Harry tók sér smá málhvíld til að leyfa vinum sínum að melta þessar upplýsingar.
“Ég er hér með alfluttur inn í Hroðagerði og ég ætla að bjóða Draco að koma og vera þar til að byrja með. Hann er ekki lengur öruggur á meðal fjölskyldu sinnar eða vina þeirra. Hann sefur ekki lengur í Slytherinheimavistinni því það er alls ekki öruggur staður fyrir hann. Hann þarf á vinum að halda og ég ætla að biðja ykkur um að taka vel á móti honum. Trúið mér þegar ég segi ykkur að sá Draco Malfoy sem þið haldið að þið þekkið er ekki til í raun og veru. Hann var bara gríma sem hinn raunverulegi Draco þurfti að setja upp til að lifa af í heiminum sem hann var fangi í.”
“Auðvitað tökum við vel á móti honum,” sagði Ginny ákveðin. Allir meðlimir Fönixreglunnar eru velkomnir á heimilið er það ekki? Afhverju ætti það að vera eitthvað öðruvísi með hann.”
Hermione og Neville kinkuðu kolli til samþykkis.
Ron starði enn á Harry.
“Ron? Get ég treyst á þig líka?” spurði Harry.
Ron kinkaði kolli með semingi.
“Ég lofa ekki að verða besti vinur hans en ég skal ekki koma illa fram við hann,” sagði hann ólundarlega.
Harry vissi að hann gat ekki búist við mikið meiru.
“Takk fyrir,” sagði hann. “Ég ætla að fara að tala við hann núna og þið hittið hann eflaust í lestinni.”
Hann gekk rólega að starfsmannaálmunni og fann dyrnar að herbergi Snapes. Hann hafði fylgt þeim þangað kvöldið áður og vissi því hvar hann átti að leita. Hann barði að dyrum og Snape opnaði fyrir honum.
“Get ég fengið að tala aðeins við Draco?” spurði hann.
“Já, hann situr hérna inni,” svaraði Snape. “Ég þarf að skjótast aðeins frá,” kallaði hann inn til Dracos. “Harry er kominn til að tala við þig. Ég sé ykkur á eftir.”
Að svo búnu fór hann út fyrir en Harry gekk inn til Dracos sem sat í sófanum í lítilli stofu Snapes og var að lesa.
“Hæ,” sagði Harry. “Hvernig hefur þú það?”
Draco lagði frá sér bókina og ypti öxlum.
“Hefurðu eitthvað spáð í hvert þú ferð þegar við förum héðan í dag?” spurði Harry.
“Nei, eiginlega ekki,” svaraði Draco. “Ég veit bara að ég fer ekki heim á Malfoysetrið. Ekki strax allavega.”
“Ég fer ekki aftur í Runnaflöt,” tilkynnti Harry. “Ég á núna Blackhúsið eins og þú veist. Þér er velkomið að koma þangað heim með mér,” sagði hann og horfði í augu Dracos.
Draco varð undrandi á svip.
“Býr ekki Weasleyfjölskyldan þar með þér?” spurði hann
“Jú,” svaraði Harry.
“Og heldurðu að þeim sé alveg sama þó að ég komi?”
“Já,” svaraði Harry aftur. “Flest þeirra vissu af því að þú værir einn af góðu gæjunum fyrir löngu síðan og Ron var að frétta það áðan. Þú ert velkominn. Það er kominn tími til að þú kynnist hinum vinunum mínum,” sagði Harry og brosti.
Draco varð taugaóstyrkur á svip.
“Takk,” sagði hann. “Takk fyrir allt. Þú ert virkilega vinur í raun.”
Harry fékk aftur þá tilfinningu að Draco væri ekki að segja honum allt sem honum bjó í brjósti en hann vissi að það þýddi ekkert að þrýsta á hann. Hann brosti bara til hans fegin því að geta boðið honum samastað.
Nokkrum stundum síðar rann Hogwartslestin af stað frá Hogsmeadlestarstöðinni. Harry horfði á kastalann hverfa í fjarskann.
Í lestarklefanum var mikil spenna í loftinu. Draco Malfoy var í fyrsta sinn að hitta vinahóp Harrys. Hann sat við hlið hans og virtist ekki líða vel. Hermione og Ginny höfðu reynt sitt besta til að heilsa honum og bjóða hann velkominn en það var eitthvað svo þvingað. Ron sat vandræðalegur og það var eins og hann vissi ekki alveg hvernig hann ætti að koma fram við Draco núna þegar þeir voru ekki lengur andstæðingar.
“Ron,” sagði Harry allt í einu. “Draco er drullugóður í skák. Hann er jafnvel betri en þú,” sagði hann til að storka honum. Það skilaði tilætluðum árangri því Ron greip upp skáksettið sitt og skellti því á borðið á milli þeirra.
“Jæja, ertu til í að sýna hvað þú getur?” spurði hann og glotti ögrandi.
“Allt í lagi,” svaraði Draco.
Harry horfði á þá tefla um stund. Hann vissi að þeir yrðu ekki perluvinir í einum hvelli, en það var allt í lagi. Þeir voru allavega ekki óvinir lengur og það var fyrsta skrefið.