“Hefur eitthvað heyrst meira?” spurði Lupin um leið og hann gekk inn á skrifstofu galdramálaráðherrans.
“Nei ekkert nýtt síðan á fundinum með uppljóstraranum,” svaraði Arthur.
Snape hafði komið á fund reglunnar tveimur dögum áður og látið vita af því að fyrirhuguð væri árás á Aberdeenshire í vikunni. Síðan hafði ekkert heyrst og allir voru í viðbragðsstöðu. Galdramálaráðuneytið var komið í gott samstarf við breska flugherinn sem beið eftir kallinu í útjaðri sýslunnar. Það hafði gengið ótrúlega vel að koma samstarfinu á. Með hjálp frá prófessor Egg og hershöfðingja Nevadadeildar Badaríkjahers hafði málið gengið eins og í sögu. Yfirmaður breska flughersins var ekkert nema samstarfsfús og snöggur að trúa því sem honum var sagt. Það kom reyndar í ljós að bróðir hans hafði verið galdramaður af muggaættum svo hann þekkti til galdraheimsins og fannst ekki slæmt að fá hjálp frá þessum heimi. Hann hafði reyndar þegar grunað að eitthvað yfirnáttúrulegt, eins og hann kallaði það, stæði á bak við þessar árásir í Skotlandi.
Bandalagið var því sterkara en nokkur hafði þorað að vona. Búið var að reyna að deyfa dreka á öðrum verndarsvæðum með deyfibyssum en það hafði tekist misvel. Svo virtist sem nauðsynlegt væri að hitta drekana á viðkvæmustu svæðin á skrokki þeirra til að pílurnar næðu í gegn. Þeir höfðu líka komist að því að það þurfti sjöfaldan þann skammt af deyfilyfjum sem venjulega var notaður á fíla til að slá drekana út. Nú var bara að bíða og sjá hvernig til tækist.
“Ég er að fara yfir um á að bíða eftir að eitthvað slæmt gerist,” sagði Lupin pirraður. “Við erum bara að sitja og bíða eftir að þeir byrji að drepa fólk.”
“Vertu rólegur, þetta byrjar nógu fljótt,” sagði Kingsley Shacklebolt alvarlegur í bragði.
Hópur manna og kvenna var saman kominn á skrifstofu Arthurs og beið eftir fréttum af fyrirhugaðri árás.
Lupin gekk út í horn á skrifstofunni þar sem Tonks sat fyrir í litlum tveggja sæta sófa. Hann settist við hlið hennar og tók í höndina á henni.
Hún strauk handarbak hans róandi með hinni höndinni og hann fann hvað pirringurinn dofnaði.
“Er allt í lagi?” hvíslaði hún í eyra hans.
Hann kinkaði kolli.
“Já, ég vil bara fara að byrja þetta. Þoli ekki þessa bið,” svaraði hann frekar óþolinmóður. “Það er nákvæmlega hálfur mánuður í fullt tungl svo ég er upp á mitt besta núna og ég vil ekki þurfa að bíða þar til ég get ekki tekið þátt í þessu og lagt mitt af mörkum.”
“Þú hefur lagt þitt af mörkum og meira en það, sama hvort þú tekur þátt í þessari orrustu eða ekki,” sagði Tonks og hallaði sér upp að honum.
Hann tók utan um hana og kyssti hana blítt á ennið.
“Ég vil heldur ekki að þú farir þangað án mín,” hvíslaði hann. “Ég veit að þú getur séð um þig sjálf en ég vil geta passað þig ef eitthvað gerist. Ég vil ekki missa þig,” bætti hann lágt við og þrýsti henni fastar að sér.
Tonks ranghvolfdi í sér augunum.
“Remus, hættu þessu bulli, þú losnar ekki svo auðveldlega við mig,” sagði hún og kyssti hann.

“Það er byrjað!”
Percy Weasley kom askvaðandi inn á skrifstofu föður síns með tilkynningu í höndunum.
“Þeir eru komnir á drekunum og eru að brenna niður bæinn Fraserburgh í Aberdeenshire. Flugherinn er lagður af stað og við þurfum að senda okkar lið á staðinn strax,” sagði hann óðamála.
Arthur Weasley stóð á fætur. Hann dró niður kortið af Aberdeenshire og benti á Fraserburgh.
“Þarna er það,” sagði hann. “Allir af stað og sýnið nú hvað í ykkur býr!”
Lupin kyssti Tonks á munninn og tilfluttist svo í einum hvelli yfir til bæjarins. Hann birtist á fáfarinni götu í miðjum bænum. Hátt uppi á himninum sá hann hvar drekar flugu um með drápara á bakinu og blésu glóandi eldhnöttum yfir bæinn. Allt í kring um hann birtust nú samstarfsmenn hans og skyggnar úr ráðuneytinu. Þarna kom Tonks rétt við hlið hans, Arthur Weasley fyrir framan hann, Skröggur Illauga birtist hægra megin við hann ásamt Kingsley Shacklebolt og fleiri vinir og kunningjar birtust víðsvegar um nærliggjandi götur.
Bærinn var í hryllilegu ástandi. Víða stóðu hús í björtu báli, íbúarnir voru hlaupandi um göturnar í skelfingu og drápararnir skutu bölvunum sínum að þeim. Sumir lágu meðvitundarlausir, stjarfir, jafnvel látnir víða um göturnar. Einhverjir svifu í lausu lofti, skelfingu lostnir, enn aðrir voru í trylltum álagadansi og gátu enganveginn stöðvað sig. Hvarvetna mátti sjá eyðileggingu, skelfingu og ótta.
Skyggnarnir hófust handa við að bjarga því sem bjargað varð og koma þeim íbúum sem enn var hægt að bjarga inn í húsin í skjól frá bölvununum. Lítið var þó hægt að gera til að skýla fólkinu frá eldspúandi ófreskjunum sem flugu um og brenndu allt sem fyrir þeim varð til kaldra kola.
Lupin varð allt í einu var við tvö lítil börn sem komu hlaupandi út úr brennandi húsi á bak við hann. Hann leit upp og sá hvar stór norskur Rákdreki kom svífandi og dráparinn á baki hans beindi sprota sínum ógnandi í átt til barnanna. Lupin stökk til, greip þau í faðm sér og hljóp eins og fætur toguðu yfir götuna og í hvarf á bak við næsta hús.
Hann flýtti sér að koma börnunum í öruggt skjól hjá gamalli konu sem birtist þar í dyragættinni skelfingu lostin á svip.
Lupin stökk aftur af stað með sprotann á lofti. Hann var rétt kominn aftur fram undan húsinu þegar sami drekinn birtist fyrir framan hann. Drekinn spúði eldi yfir götuna og á baki hans mundaði dráparinn sprotann.
Lupin skaust undan bölvuninni og miðaði sprotanum sínum á dráparann.
“Stupefy!” kallaði hann hátt og skýrt. Rautt ljós skaust úr sprotanum hans og hæfði dráparann beint í andlitið. Dráparinn missti samstundis meðvitund og féll af drekanum sem flaug aftur af stað, spúandi eldi í allar áttir.
“NORBERT!”
Lupin leit undrandi við og sá hvar Hagrid kom hlaupandi og öskraði á eftir drekanum.
“Viltu koma hérna aftur eins og skot drengur!” hrópaði hann eins og hann væri að skamma drekann. “Norbert, komdu til mömmu!”
Lupin hristi höfuðið og hljóp af stað til að hirða upp dráparann. Hann lyfti honum upp, slengdi honum yfir öxlina og hljóp með hann af stað til Arthurs sem hann sá í hinum enda götunnar.
“Við erum með afdrep í húsinu þarna,” sagði Arthur og benti á stórt hús sem stóð við enda götunnar. “Það er búið að leggja á það eldvarnarálög. Þetta verða bækistöðvar okkar hér í bænum. Þangað förum við með þá sem við náum og eins þá sem eru særðir. Græðarar frá st. Mungos eru nú þegar mættir á svæðið tilbúnir til að taka við slösuðum einstaklingum.”
Lupin kinkaði kolli og hlóp af stað með dráparann á bakinu.
Inni í húsinu var hópur af fólki sem brást fljótt við þegar Lupin kom inn með dráparann á bakinu. Hann skellti meðvitundarlausum manninum á gólfið og tveir menn tóku undir hvora hönd hans og drógu hann inn í herbergi sem nota átti sem fangageymslu.
Hann leit í kring um sig og sá að hópur fólks var að setja upp sjúkrarúm og útbúa aðstöðu fyrir græðarana til að athafna sig. Nokkrir ráðuneytisstarfsmenn og skyggnar lágu þegar á bekkjunum misjafnlega mikið særðir. Sumir með einföld útlimabrot, aðrir með stóreflis brunasár og einhverjir voru að kljást við slæmar afleiðingar af hinum ýmsu bölvunum.

Lupin gekk aftur út tilbúinn í aðra umferð. Hann mætti Tonks sem hafði verið að flytja slasaðan vinnufélaga til græðaranna.
“Hvernig gengur?” spurði hann og tók í hönd hennar um leið og þau gengu rösklega frá húsinu.
“Úff, það er allt að verða vitlaust hérna,” svaraði hún. “Ekki nóg með að maður þurfi að vera að berjast við drápara á drekabaki heldur þarf maður líka að vera að passa upp á muggana sem hlaupa hérna um allt eins og hauslausar hænur. Ég meina, skilur þetta fólk ekki neitt? Fattar það ekki að það er öruggast að halda sig innandyra?”
Lupin ypti öxlum.
“Líklega ekki. En hvar er flugherinn? Hvaða voða tíma tekur það þá að komast hingað?” sagði hann og leit til himins.
Rétt í því birtust fyrstu orrustuþoturnar með tilheyrandi hávaða og látum.
“Jæja, loksins,” bætti hann við með létti. “Þá er um að gera að drífa þetta af. Farðu varlega!” kallaði hann til hennar áður en hann hljóp á móti dreka sem kom svífandi í áttina til þeirra.
“Farðu bara varlega sjálfur!” kallaði hún til baka og hljóp svo í hina áttina.
Það var eins og íbúum bæjarins létti örlítið við að sjá að herinn. Fleiri hlustuðu nú á fortölur ráðuneytisstarfsmanna og héldu sig innandyra.
Orrustuþoturnar sveimuðu nú yfir svæðinu og meðal þeirra voru þrjár þyrlur vopnaðar risavöxnum deyfibyssum sem höfðu verið sérútbúnar fyrir þennan bardaga. Hliðarnar á þyrlunum voru opnar og skytturnar höfðu tekið sér stöðu og hófust handa við að skjóta niður drekana eins og gert hafði verið á æfingunum. Lupin fylgdist með þeirri sem flaug næst honum. Fyrsta skotið geigaði og gerði ekkert gagn annað en að æsa upp sænsku flatnefjuna sem miðað var á. Hún flaug sem óð væri í áttina að þyrlunni og skeytti engu um dráparann sem sat á baki hennar. Næsta skot geigaði ekki jafn illa en þó fór ekki betur en svo að það var dráparinn sem varð fyrir því og féll samstundis meðvitundarlaus af baki og þaut með ógnarhraða til jarðar. Hann lenti við hlið Lupins með háum bresti og lá svo grafkyrr í afar óeðlilegri stellingu.
Þriðja skotið hitti loksins í mark. Pílan fór á kaf í handakrika flatnefjunnar. Drekinn flaug áfram reiður í áttina að þyrlunni en fyrr en varði voru lyfin farin að segja til sín og drekinn orðinn ringlaður. Hann breytti um stefnu og lét sig svífa til jarðarinnar. Hann missti meðvitund í um það bil hundrað metra hæð og brotlenti harkalega á jörðinni. Lupin sýndist hann þó hafa lifað það af og nú virtist hann sofa þarna nokkrum metrum frá honum.
Þyrlan hélt áfram að skjóta á dreka sem ólmuðust í námunda við hana. Drápararnir reyndu hvað þeir gátu að skjóta niður orrustuþoturnar og þyrlurnar með ýmsum bölvunum sem virkuðu vanalega á fljúgandi hluti eins og kústa og slíkt. Ekkert dugði þó á vélar hersins sem var haldið uppi með vísindum en ekki göldrum.
Lupin hljóp út á bersvæði í þorpinu og skaut bölvunum í loftið og reyndi að hæfa dráparana. Rétt hjá honum stóðu Kingsley og nokkrir fleiri skyggnar og gerðu slíkt hið sama.
Drekarnir steyptu sér yfir þá hver á fætur öðrum. Drápararnir á bökum þeirra skutu bölvunum yfir skyggnana á jörðunni með misgóðum árangri. Sumar hittu beint í mark en aðrar fóru fram hjá.
Lupin sá hvar Kingsley féll meðvitundarlaus til jarðarinnar eftir að grænt leiftur hafði hæft hann. Hann hljóp til og kraup við hlið hans. Það var ekkert lífsmark að sjá. Hann leit upp og sá hvar stærðarinnar dreki kom aðsvífandi og spúði stórum eldhnetti yfir þá. Hann stökk til hliðar og náði að bjarga sjálfum sér. Hann leit aftur á Kingsley sem nú stóð í björtu báli. Hann slökkti eldinn í flýti en það var of seint. Það eina sem var eftir af Kingsley voru beinin og sviðið holdið.
Lyktin var óbærileg.
Lupin hljóp afsíðis og kastaði upp.
Hann gat ekki meira.

Allt í einu heyrði hann óp skammt frá.
Þetta var Tonks.
Hjartað hamaðist í brjósti hans og hann hljóp af stað eins hratt og hann gat. Þarna stóð hún á miðju torginu og barðist við drápara sem var lentur á jörðinni. Hún virtist særð því hún bar sig einkennilega.
Allt í einu lyfti dráparinn sprota sínum og beindi honum að brjósti hennar.
Fyrr en varði lá hún í krampaköstum á jörðinni og æpti upp af sársauka.
Lupin stökk af stað, hraðar en hann hafði nokkru sinni á ævinni hlaupið. Þegar hann var kominn nógu nálægt dró hann upp sprotann sinn og beindi honum að dráparanum í flýti.
“Expelliarmus!” kallaði hann eins hátt og hann gat.
Töfrasprotinn flaug úr höndum dráparans sem steyptist fram fyrir sig og lenti við hlið Tonks sem nú hætti að öskra og virtist vera að reyna að ná áttum.
Lupin flýtti sér að senda nýja bölvun á hann.
“Stupefy!” kallaði hann hátt og dráparinn missti um leið meðvitund og hneig til jarðar.
Lupin hljóp yfir til Tonks og tók hana í fangið.
“Er allt í lagi með þig?” spurði hann skelfdur á svip.
“Já, já,” svaraði hún ringluð. “Ég er bara enn að átta mig.”
Lupin kyssti hana ástúðlega á munninn.
“Hamingjunni sé lof að þú ert heil á húfi,” sagði hann og stundi af létti.
“Ég bara trúi því ekki að ég hafi verið svona vitlaus að gefa honum færi á því að gera þetta,” sagði hún pirruð út í sjálfa sig. “Svona láttu mig niður, ég get alveg gengið,” bætti hún við.
Lupin lét hana niður með semingi en fann að hún skalf ennþá.
Einhversstaðar nálægt þeim heyrði hann hús hrynja með braki og brestum.
“Þú ert særð,” sagði Lupin og tók um handlegg hennar sem virtist snúinn.
“Ekkert alvarlega,” svaraði hún óþolinmóð.
“Getur þú farið með hann í bækistöðvarnar og kannski sest aðeins niður til að jafna þig í smá stund?” spurði hann varfærnislega og benti á meðvitundarlausann dráparann. Hann vildi ekkert frekar en að koma henni burt þó ekki væri nema um stundarsakir.
Tonks kinkaði kolli skömmustuleg á svip.
Hún leit upp til hans og ætlaði að fara að segja eitthvað þegar svipur hennar breyttist allt í einu og Lupin fannst hann greina áhyggjur í augunum.
“Hvað kom fyrir?” spurði hún, andlit hennar uppljómað í augnablik af eldhnetti hátt fyrir ofan þau.
“Hvað áttu við?” spurði hann hikandi.
“Þú ert svo hryllilega fölur og það er eitthvað sem þú ert ekki að segja mér.” sagði hún. “Varstu að æla?” bætti hún svo við hissa og fitjaði örlítið upp á nefið.
Lupin varð niðurlútur. Hann vissi að hann varð að segja henni sannleikann.
Hann leit aftur í augu hennar.
“Kingsley er dáinn,” sagði hann lágt.
Tonks greip höndunum fyrir munn sér og hann sá tárin myndast í augum hennar. Hann vissi hve náin þau höfðu verið. Tonks hafði litið á Kingsley sem nokkurnskonar föðurímynd allt frá því hún byrjaði í skyggnanáminu.
Hann sá að hún var að reyna að harka af sér og augnaráðið varð hörkulegra en hann hafði nokkru sinni séð það fyrr, þó stirndi enn á tárin í augnkrókunum. Hún gekk ákveðnum skrefum að meðvitundarlausum dráparanum og lyfti honum upp með sprotanum sínum og lét hann fljóta á undan sér í átt til bækistöðvanna.
Lupin horfði á eftir henni örlitla stund.
Allt í einu hrökk hann við þegar meðvitundarlaus dreki lenti skammt frá honum. Hann reyndi að hrista af sér drungann og leit í kring um sig til að átta sig á stöðu mála.
Allt í kring um hann lágu drekarnir meðvitundarlausir. Hann taldi hátt í tíu í fljótu bragði. Hann leit upp en sá þá sér til mikillar skelfingar að drápararnir höfðu áttað sig á að þyrlurnar voru þeim hættulegastar. Þeir réðust að hverri þyrlu allt að fimm drekar í einu. Það var engin leið fyrir áhafnir þyrlanna að verjast þessu og fyrr en varði stóðu tvær þeirra í ljósum logum og hröpuðu eins og steinar. Sú þriðja flúði út yfir bert haf með þrjá dreka í eftirdragi.
Eins og hendi væri veifað steyptu tólf orrustuþotur sér niður úr skýjunum með ærandi gný. Gráar og grimmúðlegar í útliti minntu þær Lupin helst á hákarla. Tvær þeirra veltu sér til hliðar og eltu þyrluna sem hafði komist undan. Drekarnir nálguðust hana óðfluga og logar þeirra léku um stél hennar þegar vélbyssur þotanna spúðu blýi.
Tveir drekar rifnuðu eftir endilöngu þegar hryggjarsúlur þeirra sundruðust undan ógnarhrinunni. Sá þriðji sneri við og spúði eldi sem hafði lítil áhrif önnur en þau að vekja athygli hitasækinnar eldflaugar sem rataði aftur í kok hans áður en hún sprakk.
Hinar þoturnar völdu sér skotmörk sem máttu sín lítils undan gelti vélbyssanna. Glóandi byssukúlur flugu um loftið og sundurskotnir drekar hröpuðu þunglamalega til jarðar og krömdu sumir knapa sína í fallinu.
Innan skamms ríkti alger ringulreið meðal drekanna og áttu sumir drápararnir sprotum sínum fjör að launa.

Það var ekki auðvelt að fóta sig á jörðinni og Lupin átti fullt í fangi með að verða ekki undir þungum hræjunum sem féllu niður.
Hann smeygði sér fram hjá þeim og skaust frá rétt áður en þau lentu og flýtti sér sem mest hann mátti aftur til bækistöðvanna. Þar var öruggast að vera núna. Muggarnir virtust alveg ráða við þetta án nokkurrar hjálpar frá galdramönnunum.
Þar mætti hann Arthuri Weasley sem horfði órólegur út um gluggana.
“Þeir eru hættir að nota deyfilyfin,” sagði hann ósáttur.
“Drekarnir brenndu þyrlurnar og áhafnir þeirra,” sagði Lupin. “Þeir hafa engin deyfilyf lengur. Þetta er eini úrkosturinn.”
“Það er nú ekki hægt að þræta fyrir að það er stíll yfir þessum muggum,” sagði Arthur og ekki var laust við aðdáun skini úr svip hans í örlitla stund. Hann leit aftur á Lupin og varð alvarlegri á svipinn.
“Við höfum fengið fréttir af sautján skyggnum sem eru látnir og tíu í viðbót liggja hér inni hjá græðurnunum. Skröggur er dáinn,” bætti hann við.
Lupin brá við þessar fréttir.
“Ertu búinn að heyra af Kingsley?” spurði hann lágt.
Arthur brá við og áhyggjuglampi kom í augun.
“Nei?” sagði hann í spurnartón. “Hvað kom fyrir?”
“Hann varð fyrir bölvun, hugsanlega drápsbölvuninni, ég er ekki viss, og síðan var hann brenndur til kaldra kola,” svaraði Lupin lágt. Augu hans voru að fyllast af tárum en hann skyldi ekki gráta, ekki núna.
Arthur lokaði augunum sorgbitinn á svip. Hann hristi höfuðið og leit svo upp til himins.
“Þessu er að ljúka,” sagði hann. “Flestir af drekunum eru dauðir og nánast allir drápararnir sem hafa ekki náðst nú þegar eða farist eru flúnir.” Hann leit á Lupin og virti hann fyrir sér í dálitla stund.
“Farðu inn og hvíldu þig,” sagði hann og benti honum inn í stofuna. “Þér veitir víst ekki af.”
Lupin þáði það og gekk inn í stofuna þar sem Tonks sat nú þegar og drakk heitt súkkulaði. Hún varð þess varla vör að hann kæmi inn og starði þögul fram fyrir sig.
Hann settist við hlið hennar og tók utan um hana án þess að segja orð.
“Viltu súkkulaði?” spurði hún dauflega og rétti honum bollann. “Það er víst allra meina bót, eða svo segja græðararnir,” bætti hún við.
Lupin hristi höfuðið og afþakkaði.
“Hvernig líður þér?” spurði hann.
Hún leit á hann og hann þurfti ekki annað en horfa í augu hennar til að átta sig á hversu fáránleg spurningin hafði verið.
“Ég veit,” hvíslaði hann í afsökunartón og kyssti hana ástúðlega á ennið.
Hún lagði frá sér súkkulaði bollan og hjúfraði sig upp að honum.
Hann strauk höndinni mjúklega yfir stutt hárið sem í dag var fjólublátt.
Þau sátu hljóð saman í dágóða stund þar til útidyrahurðinni var hrundið upp.
Í dyragættinni stóð ungur hermaður í réttstöðu.
“Þessu er lokið,” tilkynnti hann. “Allir drekarnir eru fallnir og grímuklæddu óþokkarnir eru flestir á bak og burt. Einhverjir þeirra liggja þó í valnum úti á vígvelli. Það er eitthvað af slösuðum mönnum á vellinum líka. Það vantar fólk til að koma út og athuga hvort einhverjum er hægt að bjarga. Menn úr hernum eru að ganga hús úr húsi til að athuga með ástand íbúa bæjarins.”

Allir sem vettlingi gátu valdið stukku af stað út úr húsinu og þustu um götur bæjarins til að leita að einhverjum á lífi.
Lupin og Tonks gengu saman um torgið og leituðu í gegn um drekahræin. Þau gengu fram hjá starfsmönnum frá drekaverndarsvæðunum sem voru að merkja þá dreka sem enn voru með lífsmarki og reyna að koma þeim í öruggt skjól áður en þeir vöknuðu á ný. Reynt var að stafla hræjunum saman til að hægt væri að nýta það sem nýtilegt var af þeim áður en þeim yrði fargað.
Í fjarska heyrðu þau einhvern gráta sárt. Þau litu forviða hvort á annað og gengu svo á hljóðið kvíðin á svip.
Hljóðið virtist koma frá einhverjum sem lá á bak við hræ af stórum, svörtum dreka með bronslitum rákum eftir bakinu. Þau gengu kring um hann kvíðin yfir því hvað þau myndu sjá.
Við höfuð drekans, sem virtist hanga við skrokkinn á einungis litlum tægjum, sat Hagrid og grét hástöfum.
“Elsku litli ljúfurinn hennar mömmu,” grét hann og strauk höfuðið blíðlega með stórum hrömmum sínum. “Afhverju hlýddir þú mér ekki? Afhverju komstu ekki til mín þegar ég kallaði? Ég hefði getað passað þig,” snökti hann í gegn um ekkann.
Tonks leit spyrjandi á Lupin sem hristi bara höfuðið hljóðlega og benti henni að koma með sér.
“Leyfum honum að jafna sig í smá tíma,” sagði hann. “Hann ungaði þessum út og hefur haft ákveðnar móðurtilfinningar til hans síðan þá. Gefum honum bara smá stund.”
Tonks kinkaði kolli og þau héldu áfram leið sinni um vígvöllinn sem eitt sinn hafði verið fallegt torg. Þau fundu nokkra af félögum sínum illa særða og komu þeim í flýti undir hendur græðaranna sem höfðu í nógu að snúast núna.
Jarðneskum leifum þeirra sem farist höfðu á vígvellinum var safnað saman og haldið til haga til að hægt væri að ganga úr skugga um hverjir þetta væru og veita þeim seinna hina hinstu kveðju.

Það var liðið langt fram á kvöld þegar Lupin, Tonks og Arthur birtust í Hroðagerði þetta kvöld. Molly hafði beðið áhyggjufull í eldhúsinu allan daginn og fylgst með klukkunni góðu. Vísar Lupins og Arthurs höfðu flakkað frá “Vinnu” og “á ferðalagi” að “í lífshættu”. Hún stökk á fætur þegar hún sá þau koma inn og faðmaði eiginmann sinn að sér. Hún steig svo eitt skref aftur á bak og áttaði sig á því hversu illa þau litu öll út.
“Hvað kom fyrir?” sagði hún örvæntingarfull. “Komið og fáið ykkur að borða á meðan þið segið mér frá því,” sagði hún svo áður en þeim gafst færi á að svara. Eldhúsborðið var hlaðið kræsingum. Hún hafði greinilega verið mjög áhyggjufull í dag.
“Ég kem eftir smá stund,” afsakaði Lupin sig. Hagrid hafði verið í miklu uppnámi allan daginn og hann vildi vera viss um að einhver tæki á móti honum þegar hann kæmi heim. Hann ætlaði að spjalla við Harry örlitla stund. Hann skaust upp í herbergið sitt og tók upp spegilinn sinn.
“Harry!” sagði hann hátt og skýrt.

Harry sat í Gryffindorturninum og var að spjalla við Ginny. Það var orðið áliðið og þau sátu bara tvö ein í setustofunni.
“Harry!” heyrðist allt í einu óma úr vasa hans.
“Hver er að kalla á þig úr vasanum þínum?” spurði Ginny forviða og skellti uppúr.
“Ah, þetta er Remus,” svaraði Harry og tók upp spegilinn sinn.
“Blessaður! Hvað er að frétta?” sagði hann um leið og hann leit á vin sinn. “Hvað er að sjá þig maður, þú lítur hryllilega út,” bætti hann við. “Kom eitthvað fyrir?”
“Árásin á Aberdeenshire var í dag,” svaraði Lupin lágt.
Harry fanst eins og hjarta hans ætlaði að stöðvast.
“Hvernig fór?” spurði hann áhyggjufullur.
“Þetta hafðist. Við misstum reyndar mikið af mönnum, en náðum líka þó nokkrum. Tólf drekar voru handsamaðir og fluttir á verndarsvæðin. Tuttugu og fimm voru drepnir,” svaraði Lupin sorgmæddur á svip.
“Misstum við einhverja úr reglunni?” spurði Harry ákafur.
“Skrögg og Kingsley,” svaraði Lupinn lágt.
Harry stýfnaði upp. Við hlið hans brast Ginny í grát.
“Hver er hjá þér?” spurði Lupin skelkaður þegar hann heyrði í henni.
“Ha?” Harry áttaði sig ekki á spurningunni, það var eins og heilinn í honum væri í hægagangi.
“Hver er hjá þér?” spurði Lupinn aftur ákveðnari á svip. “Ég heyri í einhverjum.”
“Já, þetta er Ginny,” svaraði Harry sem virtist vera að átta sig örlítið.
“Já, allt í lagi, hún má alveg heyra þetta líka. Harry, það var sérstaklega ein ástæða fyrir því að ég vildi tala við þig strax í kvöld,” hélt Lupin áfram.
“Meira?” spurði Harry örvæntingarfullur.
“Já og nei,” svaraði Lupin þreytulega. “Norbert hans Hagrids var með í árásinni í dag. Hann var drepinn og Hagrid var á staðnum. Hann var gjörsamlega niðubrotinn,” sagði hann.
“Æ, nei,” stundi Harry. Hann vissi hversu tilfinningasamur Hagrid gat verið þegar það kom að dýrunum hans.
“Ég held að hann þurfi sárlega á vini að halda í kvöld. Heldurðu að þú og kannski Ginny líka fyrst hún þarna hjá þér, getið skroppið út til hans og reynt aðeins að hughreysta hann? Hann ætti að vera að koma heim fljótlega. Hann fór með leiðarlykli til Hogsmead fyrir hálftíma síðan. Ef hann hefur ekki stoppað of lengi á barnum þá er hann hugsanlega kominn.” sagði hann.
“Ekkert mál,” sagði Harry. “Takk fyrir að láta mig vita. Ég heyri í þér seinna.”
Hann sneri sér að Ginny sem þurkaði tárin í flýti og saug upp í nefið.
“Er allt í lagi?” spurði hann varfærnislega.
Hún kinkaði kolli en sorgin skein úr augum hennar.
“Förum til Hagrids,” sagði hún ákveðinni en örlítið skjálfandi röddu.
“Það er orðið framorðið svo ég hugsa að það sé best að vera undir huliðskikkjunni svo við lendum ekki í vandræðum með Filch,” sagði Harry og stökk af stað upp í herbergið sitt eftir skikkjunni.
Stuttu síðar voru þau Ginny saman undir henni á leiðinni niður stiga kastalans. Hann var kominn með nístandi höfuðverk sem hann gerði sér allt í einu grein fyrir að var staðsettur í örinu og kring um það. Hann versnaði í sífellu. Þau gengu rösklega í geng um anddyri kastalans og út í svalt næturloftið.
Allt í einu var eins og höfuðið á honum væri að springa. Allt hringsnerist fyrir augunum á honum og hann sá mann engjast sundur og saman af kvölum fyrir framan hann. Hann kannaðist við þennan mann en mundi ekki hver hann var.
“Avada Kedavra!” heyrði hann allt í einu sjálfan sig segja hryllilegri, kaldri og nýstandi röddu. Maðurinn fyrir framan hann hætti að engjast og lá grafkyrr. Allt hringsnerist aftur og fyrr en varði lá hann í snjónum fyrir utan Hogwartsskóla og Ginny kraup grátandi yfir honum og gerði tilraunir til að róa hann. Hann hallaði sér fram og lét brennandi ennið hvíla í köldum snjónum og fann hvað sársaukinn minnkaði örlítið við það.
Ginny hallaði sér yfir hann og strauk honum um bakið.
“Er allt í lagi?” spurði hún skelfd með grátstafina í kverkunum.
Harry settist upp og tók utan um hana. Hún faðmaði hann þétt að sér til baka.
“Hann var að drepa einhvern. Hann var brjálaður af reiði,” stundi hann upp.
Hún tók andköf við eyra hans.
“Veistu hvern?” spurði hún varfærnislega.
Harry braut heilan lengi áður en hann áttaði sig á hver maðurinn hafði verið.
“Ég held þetta hafi verið Macnair,” sagði hann hugsi.
Höfuðverkurinn var enn nánast óbærilegur. Hann reyndi sitt besta til að hreinsa hugann eins og Snape hafði kennt honum. Smám saman tókst það og höfuðverkurinn minnkaði eftir því.
Allt í einu varð hann var við að Ginny skalf í fangi hans og mundi eftir að þau voru fremur léttklædd úti í snjónum, á leiðinni til Hagrids.
“Drífum okkur inn,” sagði hann um leið og hann stóð á fætur og hjálpaði henni upp.
Þau flýttu sér sem mest þau máttu að kofa Hagrids. Þegar þangað var komið heyrðu þau háværan grátur og ekkahljóð sem bárust út um opinn eldhúsgluggann.
“Ah, ah, ’ann lengdi bara eftir fjörðunum!” heyrðist kjökrað.
“Þetta verður löng nótt,” sagði Harry lágt áður en hann bankaði að dyrum.