“Hvað er að þér, maður?” hrópaði Seamus og horfði hræddur og reiður á Harry um leið og hann flýtti sér til að athuga með vin sinn.
Dean lá hreyfingarlaus á gólfinu.
Harry stóð og starði á þá og skalf af bræði, fyrirlitningu og hræðslu.
Hafði hann drepið Dean?
Neville settist upp í rúminu sínu og starði á þá.
“Hann andar,” sagði Seamus. “Og honum blæðir hvergi,” bætti hann við en í sama bili rankaði Dean við sér og starði ringlaður á Harry. Hann lá í smá stund áfram á gólfinu þar til hann virtist vera búinn að ná áttum.
Þá stóð hann upp með erfiðleikum og nuddaði á sér höfuðið.
Harry horfði á hann og fyrirlitningin skein úr augum hans. Hann var hættur að skjálfa. Hræðslan var horfin og reiðin og fyrirlitningin höfðu aftur náð tökum á honum.
Dean starði á hann til baka.
“Hún sagði þér það, er það ekki?” spurði hann svo pirraður.
“Já, hún sagði mér það,” svaraði Harry reiður.
“Auðvitað sagði hún herra fullkomnum allt,” sagði Dean enn pirraðri og hélt áfram að nudda á sér höfuðið.
“Hvað er eiginlega að þér?” spurði Harry án þess að veita ummælum hans athygli. “Hvernig geturðu komið svona fram við hana?”
“Hvað kemur þér það við?” spurði Dean og horfði ögrandi á hann.
“Það kemur mér við því að hún er vinkona mín,” svarði hann. “Vertu bara feginn að Ron er ekki búinn að heyra af þessu,” bætti hann svo ógnandi við.
“Ú, ég skelf,” sagði Dean í uppgerðarhræðslutón. “Og hvað getur hann gert, rotað mig fastar?” spurði hann hæðnislega.
Harry dró sprotann sinn fram úr erminni þar sem hann geymdi hann vanalega og benti honum að Dean.
“Furnunculus!” sagði hann hátt.
Dean starði á hann opinmyntur á meðan bólur og graftarkýli spruttu út á andliti hans og berri bringunni. Hann leit niður á líkama sinn og sneri sér svo aftur að Harry.
Hann greip upp sprotann sinn sem lá á náttborðinu á bak við hann.
“Silencio!” hrópaði Harry að honum aftur áður en hann gat sagt nokkuð.
Dean beindi sprotanum sínum að Harry og reyndi að segja eitthvað en kom ekki upp nokkru hljóði. Blátt ljós skaust úr sprotanum hans en Harry skaut sér undan því svo það hitti hurðina fyrir aftan hann og skildi eftir sig lítið brunamark.
Harry hristi höfuðið.
“Stupefy!” sagði hann með fyrirlitningu.
Rautt ljós skaust í brjóst Deans og hann féll aftur meðvitundarlaus á gólfið, þakinn kýlum og graftarbólum.
Harry snerist á hæli og fór niður í setustofuna og settist út í horn, rétt hjá arninum. Reiðin sauð enn í honum en hann vissi að hann yrði að róa sig niður. Hann lokaði augunum og reyndi að einbeita sér.
Eftir litla stund kom Neville gangandi niður stigann. Hann kom auga á Harry og gekk rólega til hans.
“Harry, er allt í lagi?” spurði hann varfærnislega.
Harry var enn með lokuð augun. Hann blés frá sér til að ná örlítið betri stjórn á sér áður en hann svaraði.
“Já, já,” svarði hann svo og leit upp.
“Hvað gerði hann?” spurði Neville.
“Hann var bara fífl,” svaraði Harry. “Hann ætlaði að þvinga Ginny til að sofa hjá sér. Hún er búin að vera grátandi hjá mér í allt kvöld.”
Neville hristi höfuðið í vanþóknun.
“Er allt í lagi með hana?” spurði hann með áhyggjutón.
Harry yppti öxlum.
“Hún er auðvitað niðurbrotin núna,” svaraði hann. “En hún jafnar sig örugglega.”
Neville kinkaði kolli og fékk sér sæti við hlið Harrys.
“Er allt í lagi með hann?” spurði Harry eftir smá stund og leit skömmustulegur á Neville.
Hann kinkaði kolli.
“Já já. Sjálfsálitið er svolítið brotið en hann hafði nú bara gott af því,” sagði hann og glotti. “Seamus vakti hann aftur og hann stendur núna fyrir framan spegilinn og bölvar þér í sand og ösku.”
Harry hló örlítið.
“Ætlarðu að koma upp að sofa eitthvað í nótt?” spurði Neville og horfði á klukkuna sem langt genginn þrjú.
“Nei, ætli ég verði ekki bara hér niðri í nótt,” svaraði Harry. “Ætli það sé ekki okkur Dean báðum fyrir bestu,” bætti hann við og yppti öxlum.
Neville kinkaði kolli og brosti út í annað.
“Jæja, ég ætla að koma mér upp og fara að sofa,” sagði hann og stóð upp.
“Góða nótt,” sagði Harry.
Neville bauð honum góða nótt og gekk af stað upp tröppurnar.
Harry reyndi að hreiðra um sig í hægindastólnum sem hann sat í og fann hvað hann var orðinn þreyttur. Fyrr en varði var hann steinsofnaður.
“Radix lecti!”
Harry rumskaði í stólnum sínum og leit á klukkuna. Hún var ekki nema hálf sjö. Dagsbirtan var farin að læðast inn um gluggann. Hann teygði úr sér. Hann hafði nú ekki sofið vel þarna í stólnum en hvað hafði eiginlega vakið hann.
“Radix lecti!” heyrði hann hrópað fyrir utan málverkið af feitu konunni.
“Radix lecti, RADIX LECTI, feita fífl, VAKNAÐU!” var gargað af öllum kröftum.
“Ron vertu kurteis,” heyrði hann svo Hermione segja í áminningartón.
Hann hló með sjálfum sér.
“Fyrr má nú aldeilis fyrr vera lætin,” svaraði feita frúin syfjulega og opnaði innganginn.
Ron og Hermione gengu inn í salinn, örlítið úfin og rjóð í vöngum.
“Góðan daginn,” sagði Harry sposkur á svip.
“Og hvar hafið þið verið í alla nótt?” spurði hann í uppgerðar umvöndunartón.
Ron varð vandræðalegur en gat ekki falið brosið sem náði nánast út að eyrum. Hermione roðnaði. Hún tók fram töfrasprotann sinn og beindi honum að Harry.
“Silencio!” sagði hún til að þagga niður í honum.
“Ég vil ekki heyra meira í þér fyrr en seinna í dag,” sagði hún.
Harry starði á hana opinmyntur.
Hún sneri sér að Ron og kyssti hann á kinnina.
“Bless elskan,” sagði hún og brosti til hans.
Hann tók utan um hana rétt í þann mund sem hún var að fara og dró hana til sín í þétt faðmlag og kyssti hana innilega í dágóða stund. Hún roðnaði enn meira og þegar þau slitu kossinum hljóp hún upp stigann. Hún var ekki komin úr augsýn þegar hún allt í einu sneri við eins og hún hefði munað eftir einhveru.
“Finite incantatem,” sagði hún og beindi sprotanum sínum að Harry og hljóp svo áfram upp stigann.
Ron brosti út fyrir eyru og horfði á eftir henni löngu eftir að hún hvarf upp stigann. Allt í einu var eins og hann rankaði við sér og leit hissa á Harry.
“Hvað ert þú að gera hérna niðri svona snemma?” spurði hann hissa. “Ah, og þú ert enn í sömu fötunum og í gær. Voru það fleiri en við Hermione sem áttum góða nótt, ha?” spurði hann og glotti.
“Eflaust einhverjir fleiri,” svaraði Harry. “En ég var ekki einn af þeim.”
Ron geislaði af gleði og Harry langaði ekkert sérlega að eyðileggja þessa gleði með því að segja honum frá atburðum næturinnar.
“Segi þér þetta seinna,” sagði hann.
“Allt í lagi, félagi. Eins og þú vilt,” svaraði Ron. “Ég ætla að skella mér í sturtu snöggvast. Sé þig á eftir.”
Að svo búnu skokkaði hann af stað upp tröppurnar.
Harry reyndi aftur að koma sér vel fyrir í stólnum og ákvað að reyna að sofa aðeins lengur áður en setustofan færi að fyllast af fólki.
Eftir klukkutíma eða svo heyrði hann umgang. Hann leit upp og sá hvar Seamus og Dean, sem enn var allur þakinn graftarbólum og kýlum, gengu beina leið yfir setustofuna og hurfu út um gatið.
Hann stóð á fætur þegar þeir voru horfnir og gekk upp í svefnálmuna. Honum væri óhætt að fara þangað inn núna. Hann langaði að skella sér í sturtu og sofna svo í smá stund í rúminu sínu.
Ron var greinilega í svipuðum hugleiðingum og var skriðinn upp í rúm þegar Harry kom upp og blautt handklæði lá á gólfinu fyrir framan hann. Hann settist upp þegar Harry birtist.
“Hvað gerðist hérna í nótt?” spurði hann. “Dean var allur þakinn graftarkýlum og ógeði og bólginn og blár í framan. Hann sagði mér að spyrja þig þegar ég spurði hvað hafði gerst. Þeir Seamus eru að spá í að fá að skipta um herbergi. Af hverju missti ég eiginlega?”
Harry horfði mæðulega á hann og settist á rúmið sitt.
“Viltu í alvörunni vita það?” spurði hann og leit í augun á Ron.
Það var eins og Ron áttaði sig allt í einu á hvað hlaut að hafa gerst. Hann varð fölur eins og nár og í augunum slokknaði gleðin og hræðsla kom í staðinn.
“Segðu mér það,” skipaði hann ákveðinn.
Harry horfði alvarlegur á hann.
“Dean kom illa fram við Ginny á ballinu í gær. Þau eru hætt saman. Hann ætlaði að þvinga hana til að sofa hjá sér en hún sagði nei. Hún var miður sín í gærkvöldi. Ég sá hana stinga af á ballinu í gær og ég elti hana og hún sagði mér frá öllu. Hún grét lengi í nótt hjá mér og svo þegar ég kom hingað upp í herbergi var Dean að láta eins og fífl og monta sig af afrekum næturinnar og þá bara bilaðist ég,” sagði hann og yppti öxlum.
Ron var orðinn rjóður í kinnum á ný og bræðin virtist sjóða í honum eftir því sem leið á frásögn Harrys. Hann sat hljóður í nokkra stund eftir að Harry lauk máli sínu svo leit hann í augu hans.
“Takk fyrir,” sagði hann. “Ég hefði gjarnan viljað vera hér sjálfur til að sjá um þetta en þú gerðir það fyrir mig. Takk.”
Harry kinkaði kolli til hans.
“Jæja, ég ætla að skella mér í sturtu,” sagði hann svo og fór inn á baðherbergið.
Hann naut þess að láta heitt vatnið dynja á öxlum sínum og höfði. Hann var dauðþreyttur og stirður eftir nóttina í sófanum.
Skyldi Dean klaga hann? Ef hann yrði klagaður hvað yrði þá gert við hann? Yrði allt í lagi með Ginny? Myndi hún ná að jafna sig fljótlega? Var allt í lagi með Draco? Hvað hafði hann viljað um nóttina?
Ótal spurningar þutu um í höfði hans en hann reyndi að bægja þeim frá sér og njóta þess að láta líða úr sér í sturtunni.
Hann var langan tíma í sturtunni. Þegar hann loksins kom aftur inn í svefnherbergið var Neville vaknaður og Ron alklæddur.
“Harry, McGonnagall var hérna,” sagði Ron áhyggjufullur á svip. “Þú átt að fara beint á skrifstofu Dumbledores.”
Harry kinkaði kolli og klæddi sig í flýti. Dean hafði sem sagt klagað hann.
Hann flýtti sér niður á þriðju hæðina þar sem inngangurinn að skrifstofu skólameistarns var falinn á bak við ufsagrýluna.
“Súkkulaðifroskar,” hvíslaði hann að henni og fyrr en varði var hann á leiðinni upp hringstigann í átt að skrifstofunni.
Hann barði að dyrum.
“Kom inn,” kallaði Dumbledore.
Harry opnaði dyrnar og gekk inn. Dumbledore sat við skrifborðið sitt og McGonnagall stóð hægra megin við það, hörkuleg á svipinn. Dumbledore leit yfir gleraugun sín á Harry og bauð honum sæti á móti sér.
Harry settist niður.
“Seamus Finnigan og Dean Thomas voru hérna áðan,” sagði Dumbledore og horfði enn á hann yfir gleraugun. “Þeir vildu gjarnan fá að skipta um herbergi. Segjast ekki lengur kæra sig um að vera í herbergi með ykkur Ron og vilja fá að flytja inn hjá piltunum á sjöunda ári, enda eru þeir bara þrír núna þar sem tveir hættu við að taka síðasta árið. Dean var einkennilega bólugrafinn í dag. Man hreinlega ekki eftir að hann hafi verið svona útlítandi á ballinu í gær,” sagði Dumbledore hugsi og Harry fannst ekki laust við að smá glampi væri í augum hans. “Þú veist væntalega ekkert um þetta eða hvað?” spurði hann.
Harry fann hjá sér gífurlega þörf fyrir að naga á sér nöglina á vísifingri hægri handar og gerði svo allt sem hann gat til að þurfa ekki að horfa á Dumbledore eða McGonnagall.
“Harry?” spurði McGonnagall ströng á svip.
Harry klemmdi aftur augun örstutta stund og leit svo skömmustulegur á aðstoðarskólameistarann.
“Hvað gerðist?” ítrekaði hún.
Harry ákvað að hætta öllum leikaraskap og leit beint í augu hennar.
“Hann átti þetta skilið,” sagði hann rólegur en alvarlegur í bragði. “Og ef ég á að segja alveg eins og er þá finnst mér fín hugmynd að hann fari í annað herbergi. Ég myndi allavega ekki treysta mér til að sofa áfram í lokuðu herbergi með mér og Ron ef ég væri hann,” sagði hann örlítið ögrandi á svip og krosslagði hendurna yfir bringunni á sér.
“Harry Potter,” byrjaði McGonnagall en Dumbledore rétti upp hönd sína og þaggaði niður í henni.
“Get ég þá skilið þetta sem svo að Dean hafi gert fröken Ginny Weasley eitthvað slæmt?” spurði hann og leit alvarlegur á Harry.
“Já,” svaraði Harry og horfði beint í augun á honum.
McGonnagall greip andan á lofti.
Dumbledore horfði stíft á hann og Harry grunaði að hann væri að skoða huga hans en honum var alveg sama. Það var fátt sem ekkert þar sem hann mátti ekki sjá.
Dumbledore kinkaði kolli.
“Er allt í lagi með Ginny?” spurði McGonnagall. “Þarf hún að fara upp á sjúkraálmu?” spurði hún og horfði ransakandi á Harry.
“Nei, það var ekki alveg svo slæmt,” svaraði Harry sem áttaði sig strax á hvað hún var að fara. “Hann gerði henni ekkert líkamlega, bara andlega.”
McGonnagall varpaði öndinn léttar.
“Dean Thomas og Seamus Finnigann fá þá leyfi til að flytjast upp í svefnsal með drengjunum sem eru á sjöunda ári núna og þið Ron og Neville verðið þá þrír eftir í ykkar svefnsal,” sagði Dumbledore. “En get ég þá treyst því að þið Ron kennið Dean ekki fleiri lexíur í bili?” spurði hann og leit á Harry yfir gleraugun.
“Jah, ég get ekki lofað fyrir Ron,” svaraði Harry. “En ég læt hann alveg í friði eftir þetta.”
Dumbledore kinkaði kolli enn á ný.
“Jæja Harry minn, viltu þá ekki bara flýta þér í morgunmatinn. Honum fer að ljúka fljótlega,” sagði hann.
Harry kvaddi og gekk niður í matsalinn. Hann var rétt kominn inn um dyrnar þegar Ginny kom stormandi á móti honum eldrauð í framan og greinilega mjög reið. Hún greip í skikkjuna hans og dró hann með sér aftur út úr salnum og inn í litla herbergið sem fyrsta árs nemar voru venjulega látnir bíða í fyrir flokkunarathöfnina.
Hún skellti honum upp við vegginn og leit bálreið í augun á honum.
“Sagðirðu honum þetta?” hvæsti hún. “Sagðirðu Ron frá þessu?”
Harry kyngdi með erfiðismunum. Hafði hann ekki mátt það?
“Já,” sagði hann vandræðalegur.
“Er ekki allt í lagi með þig?” spurði hún fokill. “Hefurðu séð hvað hann gerði Dean?”
Nú varð Harry alveg ringlaður. Hvað hafði Ron gert Dean á þessum stutta tíma á meðan hann var hjá Dumbledore?
“Nei,” sagði hann hikandi.
“Dean er allur út í graftarkýlum og vörin á honum er tvöföld, hún er svo blá og bólgin,” sagði hún og strauk rautt, örlítið úfið hárið frá andlitinu, greinilega í miklu uppnámi.
Harry varð vandræðalegur á svipinn og rótaði örlítið í hárinu á hnakkanum.
“Ginny,” sagði hann vandræðalegur. “Það var ekki Ron sem gerði þetta.”
Það var eins og allur vindur væri úr Ginny.
“Ha?” spurði hún hissa. “Hver þá?”
Harry varð enn vandræðalegri. Hann horfði niður á tærnar á sér.
“Ég,” sagði hann lágt.
“Ha?” spurði hún aftur eins og hún tryði varla eigin eyrum. “Þú? Hvers vegna í ósköpunum?”
Harry leit upp og horfði beint í spyrjandi augun hennar.
“Þegar ég kom upp í gærkvöldi voru hann og Seamus að hátta sig. Þeir voru að hlæja og fíflast og segja hvorum öðrum frá afrekum næturinnar. Þeir eru algerir hálfvitar og þegar ég heyrði hvað þeir voru að segja og vissi að þú varst eflaust ennþá grátandi upp í herberginu þínu, missti ég bara alveg stjórn á mér og kýldi hann. Svo börðumst við aðeins með sprotunum okkar og svo var það bara búið. Ég svaf niðri í setustofu í nótt og þeir Seamus flytja út úr svefnsalnum okkar í dag,” sagði hann.
Ginny lét fallast á stól sem var þarna upp við vegginn.
Hún starði fram fyrir sig.
“Var hann að hlæja og fíflast?” spurði hún mjóróma og augu hennar fylltust tárum.
Harry fann sáran sting fara í gegn um hjarta hans. Hann þoldi það ekki á sjá hana svona. Hann kraup niður fyrir framan hana og tók varlega um hönd hennar.
“Hann er fífl, Ginny,” sagði hann. “Láttu þetta ekki buga þig. Hann er ekki þess virði.”
Ginny leit niður og tárin hrundu niður kynnar hennar.
Harry tók utan um hana og strauk hárið sefandi. Hún grúfði andlitið í öxl hans og grét lágt.
Þegar hún virtist vera að róast örlítið sleppti hann henni. Hann strauk kinnar hennar og þerraði burt tárin.
Hún leit í augu hans.
“Í alvöru talað,” sagði hann. “Þú átt svo miklu betra skilið.”
Hún yppti öxlum og virtist ekki fyllilega sannfærð.
“Ég ætlaði að skreppa yfir til Hagrids og spjalla svolítið við hann. Viltu koma með?” spurði Harry hress í bragði til að breyta umræðuefninu.
Ginny kinnkaði kolli og þau stóðu á fætur og gengu saman fram á ganginn.
Morgunmaturinn var greinilega búinn því matsalurinn virtist vera að tæmast. Harry sá Ron og Hermione vera að stíga út úr salnum. Þau Ginny gengu í áttina til þeirra.
“Má ég tala núna?” spurði Harry Hermione og glotti.
“Ef þú hagar þér almennilega,” svaraði Hermione ögrandi á svip.
Harry hló.
“Við ætlum að kíkja í kaffi til Hagrids. Viljið þið koma með?” spurði hann.
Ron og Hermione litu hvort á annað og kinnkuðu kolli til samþykkis.
“Það er orðið allt of langt síðan maður hefur séð karlgarminn,” sagði Ron.
Þau gengu því saman af stað út.
Harry barði fast að dyrum en engin hljóð heyrðust innan úr kofanum.
Þau litu spyrjandi hvert á annað.
Harry reyndi aftur að banka.
“Hagrid, ertu þarna?” kallaði hann.
Ekkert svar barst að innan.
“Þarna kemur hann,” sagði Hermione og benti inn í skóginn. Þar sáu þau Hagrid og Trygg koma gangandi út úr snæviþöktum skóginum.
“Hæ, hó!” kallaði Hagrid glaðlega og veifaði þegar hann sá þau. Vinirnir veifuðu glaðlega til baka og biðu eftir að hann kæmi til þeirra.
Tryggur stökk af stað á undan húsbónda sínum og flaðraði upp um þau alsæll að sjá þau.
“Sæll Tryggur minn, við erum líka ósköp glöð að sjá þig,” sagði Hermione eins og til að svara honum um leið og hún reyndi eftir fremsta megni að þurka af sér slefuna eftir hann.
“Tryggur, vertu stilltur,” sagði Hagrid í áminningartón. Hann var nú kominn alla leið til þeirra og sparkaði af sér mesta snjónum áður en hann opnaði kofann sinn og bauð vinunum inn.
“Má ekki bjóða ykkur te?” spurði hann um leið og hann gekk frá vetrarskykkjunni sinni.
Vinirnir þáðu það og fengu sér sæti við eldhúsborðið. Tryggur var greinilega þreyttur eftir morgungönguna og lagðist í bælið sitt til að fá sér blund.
“Hvað varstu að gera úti í skógi, Hagrid?” spurði Ron.
Hagrid rétti honum bolla og setti fleiri á borðið fyrir framan hin.
“Ég var bara að kíkja á Gwarp,” svaraði hann.
“Hvernig gengur með hann?” spurði Hermione og ekki var laust við örlítinn áhyggjublæ í röddinni.
“Það gengur bara ótrúlega vel,” svaraði Hagrid. “Hann er farinn að gera sig ágætlega skiljanlegan og virðist skilja allt sem honum er sagt. Dumbledore er búinn að koma nokkrum sinnum og kíkja á hann. Þeir eru orðnir mestu mátar.”
Það var eins og öllum létti talsvert að heyra að Dumbledore væri núna með í ráðum varðandi Gwarp.
“Hann heldur að greyið geti komið að góðum notum og er að tala við hann um að taka þátt í baráttunni gegn þú-veist-hverjum og drápurunum hans. Gwarpur er alveg ólmur í það. Dumbledore er búinn að kenna honum ótrúlega margt líka. Það verður spennandi að sjá hvað gerist,” sagði Hagrid um leið og hann helti rjúkandi tei í bollana þeirra.
“En hvað er að frétta af ykkur? Skemmtuð þið ykkur vel á ballinu í gærkvöldi?” spurði hann svo og fékk sér sæti.
“Já, það var mjög gaman,” sagði Hermione og hin umluðu eitthvað til samþykkis.
“En Hagrid,” sagði Harry svo. “Ég var að velta fyrir mér varðandi dreka. Fyrst það er svona erfitt að drepa þá afhverju eru þeir þá nærri því útdauðir?”
Spurningin virtist koma Hagrid á óvart. Hann fékk sér sopa af teinu sínu.
“Ástæðan fyrir því er eiginlega tvíþætt,” svaraði hann svo. “Mökunarathafnir dreka eru stórhættulegir og hreint ekki skemmtilegar fyrir þá þannig að þeir maka sig ekkert sérlega oft. Þessvegna er ekki mikið um endurnýjun í stofnunum. Aftur á móti voru muggarnir líka duglegir við að slátra þessum greyjum hér á árum áður og tókst jafnvel að þurka út heilu stofnana af drekum. Það er líka hluti af ástæðunni fyrir því að við höfum verið að fela þá fyrir muggunum. Drekar eru jú til margra hluta nytsamlegir svo ekki dugir að láta þá hverfa af yfirborði jarðarinnar.”
“Hvernig gátu muggarnir drepið drekana þegar galdramenn eiga svona erfitt með að ráða við þá?” spurði Harry ringlaður á svip.
“Drekar eru töfraskepnur, Harry. Þeir eru með góðar varnir gegn öllum töfrum en ekki eins áhrifamiklar gegn blóðugum vopnum mugganna. Muggarnir eiga allskyns undratæki sem senda blýkúlur á ægihraða í gegn um hvað sem fyrir verður. Galdrar drekanna hindra ekki slík ógnartæki.”
Það varð þögn við borðið og allir litu stóreygir á Hagrid.
“Ertu að segja mér að það sé hægt að stöðva dreka með því að skjóta þá?” spurði Harry.
“Hvaða undratæki skýtur blýkúlum? Hvernig virkar það?” spurði Ron.
“Ég skal útskýra það fyrir þér seinna, Ron,” svaraði Hermione. “Þetta gæti verið lausnin á vandanum með stolnu drekana,” sagði hún svo og horfði á Harry eins og hún hefði gert frábæra uppgötvun.
“Nei, Hermione,” sagði Hagrid áhyggjufullur á svip. “Það má ekki drepa þá.”
“Ég er ekkert að tala um að drepa þá, Hagrid minn,” svaraði hún áköf.
“Bara nota tæknina,” bætti hún við.
Harry leit á hana.
“Við þurfum að koma þessu áfram eins fljótt og hægt er, það er líklegt að fyrsta árásin verið eftir mánuð eða svo,” sagði hann.
Hermione kinkaði kolli.
“Hagrid, er hægt að ná sambandi út úr kastalanum í gegn um arininn þinn?” spurði hún.
Hagrid kinkaði hikandi kolli.
“En ég á helst ekki að leyfa nemendum að nota hann,” sagði hann.
“Hagrid, núna þarft þú að gera undantekningu,” sagði Hermione ákveðin.
Hún gekk að eldstæðinu og fann flugduft í lítilli öskju á arinhillunni. Hún kastaði dálitlu magni í eldinn og stakk höfðinu inn í logana.
“Arthur Weasley, galdramálaráðuneytinu!” sagði hún hátt og skýrt.
Eftir stutta stund heyrði Harry rödd Arthurs.
“Hermione, er allt í lagi?”
“Já, já,” svaraði Hermione. “En ég þyrfti að tala við þig um mjög áríðandi málefni. Getur þú komið til Hogwarts í dag?”
Það var þögn í litla stund.
“Já, ég á reyndar dauðan tíma núna svo ef ég skýst snöggvast ætti ég að geta komið eftir um það bil hálftíma. Ég þarf svo að mæta á fund eftir hádegið svo ég get ekki stoppað lengi,” svaraði rödd Arthurs svo eftir smá stund.
“Frábært, hittu okkur á skrifstofu Dumbledores. Við förum beint þangað núna,” svaraði Hermione.
“Við?” var spurt úr arninum.
“Já við erum hérna öll núna, ég, Ron, Harry og Ginny. Vorum að fá okkur te hjá Hagrid þegar þetta kom upp. Ég vil þó síður ræða þetta nánar hér í arninum. Maður veit aldrei hver er að fylgjast með,” bætti hún við.
“Nei, það er rétt. Ég sé ykkur þá á eftir.”
Vinirnir flýttu sér að kveðja ringlaðan Hagrid sem stóð og horfði á eftir þeim í dyragættinni þar til þau voru komin upp að kastalanum. Þau flýttu sér inn og fóru beint að skrifstofu Dumbledores.
“Súkkulaðifroskar,” sagði Hermione í eyra ufsagrýlunnar og samstundis opnaðist leiðin að skrifstofu Dumbledores.
Þau flýttu sér inn og létu stigann bera sig upp í turninn.
Skrifstofan var mannlaus. Myndirnar spjölluðu glaðlega sín á milli en virtu gestina ekki viðlits.
“Ég skal hlaupa niður og finna Dumbledore,” sagði Harry. “Hermione, þú útskýrir kannski byssuhugtakið fyrir þeim á meðan,” bætti hann við og leit á Ron og Ginny sem enn voru ekkert farin að skilja.
Hann hljóp beina leið aftur niður og barði að dyrum á kennarastofunni.
Prófessor Flitwick opnaði dyrnar og horfði spyrjandi á Harry.
“Harry Potter, hvað get ég gert fyrir þig,” spurði hann.
“Er prófessor Dumbledore hérna?” spurði Harry. “Ég þarf nauðsynlega að tala við hann.”
Í því birtist Dumbledore í dyrunum fyrir aftan Flitwick.
“Hvað var það Harry minn?” spurði hann rólega.
“Ron, Hermione og Ginny eru öll uppi á skrifstofunni þinni núna og Arthur Weasley er á leiðinni þangað. Getur þú komið upp og talað við okkur?”
“Hmm.. þetta hljómar alvarlegt. Ég kem strax,” sagði hann og sneri sér svo að Flitwick. “Filius, við verðum að fá að ljúka við þessa skák seinna, hugsanlega seinnipartinn?”
“Leitaðu mig bara uppi,” svaraði litli prófessorinn og brosti.
Harry og Dumbledore gengu frá kennarastofunni en þegar þeir voru að leggja af stað upp stigann sá Harry hvar Draco Malfoy kom gangandi upp úr dýflissunum með hóp Slytherinnema í eftirdragi.
“Uh, Dumbledore,” sagði Harry hikandi. “Ég ætla aðeins að kíkja hvort að Arthur sé ekki að koma. Ég kem eftir smá stund.”
“Allt í lagi Harry minn,” sagði Dumbeldore rólega og gekk áfram upp stigann.
Draco fór beina leið út með hópinn sinn í eftirdragi. Harry reyndi sitt besta til að ná augnsambandi við hann en allt kom fyrir ekki.
Hann elti þau út en fannst eins og Draco væri vísvitandi að veita honum enga athygli. Hann varð að fá að tala við hann. Hann elti þau yfir skólalóðina og eftir dágóða stund sneri Draco sér við og gekk aftur á bak á meðan hann talaði við hópinn sem elti. Harry reyndi hvað hann gat að ná athygli hans því enginn virtist vera að fylgjast með hvort einhver væri fyrir aftan þau.
Draco leit beint í augu hans í örlitla stund og Harry fannst kuldinn í augnaráðinu mikið óbærilegri en janúarkuldinn og snjórinn. Hann stöðvaði og stóð grafkyrr og horfði í augu hans til baka. Draco leit fljótlega undan og sneri sér við aftur og gekk nú fremstur í hópnum sínum. Hann hafði greinilega ekki áhuga á að ræða við Harry í dag.
Harry sneri sér við og gekk sorgmæddur heim að kastalanum. Hann var í þann mund að opna kastaladyrnar þegar Arthur Weasley kom hlaupandi aftan að honum.
“Þetta er nú meiri kuldinn,” sagði hann þegar þeir gengu saman inn í andyrið. “Hvar eru hin?” spurði hann svo og leit á Harry.
“Þau bíða öll uppi á skrifstofu,” svarði Harry.
Þeir burstuðu af sér mesta snjóinn og gengu svo rakleitt upp á skrifstofu Dumbledores.
Þar inni var Hermione búin að útskýra í megindráttum hvernig byssur virka og Ron átti ekki orð yfir snilldinni í muggunum. Ginny var aftur á móti skelfd við tilhugsunina um grimdina sem muggarnir bjuggu yfir fyrir að vera að búa til slík vopn.
“Jæja, Hermione,” sagði Arthur þegar hann var búinn að heilsa öllum og fá sér sæti á skrifstofu Dumbledores. “Hvað var það sem þú vildir ræða?”
“Ég fékk hugmynd sem getur leyst vandann með drekana,” svaraði Hermione. “Hagrid var að segja okkur hvers vegna það er svona lítið til af drekum í heiminum og sagði okkur að muggarnir gætu drepið þá með skotvopnum. Ég fór því að hugsa. Nú viljum við ekki drepa drekana en við viljum heldur ekki að drápararnir hafi þá og geti notað þá að vild. Við vitum ekki hvar þá er að finna en við vitum að þeir eiga líklegast eftir að ráðast á Aberdeenshiresýslu fljótlega. Svo segir Dumbledore okkur allavegana,” bætti hún við og leit á Dumbledore sem kinkaði kolli. Hann var greinlega búinn að segja þeim frá nýjustu fréttunum sem Harry hafði enn ekki haft tíma til að gera.
“Með minni áætlun getum við líklegast náð drekunum aftur án þess að skaða þá mikið og án þess að drápararnir geti sigað þeim á saklausa íbúa sýslunnar,” hélt Hermione áfram.
“Haltu áfram,” sagði Arthur íhugull á svip.
“Muggarnir eiga ekki bara byssukúlur sem drepa. Þeir eiga líka deyfilyf sem geta látið skepnur missa tímabundið meðvitund ef þær eru skotnar. Ég er nokkuð viss um að ef blýkúlurnar komast í gegn um skrápinn á drekunum komast deyfipílurnar þar í gegn líka. Það sem við þurfum að gera er að mynda bandalag við muggayfirvöld, eða í öllu falli við her mugganna og fá þá í lið með okkur. Það er okkar eina von. Ef við höfum muggana með okkur þá geta þeir verið á herþotunum sínum með sterk lyfjaskot og barist við drekana á flugi. Við þurfum að sjálfsögðu líka að hafa mannafla frá skyggnunum til að berjast við dráparana og fæla burtu vitsugurnar ef þær gera árás á sama stað á sama tíma. Þegar drápararnir eru svo orðnir drekalausir og halda að drekarnir séu dauðir skilja þeir þá líklegast eftir og þá geta drekaumsjónarmennirnir komið og fært þá aftur á verndarsvæðin jafnvel áður en þeir vakna. Það er nokkuð ljóst að einhverjir af drápurunum munu berjast og til þess höfum við skyggnana.”
Hermione lauk máli sínu og horfði spennt á Arthur eins og hún væri að bíða eftir viðbrögðum frá honum.
Arthur strauk hökuna íhugull.
“Það er viss áhætta við það að mynda bandalag við muggana því það gæti orðið erfitt að fela okkur aftur ef það fer úr böndunum. Aftur á móti er þetta besta hugmyndin sem ég hef heyrt fram til þessa um hvernig hægt sé að koma til móts við þessa ógn.”
Hann leit hugsi á Dumbledore.
“Hvað heldur þú?” spurði hann.
Dumbledore strauk skeggið hægt og rólega.
“Ég held að ég gæti talað við félaga minn sem býr í Nevada. Hann er þar hluti af miklu samstarfi á milli Bandaríkjahers og galdramálaráðuneytisins þar. Hann gæti hugsanlega komið hingað með einhvern af hershöfðingjunum sem hann er í samstarfi við og aðstoðað okkur við myndun bandalagsins. Það þarf að mynda tengsl og það er ekki slæmt að hafa einhvern sem muggarnir treysta til að hjálpa til við fyrstu kynni,” sagði hann að lokum.
Arthur kinkaði kolli rólega.
Hermione glóði öll af spenningi og Ron horfði stoltur á hana.
“En veistu hvernig hefur gengið hjá þeim í Nevada að halda samstarfinu leyndu og að verjast því að sinna óhóflegum beiðnum um galdralausnir frá þeim sem eru hluti af samstarfinu?”
“Mordicus hefur ákveðnar skoðanir á þessum málum. Hann heldur því fram að fæstir muggar vilji í raun vita af göldrunum í heiminum okkar og kjósi því frekar að búa til sögur um geimverur og slíkt sem þeim finnst af einhverjum ástæðum þægilegra að trúa. Hann hefur líka komið þeirri trú inn hjá sínum samstarfsaðilum að fyrir hvern galdur sem snýr að velgengni einhvers á einhverju sviði þá fari eitthvað annað úrskeiðis. Eins og til dæmis sagði hann einhverjum hershöfðingjanum sem vildi gjarnan leggja ástarálög á einhverja hjúkrunarkonuna sem starfaði á stöðinni hans að ef hann gerði það þá myndi hann líklegast missa heilsuna, vinnuna eða fjárhagurinn færi suður á bóginn. Þeir gleypa þetta hrátt og þora varla að biðja um eitt eða neitt,” sagði Dumbledore og brosti kankvís.
Arthur brosti örlítið og kinkaði ákafar kolli.
“Þetta er hreint ekki vitlaus hugmynd,” sagði hann. “Endilega kallaðu í vin þinn Mordicus. Ekki er þetta prófessor Mordicus Egg sem þú ert að tala um?” spurði hann allt í einu.
“Að sjálfsögðu er það hann,” svaraði Dumbledore. “Við höfum verið vinir í marga áratugi,” bætti hann við og brosti. “Þekkir þú hann?”
“Nei, ekki persónulega, hef bara auðvitað heyrt hans getið og lesið bækurnar hans,” svaraði Arthur. “En það væri mjög gott ef þú gætir fengið hann og einhvern af hans samstarfsmönnum til að koma og aðstoða okkur við tengslamyndunina.”
Hann klóraði sér í höfðinu.
“Aldrei hefði mér dottið þetta í hug, bandalag á milli galdramanna og mugga.”