Fyrst vil ég taka það fram að 2469 skrifaði reynslusögu sína um Hringadróttinssögu á Tolkien áhugamálinu og er þessi Reynslusaga mín um Harry Potter útfærð hugmynd af reynslusögu 2469 af Hringadróttinssögu og vil ég tileinka honum þessa hugmynd.
Ég kynntist fyrst Harry Potter þegar fyrsta bókin kom út á Íslensku árið 1999. Það árið fékk ég Harry Potter og Viskusteininn í jólagjöf frá pabba mínum. Ég man vel eftir því fyrsta sem kom upp huga minn þegar ég opnaði pakkann frá pabba mínum en hún var: “Harry Potter hvað er það?”. En ég ákvað samt að gefa henni tækifæri og lesa hana þar sem ég er svo mikill lestrarhestur að ég les allar bækur sem ég kemst yfir. Ég man alltaf vel eftir að ég átti í dálitlum vandræðum í fyrstu með að muna hvaða persóna væri hvað, en síðan hvarf það vandamál eins og dögg fyrir sólu þegar ég komst betur inn í söguþráðinn. Hin hugsun mín meðan ég las fyrstu bókina og þegar henni var lokið, var hvað þetta væri skemmtileg bók.
Þá hafði ég ekki hugmynd um að það væri fleiri sögur til um þennan frábæra galdrastrák né vissi ég neitt um þessar bækur nema það sem stóð á síðum bókarinnar. Ég hafði bara enga vitund um þessar bækur, vissi bara nákvæmlega ekkert um þær.
Svo þið getið bara ímyndað ykkur undrun mína þegar ég fékk aðra bók (Harry Potter og Leyniklefinn) um þennan Harry Potter í afmælisgjöf árið 2000 og svo þá þriðju (Harry Potter og Fanginn frá Askaban) í jólagjöf sama ár. Náttúrulega (sem algjör lestrarhestur og sem manneskja sem fannst/finnst bækurnar skemmtilegar) las ég þær samviskusamlega um leið og ég fékk þær í afmælis/jólagjöf og fannst þær hver annarri betri. Bjóst ég á þeim tíma við annari bók í afmælisgjöf 2001 en þegar það brást þá varð ég furðu lostin og hugsaði bara: “Hvað er í gangi?”
Á því ári sem það tók mig að fá fjórðu bókin (fékk hana í jólagjöf 2001) er það tímabil sem ég vil kalla vitundarvakning mín um Harry Potter. Þá fyrst fór ég að gera mér grein fyrir því hvað umfangsmiklar bækurnar væru og hve miklum vinsældum, bæði bækurnar og höfundirinn, ættu að fagna. Þá fyrst áttaði ég mig á að það væri manneskja, lifandi manneskja, á bakvið bækurnar og að hún héti J.K. Rowling. Þá fyrst áttaði ég mig á bara öllu um þær, það ætti að vera 7 bækur um þennan galdrastrák, áttaði mig á forsögunni um þær eða bakgrunninum eins og hægt er að kalla það líka. Og fór að safna að mér upplýsingum um þessar bækur, nánast eingöngu úr dagblöðum og tímaritum og aðeins úr sjónvarpi þar sem ég ,á þeim tíma, átti enga tölvu og gat, þar af leiðandi, ekki aflað mér upplýsinga um bækurnar og/eða höfundinn á netinu.
En á þessu rúmlega ári sem vitundarvakning mín á Harry Potter átti sér stað breyttist ég úr manneskju sem vissi lítið sem ekkert um bækurnar fyrir utan það sem stóð í bókunum í manneskju sem vissi meira um þær en allavega allir sem búa í heimabæ mínum og kannski víðar, hver veit.
Svo eftir langa bið, eða það fannst mér allavega það sem það leið heilt ár á milli þess sem ég fékk þriðju bókina og fjórðu bókina, fékk ég loksins fjórðu bókina í jólagjöf og hét hún Harry Potter og Eldbikarinn. Á þeim tíma sem tók mig að lesa hana áttaði ég mig á EINU MIKILVÆGU en það var að bækurnar voru að breytast úr þvi sem mér hafði áður fundist vera skemmtilegar og mjög fyndnar barnabækur (Ég veltist oft úr hlátri þegar ég les þrjár fyrstu bækurnar) í meira fullorðinslegar og alvarlegar bækur þar sem fyndnu atriðunum fækkaði og alvarlegu atriðin og oft á tímum skelfilegu atrtriðunum fjölgaði. Þar sem ég er ekki hryllingsmynda týpan gerði bók nm 4 mig dálítið hrædda sérstaklega í endan. Þegar ég var að lesa seinustu kaflana (um miðja nótt og allir í húsinu sofnaðir liggjandi uppi í rúmi) var mér hætt að standa á sama þar sem það var dimmt úti og allir sofandi og svo fór ég að heyra eitthvert hljóð (ekki hlæja núna pleas ég er svo hræðslugjörn týpa) og ég bjóst hálfpartinn við að Voldemort mundi koma þjótandi inn um dyrnar eða undan rúminu mínu. Svo í endan var ég fremur sorgmædd þar sem í fyrsta sinn hafði einn karakter, sem maður var farin að þekkja, látin deyja en þarna var ég reyndar ekki eins tilfinngasöm og ég er nú svo ég grét ekkert fannst þetta bara vera geðveikt ömurlegt að einhver væri látin deyja.
Allavega nú kom MJÖG langt tímabil þar sem engin bók kom og ég hlýt að hafa lesið allar bækurnar yfir svona tvisar sinnum ef ekki oftar.
Á þessu tímabili, reyndar var það sumarið 2002 kom dálítið fyrir sem gerði mig mjög sorgmædda sem tengdist fjórðu bókinni. Við fjölskyldan fórum í ferðalag til útlanda og þar sem mér bjóst við að leiðast á köflum sérstaklega þegar við mundum þurfa að bíða á flugvellinum eftir því að mega fara um borð í flugvélina tók ég fjórðu bókina með í ferðalagið til að leiðast ekki. Allavega við vorum á Keflavíkurflugvelli e-h að gera áður en flugvélin myndi fara að stað til útlanda þegar ég áttaði mig á að bókin, sem ég hafði í handfarangri, var ekki lengur á kerrunni sem við vorum með undir handfarangurinn (hugsið ykkur bara allan handfarangurinn sem við vorum með). Ég fór náttúrulega að leita á gólfinu og þræddi mig til baka þar sem við höfðum setið inn í flugstöðinni og þegar við fórum inn í flugvélina leitaði ég undir sætunum okkar og undir næstu sætum á bakvið, ég hélt kannski að hún hefði runnið aftur á bak. Svo þegar ég fann hana ekki fór ég að hágráta, ég hafði verið að gráta áður en nú fór ég að hágráta. Ég grét svo mikið að fólkið sem sat í næstu sætum fyrir aftan okkur hélt að það væri eitthvað mikið að. Mamma gerði allt og ég meina allt til að hugga mig. Sagði að þegar við kæmum heim (eftir 2 vikur) mundum við hringja í tapað og fundið á Keflavíkuflugvelli og ef hún væri ekki þar mundi hún kaupa handa mér nýja. Ég lét huggast og þegar við komum aftur heim hringdum við í tapað og fundið en nei engin Harry Potter bók hafði fundist. Svo mamma fór einfaldlega með mig í bókabúðina og keypti handa mér aðra bók og no harm done. Ég velti því ennþá fyrir mér hvað hafi orðið um bókina hvort ég hafi einfaldlega lagt hana frá mér á svona fáranlegum stað eða hvort einhver hafi stolið henni eða hvað hafi gerst en ég get bara ómögulega munað hvað ég gerði við hana, ég var svo upptekinn af því að vera komin á Keflavíkurflugvöll og vera á leiðinni til útlanda ég hafði seinast farið til útlanda 5 ára svo það er engin furða að ég skyldi týna henni svona rækilega.
Á þessum tveimur árum sem það tók Rowling að skrifa bók nm 5 gerðist ekkert meira nema það sem stendu fyrir ofan. Fyrir utan einstaka fréttir um að Rowling væri með ritstíflu út af því að hún væri ástfanginn og búin að giftast núverandi manni sínum. Ég man að ég blótaði fjandans karlinum í sand og ösku fyrir að gera Rowling svona ástfangna af sér að hún gæti ekkert skrifað. Ég er samt búin að fyrirgefa honum þetta núna þar sem þetta langa hlé gaf mér nægan tíma til að safna af mér enn fleiri upplýsingum um Harry Potter (og nú líka af netinu) og breyta mér úr manneskju sem vissi allavega meira um bækurnar en allir í heimabæ mínum í algjöran Harry Potter sérfræðing. Ég las allt sem ég komst yfir þótt ég myndi ekki alveg allt, kannski svona í kringum 75%, af því sem ég las.
Síðan voru það fyrstu tvær bíómyndirnar um Harry Potter sem komu út á þessu tímabili sú fyrsta 2001 og sú önnur í enda 2002 eða byrjun 03 (man ekki hvort) og mér fannst þær góðar en bækurnar fannst mér betri þar sem, fyrir minn smekk, er aðeins og mörgu sleppt úr þeim sem, ég veit, að skiptir ekki máli fyrir söguþráð komandi mynda. En mér finnst enga síður að gaman hefði verið að sjá þau atriði fest á filmu.
Jæja svo loksins loksins í byrjun september 2003 kom bók nm 5 (Harry Potter og Fönixreglan) út á íslensku og tók ég þá ákvörðun að bíða ekki eftir og sjá til með hvort pabbi minn mundi kaupa hana og gefa mér í jólagjöf. Heldur fór ég og keypti mér hana í Bónus. Ég man að ég byrjaði að lesa hana um kl 18:00 á föstudegi ég var búin með hana um 01:30 aðfaranótt sunnudags. Sem sagt ég var um það bil 1 sólarhring og 7 og ½ klukkukstund með hana. Og satt best að segja þá hefði ég geta verið fljótari með hana en málið var það að seinustu kaflana varp ég alltaf að stoppa til að þurrka tárin sem fylltu augun í mér en neituðu samt að leka niður.
Já ég var hágrenjandi seinustu kaflana ég bara gat ekkert að því gert mér fannst svo sorglegt að Rowling hafði látið Sirius deyja. Einnig fór ég að grenja þegar ég las um það sem kom fyrir foreldra Nevilles mér fannst það mjög sorglegt. Svo í endan grenjaði ég því ég vorkenndi Harry svo mikið fyrir að vera búin að missa manninn sem var það næsta sem hann hafði kynnst fyrir föður. Þannig að það eina sem ég gerði þegar ég las fimmtu bókina var að grenja. Samt fannst mér hún mjög góð og betri en fjórða bókin.
Svo verður að minnast á 3 myndina sem kom út í fyrra. Þegar ég sá hana loksins (komst ekki á hana í bíó svo ég sá hana ekki fyrr en ég keypti mér hana á DVD) fannst mér hún góð en það er alltof, alltof mikið sleppt úr henni og ég veit eins og með hinar að það skiptir ekki máli fyrir söguþráðin en eins og ég sagði áðan, hefði verið gaman að sjá atriðin sem sleppt var á skjánum.
Svo bara verð ég að tala um sjöttu bókina sem nú er væntanleg eftir bara 13 daga. Flestir veðja um að Dumbledore deyji en ég vona að Rowling láti ekki hann deyja því þá get ég engu lofað um hvort ég verði áfram tryggur aðdáandi bókanna. En þrátt fyrir spá bland af kvíða/spennu um hver muni deyja er spennan yfir hvað muni gerast og það að bókin komi út eftir aðeins 13 daga, orðin yfirþyrmandi. Ég mun verða fyrsta manneskjan í heimabæ mínum til að lesa Harry Potter and the half blood prince þar sem ég er búin að láta taka hana frá fyrir mig á bókasafninu ég get varla beðið.
En svona rétt í endann verð ég bara að segja að þótt bækurnar séu ekki lengur svona miklar barnabækur og þær voru í byrjun og séu sífellt að verða sorglegri og dimmari þá hafa þær líka orðið betri og betri með hverri bókinni sem kemur út. Svo það má búast við miklu af sjöttu bókinni sem á eftir að verða betri (vonandi), sorglegri og dimmari en hinar bækurnar en samt aðallega betri (þó svo að ég eigi mjög erfitt að gera upp á milli hver þeirra sé best) en hinar.
Einnig vona ég nú, þar sem endirinn á þessum þekktustu barna/unglingabókaseríum heims nálgast óðum (bara ein eftir fyrir utan HBP) að Rowling eigi eftir að standa við það sem hún sagði eitt sinn og skrifa þá 8 í seríunni og láta allan ágóða af henni fara til góðgerðamála. Og líka vona ég með öllu mínu hjarta að hún eigi eftir að skrifa fleiri bækur, þegar Harry Potter seríunni líkur, því að hún hefur sannað sig sem mjög góður rithöfundur sem getur greinilega fundið upp á óvæntum plottum og tvistum í söguþráðunum hjá sér. Þó svo að hugsanlega framtíðarbækur hennar eigi kannski ekki eftir að verða eins góðar og Harry Potter bækurnar þá á ég allavega eftir að bíða þeirra með mikilli eftirvæntingu og lesa þær um leið og þær koma út.
Hér líkur þessari reynslusögu minni af Harry Potter. Og svona í bláendan vil ég hveta alla til að skrifa sína eigin reynslusögur um Harry Potter og líka benda þeim á reynslusögu mína um Hringadróttinssögu inn á Tolkien áhugamálinu hér á Huga.is.
Vona bara að þið hafið haft gaman af þessar ekki svo stuttu reynslusögu minni um Harry Potter.
Kveðja Catium.
P.S endilega komið með komment bara ekki vera mjög vond því að þá fer ég að gráta og á aldrei eftir að skrifa fleiri greinar hér á Huga.is
Heimsyfirráð, súkkulaði og Harry Potter.