“Vá!” Harry var nánast orðlaus. “Svo hann ætlar að hreinsa þessar tvær sýslur algerlega af öllum mönnum fyrir lok maí?” spurði hann og reyndi að gera sér grein fyrir aðstæðum.
Hann sat inni á skrifstofu Dumbledores ásamt Severusi Snape og Draco Malfoy sem höfðu rétt í þessu snúið til baka frá vígslu Dracos og voru að ljúka við að skýra frá því sem þeir höfðu frétt þar.
“Það lítur út fyrir það,” svaraði Snape kaldur á svip.
“Ef hann gefur mönnum sínum fram í maí til að verða reiðubúnir núna þá getum við alveg átt von á því að hann skipi þeim að hefjast handa í næsta mánuði,” sagði Dumbledore hugsandi. “Hann hefur alltaf verið óþolinmóður og hann mun stytta tíma þeirra umtalsvert. Það er hans vani.”
Snape kinkaði kolli.
“Við getum átt von á einhverju strax um miðjan febrúar,” svaraði hann.
Dumbledore strauk skeggið íhugull á svip.
“Við ættum að kalla saman regluna og segja frá þessu strax í kvöld. Tíminn skiptir máli hér. Við þurfum að vera reiðubúin að taka á móti þeim þegar þar að kemur,” sagði hann.
“Drengir mínir,” sagði hann við Harry og Draco. “Við Severus förum þá núna en ykkur er velkomið að vera lengur hér inni á skrifstofunni minni að spjalla saman ef ykkur lystir.”
Harry kinkaði kolli og leit í átt að Draco sem sat hljóður og horfði niður fyrir sig. Hann leit aftur á Dumbledore sem blikkaði hann laumulega og brosti lítillega til hans eins og hann vildi benda honum á að Draco þyrfti kannski svolítið að ræða málin í kvöld. Að svo búnu gengu þeir Snape út og lokuðu dyrunum á eftir sér.

Draco sat grafkyrr og starði sviplaus fram fyrir sig.
Harry leit í kring um sig. Öll silfurhljóðfærin hans Dumbledores voru orðin heil aftur. Allt sem hann hafði brotið og bramlað um vorið var komið heilt aftur á sinn stað. Fyrrverandi skólastjórarnir sváfu í myndarömmunum sínum á veggjunum og fyrir utan gluggann var svarta myrkur.
“Hvað gerði hann við þig?” spurði hann varlega og leit á Draco.
Draco yppti öxlum.
“Hann gerði svo sem ekki mikið meira en ég átti von á,” svaraði hann. “Hann lagði á mig kvalabölvunina tvisvar sinnum og merkti mig,” hélt hann áfram.
“Merkti hann þig?” spurði Harry hissa. “Má ég sjá?” bætti hann við forvitinn.
Draco dró upp ermina á svörtu skikkjunni sinni og rétti fram hvítan framhandlegginn þar sem merki Voldemorts glóði dökkgrænt á lit.
Hann leit ekki á það sjálfur.
Harry horfði á snákinn sem skreið út úr munni höfuðkúpunnar. Það fór hrollur um hann.
Draco var virkilega orðinn drápari.
Draco leit á handlegginn á sér og lítið tár rann niður vangann. Hann flýtti sér að þurrka það burt og fela handlegginn aftur.
“Var það vont?” spurði Harry fullur samúðar.
Draco hristi höfuðið.
“Ekkert verra en ég bjóst við,” svaraði hann og horfði aftur niðurlútur fram fyrir sig.
“Draco, hvað er að?” spurði Harry. “Gerðist eitthvað sem þú áttir ekki von á? Snape sagði að þú hefðir staðið þig vel. Var eitthvað sem gerðist sem þið sögðuð okkur ekki frá?” spurði Harry aftur.
Draco þagði ennþá en í svip hans mátti greina sársauka.
“Draco, segðu mér það,” bað Harry. “Þú veist að ég er vinur þinn. Þú getur treyst mér,” bætti hann við.
Draco kyngdi með erfiðismunum.
“Ég naut þess,” sagði hann lágt.
“Ha?” svaraði Harry ringlaður.
“Hann lét mig leggja kvalabölvunina á pabba og ég naut þess í botn,” svaraði hann aftur. “Mér fannst meiriháttar að fá að pína hann eftir öll þessi ár. Fá að meiða hann.”
Hann leit á Harry.
“Hvað segir það um mig?” spurði hann. “Þú gast ekki einu sinni lagt kvalabölvunina á Bellu þegar hún var búin að drepa þann sem skipti þig hvað mestu máli í lífinu af því að þú bjóst ekki yfir nógu miklu hatri, en ég get lagt slíka bölvun á föður minn án þess að blikka auga,” hélt hann áfram örvæntingafullur á svip.
“Er ég vondur?”
Hann starði biðjandi á Harry sem vissi ekki hvernig hann átti að svara þessu.
“Nei, Draco. Þú ert ekki vondur,” flýtti hann sér að segja og vonaði að hann hljómaði sannfærandi. “Þú ert að vinna með góðu köllunum er það ekki?” bætti hann við eins og það útkljáði málið.
“En ég er bara að vinna fyrir ykkur til að geta komið fram hefndum við pabba,” sagði Draco. “Ég meina, það var upphaflega ástæðan. Ég er knúinn áfram af hatri, alveg eins og Voldemort.”
Hann greip um framhandlegginn þar sem merkið var brennt í húð hans og kreisti augun aftur.
“Okei, ekki gott að nefna nafnið hans,” sagði hann eins og til að leggja það á minnið.
“Er það þessvegna sem Snape vill ekki segja nafnið hans?” spurði Harry og allt í einu var eins og hann hefði öðlast nýjan skilning. Hafði ekki Snape oft tekið um framhandlegginn þegar einhver hafði nefnt Voldemort á nafn?
“Ég býst við því,” svaraði Draco. “Hann hefði nú alveg mátt nefna það,” bætti hann ólundarlega við.
“Draco, þú ert ekki vondur,” sagði Harry eftir örlítinn umhugsunarfrest. “Og þú ert ekki eins og hann. Þú ert vinur minn er það ekki?” spurði hann.
Draco kinkaði kolli.
“Þú veist það alveg,” svaraði hann.
“Og þú treystir mér er það ekki?” spurði Harry aftur.
“Jú,” svarði Draco eins og hann væri ekki alveg viss um hvað Harry væri að fara með þessum spurningum.
“Og þykir þér vænt um mig?” spurði Harry aftur.
Draco hugsaði sig um og varð örlítið flóttalegur til augnanna.
“Þér þætti slæmt að sjá mig þjást eða deyja er það ekki?” spurði Harry eins og til að útskýra fyrir Draco hugtakið væntumþykju.
Draco kinkaði aftur kolli.
“Já, ég veit hvað það þýðir og jú, mér þykir vænt um þig,” sagði hann hörkulega og átti greinilega erfitt með að láta þessi orð út úr sér.
“Heldurðu að Voldemort þyki vænt um einhvern?” spurði Harry og brosti út í annað.
Draco hugsaði sig um og hristi svo höfuðið.
“Nei, það þykir honum áreiðanlega ekki,” svaraði hann.
“Þarna sérðu, þú ert ekki eins og hann og þú stjórnast ekki eingöngu af hatri,” sagði Harry sigri hrósandi. “Þú hatar kannski pabba þinn, en hver gerir það ekki?” spurði Harry og fórnaði höndum.
Draco hló örlítið og kinkaði þakklátur kolli til vinar síns.
“Ertu búinn að bjóða einhverri með þér á ballið annaðkvöld?” spurði Harry til að snúa umræðunni að léttari málefnum.
“Hvaða ball?” spurði Draco ringlaður.
“Hvaða ball?” apaði Harry gáttaður eftir honum. “Auðvitað afmælishátíðin maður, Hogwarts ellefu hundruð og ellefu ára. Ekki varstu búinn að gleyma því?”
“Æj, já það ball,” svarði Draco eins og hann hefði allt í einu munað eftir því. “Ég var búinn að steingleyma því. Ætli ég taki ekki bara Pansy með eða eitthvað,” sagði hann áhugalaus. “En þú?” bætti hann við. “Þú ferð væntanlega með kærustunni eða hvað?” spurði hann.
Harry roðnaði og kinkaði kolli með skakkt bros á vörunum.
Draco ranghvolfdi í sér augunum, sneri sér undan og þóttist æla.
“Þú ert svo væminn að þú ert ógeðslegur,” sagði hann svo í stríðnistón.
Harry greip upp nokkra brjóstsykurmola sem lágu í skál á borðinu fyrir framan þá og kastaði í hausinn á honum.
Draco hló og reyndi að verjast brjósykurárásinni, þreif upp nokkra sjálfur og gerði gagnárás.
Fyrr en varði voru brjóstsykursmolar fljúgandi um alla skrifstofuna. Phineas Nigellus hrökk upp af værum svefni í rammanum sínum þegar stór rauður moli flaug beint í nefið á honum.
“Hvað á þetta að þýða?” hreytti hann út úr sér óánægður á svip. “Vandræðagemlingar upp til hópa!” hrópaði hann og vakti með því öll hin málverkin sem fóru nú þegar að skipta sér af drengjunum.
“Haga sér svona inn á skrifstofu skólameistarans?”
“Grýtandi sælgæti!”
“Ég hef nú alltaf sagt að Dumbledore eigi nú ekki að vera með svona sætindi inni á skrifstofunni sinni. Það er ekki við hæfi.”
“Óalandi og óferjandi!”
“Eins og verstu happatappar.”
Harry og Draco ákváðu að sitja ekki lengi undir þessu og flýttu sér út af skrifstofunni.

Það var komið langt fram á nótt og löngu orðið tímabært að fara í háttinn. Harry var með huliðskikkjuna sína og saman gengu þeir undir henni til að vekja ekki athygli á næturgöltri sínu. Þeir tóku fyrst stefnuna á heimavist Slytherinnema til að Draco kæmist inn til sín. Þegar þeir námu staðar rétt hjá innganginum stoppuðu þeir og Harry lagði höndina á öxl vinar síns.
“Draco, þú ert ekkert vondur, þú veist það?” spurði hann til að fullvissa sig um að Draco væri ekki enn að velta þessu fyrir sér.
Draco ypti bara öxlum.
“Kannski,” svaraði hann niðurdreginn.
“Draco, mundu bara að þeir sem eru vondir þeim þykir ekki vænt um einn eða neinn,” hélt Harry áfram ákveðinn á svip. “Hann er ekkert eina dæmið, sjáðu bara pabba þinn?” hélt hann áfram.
Draco brosti pínulítið.
“Jæja, ég er allavega ekki alvondur. Það er þó eitthvað,” sagði hann.
Harry tók snöggt utan um vin sinn og faðmaði hann.
Draco stífnaði allur upp í fyrstu en slakaði svo örlítið á eitt augnablik.
“Góða nótt,” sagði hann vandræðalegur þegar Harry sleppti honum.
“Góða nótt,” svaraði Harry og brosti til hans.

Daginn eftir ríkti mikil eftirvænting hvarvetna um skólann. Margar af stúlkunum voru strax um morguninn farnar að undirbúa sig fyrir ballið um kvöldið. Í Gryffindorturninum sáust nokkrar stúlkur hlaupandi til og frá með rúllur í hárinu og óeðlilega lituð krem huldu andlit þeirra. Ekki var laust við að farnar væru að renna tvær grímur á drengina sem höfðu boðið þessum stelpum með sér á ballið.
Þegar líða tók á daginn fækkaði stöðugt nemendum sem voru á ferli um kastalann og skólalóðina. Matsalnum var lokað eftir síðdegishressingu og Dumbledore, Flitwick, McGonnagall og fleiri kennarar laumuðust þangað inn til að skreyta salinn. Harry gat ekki varist brosi þegar hann sá að McGonnagall var líka með rúllur í hárinu.
Það virtist vera orðlaust samþykki allra á milli um að skemmta sér vel í kvöld þrátt fyrir erfiðar aðstæður í heiminum í kring um þau.
Undir venjulegum kringumstæðum hefði fjöldi gesta verið boðinn á slíkt ball en Dumbledore fannst hann ekki geta treyst öllum sem átti að bjóða svo hann ákvað að bjóða engum. Ellefu hundruð og ellefu ára afmæli Hogwartsskóla yrði eingöngu fagnað af núverandi nemendum, kennurum og öðru starfsfólki.
Hálftíma áður en ballið átti að byrja var Harry tilbúinn í fallegri blárri spariskikkju og búinn að gera margar tilraunir til að slétta úr því mesta af hárinu. Það gekk að örlitlu leyti eftir mikla fyrirhöfn en hann var rétt kominn niður stigann úr drengjaálmunni þegar það var allt komið í óreiðu á ný. Hann leit í spegil í setustofunni og ypti öxlum. Það hafði verið þess virði að reyna það.
Hann flýtti sér út úr setustofunni og gekk rólegur í bragði sem leið lá að Ravenclawheimavistinni. Hann var að fara að sækja Lunu.
Hann þurfti að bíða dágóða stund fyrir utan heimavistina því hann þekkti ekki leyniorðið og var mættur allt of snemma.
Í kring um hann voru nokkrir strákar úr öllum árgöngum sem biðu eftir því að þeirra dömur kæmu út. Harry tók eftir því að rétt hjá honum stóð Justin Finch-Fletchley. Hann gekk yfir til hans.
“Hverja ert þú að sækja?” spurði hann til að drepa tímann meira en af forvitni.
“Pödmu Patil,” svaraði Justin og brosti út að eyrum, rjóður í vöngum.
Þeir spjölluðu saman um daginn og veginn, um væntanlegt ball, hverjir ætluðu með hverjum og fleira í þeim dúr.
“Hverja heldurðu að hann sé að sækja?” spurði Justin og leit yfir ganginn þar sem Theodore Nott stóð og hallaði sér upp að veggnum.
Harry varð hissa á að sjá Slytherinstrák að sækja Ravenclawstelpu.
“Ég veit það ekki,” svaraði hann.
“Ég hélt að Slytherinkrakkarnir væru í algerri skyldleikaræktun og veldu sér bara maka innan sinnar heimavistar. Helst úr sinni eigin fjölskyldu,” sagði Justin og kímdi.
Harry gat ekki varist brosi. Þeim gafst þó ekki lengri tími til að velta þessu fyrir sér því í þessu opnaðist inngangurinn að Ravenclawheimavistinni og Cho Chang gekk út. Hún gekk rakleitt til Theodores sem tók utan um hana og kyssti hana beint á munninn áður en þau gengu saman niður stigann.
Harry og Justin störðu opinmynntir á eftir þeim og litu svo hvor á annan í forundran.
“Hahh,” dæsti Justin. “Átti ekki von á þessu.”
“Nei, segi það með þér,” svaraði Harry. Hann var samt ekki afbrýðissamur, hann var meira hræddur um Cho. Hvað var hún að hanga með Slytherinstrák? Reyndar til að gæta allrar sanngirni þá var hann nú oft að hanga með Slytherinstrák þessa dagana, meira að segja núna síðast í gærkvöldi.
“O, jæja,” sagði hann að lokum en í sömu andrá birtist Luna við hlið hans.
Hún var klædd í silfurgráa spariskikkju sem endurspeglaði augnlit hennar fullkomlega. Hárið var allt tekið upp fyrir utan staka lokka sem lágu krullaðir niður á bakið.
Harry hafði aldrei fundist hún fallegri en hún var í kvöld. Hann tók utan um hana og kyssti hana á munninn.
“Hæ,” sagði hann og brosti til hennar.
“Hæ, sjálfur,” svaraði hún og brosti til baka.
Hann tók í höndina á henni, kvaddi Justin og þau gengu niður stigann.

Matsalurinn var ægifagur þetta kvöld. Heimavistarborðin og háborð kennaranna höfðu verið fjarlægð en í staðinn voru mörg lítil dúkuð og uppdekkuð borð upp við veggi salarins. Miðja gólfisins var auð til að hægt væri að dansa. Innst í salnum, þar sem kennaraborðið var venjulega, hafði verið komið fyrir stóru sviði og þar voru nokkur hljóðfæri.
Tunglskinið og stjörnurnar lýstu svo fallega upp salinn að varla þurfti aðra lýsingu. Þó hafði verið komið fyrir gulum og rauðum kertalogum á öllum borðum sem mildaði birtuna örlítið og gerði allt hlýlegra.
Harry og Luna gengu inn í salinn og fundu sér autt borð og fengu sér sæti. Nemendur skólans tíndust inn flestir tveir og tveir saman, nokkrir í stærri hópum. Harry veifaði þegar hann sá Hermione og Ron koma gangandi saman og í humátt á eftir þeim komu Neville og Parvati. Allir voru klæddir í sitt fínasta púss og Hermione hafði tekið hárið allt upp líkt og hún hafði gert á jólaballinu á fjórða árinu þeirra. Harry sá að Ron virtist eiga mjög erfitt með að líta af henni.
“Matseðlarnir eru ekki af lakara taginu,” sagði Neville og virti fyrir sér einn af matseðlunum sem stillt var upp á borðinu. Hinir tóku undir það, nema Ron sem heyrði ekki orð sem sagt var. Hann sat bara með stjörnur í augum og horfði á Hermione sína.
Harry svipaðist um eftir Ginny og Dean því það voru enn tvö laus sæti við borðið þeirra og hann bjóst við að Ginny myndi leita þau uppi.
Þarna kom hún.
Hún gekk inn í salinn í frekar fleginni, koparlitaðri síðri skikkju. Hálsmálið var ferhyrnt og yfir brjóstunum var fallegt perlusaumsmunstur. Ermarnar voru síðar og víðar en úr nánast gagnsæju efni. Koparlitað hárið glóði í mjúkri birtunni. Það lá laust í slöngulokkum niður á bakið, örlítið tekið frá andlitinu með litlum spennum.
Það var eins og tíminn stæði kyrr.
Harry fann hjarta sitt taka aukaslag og hann var orðinn þurr í munninum. Hann aldrei hafa séð nokkuð jafn fallegt.
Hún staðnæmdist fremst í salnum, horfði í kring um sig og hallaði sér svo upp að Dean Thomas eins og hún væri að spyrja hann að einhverju.
Harry rankaði allt í einu við sér og veifaði til þeirra. Ginny tók strax viðbragð og dró Dean af staði í áttina að borðinu þeirra og þau fengu sér sæti.

Þegar flestir virtust vera komnir í salinn stóð Dumbledore á fætur og kvaddi sér hljóðs.
“Kæru vinir, ég vil óska ykkur til hamingju með daginn. Hogwartsskóli er nú orðinn ellefu hundruð og ellefu ára gamall. Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur til þessarar veislu og ég vona að við getum notið hennar til fullnustu og gleymt okkur við söng og dans langt fram á kvöld. Við skulum byrja á að fá okkur snarl og svo verður dansað á eftir. Gjörið svo vel!” sagði hann.
Lófaklapp dundi í salnum.
Við öll borðin hófst fólk handa við að segja diskunum sínum hvers óskað var og eftir augnablik voru allir diskar hlaðnir kræsingum.
Þegar diskarnir fóru að tæmast á ný birtist hljómsveit á sviðinu. Nemendur skólans ráku upp skellihlátur. Á sviðinu stóðu engir aðrir en prófessorar Flitwick, Spíra, Hooch, Vector og Trelawney.
“Kæru nemendur,” sagði Dumbledor. “Leyfist mér að kynna, Kennarabandið!” hrópaði hann.
Kennararnir á sviðinu tóku sér stöðu, Flitwick stillti sér upp fremstur á sviðinu og það leit út fyrir að hann væri söngvarinn í bandinu. Prófessor Spíra tók upp gítar, Hooch tók upp stóran kontrabassa og Vector settist við flygilinn. Trelawney stóð svo í einu horninu með tamborínu skreytta bleikum og bláum borðum.
Nemendur skólans ætluðu gjörsamlega að springa úr hlátri en þegar þau sáu særðan svipinn á kennurunum reyndu flestir að sitja á sér.
Fyrr en varði byrjaði hópurinn að spila og prófessor Flitwick hóf upp raust sína.
Harry varð að viðurkenna að þau voru hreint ekki slæm. Þetta kom á óvart.
Hann stóð upp og bauð Lunu upp í dans. Luna kinkaði kolli og gekk með honum út á gólfið.
Þau dönsuðu saman svolítið vandræðalega. Harry fannst hann ekki alveg vera að ná tökum á þessu en vildi samt reyna.
Hann horfði í kring um sig og sá hvar Hermione og Ron dönsuðu saman, þétt upp við hvort annað og virtist sem þau hefðu aldrei gert annað. Neville og Parvati dönsuðu saman örlítið líflegri dans sem leit ótrúlega vel út hjá þeim. Þvert yfir dansgólfið sá hann Draco dansa við Pansy og hann gerði það með stæl. Hann sveiflaði henni í kring um sig eins og atvinnumaður.
Það var ekki að sjá að þetta væri sami drengurinn og Harry þekkti. Drengurinn sem var að ganga í gegn um þungar raunir þessa dagana. Annarsstaðar í salnum sá hann Dumbledore og McGonnagall dansa saman og við hlið þeirra voru Anika og Snape í hægum, nánum dansi.
Harry fannst eins og allir kynnu að dansa almennilega nema hann. Hann reyndi að afaka sig við Lunu en henni virtist alveg sama og dillaði sér bara í takt við tónlistina sama hvað Harry var að gera. Hann hélt áfram að reyna og sá þá útundan sér hvar Ginny og Dean voru að dansa saman. Þau voru í hægum dansi og svo virtist vera sem Ginny ætti jafn erfitt með þetta og Harry. Hún var vandræðaleg með áhyggjuhrukku á enninu. Dean var að hvísla einhverju að henni en það virtist ekki kæta hana minnstu vitund.
Eftir nokkra stund af vandræðagangi á dansgólfinu ákvað Harry að nú væri kominn tími á að fá sér eitthvað að drekka.
Hann bauð Lunu að koma með sér að fá hunangsöl við borðið þeirra og hún þáði það.

Þau settust niður og þar sátu Neville og Parvati saman fyrir.
“Þau eru ekki sem verst,” sagði Harry glaður í bragði og horfði á Kennarabandið spila af krafti.
Fröken Hooch var í greinilega í essinu sínu þar sem hún stóð með bassan sinn og sneri honum í hringi á milli sólóparta og Flitwik var kominn upp á flygilinn til að sjást betur og dansaði þar og hoppaði eins og versti rokkari.
“Ég er allavega að skemmta mér mikið betur núna en á jólaballinu fyrir tveimur árum,” sagði Parvati Patil og horfði ásakandi á Harry. “Ég er í öllu falli með mikið skemmtilegri herra núna,” bætti hún við og kyssti Neville á kynnina. Neville roðnaði upp í hársrætur og brosti vandræðalegur út að eyrum.
“Já, já, ég veit,” svaraði Harry skömmustulegur.
Í því komu Ginny og Dean og settust hjá þeim. Dean virtist hinn allra hressasti og spjallaði stöðugt við Neville og Parvati. Luna hlustaði á með athygli og skaut inní orði við og við.
Harry horfði á Ginny.
Hún sat á móti honum og horfði niðurlút fram fyrir sig. Hún virtist ekki vera að skemmta sér jafn vel og hinir við borðið.
Hann reyndi árangurslaust að ná augnsambandi við hana.
“Hvar eru Ron og Hermione?” spurði hann loksins þegar hann gafst upp á að reyna að ná athygli hennar. “Ætla þau ekkert að koma og fá sér að drekka?” velti hann upphátt fyrir sér.
“Nei, það efast ég um,” svaraði Neville og leit yfir á dansgólfið þar sem Ron og Hermione voru í rólegum dansi þótt lagið væri nokkuð fjörugt. Þau héldu þétt utan um hvort annað og virtust vera búin að gleyma því að þau væru ekki ein í heiminum.
“Ég giska á að þau séu ekki nema örfáum dönsum frá því að skjótast upp í stjörnufræðiturn,” sagði Dean og glotti.

Eftir nokkra stund af spjalli og hunangsöli fóru Neville og Parvati aftur út á dansgólfið og stuttu síðar vildi Luna dansa meira. Harry langaði nú ekkert sérlega út á dansgólfið aftur, bæði út af vankunnáttu sinni í þeim efnum og vegna þess að honum fannst erfitt að skilja Ginny eina eftir þegar henni virtist líða svona illa. Hann hugsaði sig um og ákvað svo samt sem áður að fara með Lunu þar sem Ginny hafði Dean hjá sér.
Þau gengu út á dansgólfið og reyndu aftur að dansa saman. Það gekk örlítið betur í þetta skiptið en þó ekki jafn vel og hjá hinum í kring um þau. Kannski líka út af því að Luna virtist stundum vera að dansa eftir allt öðrum takti en þeim sem hljómsveitin var að spila.
Harry leit öðru hvoru á borðið þar sem Ginny og Dean sátu tvö saman. Þau virtust vera að tala saman en voru ekkert allt of ánægð á svip. Nokkrum mínútum síðar stóðu þau líka upp og gengu út á dansgólfið rétt hjá Harry og Lunu. Eftir stutta stund í dansi sleit Ginny sig lausa frá Dean og hreytti einhverju í hann og hljóp út úr salnum.
Dean stóð eftir reiður á svip en hristi svo höfuðið og gekk að borði í hinum helmingi salarins og fékk sér sæti þar við hlið Seamusar vinar síns.
“Luna, það er eitthvað að hjá Ginny,” sagði Harry sem hafði hætt að dansa snögglega.
Luna kinkaði kolli
“Já, ég veit,” sagði hún.
Harry varð hissa á svip.
“Veistu það?” spurði hann.
“Já, það þurfti nú engann snilling til að sjá það við borðið áðan. Ég veit ekki hvað er að en ég veit að það er eitthvað að,” sagði hún blátt áfram.
“Ég þarf að fara og finna hana,” sagði Harry. “Ég þarf að athuga hvort það er allt í lagi hjá henni.”
Luna kinkaði kolli.
“Gerðu það,” sagði hún.
“Er þér alveg sama þó að ég skilji þig bara eina eftir á ballinu?” spurði Harry
“Ég finn mér bara einhvern annan til að dansa við,” svaraði Luna og blikkaði hann.
Harry kyssti hana í þakklætisskyni og hljóp svo fram á ganginn.
Hann leit í kring um sig en kom hvergi auga á Ginny.
Hann hljóp upp í Gryffindorturn í einum spretti. Þar inni voru nokkur Gryffindorpör sem höfðu kosið að fara afsíðis frekar en að vera áfram á ballinu. Harry leit í kring um sig og kom hvergi auga á Ginny.
Hann flýtti sér upp í svefnsal sjötta árs drengjanna og tók fram ræningjakortið sitt. Hann renndi hratt yfir það og sá að flest allir voru í matsalnum en nokkrir punktar voru tveir og tveir saman víðsvegar um kastalann, í tómum kennslustofum og auðum skotum hér og þar. Hann sá að punktar merktir Ron og Hermione voru einstaklega þétt saman í þarfaherberginu.
Allt í einu sá hann punktinn hennar. Hann var aleinn, kyrr á dýflissuganginum. Harry stakk kortinu í vasann og hraðaði sér af stað. Hann vissi nákvæmlega hvar hún var. Hún var rétt fyrir utan geymsluna sem þeir Draco hittust svo oft í.

Hann hægði á sér þegar hann kom inn á ganginn og skimaði í kring um sig. Hann sá hana ekki.
Hann tók aftur upp ræningjakortið. Samkvæmt því var hún rétt hjá honum, bara örlítið lengra inn ganginn. Hann stakk því aftur í vasann og gekk lengra inn ganginn.
Hann heyrði í henni. Hann heyrði snökt eins og einhver væri að gráta í lágum hljóðum.
Hann gekk á hljóðið og fann hana sitjandi á gólfinu í pínulitlu skoti, bak við stóra brynju sem stóð þar til skrauts. Hún sat í hnipri með andlitið falið í lófum sér og grét.
“Ginny, hvað er að?” sagði hann blíðlega og kraup niður fyrir framan hana.
Hún hrökk upp og starði hissa á hann eitt augnablik en hélt svo bara áfram að gráta.
Hann reyndi að taka utan um hana en komst ekki nógu nálægt henni út af brynjunni.
“Ginny, komdu með mér,” sagði hann. “Komdu, það er herbergi hérna rétt hjá þar sem við getum sest niður og spjallað saman.”
Ginny hristi höfuðið og hélt áfram að gráta.
“Ég fer ekki án þín,” sagði Harry þrjóskur. “Ég sest þá bara hér og bíð þar til þú ert tilbúinn,” hélt hann áfram og settist niður fyrir framan brynjuna.
Í því heyrðu þau í tveimur Slytherinnemum sem komu hlaupandi niður stigann á leið til heimavistarinnar sinnar. Þau litu skringilega á Harry þegar þau hlupu fram hjá og sáu svo Ginny sem sat enn í hnipri bak við brynjuna. Hún hafði hætt að gráta en faldi ennþá andlitið í höndunum. Þau litu aftu á Harry, glottu og hristu höfuðin áður en þau héldu áfram.
“Ætlarðu að koma með mér eða eigum við að bíða eftir næstu umferð af Slytherinpörum í leit að stað til að athafna sig?” spurði Harry og leit á Ginny.
Hún skreið út úr fylgsni sínu og stóð varlega á fætur. Hann tók utan um hana og leiddi hana inn í geymsluna sem var einungis í nokkurra metra fjarlægð. Hann kveikti á litlum lampa sem þeir Draco höfðu komið með fyrir nokkrum vikum síðan.
Ginny leit hissa í kring um sig.
“Hvar erum við?” spurði hún.
“Á öruggum stað,” svarði Harry og dró hana með sér inn í hornið þeirra Dracos.
“Hvernig veistu af þessum stað?” spurði hún aftur.
“Ég er búinn að vera nota hann í allan vetur,” svarði Harry. “Þetta var bara gömul og gleymd geymsla en með smá tiltekt í þessu horni var hægt að nota hana til að spjalla og skemmta sér,” sagði hann og brosti til hennar.
Ginny lyfti annarri augabrúninni í spurn.
“Skemmta sér?” spurði hún.
Hann settist niður á mjúkt gólfið.
“Tefla og slíkt,” svaraði hann af bragði og sýndi henni skáksettið sem lá þarna við hliðina á honum.
“Ó,” svarði hún hissa og virtist brugðið.
“Hvað hélstu eiginlega?” spurði Harry hissa.
“Ekkert,” svarði hún og hristi höfuðið.
Hann bauð henni sæti á gólfinu við hlið sér.
“Afhverju er það svona mjúkt?” spurði hún hissa.
“Álög,” svarði hann og ypti öxlum.
“Gerðir þú þetta?” spurði hún.
“Nei,” svaraði hann og hristi höfuðið. “En, hvað er að Ginny?” spurði hann svo til að breyta umræðuefninu.
Það dimmdi yfir svip hennar.
“Við Dean vorum að hætta saman,” sagði hún svo ákveðin en ekki var laust við að ný tár læddust fram í augnkrókana.
Harry tók utan um hana og hún hallaði höfði sínu upp að brjósti hans.
“Hvað gerðist?” spurði hann.
“Hann er bara fífl,” svaraði hún brostinni röddu og fór aftur að gráta í faðmi hans.
Harry hélt þétt utan um hana og strauk koparlitt hárið sefandi.
Eftir dágóða stund fór tárunum að fækka.
“Hvað gerði hann?” spurði Harry varfærnislega en alvarlegur á svip.
Ginny leit ekki á hann en horfði beint fram fyrir sig. Társtrokið andlitið lýsti af sársauka og reiði.
“Hann var búinn að ákveða að í kvöld færum við alla leið,” sagði hún og lagði sérstaka áherslu á Hann. “Ég var hins vegar ekki sammála. Ég sagði honum að ég væri bara ekkert tilbúin í það strax. Þá sagði hann að annað hvort myndi ég sofa hjá honum í kvöld eða að hann myndi finna sér einhverja aðra til að sofa hjá.” Hún var orðin svo reið á svip að augun skutu nánast gneistum.
Harry fann reiðina magnast innra með sér. Hann skyldi sko láta Dean kenna á því að koma svona fram við hana. Hann reyndi að halda ró sinni fyrir Ginny.
“Og hvað sagðir þú þá?” spurði hann og vonaði að röddin væri ekki of reiðileg.
Ginny settist upp og horfði á hann eins og hún tryði varla eigin eyrum.
“Hvað heldur þú?” hreytti hún út úr sér. “Ég sagði honum að nota þá frekar þá vinstri því sú hægri væri orðin svo leið á honum að hún væri eflaust stungin af ef hún væri ekki föst við hann,” sagði hún og fyrirlitningin skein úr augum hennar.
Harry starði á hana opinmyntur í augnablik áður en hláturinn fór að krauma í honum.
Ginny leit skömmustuleg á hann og brosti svo örlítið. Fljótlega dofnaði brosið og í staðinn kom svipur sem lýsti af vonbrigðum.
“Ekki hélstu að ég myndi láta undan svona þvingunum,” sagði hún og horfði á hann. “Ég hélt þú þekktir mig betur en svo. Ég meina ef þetta er sá maður sem hann hefur að geyma þá vil ég ekki sjá hann.”
Harry brosti til hennar.
“Auðvitað hélt ég ekki að þú myndir láta undan svona þvingunum,” sagði hann sefandi. “Þú ert mikið skynsamari en svo. Ég var bara að velta því fyrir mér hvernig þú hefðir brugðist við.”
Hann tók aftur utan um hana og hún kúrði sig aftur að brjósti hans.
“Ég hélt að hann væri betri en þetta,” sagði hún og fór að snökkta að nýju. “ég hélt að hann elskaði mig.”
Rödd hennar brast aftur og hún grét sárt í fanginu á honum.
Harry tók aftur þétt utan um hana og reyndi eins og hann gat að sefa grátinn.
Hún grét langa stund.
“Ég elskaði hann,” sagði hún svo loks í gegn um ekkan og tárin. “Þó ég hafi ekki verið tilbúin til að sofa hjá honum þá elskaði ég hann samt.”
Hún saug upp í nefið og þerraði tárin.
“Afhverju gat hann ekki bara skilið það?” spurði hún Harry.
“Afhverju var það ekki nóg fyrir hann?”
Harry ypti öxlum.
“Ég veit það ekki Ginny. Hann er bara fífl. Hverjum sem er ætti að nægja að hafa ást þína og ekki að þurfa að heimta meira en þú ert reiðubúin að gefa,” sagði hann ákveðinn.
Ginny þurkaði sér aftur um augun og settist upp.
“Harry, hafið þið Luna sofið saman?” spurði hún allt einu beinskeytt.
Harry brá svolítið við.
“Nei,” svaraði hann og hristi höfuðið.
“Afhverju ekki?” spurði Ginny.
“Ég veit það eiginlega ekki,” svaraði hann hugsi. “Það hefur bara ekki verið tímabært ennþá. Annars höfum við ekkert verið að spá í það ennþá. Allavega ekki ég,” bætti hann við vandræðalegur.
“Vá, Dean var farinn að tala um þetta strax í vor þegar við byrjuðum saman,” sagði hún.
Allt í einu breyttist svipurinn á andliti hennar eins og það hefði vaknað ný spurning í höfði hennar.
“Er það þá ekki Luna sem þú hefur verið að koma með hingað niður til að,” hún hikaði, “tefla við?” bætti hún svo við óákveðin.
“Neeei,” svarði Harry dræmt og varð flóttalegur á svip.
“Harry þó,” sagði Ginny og minnti allt í einu ónotalega mikið á mömmu sína. “Ekki ertu að hitta aðra stelpu hérna niðri?” spurði hún.
Harry svelgdist á eigin munnvatni og fékk hóstakast.
“Nei,” svaraði hann hneykslaður um leið og hann náði að jafna sig.
“Hvað þá?” spurði Ginny, “Hver er með þér hér niðri að tefla? Ekki er það Ron eða einhver annar úr Gryffindor því þið gætuð alveg eins teflt uppi í turni. Hvað ertu að fela hérna niðri?” spurði hún og horfði rannsakandi á hann. “Og hver hjálpaði þér að leggja þessi álög á gólfið?”
Harry leit á klukkuna til að gefa sér ráðrúm til að hugsa. Hún var að nálgast miðnætti. Ballið var örugglega löngu búið.
“Harry?” sagði Ginny spyrjandi.
“Ginny, ég get ekki sagt þér það,” sagði hann að lokum og horfði beint í augu hennar.
Hún setti í brýrnar og virti hann fyrir sér.
“Ég er ekki að gera neitt af mér og ég er ekki að hitta aðra stelpu. Ég bara get ekki sagt þér þetta,” sagði hann alvarlegur á svip. “Ginny, þú veist allt um mig. Ég hef sagt þér frá öllu en ég get ekki sagt þér frá þessu því þetta snýst um fleiri en mig.”
Ginny kinkaði kolli rólega.
“Allt í lagi,” sagði hún og kinkaði kolli. “Þú segir mér það kannski seinna.”
Hún hallaði sér aftur upp að honum og hann tók utan um hana á ný.
Í því opnuðust dyrnar að geymslunni og Draco Malfoy kom askvaðandi inn. Þegar hann sá Harry og Ginny sitja í faðmlögum fraus hann í sporunum. Svipurinn á andliti hans fraus líka og úr augum hans skinu vonbrigði og sárindi.
Harry og Ginni slitu sig úr faðmlaginu og settust teinrétt upp.
Draco opnaði munninn eins og hann ætlaði að segja eitthvað en ekkert hljóð kom úr munni hans. Í augum hans glitti í tár þegar hann hristi höfuðið í vantrú og snerist á hæl og hljóp út úr geymslunni.
Harry sneri sér að Ginny.
“Bíddu hérna,” sagði ákveðinn, stóð upp í flýti og hljóp á eftir Draco. Þegar hann kom út á ganginn var Draco horfinn. Hann tók upp kortið sitt og sá að Draco var þegar kominn inn á Slytherinheimavistina. Þangað gat hann ekki elt hann.
Hann heyrði vængjaþyt og leit við. Þarna kom Hedwig fljúgandi til hans.
Hann lokaði augunum og hristi höfuðið reiður út í sjálfan sig.
Hedwig sveif í hring fyrir ofan höfuð hans áður en hún lenti á útréttum armi hans. Hann tók bréfið sem var bundið við fót hennar og strauk henni létt um hnakkann áður hann sendi hana í burtu.
Hann las bréfið.

Harry, ertu til í að hitta mig snöggvast.
Vantar bara að tala við vin.


Harry krumpaði bréfið í hendi sér og sneri aftur inn í geymsluna þar sem Ginny beið eftir honum.
Hann settist niður við hlið hennar og hvíldi olnbogana á hnjánum og gróf hendurnar í úfnu hárinu.
“Er það Draco Malfoy sem þú ert búinn að vera að hitta hérna?” spurði Ginny og andlit hennar var eins og eitt stórt spurningarmerki.
Harry kinkaði lítillega kolli en leit ekki á hana.
“Hvers vegna í ósköpunum?” spurði hún forviða.
Harry andvarpaði mæðulega og sat svo hljóður og starði fram fyrir sig. Eftir nokkra stund leit hann upp, alvarlegur á svip og horði í augu hennar.
“Þú mátt ekki segja nokkrum manni þetta. Ekki einu sinni Ron eða Hermione,” brýndi hann fyrir henni.
Ginny kinkaði kolli hálf skelkuð á svip.
“Þú verður að lofa því,” ítrekaði hann.
“Ég lofa,” sagði Ginny og kinkaði aftur kolli.
Harry andvarpaði aftur.
“Draco var vígður inn sem drápari í gær,” sagði hann.
Ginny greip andann á lofti áður en hann náði að halda áfram.
“En hann varð meðlimur í Fönixreglunni í haust og er núna að njósna um Voldemort og hina dráparana með Snape,” sagði hann.
Augun á Ginny virtust ætla út úr höfðinu á henni.
“Við erum búnir að vera vinir síðan við lentum í kentárunum í haust og höfum verið að æfa hughrindingu saman hjá Snape í allan vetur og stundum setið hér saman á eftir og spjallað eða teflt.”
Hann ypti öxlum. “Hann er góður strákur. Hann hefur bara ekki átt góða æfi,” bætti hann við.
“Hvað áttu við?” spurði hún.
Harry þagði örlitla stund eins og hann væri að meta hversu mikið hann ætti að segja henni.
“Pabbi hans fer illa með hann, andlega og líkamlega. Hann á enga vini. Allir vinir hans hér eru með honum því feður þeirra eru hræddir við Lucius. Ef Draco sýnir einhvern veikleika eða eitthvað sem dráparar myndu telja til veikleika myndi pabbi hans frétta af því innan fárra daga. Ef upp kæmist að hann væri að njósna fyrir okkur þá væri hann líklega dauður innan viku,” sagði hann. “Það má þess vegna enginn vita neitt og allir þurfa að koma fram við hann eins og venjulega.”
Ginny starði á hann.
“Harry, hvernig veistu að hann sé ekki að ljúga?” spurði hún varfærnislega.
“Ég veit það. Ég hef séð pabba hans berja hann. Ég hef séð örin á líkama hans,” svaraði Harry. “Í fyrstu hughrindingartímunum hverfa öll leyndarmál.”
Ginny var komin með tárin í augun á nýjan leik en í þetta skipti vegna meðaumkunar með Draco en ekki út af sjálfri sér eða Dean.
“Þegar við vorum í sjúkraálmunni eftir dvölina hjá kentárunum kom enginn að heimsækja hann allan tímann. Þið voruð öll að koma í heimsókn til mín öllum stundum. Það kom enginn til hans. Hann hlúði að mínum sárum í hellinum og hafði lært það af reynslunni eftir allar pyntingarnar sem pabbi hans hefur látið hann ganga í gegn um,” hélt Harry áfram.
Ginny þerraði tárin og var greinilega slegin eftir þessar upplýsingar.
“Ginny, þú mátt ekki koma fram við hann öðru vísi en þú ert vön þrátt fyrir að þú vitir þetta,” ítrekaði Harry eina ferðina enn.
“Ég veit. Ég skil,” sagði Ginny og kinkaði kolli. “Og ég segi engum.”
“Hann var að koma hérna inn í kvöld til að tala við mig,” sagði Harry lágt.
Hann rétti henni bréfið.
“Hedwig kom með þetta þegar ég kom fram á ganginn. Hún var örugglega búin að vera að leita að mér,” sagði hann.
Ginny las bréfið hljóðlega og leit á hann.
“Hann hefur örugglega haldið að ég hafi verið búinn að segja þér þetta allt. Þess vegna varð hann svona sár,” sagði hann.
Ginny leit á hann og kinkaði kolli.
“Þú verður að tala við hann,” sagði hún. “Þú verður að segja honum að þú hafir ekki verið að segja mér neitt fyrr en eftir að hann kom inn og þú verður að segja honum að mér sé treystandi,” sagði hún örvæntingarfull.
“Ég næ ekki í hann núna,” sagði Harry. “Hann er kominn á heimavistina sína, þangað get ég ekki farið.”
“En geturðu ekki sent honum uglu?” spurði hún.
“Nei, það gæti komið upp um allt. Þó að það standi ekkert merkilegt í bréfinu þá gæti einhver séð það og farið að spyrja spurninga. Fyrir utan það að öll bréf sem hann fær koma frá pabba hans eða mömmu og með arnaruglum,” sagði hann.
“Þú verður að ná að tala við hann einhvernveginn,” hélt Ginny áfram.
“Ég reyni að ná í hann á morgun,” sagði Harry.
“Líður þér betur?” spurði hann eftir stundarþögn og horfði samúðarfullum augum á hana.
Hún kinkaði kolli.
“Ég jafna mig,” sagði hún en Harry var ekki viss um að henni fyndist það eins létt og hún lét það hljóma.
Hann tók utan um hana aftur og svo gengu þau saman upp í Gryffindorturn.
Þegar þau komu í setustofuna var hún nánast mannlaus. Svo virtist vera sem flestir væru farnir í háttinn.
Harry faðmaði Ginny að sér og bauð henni góða nótt.
“Góða nótt, Harry,” sagði hún. “Og takk fyrir,” bætti hún við og kyssti hann á kinnina áður en hún hljóp upp stigann í stúlknaálmuna.

Harry horfði á eftir henni. Hún var frábær stelpa.
Dean var fáviti að fara svona með hana og láta hana sleppa hugsaði hann með sér og fann hvað reiðin í garð Deans byrjaði að krauma á ný.
Hann gekk upp í svefnsalinn. Þegar hann opnaði dyrnar voru Dean og Seamus þar í hrókasamræðum á meðan þeir háttuðu sig og Neville lá þegar í rúminu sínu og las. Ron var hvergi sjáanlegur.
Harry horfði á Dean þar sem hann hló og fíflaðist í Seamusi. Það var ekki að sjá að honum þætti vitund leiðinlegt hvernig atburðir kvöldsins höfðu æxlast. Harry grunaði að Ginny væri rétt í þessu grátandi uppi í herberginu sínu. Hann fann hvað reiðin magnaðist innra með honum. Hann kreppti hnefana niður með síðunum og horfði með fyrirlitningu á Dean.
“Já, Lavender var fín í kvöld,” sagði Seamus og hló. “En hún var ennþá fínni þegar hún var komin úr skikkjunni ef þú skilur hvað ég á við,” bætti hann við og blikkaði Dean með ógeðslegu glotti.
Dean hló og kinkaði kolli.
“En þú?” spurði Seamus. “Fékkst þú eitthvað gott í kvöld?” Hann leit spyrjandi á Dean.
Dean blikkaði hann og glotti.
Harry fann hvað reiðin náði allri stjórn á honum og áður en Dean náði að svara gekk hann hröðum skrefum að honum og kýldi hann beint á kjaftinn svo hann endasentist aftur fyrir sig og skall með höfuðið í vegginn.
Dean lyppaðist í gólfið og lá þar hreyfingarlaus.