Niðamyrkur. Kalt. Ekki einu sinni tunglskin á þessari hryllilegu nóttu. Samt hafði ekki verið skýjað um daginn. Kannski var ekki eins dimmt og honum fannst. Kannski var myrkrið bara í hjarta hans.
Ó, hvað hann vildi að hann væri ekki hér. Hann vildi vera hvar sem var, bara ekki hér. Hann var hræddur. Hann vildi þetta ekki.
‘ Nei, Draco. Ekki hugsa svona. Ekki opinbera þessar hugsanir. Vertu sterkur. Tæmdu hugann,’ hugsaði hann með sér og reyndi að róa sig niður.
Hann stóð í myrkrinu fyrir utan kirkjugarðinn í Little Hangleton, klæddur í svarta skikkju með hettuna yfir höfðinu svo ekki sást neitt nema andlit hans. Hann var hræddur. Hann vissi að hann varð að bæla niður óttan en það gekk ekki vel.
Allt í einu fann hann að hönd var lögð á öxl hans og hann fann hlýju og yl streyma frá henni. Höndin þrýsti öxlina hughreystandi og hann fann hvað það varð allt í einu auðveldara að sleppa takinu af óttanum og tæma hugann.
“Ég verð með þér allan tímann,” hafði Snape sagt áður en þeir fóru af stað frá Hogwarts. “Ávarpaðu hann alltaf sem meistara. Ekki horfa í augun á honum nema hann skipi þér það sérstaklega, ekki tala nema hann spyrji þig einhvers og vertu sterkur allan tímann. Ekki láta tilfinningar þínar koma upp um þig. Þú getur þetta.”
Hann stóð nú fyrir aftan hann, klæddur í samskonar skikkju og með hvíta grímu fyrir andlitinu. Við hlið hans stóð svo annar skikkjuklæddur maður með eins grímu.
Pabbi.
Draco lokaði augunum og einbeitti sér að því að hreinsa hugann. Hann fann að hann var orðinn rólegri núna og þetta gekk betur. Hann var feginn að hafa Snape með sér en hann varð að útiloka það úr huga sínum til að Voldemort grunaði ekkert.
Snape tók höndina af öxl hans.
Hann fann að kuldinn umlukti hann allan á ný.
Hann var að fara að sjá Voldemort sjálfan í fyrsta skipti. Harry var búinn að segja honum hvernig hann leit út en hann kveið því að sjá hann með eigin augum í fyrsta sinn.
‘ Ah… ekki fara að hugsa um Harry núna. Það er ekkert nema dauðadómur,’ hugsaði hann með sér. Hann setti upp kaldasta svipinn sinn, svipinn sem hann notaði þegar hann var að tala við pabba sinn og einbeitti sér sem mest hann mátti.
Loksins tókst honum að útiloka allt.
“Jæja, þá leggjum við í hann,” sagði Lucius Malfoy og tók harkalega í öxl sonar síns og stýrði honum af stað.
‘ Ég þrái að verða þjónn hins myrka herra,’ þuldi Draco í huga sér og gekk á undan föður sínum inn í kirkjugarðinn. Rétt fyrir aftan hann fann hann fyrir návist Severusar Snapes.
Þeir gengu inn í miðjan garðinn þar sem hópur af svartklæddum mönnum með hvítar grímur fyrir andlitinu stóð í hring. Þarna var mikið af fólki. Hátt í hundrað manns, giskaði Draco á.
Þarna var hann. Í miðju hringsins. Þarna stóð hinn myrki herra í öllu sínu veldi og horfði í áttina til hans með þessum ógnvænlegu, rauðu augum. Í kring um hann hringaði sig stærri slanga en Draco hafði nokkru sinni séð.
‘ Ég þrái ekkert heitar en að verða auðmjúkur, tryggur þjónn hins myrka herra,’ þuldi Draco aftur í huga sér um leið og hann gekk inn í hringinn en sýndi engin svipbrigði. Pabbi hans hélt um aðra öxl hans og Severus Snape um hina. Þeir námu staðar í miðjum hringnum andspænis hinum myrka herra.
‘ Ég þrái ekkert heitar en að verða auðmjúkur, tryggur þjónn hins myrka herra.’
Draco þuldi aftur og aftur í huga sér hollustueið sinn við hinn myrka herra til að halda aftur af öllum tilfinningum og hreinsa hugann af öllu sem ekki mátti sjást.
“Jæja, hvað höfum við hér,” sagði Voldemort með hásri, hvæsandi röddu sem var kaldari en nokkuð sem Draco hafði áður heyrt.
‘ Ég þrái ekkert heitar en að verða þjónn hins myrka herra,’ þuldi hann í huga sér enn ákveðnara en fyrr.
“Ungi herra Draco Malfoy, vænti ég,” hélt Voldemort áfram og ekki var laust við hæðni í rödd hans. Hann horfði á Draco sem stóð grafkyrr, svipbrigðalaus, starði á jörðina við fætur hins myrka herra og fór með hollustueiðinn sinn í huganum.
Voldemort þagði um stund og virti drenginn fyrir sér.
“Hann er sterkur,” sagði hann svo eftir nokkra stund.
“Er það einskær vilji þinn og ásetningur að þjóna mér í einu og öllu?” spurði hann.
Draco hneigði sig.
“Já, meistari,” svaraði hann.
“Við skulum sjá hversu sterkur þú ert,” hélt Voldemort áfram. Hann reisti upp sprotann sinn og beindi honum að brjósti Dracos.
‘ Ég þrái ekkert heitar en að verða auðmjúkur þjónn hins myrka herra.’
“Crucio!” sagði hann kaldri röddu.
Draco fannst sem verið væri að rífa hann í sundur. Hryllilegur sársauki heltók hverja taug líkama hans og hann engdist sundur og saman á jörðinni.
En hann öskraði ekki. Allt í einu, eins snögglega og hann hafði byrjað, var sársaukinn horfinn. Hann stóð hratt á fætur og tók aftur sína stöðu fyrir framan hinn myrka herra. Snape og pabbi hans stóðu kyrrir fyrir aftan hann.
‘ Ég þrái ekkert heitar en að verða auðmjúkur þjónn hins myrka herra,’ hugsaði hann enn á ný, jafnvel ákveðnari en fyrr.
“Hver er meistari þinn?” spurði Voldemort og virti hann fyrir sér.
“Þú, meistari,” svaraði Draco svipbrigðalaus og hneigði sig.
Voldemort kinkaði kolli.
“Sterkur,” sagði hann hugsandi. “Reynum aftur. Crucio!”
Aftur lá Draco á jörðinni í krampaköstum. Sársaukinn var óbærilegur en hann skyldi ekki öskra. Hann gerði sér enga grein fyrir hversu lengi hann lá og engdist af kvölum en allt í einu var allur sársaukinn horfinn. Hann steig eins hratt á fætur og honum var mögulega unnt og tók sér aftur stöðu fyrir framan hinn myrka herra.
‘ Ég þrái ekkert heitar en að verða auðmjúkur þjónn hins myrka herra.’
“Mjög sterkur,” sagði Voldemort hissa. “Sterkari en þú Lucius,” hreytti hann í föðurinn sem stóð enn kyrr fyrir aftan son sinn.
Slangan sem lá við fætur hans lyfti upp höfði sínu og hvæsti eitthvað.
“Já, Nagini,” svaraði Voldemort. “Það er góð hugmynd. Ég bjóst ekki við að hann þyldi svona langt, reynum það.”
Hann sneri sér að Draco.
“Við skulum athuga hversu harður þú ert þegar kemur að þínum nánustu,” sagði hann og virtist hafa örlítið gaman af þessu.
Hann beindi sprotanum sínum að Luciusi sem dróg andan snöggt að sér.
“Crucio!” sagði hann kaldri röddu með ánægjublæ.
Lucius Malfoy engdist sundur og saman á jörðinni og öskraði hærra en Draco hafði nokkru sinni heyrt. Það lá við að Draco skammaðist sín fyrir aumingjaskapinn í honum.
‘ Ég þrái ekkert heitar en að verða auðmjúkur, tryggur þjónn hins myrka herra,’ hugsaði hann enn á ný og í þetta skiptið var það ekkert erfitt.
Eftir nokkra stund sleppti Voldemort Luciusi en hann lá á jörðinni í nokkra stund áður en hann með erfiðismunum hafði sig á fætur að nýju.
“Horfðu í augun á mér drengur,” skipaði Voldemort.
Draco leit rólega upp og starði beint í rauð augu hans.
‘ Ég þrái ekkert heitar en að verða auðmjúkur þjónn hins myrka herra,’ hugsaði hann enn á ný og ákveðin sælutilfinning fyllti hann við að heyra föður sinn stynja fyrir aftan hann.
“Lucius,” sagði Voldemort hæðnislegri röddu. “Þú gætir lært margt af syni þínum.” Hann leit aftur á Draco.
“Við höfum séð hvað þú þolir en athugum nú hvað þú getur. Hefur þú einhvern tíman beitt ófyrirgefanlegri bölvun?” spurði hann.
“Nei, meistari,” svaraði Draco.
“Langar þig að prófa það?” spurði hann aftur og hæðnin í rödd hans var greinileg.
“Já, meistari,” svaraði Draco og hneigði sig enn á ný.
“Til að leggja ófyrirgefanlega bölvun á einhvern, sérstaklega kvalabölvunina og drápsbölvunina, þarf að búa yfir miklu hatri. Sjáum nú hvað í þér býr. Leggðu kvalabölvunina á föður þinn!” sagði hann og glotti illilega.
“Já, meistari,” svaraði Draco, hneigði sig og sneri sér að pabba sínum. Hann tók fram sprotann sinn og beindi honum að brjósti hans. Hann hugsaði um hvað hann virkilega hataði hann. Allt uppsafnaða hatrið braust út úr iðrum hans og hann fann hvað hann naut þess.
“Crucio!” kallaði hann og Lucius Malfoy hrundi í jörðina í krampaköstum og öskraði jafnvel enn hærra en í fyrra skiptið. Eftir nokkra stund sleppt Draco honum og sneri sér aftur að hinum myrka herra.
Sviplaus.
‘ Ég þrái ekkert heitar en að verða auðmjúkur, tryggur þjónn hins myrka herra,’ hugsaði hann enn á ný er hann horfði á fætur hans.
Voldemort brosti því ljótasta og hryllilegasta brosi sem nokkur gæti ímyndað sér.
Hann sneri sér að Severusi Snape.
“Snape, þú hefur staðið þig vel. Þú ert sannarlega traustur þjónn.”
Hann snéri sér aftur að Draco.
“Og þú sonur sæll, óskir þínar verða uppfylltar. Þú færð að vera auðmjúkur, tryggur þjónn minn,” sagði hann.
“Ormshali!” kallaði hann. “Komdu með grímu handa honum.”
Lítill, feitur drápari gekk fram og setti hvíta grímu á andlit Dracos.
“Takið ykkur stöðu í hópnum,” sagði Voldemort.
Draco gekk í fylgd með föður sínum og Severusi Snape í átt að hinum drápurunum sem stóðu í kring um þá. Þeir tóku sér stöðu í hringnum.
“Dawlish, stígðu fram,” kallaði Voldemort.
Stór og stæðilegur drápari steig inn í hringinn og tók sér stöðu fyrir framan hann.
“Segðu mér frá hvernig fór í kvöld,” skipaði Voldemort.
Dawlish hneigði sig fyrir honum.
“Við fórum í Hreysið í kvöld meistari. Það hefur nú verið jafnað við jörðu og merki þitt svífur yfir því í þessum töluðu orðum,” sagði hann.
Voldemort kinkaði kolli og glotti.
“Gott, gott,” sagði hann illilega.
“En, meistari, það gekk ekki allt samkvæmt óskum,” bætti Dawlish við óstyrkri röddu. “Þau höfðu verið vöruð við. Húsið var tómt og hafði augsýnilega verið það um nokkra hríð.”
“Hálfvitar!” hrópaði Voldemort hátt. “Hvar eru þeir sem fóru með þér? Komið fram allir sem einn.”
Fimm dráparar komu skjálfandi inn í hringinn og tóku sér stöðu við hlið Dawlish.
“Bella, Rodolphus, Rabastan, Crabbe, Goyle, komið og hjálpið mér örlítið.”
Fimm dráparar í viðbót gengu fram og tóku sér stöðu fyrir aftan félaga Dawlish sem krupu álútir á kné.
“Leyfið þeim að finna hvað það þýðir að bregðast mér,” sagði Voldemort ógnandi röddu.
“Crucio!” var öskrað hátt í kór og mennirnir sex hrundu í krampaköstum í jörðinda, æpandi og öskrandi.
Draco lét hvergi á sér bilbug finna. Hann starði á mennina þjást en hjarta hans var kalt og í huga sér þuldi hann áfram,
‘ Ég þrái ekkert heitar en að vera tryggur þjónn hins myrka herra.’
Eftir nokkra stund var mönnunum sleppt og þeir tóku sína fyrri stöðu fyrir framan meistara sinn.
“Dawlish,” sagði Voldemort í áminningartón. “Hver átti að sjá til þess að Arthur Weasley væri heima?”
Draco tók kipp. Arthur Weasley, það var pabbi Weasley krakkanna. Galdramálaráðherrann. Hann steingleymdi að þylja hollustueiðinn sinn og starði opinmynntur á Voldemort í sama mund og Dawlish viðurkenndi að það hefði verið hann. Allt í einu fann hann hönd Snapes þrýsta ákveðið hönd hans svo lítið bæri á. Það var nóg til að hann rankaði við sér og mundi eftir því hvar hann var staddur. Hann leit aftur niður og hélt áfram að þylja eiðinn sinn.
‘ Ég þrái ekkert heitar en að vera tryggur þjónn hins myrka herra.’
“Og hafðir þú tekið eftir að hann og fjölskylda hans höfðu flutt?” spurði Voldemort eins og hann væri að spyrja barn hvort það hefði virkilega tannburstað sig þetta kvöld.
“Nei, meistari,” svaraði Dawlish skjálfandi á beinunum.
“Crucio!” kallaði Voldemort aftur og Dawlish engdist á jörðinni fyrir framan hann öskrandi og æpandi. Stuttu seinna stóð hann aftur á fætur og stillti sér enn á ný upp fyrir framan meistara sinn, við hlið félaga sinna.
“Dawlish,” tók Voldemort til máls. “Þú ert heppinn maður. Þú ert heppinn að því leiti að sem stendur hef ég ekki marga hliðholla mér í ráðuneytinu. Það mun breytast. Trúðu mér,” sagði hann ógnandi. “Þar fyrir utan hef ég enga þörf fyrir ónytjung í mínum röðum, sama hvaða sambönd hann hefur. Þú færð eitt tækifæri til að sanna þig. Ef þú bregst aftur þá… AVADA KEDAVRA!” kallaði hann hátt.
Grænt ljós flaug frá sprota hans beint í brjóst mannsins sem kraup við hlið Dawlish.
Maðurinn hrundi niður máttlaus.
Hann var dáinn.
Dawlish kipptist til og skalf frá hvirfli til ilja.
“Hypjið ykkur aftur í hringinn aumingjar!” sagði Voldemort ógnandi. Mennirnir sem enn voru lifandi létu ekki segja sér það tvisvar og flýttu sér til baka á sína staði í hringnum.
Voldemort sneri sér að slöngunni og hvæsti eitthvað til hennar sem Draco skildi ekki. Slangan beið ekki boðanna en skreið fram og gleypti manninn í einum bita. Draco horfði með hryllingi á hvernig stór bungann á búk slöngunnar færðist löturhægt aftar og minnkaði örlítið við hvern sentimeter. Hann þurfti aftur að minna sjálfan sig á að vera harður.
‘ Ég þrái ekkert heitar en að vera tryggur þjónn hins myrka herra.’
“Rookwood, Macnair, stígið fram,” hélt Voldemort áfram.
Tveir menn gengu fram og tóku sér stöðu krjúpandi fyrir framan hann.
“Segið mér fréttir,” skipaði hann.
“Vitsugurnar standa sig vel meistari,” sagði Rookwood. “Þær hafa hreinsað fimm muggaþorp í viðbót núna yfir jólin. Það eru núna ekki eftir nema fimmtán þorp í Angussýslu sem þær hafa ekki farið yfir og skilið eftir nánast mannlaus. Muggayfirvöld standa ráðþrota og hafa lokað sýslunum. Þeir halda að það sé einhver farsótt í gangi. Allt gengur samkvæmt áætlun og við munum með þessu áfhramhaldi geta hafist handa í Aberdeenshire í apríl.”
Voldemort brosti enn á ný sínu ógeðslega glotti. Hann nuddaði fingurgómum sínum saman.
“Gott, gott,” muldraði hann.
“Macnair, segðu mér frá drekunum,” skipaði hann hinum manninum.
“Þjálfun drekana gengur hægt, meistari,” svaraði Macnair. “Þeir eru sterkari en ég átti von á. Við höfum enn ekki getað tamið nema helming þeirra á það stig að þeir hleypi okkur á bak.”
“Ónytjungar,” hreytti Voldemort út úr sér. Glottið var horfið af andliti hans.
“Crucio!” hrópaði hann og Macnair féll í skjálfandi í jörðina. Stuttu síðar stóð hann upp aftur.
“Við erum þó að ná taki á þessu, meistari, og drekarnir ættu að vera tilbúnir í lok maí,” stundi hann óöruggur.
“Þið hafið fram í byrjun maí og ef þú bregst mér þá veist þú hvað til þíns friðar heyrir,” sagði Voldemort ógnandi röddu og leit á bunguna á búk Nagini sem var nú komin um miðjan búkin og búin að minnka töluvert.
“Já, meistari. Kærar þakkir meistari,” svaraði Macnair skjálfandi og hneigði sig djúpt.
Voldemort tók upp sprotann sinn að nýju og sveiflaði honum tignarlega. Mikil sprenging hvað við og miðja hringsins fylltist af reyk. Þegar reykurinn fór að hverfa voru bæði Voldemort og Nagini horfin.