Jibbí, jibbí, jibbí, jibbí, jíbbí, jíbbí, jíbbí, jíbbí, jíbbí, jíbbí, jíbbí…” söng Ron hástöfum um leið og hann dansaði niður stigan í áttina að matsalnum. Harry, Hermione, Neville og Ginny gengu hlæjandi á eftir honum.
“Okei, Ron, ég veit þú ert hamingjusamur en er þetta nú ekki einum of?” spurði Hermione glottandi. Ron hikaði hvorki í dansinum né söngnum en breytti nú textanum,
“Hreint ekki of mikið.
Hreint ekki og mikið.
Prófin eru búin
svo hristum á okkur spikið!”

Með þessi orð á vörunum dansaði hann inn í matsalinn og vinir hans eltu hann glottandi. Þau settust við Gryffindorborðið og biðu þess að veislan myndi hefjast. Salurinn var óðum að fyllast og flest allir voru í léttu skapi og farnir skipuleggja jólafríið sem átti að hefjast eftir tvo daga. Harry, Ron, Hermione og Ginny ætluðu að verja jólafríinu í Hroðagerði og reyna að ljúka við að standsetja húsið almennilega. Remus hafði sagt Harry að loksins væri búið að ná frú Black og ættartrénu af veggjunum. Það eina sem átti í raun eftir að gera var að þrífa og mála. Ekkert sem þurfti nauðsynlega að nota galdra við, svo að þau sem voru enn undir lögaldri áttu alveg að geta verið nytsamleg. Harry hafði boðið Neville að koma líka en hann hafði afþakkað. Hann vildi frekar fara heim til ömmu sinnar og fara með henni að hitta foreldra sína. Hann hafði verið frekar daufur í dálkinn síðustu vikurnar, allt frá því að minnisgaldurinn hrökk af honum. Hann virtist ekki jafn gleyminn og áður, honum var farið að ganga mikið betur í öllum tímum, meira að segja í tímum hjá Snape. Hann var ennþá sami Neville, vingjarnlegur og góður, bara örlítið alvarlegri og klárari. Harry skildi vel að hann vildi vera hjá fjölskyldunni sinni. Hann vildi það líka sjálfur og í raun var hann að fara að vera með fjölskyldunni sinni. Hann ætlaði að vera með Weasley fjölskyldunni sem var eiginlega fjölskyldan sem hann hafði aldrei eignast. Hann hefði bara viljað óska þess að Sirius gæti verið með. Tonks, Lupin, Anika og Snape ætluðu líka að vera með þeim, allavegana á sjálfu jólakvöldinu. Harry fann að þrátt fyrir þreytuna og söknuðinn í garð Siriusar þá hlakkaði hann til að vera með fólkinu sem honum þótti vænt um. Í þessu stóð prófessor Dumbledore upp frá háborðinu og kvaddi sér hljóðs.
“Kæru nemendur, til hamingju með að hafa lokið öllum prófunum ykkar fyrir þessi jól.” Fagnaðarlæti bárust um salinn. “Undir venjulegum kringumstæðum ætti að vera Hogsmeadehelgi á morgun en þar sem þeim hefur verið aflýst um sinn ætlum við að bregða svolítið á leik hér í skólanum. Annaðkvöld verður hátíð á skólalóðinni og ætlum við að útbúa lítinn skemmtigarð á quidditchvellinum af því tilefni.” Fagnaðarlætinn sem brutust um salinn ætluðu allt um koll að keyra. Dumbledore brosti bara hógvær til nemenda sinna og hélt svo áfram þegar hljóð fór að komast á að nýju.
“Hátíðin hefst klukkan átta annað kvöld en nú kæru vinir skulum við borða.”
Í því birtust dýrindis kræsingar á borðunum og nemendur skólans tóku hraustlega til matar síns.
“Vá þetta verður frábært,” sagði Ginny um leið og hún teygði sig í stórt kjúklingalæri.
“Ekki slæmt allavegana,” sagði Ron í gegn um fullan munn af kartöflumús.
“Oh.. Ron, þú ert svo snyrtilegur,” tautaði Hermione og hristi höfuðið.
“Hvað?” spurði Ron hissa á svip með kartöflumúsina langt út á kinn. Hinir við borðið ráku upp skellihlátur.
“Eigum við ekki bara að fara öll saman?” spurði Harry til að breyta umræðuefninu. Hinum leist vel á það og ákveðið var að hittast í Gryffindorturninum korteri fyrir upphaf hátíðarinnar.

Harry var í þann mund að ljúka við matinn sinn þegar hann sá Lunu Lovegood ganga út úr matsalnum með nefið ofan í stórri bók.
“Ég sé ykkur á eftir,” kvaddi hann vini sína og þaut á eftir henni. Þegar hann kom inn í forsalinn var hún þegar hálfnuð upp stigann.
“Luna, bíddu!” kallaði hann á eftir henni. Luna stansaði og leit hálfringluð upp úr bókinni sinni eins og hún væri ekki viss um að hún hefði heyrt rétt. Í því náði Harry henni loksins.
“Hæ!” sagði hann glaðlega.
“Ó, hæ,” svaraði hún til baka.
“Ætlarðu á hátíðina á morgun?” spurði hann.
Luna yppti öxlum.
“Ég var ekki búin að ákveða neitt um það,” svaraði hún. “Þetta er mjög spennandi bók og mig langar mikið til að klára hana fyrir jólafríið.”
“Við Ron, Hermione, Neville og Ginny ætlum að fara saman. Vilt þú ekki koma með okkur?” Spurði Harry vongóður á svip.
Luna hugsaði málið í örlitla stund.
“Allt í lagi,” svaraði hún loks og brosti örlítið út í annað munnvikið.
“Frábært,” sagði Harry kátur. “Við sjáumst þá annað kvöld.”

Klukkan var orðin tíu mínútur í átta og Harry, Ron og Neville biðu óþolinmóðir í Gryffindorturninum.
“Hvaða voða tíma tekur þetta?” spurði Harry. “Ætluðu þær ekki að vera tilbúnar á sama tíma og við?” Ron hristi höfuðið,
“Trúðu mér Harry, stelpur eru aldrei tilbúnar á réttum tíma. Allavegana ekki þegar þær eru að fara í veislur eða eitthvað því um líkt,” sagði hann. “Sem betur fer eru bara tvær kvenverur í fjölskyldunni hjá mér. Ég get ekki ímyndað mér hversu sein við værum í allar veislur ef við hefðum verið sex stelpur og einn strákur,” bætti hann við með hryllingi.
Í því gekk Dean Thomas niður stigann og slóst í hópinn með þeim.
“Hvað ert þú að gera?” spurði Ron skeptiskur á svip.
“Ginny bauð mér að koma með ykkur,” svaraði Dean hress í bragði. Ron var greinilega ekki sáttur við þetta en sagði ekkert upphátt.
Loksins komu Ginny og Hermione niður tröppurnar. Þær voru klæddar í fallegar flauels vetrarskikkjur með hvítum loðkrögum. Ginny var í grænni en Hermione í dumbrauðri. Báðar voru þær með hárið tekið frá andlitinu og ljómuðu líkt og sólin. Strákarnir steinþögnuðu og stóðu stjarfir í örlitla stund, allir sem einn. Ron var fyrstur til að átta sig, hann ræskti sig svolítið og tautaði svo,
“Jæja, mikið var.”
Hinir strákarnir tóku undir það, nema Dean sem gekk að Ginny, tók utan um hana og kyssti hana beint á munninn. Það var eins og Harry fengi örlítinn sting í hjartað. Hann hristi hausinn og reyndi að bæla þessa tilfinningu niður. Hvaða rugl var þetta í honum, Ginny hafði viljað hann einu sinni en þá hafði neitað. Hann hafði engan rétt á að vera eitthvað afbrýðissamur út í Dean. Dean var góður strákur. Ginny mátti alveg vera með honum ef hún vildi það. Ef hún væri hamingjusöm svona þá átti Harry ekkert með það að finna eitthvað fyrir því.
“Jæja, Luna er að bíða eftir okkur niðri í forsalnum,” sagði hann til að hrista þessar hugsanir af sér. “Við ættum að drífa okkur.”
Þegar þau komu í forsalinn beið Luna þar eins og Harry hafði sagt. Hún var í skærri munstraðri vetrarskykkju í grænum og fjólubláum litum. Hárið var slegið líkt og venjulega nema nú lágu tvær litlar fléttur eins og kóróna á höfðinu og sameinuðust á hnakkanum þar sem lítil baldursbrá hélt þeim saman. Harry fann aftur fyrir sömu tilfinningu og þegar hann hafði horft á Ginny koma gangandi niður stigann í Gryffindorturninum og í þetta sinn fannst honum hann alveg hafa rétt á því. Hann gekk til Lunu, tók í höndina á henni og leiddi hana með sér út.

Hópurinn gekk saman niður á quidditchvöllinn og þar var mikið um dýrðir. Allur völlurinn var lýstur upp með kertaljósum sem svifu um í lausu lofti og á honum miðjum var lítill varðeldur þar sem verið var að grilla pylsur. Veifur, fánar og borðar í öllum regnbogans litum hengu víðsvegar um völlinn, á milli áhorfendastúkanna, markstanganna og hvar sem hægt var að festa slíkt upp. Til að kóróna allt saman voru fánar allra heimavistanna dregnir að húni við innganginn. Í einum enda vallarins mátti sjá litla vængjaða tveggjasæta vagna og yfir þeim var skilti sem á stóð, “Útsýnisferðir yfir Hogwartsskóla”. Á öðrum stað var stór lest og fremst í henni sat Albus Dumbledore skælbrosand með lestarstjórahatt á höfðinu.
“Eruð þið til í kyngimögnuðustu rússíbanaferð sem nokkrusinni hefur verið farinn?” kallaði hann hressilega til allra sem heyra vildu.
Víðsvegar um svæðið mátti svo sjá allskyns skotbakka, sælgætisvagna og margt fleira.
“Förum í rússíbanann!” Kallaði Ron kátur upp yfir sig og hljóp í áttina að lestinni hans Dumbledores. Hin eltu misspennt yfir þessari hugmynd. Ron settist í vagninn fyrir aftan Dumbledore sem heilsaði þeim hress í bragði.
“Jæja, Ron Weasley. Þú þorir?” spurði hann glottandi. Ron glotti til baka og svaraði,
“Gerðu þitt besta, gamli.”
“Jæja,” svarði Dumbledore og hleypti brúnum, kíminn á svip. “Þú baðst um það.”
“Allir um borð!”
Harry og Luna settust fyrir aftan Ron, þar næst Ginny og Dean Thomas. Hermione og Neville stóðu sem fastast á jörðinni.
“Ætlið þið ekki með?” spurði Ron greinilega frekar vonsvikinn.
“Nei, veistu, mér líður ágætlega hér á jörðinni,” svaraði Hermione og svipurinn lýsti af hryllingi.
“Og ég skal bara vera hérna til að Hermione leiðist ekki,” bætti Neville við vandræðalegur á svip.
“Pfff… gungur,” sagði Ron og hristi höfuðið.
Fleiri nemendur stigu um borð í lestina og þegar allir voru sestir blés Dumbledore í flautuna og lestin fór af stað. Í fyrstu keyrði hún rólega eftir quidditchvellinum en allt í einu tók hún á loft og fór í beinni lóðréttri línu upp í loft. Harry þrýstist niður í sætið og greip ósjálfrátt utan um Lunu sem sat þétt við hlið hans. Fyrr en varði voru þau komin í talsverða hæð en þá hægði lestin á sér og stöðvaðist nánast. Smám saman hélt hún áfram en hélt hæðinni þannig að eftir stutta stund var eins og lestin stæði á einhverju hátt fyrir ofan jörðina. Svo án nokkurrar viðvörunar fór lestin beina leið niður og snerist í hringi um sjálfa sig á leiðinni. Albus Dumbledore hrópaði af kæti líkt og kúreki sem ríður á ótemju. Nemendurnir öskruðu hver í kapp við annan þar til allt í einu lestin stöðvaði rétt fyrir ofan jörðina. Svona hélt þetta áfram í nokkrar mínútur þar til lestin stöðvaði aftur fyrir framan Neville og Hermione sem höfðu starað skelfingulostin á ævintýrið.
“Jæja, var þetta herranum þóknanlegt?” spurði Dumbledore kíminn og glotti í áttina til Rons sem sat nánast stjarfur í sætinu fyrir aftan hann.
“Óhhh já…” svaraði hann og skalf af adrenalínsjokki. “Þú ert klikkaður!” Bætti hann við með aðdáun í röddinni.
Harry sleppti nú loksins Lunu og þau stauluðust frá borði.
“Hvernig væri að gera eitthvað aðeins rólegra núna?” spurði hann.
“Það væri kannski ágætt,” svaraði Luna sem virtist svolítið ringluð eftir ferðina.
“Eigum við að fara í útsýnisferð?” spurði hann og benti í áttina að vængjuðu vögnunum. Luna kinnkaði kolli og þau gengu saman yfir á lendingasvæðið. Ginny og Dean virtust vera á sama máli og gengu í humátt á eftir þeim.
“Ég er að spá í að kíkja á skotbakkana aðeins,” afsakaði Neville sig og stakk af. Ron leit vandræðalega á Hermione.
“Vilt þú fara í svona útsýnisferð?” spurði hann.
“Um… nei takk,” svaraði hún. Þau stóðu um stund og þögðu. Ron datt ekkert annað í hug. Allt í einu var eins og Hermione gæfist upp á að bíða eftir honum.
“Ég ætla að fara að tala við Parvati Patil, hún var þarna ein eitthvað að væflast,” sagði hún gekk í burtu. Ron stóð vonsvikinn og horfði á eftir henni. Samt var honum eiginlega hálft í hvoru létt. Hann hafði ekkert vitað hvað hann átti að segja. Hann leit í kring um sig og sá hvar Neville var að reyna að skjóta niður dósir með litlum boltum. Hann gekk til hans,
“Má ég vera með?” spurði hann daufur í dálkinn. Neville snéri sér við og hristi höfuðið.
“Ertu ekki ennþá búinn að segja henni hvernig þér líður?” spurði hann vantrúaður.
“Hvað áttu við?” spurði Ron vandræðalega.
“Þú veist alveg hvað ég á við,” svaraði Neville. “Þú veist að ég sá þig á sjúkrahússálmunni.” Ron roðnaði upp fyrir hársrætur og varð jafnvel enn vandræðalegri.
“Manstu það?” spurði hann og langaði helst að hverfa ofan í jörðina.
“Auðvitað man ég það,” svaraði Neville og glotti. “Ég var nýbúinn að drekka sterkasta Skarphéðinsseyði galdrasögunnar. Ég er ekkert á leiðinni að fara að gleyma einhverju í bráð.”
Ron bjóst við að allur skólinn væri farinn að horfa á hann því hann var orðinn svo heitur í andlitinu að roðinn hlaut að sjást langar leiðir. Hann leit vandræðalegur í kring um sig en sá að það var enginn nálægt að veita honum athygli.
“En þér að segja,” bætti Neville við, “þá var þetta eitthvað það besta sem þú gast gert fyrir mig. Að sjá eitthvað svona krúttlegt þegar ég var að vakna eftir að allur þessi hryllingur helltist yfir mig á nýjan leik, það gerði mér ótrúlega gott. Það róaði mig rosalega niður að sjá bestu vini mína sitja í kring um mig og að sjá að ást og kærleikur er enn til staðar í heiminum.”
Neville horfði á Ron sem reyndi allt hvað hann gat að horfa ekki í augun á honum. Hann langaði bara til að hverfa.
“Ron, í alvöru talað,” sagði hann eftir stutta stund. “Hvenær ætlar þú að segja henni þetta?”
Ron ypti vandræðalega öxlum,
“Ég veit það ekki,” muldraði hann og einbeitti sér að því að moka litla snjóhrúgu með fótunum. “Hún vill mig örugglega ekkert.”
“Vá, Ron, þú ert blindur,” sagði Neville og ranghvolfdi í sér augunum. “Hún er búin að vera skotin í þér síðan við byrjuðum í Hogwarts.”
Við þessi orð leit Ron beint í augun á Neville og andlitið lýsti af spurn.
“Ha? Hvað áttu við?” spurði hann hissa.
“Strax fyrsta daginn þegar við hittumst í lestinni þá varð hún skotin í þér,” svaraði Neville.
“Við vorum ellefu ára þá!” svaraði Ron í fússi. “Það verður enginn ástfanginn ellefu ára.”
“Kannski ekki ástfanginn,” svaraði Neville. “En skotinn. Ekki ætlarðu að segja mér að þú munir ekki hvað Ginny var skotin í Harry þegar hún var ellefu ára,” bætti hann við.
“Það var öðruvísi,” sagði Ron. “Hermione lét aldrei þannig við mig. Auk þess ef hún væri skotin í mér núna afhverju vildi hún þá ekki koma með mér í útsýnisferð?”
“Ohh.. Ron þú ert ótrúlegur,” svaraði Neville sem var við það að gefast upp. “Þú veist að hún er lofthrædd. Hún hefur aldrei viljað fljúga. Hugsaðu út í það, eina fagið sem henni hefur ekki gengið vel í voru flugtímarnir á fyrsta ári. Þú veist þetta, Ron.”
Ron roðnaði aftur. Það var rétt, hún var hrædd við að fljúga, hvernig gat hann gleymt því?
“Manstu fyrir tveimur árum þegar jólaballið var?” spurði Neville.
“Já, Hermione fór með Viktori Krum en vildi ekki fara með mér,” svaraði Ron eins og nú væri hann búinn að sanna mál sitt.
“Hermione beið eftir að þú bæðir hana að fara með þér í margar vikur. Viktor var búinn að spyrja hana mörgum sinnum áður en hún gafst upp á að bíða eftir þér og sagði já við hann,” sagði Neville. “Þess vegna varð hún svo reið við þig þegar þú loksins spurðir og gerðir það eins og það væri eitthvað neyðarúrræði.”
Augun á Ron virtust ætla út úr höfðinu á honum. Gat þetta verið satt? Var hún í alvöru hrifin af honum? Elskaði hún hann til baka? Átti hann möguleika á að fá hana? Hann hafði um margt að hugsa núna. Einhvern veginn var hann ekki lengur í stuði til að vera á hátíðinni.
“Ég ætla að fara aftur upp í kastala að pakka fyrir jólafríið. Við förum nefninlega á morgun, sko,” kvaddi hann vandræðalegur og hraðaði sér í áttina að kastalanum. Neville stóð eftir og horfði á hann ganga í burtu. Hann hristi hausinn.
“Vonlaus, gersamlega vonlaus.”

Harry og Luna settust um borð í lítinn vagn og hann sveif af stað með þau. Þau svifu hátt yfir skólalóðina og horfðu yfir kastalann, kofann hans Hagrids, forboðna skóginn og allt sem skólanum tilheyrði. Þetta var fallegt kvöld. Stjörnurnar tindruðu á svörtum næturhimninum. Snæviþakin jörðin endurkastaði birtu þeirra svo allt var töfrum líkast. Harry laumaðist til að líta á Lunu. Hún var svo falleg í kvöld. Hún var svo róleg, það var einhver kyrrð sem umlukti hana ævinlega. Það var eins og Harry yrði alltaf rólegri í hvert sinn sem hann var nálægt henni. Harry fann tilfinninguna frá því fyrr um kvöldið gera vart við sig á ný og nú var hún jafnvel enn sterkari. Það var líkt og ótal fiðrildi flögruðu um í maganum á honum. Hann tók hönd hennar, sem lá svo fínleg og falleg í kjöltu hennar, í sína. Henni brá greinilega í fyrstu og leit á hendur þeirra. Harry var ekki viss hvort hann ætti að sleppa eða ekki og leit spyrjandi á hana. Luna brosti bara, slakaði á og fléttaði fingur þeirra saman.
“Þú ert svo falleg,” sagði hann. Luna roðnaði lítið eitt og virtist fara örlítið hjá sér. Við það varð hún jafnvel enn fallegri. Harry hafði aldrei séð hana fara hjá sér fyrr. Hann langaði svo að taka utan um hana og kyssa hana.
“Þú ert ekki sem verstur sjálfur,” svaraði Luna þegar hún var aðeins farin að jafna sig. Hún brosti til hans. Harry fanst eins og hjartað hefði sleppt úr slagi. Hann taldi í sig kjark, hallaði sér að henni og kyssti hana ofurblítt á munninn. Hún hörfaði lítið eitt fyrst í stað en svaraði svo kossinum með vörum sínum. Þau kysstust í dágóða stund á meðan þau svifu yfir vatnið og Harry fannst að hann hefði aldrei verið hamingjusamari en einmitt núna. Hann vildi að þessi stund myndi vara að eilífu. Þegar kossinum lauk lagði Harry hönd sína yfir axlir hennar og hún hjúfraði sig upp að honum þar til vagninn lenti aftur á quidditchvellinum. Hann steig upp úr vagninum, rétti Lunu höndina og hjálpaði henni upp. Þau leiddust svo út á völlinn í átt að skotbökkunum. Þegar þau voru að ganga burtu leit Harry við og sá hvar vagn Ginnyar og Deans var að lenda en farþegarnir virtust ekki hafa nokkra hugmynd um það.

Harry og Luna léku sér fram á kvöld í hinum og þessum skotbökkum, fengu sér kandíflos sem einhver kennarinn hafði uppgötvað á ferð sinni um muggaveröldina og skemmtu sér eins vel og þau mögulega gátu. Í einum af skotbökkunum vann Harry bangasafígúru af Dumbledore og gaf Lunu. Dumbledore-inn var klæddur í bláa skykkju með tunglum á og toppmjóan hatt í stíl. Hann var einnig í sokkum og skóm. Harry horfði á hann um stund en allt í einu datt honum svolítið hryllilegt í hug.
“Luna,” sagði hann vandræðalegur. “Má ég nokkuð fá sokkana og skóna hans aftur?” Luna horfði á hann eins og hann væri skrýtinn en byrjaði svo að klæða Dumbledore-inn sinn úr sokkunum og skónum.
“Fyrirgefðu, en málið er bara það,” byrjaði Harry að útskýra, “að ég á einn vin hér í kastalanum sem er húsálfur og ég reyni alltaf að gefa honum sokka eða eitthvað í þá áttina í jólagjöf, hann er mjög hrifinn af sokkum, en ég steingleymdi því fyrir þessi jól og ég er að fara heim á morgun svo ég þyrfti eiginlega að skreppa til hans núna.”
Luna brosti bara að þessu og rétti Harry sokkana og skóna.
“Heldurðu að þessir passi?” spurði hún efins.
“Nei, varla,” svaraði Harry. “Ég verð bara að stækka þá aðeins.” Hann tók upp sprotann sinn og stækkaði sokkana og skóna þar til þeir voru orðnir mátulega stórir fyrir Dobby.
“Hmm.. og ætli það sé ekki best að breyta litnum á öðrum þeirra líka,” sagði hann hugsi. Hann sveiflaði sprotanum aftur og fyrr en varði var annar sokkurinn fjólublár með tunglum á en hinn blár.
“Viltu koma með mér að gefa honum þetta?” spurði hann. Luna vildi það gjarnan og saman gegnu þau hönd í hönd í átt að kastalanum.

“Hefurðu komið í eldhúsið áður?” spurði Harry þegar þau komu að málverkinu með ávöxtunum á.
“Nei,” svaraði Luna róleg í bragði. Harry kitlaði peruna og innan skamms opnaðist eldhúsið og þau gengu inn fyrir. Húsálfarnir sem voru í eldhúsinu hrukku í kút og stukku upp tilbúnir að veita gestunum allt sem þeir gætu hugsanlega girnst.
“Við erum að leita að Dobby,” sagði Harry við einn af álfunum sem vildi ólmur gefa honum banansplitt. Álfurinn stökk af stað og innan skamms stóð Dobby við hlið þeirra.
“Harry!” skríkti hann. “Herra Harry Potter er kominn. Kominn að heimsækja Dobby!” Gleðin skein úr þessu litla græna andliti.
“Sæll Dobby,” sagði Harry og brosti. “Ég kom með smá jólagjöf handa þér.” Hann rétti fram sokkana og skóna. Dobby tók við þeim og fór að hágráta.
“Herra Harry Potter, þetta er allt of mikið fyrir Dobby,” sagði hann í gegn um táraflóðið.
“Láttu ekki svona Dobby,” svaraði Harry vandræðalegur. “Sjáðu, ég kom með gest með mér,” bætti hann við til að breyta umræðuefninu. Dobby hætti að gráta og leit hissa á Lunu eins og hann hefði ekki tekið eftir henni fyrr.
“Dobby, þetta er Luna Lovegood,” sagði Harry. “Hún er….” hann hikaði aðeins áður en hann hélt áfram, “kærastan mín.” Hann leit á Lunu sem brosti blítt til baka. Vá, hvað það var skrýtið að kynna hana sem kærustuna hans. Ekki slæmt… en svolítið skrýtið. Dobby stökk hæð sína í loft upp af kæti.
“Herra Potter er komin að kynna mig fyrir kærustunni sinni! Dobby er svo glaður.” Hann hætti að hoppa og hneigði sig svo djúpt að hann nánast rak nefið í gólfið.
“Dobby er mikill heiður af að fá að kynnast yður fröken Lovegood,” sagði hann. “Og leyfist mér að segja að þér hafið krækt yður í þann besta og hugprúðasta mann sem nokkru sinni hefur gengið á þessari jörðu.”
Harry roðnaði og vissi ekki alveg hvernig hann átti að haga sér undir þessu öllu saman.
“Dobby, við þurfum að fara að koma okkur,” sagði hann vandræðalegur. “Ég fer heim snemma á morgun og klukkan er orðin margt. Vildi bara koma og óska þér gleðilegra jóla vinur.”
Dobby hneigði sig aftur,
“Gleðileg jól, herra Harry Potter. Gleðileg jól.”
Harry leiddi Lunu út úr eldhúsinu og upp í vesturturninn þar sem heimavist Ravenclawnema var. Þegar þau komu að inngangnum staðnæmdust þau og Harry tók hendur hennar í sínar.
“Við sjáumst þá líklega ekkert fyrr en bara eftir jólin,” sagði hann dapur í bragði.
“Nei, líklega ekki,” svaraði hún. Harry tók hana í faðm sér og kyssti hana djúpum innilegum kossi.
“Gleðileg jól, Luna,” sagði hann.
“Gleðileg jól, Harry,” svaraði hún.
Hann kyssti hana enn einu sinni og horfði svo á eftir henni hverfa inn í setustofu Ravenclawnema.

Hann gekk af stað rólegri og hamingjusamari en hann hafði verið lengi. Hann var varla kominn nema hálfa leið að Gryffindorturninum þegar Hedwig kom svífandi til hans með bréf í gogginum. Harry tók á móti henni,
“Hvað ert þú að vilja svona seint að kvöldi Hedwig?”
Hann tók bréfið úr gogginum á henni og klóraði henni á hnakkanum. Hedwig kúrði sig upp að honum og lét sér vel líka.
“Takk fyrir Hedwig mín,” bætti hann við um leið og hann opnaði bréfið.

Harry,
Geturðu hitt mig á leynistaðnum okkar.
Ég bíð þar í klukkutíma.
Láttu engan sjá þig!


Harry vissi hvað þetta þýddi. Draco vildi hitta hann. Hann kvaddi Hedwig sem flaug sína leið og flýtti sér svo upp í Gryffindorturn til að ná í huliðskikkjuna sína. Í Gryffindorturninum var allt með kyrrum kjörum. Aðeins Ron var kominn inn en hann var að þykjast vera sofandi svo Harry ákvað að trufla það ekkert. Hann greip skikkjuna og læddist út aftur. Um leið og hann var kominn út úr Gryffindorturninum sveipaði hann sig skikkjunni og læddist óséður niður í dýflissurnar. Hann laumaðist inn í herbergið og lokaði dyrunum á eftir sér áður en hann tók af sér skikkjuna. Þar fyrir innan sat Draco nú í niðamyrkri.
“Lumos,” tautaði hann og samstundis kviknaði ljós á endanum á töfrasprotanum hans.
Herbergið var myrk lítil geymsla sem nú var full af gömlum húsgögnum. Harry og Draco höfðu búið sér til lítið horn innst inni í geymslunni þar sem ekki sást til þeirra þó að einhver opnaði dyrnar. Þar höfðu þeir lagt álög á gólfið svo það var mjúkt og notalegt að sitja þar. Draco hafði kunnað þann galdur, Harry varð að viðurkenna að hann kunni sitthvað nytsamlegt. Þeir höfðu líka falið þarna töframannaskáksett sem gott var að grípa til á góðum stundum.
Þeir komu sér fyrir í skotinu sínu.
“Er allt í lagi?” spurði Harry og virti fyrir sér áhyggjusvipinn sem var meitlaður á andlit vinar hans.
Draco ypti öxlum.
“Það er svo sem ekkert nýtt,” sagði hann vandræðalegur á svip. “Ég er bara drullu stressaður yfir að fara heim á morgun.”
Harry sendi honum hughreystandi augnarráð, eða hann vonaði allavegana að það væri hughreystandi augnarráð.
“Svo er líka farið að styttast í víxluna,” bætti Draco við svo lágt að varla heyrðist. “Það er þrettánda janúar. Ég er svo hræddur um að ég klúðri þessu. Ég er svo hræddur um að mér takist ekki að loka huganum almennilega og hann fatti að ég er ekki hans í raun og veru.”
Harry lagði höndina á öxl hans.
“Þú getur þetta. Ég er ekki í vafa um það,” sagði hann hughreystandi. “Þú ert orðinn það góður í þessu hér í tímum að Snape tekst engan veginn að brjótast í gegn um varnirnarnar þínar.”
Draco kinkaði kolli.
“En Snape er enginn Voldemort,” sagði hann lágt. “Og Snape er ekki að leggja á mig ófyrigefnalegu bölvanirnar eða eitthvað þaðan af verra á meðan hann reynir að komast inn í kollinn á mér.”
“Nei reyndar ekki,” svarði Harry. “En ég hef fulla trú á þér.”
Draco brosti dauft.
“Eigum við að fá einhvern til að æfa með okkur í núna?” spurði Harry. Draco hristi höfuðið.
“Nei, takk,” svaraði hann. “Ég held að það sé óþarfi. Við erum búnir að æfa eins mikið og við getum. Nú er bara komið að þessu og það er bara stressandi. Mig vantaði bara að sjá þig áður en ég færi heim. Vantaði bara aðeins að tala við einhvern sem ég get treyst.”
“Hvenær sem er, félagi,” svaraði Harry og brosti breitt. “Hvenær sem er.”
“Ég þarf ekkert að fara strax,” bætti hann við. “Við getum kannski tekið eina skák eða svo.”
Það var eins og áhyggjum Dracos létti örlítið við þessi orð.
“Það væri gaman,” svaraði hann.
Þeir tóku upp taflið og hófust handa við að raða upp og spjölluðu saman í lágum hljóðum. Smám saman eftir því sem leið á kvöldið varð Draco léttara í skapi og hann virtist vera farinn að njóta þessa síðasta kvölds með vini sínum í bili.
“Harry, var ég nokkuð að trufla eitthvað mikilvægt þegar ég sendi bréfið?” spurði hann sposkur á svip.
“Nei,” svaraði Harry. “Ég var bara á leiðinni upp í herbergi að pakka niður fyrir morgundaginn. Afhverju spyrðu?”
“Ég var bara að spá hvort það hefði verið slitnað slefið á milli þín og gellunar sem þú varst með á hátíðinni áðan,” svaraði Draco og glotti.