Vetur var genginn í garð með allri sinni dýrð. Kastalinn var sveipaður hvítri vetrarkápu, tignarlegri og fallegri en nokkru sinni fyrr. Forboðni skógurinn minnti einna helst á ævintýraland þar sem greinarnar svignuðu undan þungum snjónum. Vatnið var frosið spegilslétt og var óðum að hverfa undir mjöllina sem féll hljóðlega af kvöldhimninum. Allur heimurinn virtist vera að skarta sínu fegursta og hver sem ætti leið hjá myndi án efa halda að hann hefði ráfað inn í draum. Öll þessi fegurð fór þó fram hjá Harry Potter sem sat í snjónum niður við vatnið og starði tómum augum fram fyrir sig. Hann var þreyttur. Þreyttur á leyndarmálum, þreyttur á að læra, þreyttur á að strita daginn út og daginn inn við nám og störf, þreyttur á að bera heiminn á herðum sér. Þreyttur.
Það var mikið að gera í skólanum núna þegar jólaprófin voru farin að nálgast, V.D. fundirnir gengu vel en tóku líka mikinn tíma. Anika hafði kennt þeim ótrúlega margt og Harry fannst mjög gaman á fundunum en hann var orðinn mjög þreyttur. Á hverju virku kvöldi var hann í dýflissunni með Draco og Snape að æfa hughrindingu. Þeim var farið að ganga mikið betur og undanfarið var þeim farið að takast það vel upp að Snape átti í erfiðleikum með að brjóta varnir þeirra beggja. Harry hafði ekki fundið fyrir örinu síðan í haust þrátt fyrir að reglan hefði frétt af fleiri voðaverkum Voldemorts svo hughrindingin virtist vera að gera gagn þar líka. Voldemort virtist eiga erfiðara með að komast inn í hug hans núna heldur en áður. Á vikulegum fundum með Dumbledore hafði Harry fengið ýmsar upplýsingar um drápara Voldemorts og þeirra athafnir. Vitsugurnar voru búnar að ráðast á þrjú mugga þorp til viðbótar og enn gekk ekkert að finna uppljóstrarann í ráðuneytinu. Svo virtist vera sem Fönixreglunni gengi allt á afturfótunum þessa dagana. Eitthvað þyrfti að gerast til að hægt væri að stöðva Voldemort. Harry varð hugsað til spádómsins. Eitthvað þyrfti ekki að gerast heldur einhver. Hann. Hann þyrfti að gera eitthvað… en hvað? Sama hversu mikið hann hafði brotið heilann um spádóminn og innihald hans gekk honum engan veginn að finna lausn. Voldemort var of sterkur til að hann gæti sigrað. Hann myndi deyja við að reyna og eftir það yrði heimurinn leikvöllur Voldemorts. Myrkrið og vonleysið helltist yfir hann.
“Sirius, hvar ertu?” kallaði hann örvæntingafullur út í myrkrið sem óðum var að þéttast, “Af hverju fórstu frá mér? Ég verð að tala um þetta við einhvern en ef ekki þig þá hvern?”
Nokkur tár hrundu hljóðlaust niður vanga hans. Hann var ekki bara þreyttur, hann var líka einmanna. Hann gæti talað við Draco en það var ekki til neins. Draco vissi hvort eð er meiri hlutann af þessu og hann gat ekkert gert til að hjálpa honum. Hann hafði nóg af vandamálum sjálfur. Hann langaði ekki að ræða þetta við Snape, Remus eða Dumbledore því þeir yrðu bara áhyggjufullir og fyndist kannski að þeir þyrftu að vernda hann meira og myndu hugsanlega hætta að gefa honum fréttir frá Fönixreglunni. Halda að hann væri of ungur og viðkvæmur til að þola þetta.
Hvað átti hann að gera?
“Harry? Ert þetta þú?”
Harry leit upp og horfði í áhyggjufull augu Hagrids sem stóð rétt fyrir aftan hann. Hann flýtti sér að þurrka tárin.
“Hvað ertu að hugsa að sitja hér í snjónum svona léttklæddur? Ætlarðu að krækja þér í lungnabólgu drengur?” Harry stóð á fætur og yppti öxlum,
“Mér er ekkert kalt,” laug hann en skjálftinn og glamrið í tönnunum kom upp um hann.
“Jæja,” svaraði Hagrid og hleypti brúnum, “Hvað sem því líður þá kemur þú heim með mér núna og færð þér eitthvað heitt í kroppinn.
Það var hlýtt og notalegt í kofanum hans Hagrids, eins og venjulega. Harry settist við arininn og fann skjálftann víkja fyrir hitanum sem fljótlega fór að breiðast um hann. Hagrid fór strax að hella upp á te og kom fljótlega með rjúkandi bolla og rétti honum. Harry fékk sér að drekka og forðaðist að líta á hann þar sem hann vissi að beið hans spyrjandi augnaráð.
“Er allt í lagi Harry minn?” spurði Hagrid varlega.
‘Nei’ hugsaði Harry en upphátt sagði hann ekkert heldur lét sér nægja að yppta öxlum.
“Ron og Hermione hafa áhyggjur af þér.” sagði Hagrid, “Þau koma stundum hingað til mín og spjalla við mig ennþá, svona eins og þið hafið alltaf gert. Ekki það að ég sé eitthvað sár út í þig fyrir að hafa ekki komið undanfarið” bætti hann við í flýti, “Þú hefur nú aldeilis haft nóg á þinni könnu í haust.” Harry brosti dauft til hans í þakklætisskyni. Vissulega hefði hann átt að gefa sér tíma til að koma og kíkja á Hagrid en mikið var gott að vita að Hagrid skildi hverjar aðstæðurnar voru.
“En þau sakna þín,” hélt Hagrid áfram. “Þeim finnst þau vera að missa þig og þau hafa áhyggjur af því að þú sért að einangra þig.”
Harry horfði aftur inn í eldinn og fékk sér annan sopa af teinu. Ron og Hermione voru góðir vinir að eiga, hann vissi það. Hann saknaði þeirra líka en þau vissu bara ekki hvað hann var að ganga í gegn um. Það var svo sem bara ein ástæða fyrir því að þau vissu það ekki og hún var sú að hann hafði enn ekki sagt þeim frá því. Af hverju hafði hann ekki enn sagt þeim frá spádóminum?
“Það er kannski rétt hjá þeim,” svaraði hann hugsi og leit á Hagrid sem greinilega hafði ekki átt von á þessu svari. “Takk fyrir teið Hagrid,” hélt hann ákveðinn áfram, “ég held ég þurfi að fara núna. Ég þarf að tala við Ron og Hermione.”
“Gerðu það, Harry minn.” sagði Hagrid og það birti yfir honum. “Mundu svo bara að þú ert alltaf velkominn hingað og það er betra að sitja hér inni við eldinn heldur en í snjónum og kuldanum við vatnið.” bætti hann við.
Harry flýtti sér upp í Gryffindorturn og fann þar Ron og Hermione sem sátu í uppáhaldshorninu þeirra á setustofunni og voru að læra. Þau litu forviða upp þegar þau sáu Harry koma til þeirra blautan og sjúskaðan eftir útiveruna.
“Heyriði,” sagði hann, “megið þið vera að því að spjalla við mig í smá stund?” Hermione og Ron litu örsnöggt hvort á annað með spurn í augum og kinkuðu svo kolli og hófust strax handa við að ganga frá námsbókunum.
”Við þurfum að fá að vera einhversstaðar þar sem við fáum algeran frið. Hvernig lýst ykkur á þarfaherbergið?” spurði Harry aftur.
“Endilega, leyfðu okkur bara að skutla bókunum upp á herbergi og svo erum við þín.” svaraði Hermione að bragði, “en þú ættir kannski að fara í þurr föt á meðan Harry,” bætti hún varlega við. Harry leit niður og áttaði sig á þá fyrst á því hversu blautur hann var. Hann leit vandræðalega á Hermione og kinkaði kolli.
Stuttu síðar gengu þau inn í þarfaherbergið sem að þessu sinni var lítið og notalegt með tveimur stórum, þægilegum tveggja sæta sófum, hrúgu af púðum af öllum stærðum og gerðum og fyrir framan sófana var lítið borð með hunangsöli, þremur glösum og skál af allskyns gotteríi.
“Þetta er snilldar herbergi!” sagði Ron með aðdáun í augunum. Þau köstuðu sér í sófana og létu fara vel um sig, strákarnir í einum og Hermione í hinum. Ron skenkti öllum hunangsöli og þau fengu sér að smakka af gotteríinu. Eftir örlitla stund tók Harry eftir því að þau voru bæði farin að horfa spyrjandi á hann. Hann vissi að nú þyrfti hann að fara að segja þeim frá ástæðunni fyrir þessum fundi þeirra. Hvernig átti hann að byrja á þessu. Hann roðnaði í smá stund og fékk sér sopa af hunangsölinu til að fela vandræði sín, svelgdist á og fékk hóstakast. Eftir að hann hafði jafnað sig sá hann að nú varð þessu ekki frestað lengur. Hann leit á vini sína og ákvað að byrja bara á byrjuninni.
“Í haust þegar allt gerðist í galdramálastofnuninni þá gerðist ýmislegt fleira sem ég var ekki búinn að segja ykkur frá.” byrjaði hann. Hann sagði þeim frá fundi sínum og Bellatrix, frá því þegar Voldemort birtist, þegar Dumbledore kom, þegar stytturnar í gosbrunninum lifnuðu við, frá samskiptum Dumbledores og Voldemorts og þegar Voldemort yfirtók líkama hans. Hann leit á vini sína sem höfðu setið hljóð undir öllu þessu og höfðu fölnað með hverri mínútunni sem leið.
“Yfirtók hann líkama þinn?” spurði Ron hikandi. “Var það ekki hryllilegt? Hvernig slappstu?” Harry hugsaði sig um,
“Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég slapp. Þegar hann yfirtók mig brann ég af sársauka sem var verri en nokkur líkamlegur sársauki sem ég upplifað áður. Þetta var svo vont að það eina sem ég hugsaði var að ég vildi deyja. Svo man ég að ég hugsaði að það væri hvort eð er kannski ekkert slæmt að deyja því þá myndi ég allavegana geta farið með Siriusi.” Harry hikaði og reyndi að muna lengra. “Svo man ég eftir að sársaukinn hætti og ég gat varla staðið í fæturna og Dumbledore var þarna og svo var fullt af fólki þarna… Fudge og fleiri… og svo sendi Dumbledore mig á skrifstofuna sína hér í Hogwarts með leiðarlykli.” Harry hélt áfram og sagði vinum sínum frá samtali þeirra Dumbledores þessa örlagaríku nótt. Hann sagði þeim frá ástæðunni fyrir ákvörðun Dumbledores um að láta hann búa í Runnagerði, frá verndinni sem væri falin í því að búa hjá móðursystur hans, frá eftirsjá Dumbledors yfir að hafa ekki sagt honum frá öllu fyrr, frá hræðslu Dumbledores við að Voldemort yfirtæki Harry til að ná til hans… hann hikaði, hann var kominn að spádómnum.
“Hann sagði mér líka hvað spádómurinn sagði,” hélt hann áfram.
“Hvernig vissi hann hvað spádómurinn sagði?” spurði Ron, “Neville sagði að spádómurinn hefði brotnað og engin heyrt hvað hann sagði.” Það rann eins og ljós upp fyrir Hermione,
“Spádómarnir sem eru geymdir í leyndarmálastofnuninni eru nánast eins og upptökur af raunverulega spádóminum. Dumbledore hefur heyrt hann áður. Er það ekki?” Harry kinkaði kolli.
“Trelawney kom með spádóminn þegar Dumbledore var á fundi með henni til að athuga hvort hún væri rétta manneskjan í að kenna spádómafræði.” hélt hann áfram.
“Hvað sagði hún?” spurði Ron af ákafa.
“Spádómurinn er svona,” hélt Harry áfram án þess að hika, hann kunni spádóminn utan að núna,
“ Sá sem býr yfir mættinum til að sigra hinn myrka herra nálgast… fæðist þeim er hafa í þrígang boðið honum í birginn, fæðist þegar sjöundi mánuður deyr…og hinn myrki herra mun merkja hann sem jafningja sinn, en hann býr yfir mætti sem hinn myrki herra þekkir ekki…og annar mun falla fyrir hendi hins því annar hlýtur að deyja til að hinn megi lifa…sá sem býr yfir mættinum til að sigra hinn myrka herra fæðist þegar sjöundi mánuður deyr.”
Ron og Hermione sátu hljóð í stutta stund til að melta þetta allt saman.
“Þannig að þú ert sá sem fæddist þegar sjöundi mánuðurinn, það er að segja júlí, var að enda og áttir foreldra sem höfðu þrisvar sinnum boðið Voldemort byrginn.” sagði Hermione hugsi.
“Ekki bara ég,” bætti Harry við, “allar þessar staðreyndir eiga við mig en þær eiga líka við Neville.” Nú var eins og andlitið dytti hreinlega af Ron,
”Þannig að kannski er það ekki þú sem sigrar Voldemort heldur Neville?” spurði hann og vantrúin skein úr augunum.
“Nei, það hefði getað verið hann en næsti partur af spádóminum breytti því. Hann mun merkja hann sem jafningja sinn. Hann merkti mig en ekki Neville. Hann hefði getað merkt Neville og þá hefði allt farið á annan veg en hann valdi að merkja mig.”
“En, Harry,” stundi Hermione upp, “endirinn á spádóminum, þýðir það…”
“Já,” sagði Harry og kinkaði kolli, “annar hvor okkar kemur til með að drepa hinn. Morð verður hluti af lífi mínu, spurningin er bara hvort það verður endirinn á því.”
“Vá…” heyrðist frá Ron sem sat stjarfur í sófanum. Hermione færði sig yfir til strákanna og tók hlýlega í höndina á Harry eins og til að hughreysta hann.
“En hvernig ætlarðu að fara að því að drepa Vol… hann,” spurði Ron, “ef þú gast ekki einu sinni lagt kvalabölvunina á Bellatrix?”
“Það er akkúrat það sem er að fara með mig,” svaraði Harry, “Bellatrix sagði að ég þyrfti að hata og virkilega meina það og langa til þess að hún kveldist til að ég gæti notað slíkar bölvanir á hana. Ég hélt að ég hefði gert það en það var greinilega ekki nóg.”
“En hvaða máttur er þetta sem hann þekkir ekki en þú hefur?” spurði Hermione hugsi. Harry yppti öxlum.
“Ég skil það ekki alveg, Dumbledore sagði að þetta væri eitthvað sem Voldemort fyrirliti og þess vegna vanmæti hann það. Hann sagði að þessi máttur væri einn af elstu göldrunum sem til væri og hann hefði bjargað mér þegar ég var lítill og aftur í vor þegar Voldemort hefði yfirtekið mig. Hann sagði að það væri heilt herbergi í leyndarmálastofnuninni sem væri tileinkað þessum mætti. Að hann væri í senn mikilfenglegri, dásamlegri og hræðilegri en dauðinn, mannviska og náttúruöflin. Hann sagði líka að þetta væri einn dularfyllsti krafturinn sem til væri.”
“Auðvitað!” Það var eins og kviknað hefði á ljósaperu fyrir ofan höfuðið á Hermione, “Skiljið þið ekki?” spurði hún strákana sem greinilega voru ekki að átta sig jafn hratt og hún. “Þetta er kærleikurinn, ástin.” hélt hún áfram. “Voldemort kann ekki að elska lengur og hefur ekki snefil af kærleika í sér nú orðið, þótt hann hafi kannski einhvern tíman haft það. Það sama má segja um marga af fylgismönnum hans. Flestir þeirra hafa þó kannski einhvern kærleiksvott eftir í sér en því meiri kærleik sem Voldemort finnur stafa frá þeim því meira fyrirlítur hann þá og hleypir þeim síður nær sér. Hann þolir ekki kærleikann, hann lítur á hann sem veikleika og vanmetur styrkinn sem hann gefur. Harry, þegar þú hugsaðir um Sirius fór kærleikurinn til hans að streyma um þig, söknuðurinn yfir því sem hafði gerst þá um kvöldið. Það hefur Voldemort ekki þolað og þess vegna hefur hann sleppt þér. Það var líka ástin sem bjargaði þér þegar þú varst lítill, það vissum við fyrir, þó að við höfum ekki vitað þetta með blóðböndin við Petuniu. Skilurðu ekki hvað þetta þýðir Harry?” Harry og Ron voru nú báðir farnir að skilja meira og kinkuðu hugsandi kolli.
“Harry, þú getur ekki drepið hann með hatri,” hélt Hermione áfram,
“Það eina sem getur sigrað hann er ást!”