Sælinú.

Undanfarið hef ég velt dálítið vöngum yfir uppáhalds rottunni okkar (*kremur PP undir skósólanum*), Peter Pettigrew. Við höfum raunar ekki mjög mikið séð af honum í bókunum, en við vitum þó þetta:

- hann var hluti af vinahópi James Potter, Sirius Black og Remus Lupin þegar þeir gengu í Hogwartsskóla, en þótti þó eftirbátur þeirra í flestu sem hann tók sér fyrir hendur.

- James og Sirius treystu honum fyrir lífi James, Lily og Harry þegar mest á reyndi.

- hann sveik einn af bestu vinum sínum, konu hans og kornabarn í dauðann (að eigin sögn til að bjarga eigin skinni!)

- hann er að hálfu af muggaættum (fengið úr viðtali við JKR, man ekki nákvæmlega hvar), líklega í föðurætt (minnst er á móður hans í því samhengi að hún hafi fengið fingurinn hans og Merlínsorðuna (isl?) að honum látnum), og faðirinn er aldrei nefndur.

- hann hafði nógu mikla galdrahæfileika til að geta náð valdi á animagus-ummynduninni aðeins 15 ára (með hjálp vina sinna), sem bendir til þess að hann hafi kannski ekki verið eins mikill ‘aumingi’ og hann og aðrir virtust halda.


Ég hef verið að reyna að búa til ástæðu fyrir því að Peter myndi svíkja vini sína svona heiftarlega sem ljær honum aðeins meiri dýpt og persónuleika en ‘ég vildiggi deyja’, þar sem mér finnst hann vera ein mesta ráðgátan í HP heiminum, en það var ekki fyrr en mig rámaði í minningabrotin sem Harry sá hjá Snape, sem bentu til þess að kauði hefði verið fórnarlamb eins konar heimilisofbeldis eða a.m.k. átt mjög ömurlegt heimilslíf, að mér datt eftirfarandi í hug:

Hvað ef forsaga Peters var enn annað dæmi um misheppnað samband Mugga og galdramanns/nornar?

Gæti það verið að móðir Peters, norn, hefði gifst Mugga og eignast með honum son, gert manni sínum síðan ljóst að hún væri norn og þurft að þjást fyrir það? (efni í áhugspuna, einhver?) Hún gæti á endanum hafa ákveðið að flýja ömurlegt sambandið, en ekki eftir að Peter var djúpt særður af öllu saman.

Ef pápi góður hefði ekki aðeins verið kvikindi við konuna sína heldur líka við krakka'skrípið' sem líka var göldrótt, myndi það skýra bæði óeðlilega lágt sjálfsmat Peters (sbr. að hann virðist enga trú hafa á sjálfum sér en gat samt gerst Animagus 15 ára) og gefa honum aðra ástæðu til að flýja yfir til myrku aflanna: Loforð um hefnd á pabba gamla og að heimurinn yrði tæmdur hans líkum undir stjórn Voldemorts.

Ég gæti vel trúað einhverjum eins tunguliprum og Luciusi Malfoy til að sannfæra Peter, átján-nítján ára strákgutta með særða sál sem alltaf hefur staðið í skugganum, um að allir Muggar væru í eðli sínu eins slæmir og Hr. Pettigrew, og heimurinn væri betur settur án þeirra. Peter hefði e.t.v. litið á inngöngu í raðir Voldemorts sem gullið tækifæri til að gera eitthvað sem skipti máli, bæta heiminn, vera hetja. Ekki bara vinur hetjunnar. Bætum við þetta óttanum við myrkrahöfðingjann sem myndi vitanlega láta drepa hann ef hann segði nei, og það er ekki erfitt að sjá Peter fyrir sér þar sem hann sannfærir sig um að hann sé að gerast DE (Death Eater/drápari) af nauðsyn og góðmennsku. Svo dregst hann smám saman inn í vef kóngulórinnar uns honum er ekki viðbjargandi, og hann selur James og Lily í hendur Voldemort.

Væri gaman að fá dálitlar umræður um þetta - finnst ykkur pælingin ganga upp? Haldið þið að líkur séu til að JKR hafi eitthvað svipað í huga fyrir Peter?

Hvað viljið þið sjá koma fyrir Peter í framtíðinni? Hægur, kvalafullur dauðdagi? Hetjuleg fórn á hinstu stundu sem gerir hann aðeins minna skíthælslegan? Láta hann rotna í Azkaban eins og Sirius gerði?

Kv.
Dernhelm