Svo virðist vera að ekki sé alveg á hreinu hvað við er átt þegar beðið er um útdrátt úr söguþræði nýrra áhugaspuna. Sumir senda inn útdrátt sem er ekki nema 4-5 línur sem segir okkur ekki mikið um söguna á meðan aðrir kaflaskipta sögþræðinum og segja frá hvað á að gerast í hvaða kafla fyrir sig. Það er svo sem gott og blessað en kannski fullmikið og ýtarlegt að svo stöddu.
Til að gera betri grein fyrir hvað við er átt þegar talað er um útdrátt úr söguþræðinum þá tók ég saman stuttan útdrátt úr Fanganum frá Azkaban. Eitthvað í þessa átt er það sem við erum að tala um.
Harry Potter og fanginn frá Azkaban - úrdráttur
Harry heyrir í Mugga fréttunum að hættulegur galdramaður Sirius Black hafi sloppið úr fangelsi. Sama kvöld kemur systir Vernons í heimsókn og hún talar mjög illa um foreldra Harrys. Hann verður mjög reiður með þeim afleiðingum að hann leggur ómeðvitað álög á konuna þannig að hún blæs upp eins og blaðra.
Hræddur um að galdramálaráðuneitið vísi honum úr skólanum stingur hann af frá Runnagötu með allt sitt hafurtask. Hann kallar óvart í Riddaravagninn sem stoppar fyrir honum og gefur honum far til London. Á leiðinni fréttir hann af því að Sirius Black er galdramaður sem var drápari og sprengdi upp heila götu fulla af muggum, drap tólf þeirra og galdramanninn Peter Pettigrew í leiðinni.
Harry kemur til London lendir ekki í vanda fyrir að hafa galdrað án leyfis. Hann fréttir af því að Sirius Black braust líklega úr Azkaban til að finna Harry og drepa hann.
Vegna þess að Sirius er líklega á leið til Hogwarts eru vitsugurnar (fangaverðirnir í Azkaban) að leita hans og standa vörð við hliðið. Dumbledore neitar að leyfa þeim að koma inn á skólalóðina. Það gengur þó ekki alltaf eftir og Harry hittir vitsugurnar nokkrum sinnum. Vitsugurnar sjúga til sín alla hamingju og láta fólk upplifa sínar verstu minningar. Harry heyrir þegar foreldrar hans deyja í hvert sinn sem vitsugurnar nálgast hann. Þetta hefur svo slæm áhrif á hann að hann fellur janfan í yfirlið.
Í Hogwarts er nýr kennari í Vörnum gegn myrku öflunum, Remus Lupin sem var vinur James Potters í Hogwarts. Hann kennir Harry m.a. að verjast vitsugunum með því að galdra fram verndara sem er galdur sem fáir ná tökum á.
Harry heyrir svo kennarana sína ræða saman um Sirius Black og kemst að því að hann hafði líka verið vinur pabba hans og einnig Peter Pettigrew. Sirius og James voru víst óaðskiljanlegir og Sirius er í raun guðfaðir Harrys. Hann fréttir af því að Sirius var vörður leyndarmáls Potterhjónanna og hann sveik þau í hendur Voldemorts. Eftir það króaði Peter Pettigrew hann af á götu í muggahverfi. Sirius sprengdi þá upp götuna og það eina sem fannst af Peter var einn fingur.
Hermione eignaðist köttinn Skakklappa í byrjun ársins og nú hefur kötturinn marg oft reynt að éta Scabbers rottuna hans Rons. Dag einn er Scabbers horfinn og Ron er viss um að kötturinn hefur étið hann. Ron og Hermione rífast heiftarlega yfir þessu.
Í gegn um allt árið hefur Harry verið að sjá stóran svartan hund hér og þar. Hundurinn virðist vera að fylgjast með honum en enginn annar hefur tekið eftir þessum hundi. Hundurinn og Skakklappi virðast vera vinir og Harry sér þá stundum á rölti saman um skólalóðina.
Hagrid er með nýtt gæludýr, Grágogg sem er hippogriffinn. Hann skaðar Draco Malfoy lítillega með þeim afleiðingum að Lucius fær hann dæmdan til dauða.
Kvöldið sem á að aflífa Grágogg fara Harry, Hermione og Ron að hugga Hagrid og finna þá Scabbers í kofanum hans.
Á leiðinni heim úr kofa Hagrids stekkur Scabbers í burtu og Ron fer á eftir honum og nær honum. Þá birtist hundurinn, grípur í Ron og dregur hann með sér niður um göng sem liggja undir eykina armlöngu. Harry og Hermione fara á eftir, stuttu seinna kemur Lupin líka. Göngin liggja í draugakofann í Hogsmeade. Lupin og Sirius segja krökkunum frá því að Sirius sé saklaus en Peter Pettigrew sé raunverulegi svikarinn og morðinginn. Í því birtist Snape, Harry og Hermione skjóta á hann álögum og hann missir meðvitund. Kemur svo í ljós að Scabbers er Peter Pettigrew. Sirius og Lupin þvinga hann til að taka á sig sína réttu mynd og krakkarnir sjá að þetta er rétt hjá þeim. Peter játar. Þeir segja krökkunum að Lupin sér varúlfur og þegar hann var ungur í skóla voru Sirius, James og Peter bestu vinir hans. Þeir lærðu sjálfir að verða umskiptingar svo að þeir gætu fylgt vini sínum í hverjum mánuði þegar hann var lokaður inni í draugakofanum yfir fullt tungl. Lagt af stað til að segja Dumbledore og restinni af heiminum allt af létta. Á leiðinni upp úr göngunum býður Sirius Harry að búa hjá sér. Harry er himinlifandi og vill gjarnan búa hjá honum.
Þegar komið er upp úr göngunum (Snape er líka kominn upp úr göngunum en er ennþá meðvitundarlaus) skín fullt tungl á Lupin og hann umbreytist í varúlf, Sirius breytir sér í hund til að stoppa hann, ræðst á hann og tekst að hrekja hann inn í forboðna skóginn. Peter grípur tækifærið, sendir bölvun á Ron sem er hlekkjaður við hann breytir sér svo aftur í rottu og stingur af til að finna Voldemort á ný. Harry og Hermione heyra skrýtin hljóð berast frá vatninu og finna þar Sirius í mannslíki á ný og yfir honum gnæfir urmull af vitsugum tilbúin að veita honum “kossinn”, en þegar vitsuga veitir umræddan koss sýgur hún sálina úr líkama mannsins. Harry reynir að berjast við þær en þær eru sterkari og reyna að veita honum líka “kossinn”. Hann lítur við og sér allt í einu sterkan verndara svífa í áttina til hans. Einhver hefur bjargað þeim.
Þegar komið er upp í kastalann á ný er ekki mikið um sannanir þar sem Peter er horfinn. Dumbledore trúir þeim samt en getur lítið gert. Hann bendir þeim þó á að kannski geti þau gert eitthvað og hugsanlega geti þau bjargað tveimur saklausum lífum í kvöld. Hann lokar þau inni og Hermione segir Harry frá því að hún sé með tímabreyti sem er lítið stundarglas sem getur fært mann aftur í tímann. Hún hefur verið að nota það til að komast í fleiri en einn tíma í einu allan veturinn. Þau fara nú aftur um þrjá tíma, bjarga Grágoggi og Harry kemst að því að það var hann sjálfur sem bjargaði þeim við vatnið og sendir nú af stað sterkari verndara en hann hefur nokkru sinni framkallað áður. Þau fljúga svo á Grágoggi til að bjarga Siriusi úr lokuðu herbergi í einum turninum á Hogwartskastala.
Hann flýgur svo burt á Grágoggi og nú eru þeir tveir saman á flótta undan réttvísinni.
Skólaárinu lýkur og Harry fer heim. Í lestinni á heimleiðinni fær hann bréf frá Siriusi þar sem hann segist vilja halda sambandi. Segir að Harry geti skrifað honum hvenær sem er og Ron fær að eiga ugluna sem kom með bréfið þar sem Siriusi fannst það sér að kenna að hann tapaði rottunni sinni.
Ég vona að þetta útskýri eitthvað fyrir fólki en jafnframt tek ég enga ábyrgð á stafsetningu því ég fékk engann til að lesa yfir fyrir mig í kvöld. Það aftur á móti er líka ákveðin yfirlýsing því útdrættirnir þurfa ekki að vera fullkomnir hvað varðar málfræði, málfar, stafsetningu og slíkt, bara að vera læsilegir og skiljanlegir. Þeir eru eingöngu til að meta innihald sögunnar.
Kveðja
Tzipporah