Eins og flestir hér á huga hafa tekið eftir hefur verið gífurlegt flóð af áhugaspunum inn á þetta áhugamál. Nú finnst okkur stjórnendum hér á www.hugi.is/hp orðið tímabært að herða á reglum um áhugaspuna og gera meiri kröfur til höfundanna. Þetta teljum við að komi til með að skila okkur betri og vandaðri spunum og gera áhugámálið okkar skemmtilegra fyrir vikið.
Það getur verið mjög gaman að lesa skemmtilega áhugspuna en það getur verið jafn leiðinlegt að lesa óvandaða, illa skrifaða spuna.
Héðan í frá gilda eftirfarandi reglur, auk þeirra sem voru fyrir.
1. Áður en höfundur sendir inn fyrsta kaflann af nýjum spuna þarf hann að senda inn stuttan úrdrátt úr söguþræðinum. Þá geta stjórnendur farið yfir hann og tekið ákvörðun um hvort að þetta sé söguþráður sem þeir halda að geti náð vinsældum eða ekki. Úrdráttinn skal senda inn eins og grein en titillinn skal vera merktur á þessa leið:
Úrdráttur - ekki til samþykktar
Fyrsti stjórnandinn sem sér úrdráttinn vistar hann á stað þar sem hinir stjórnendurnir geta líka séð hann og hafnar svo greininni. Stjórnendur taka síðan sameiginlega ákvörðun og senda svo viðkomandi höfundi skilaboð um hvort að hann megi hefjast handa við að senda inn spuna eður ei.
2. Hver spunahöfundur verður að fá einhvern annan til að lesa yfir fyrir sig áður en hann sendir kafla inn til samþykktar. Ef fólki vantar einhvern til að lesa yfir fyrir sig er hægt að auglýsa eftir fólki til að lesa yfir fyrir sig á korkunum okkar. Alltaf fullt af fólki hér sem er reiðubúið að rétta hjálparhönd.
3. Hver spuna höfundur má einungis hafa einn spuna í gangi í einu nema að sérstakar ástæður búi að baki og verða þá stjórnendur að veita leyfi fyrir fleiri spunum.
4. Stjórnendur áskilja sér rétt til að hafna spunum ef þeim finnst þeir ekki uppfylla kröfur um málfar, stafsetningu, uppsetningu og skemmtanagildi.
Þessar reglur gilda líka fyrir spuna sem eru nú þegar í gangi. Við stjórnendur erum búin að lesa alla spuna sem sendir hafa verið inn síðan í byrjun ágúst og erum að meta hverjir þeirra standast þessar hertu kröfur og hverjir ekki. Spunahöfundar fá send skilaboð með upplýsingum um hvort þeirra spuni stenst þessar kröfur.
Við erum að flokka spunana núna eftir gæðum og skilaboðin verða send út vonandi um næstu helgi.
Þeir sem hafa sent inn færri en fimm kafla af sínum spuna þurfa að senda inn úrdrátt eins og þeir sem eru að hefjast handa.
Þeir sem uppfylla ekki þessar hertu kröfur geta eftir sem áður birt sína spuna á kasmír síðunni sinni eða sent þá inn á korkinn “áhugspunar” sem stofnaður verður sérstaklega í þeim tilgangi.
Áhugaspunakubbinum verður eytt þar sem ekki er lengur þörf á sérstökum kubbi fyrir betri spuna því héðan af verða allir spunar góðir. Við viljum biðja þá höfunda sem eiga spuna þar um að senda þá aftur inn sem greinar svo að við getum haldið áfram að fylgjast með þeim.
Með von um vandaðri spuna
Stjórnendur hugi.is/hp