“Jæja, ungi herra Peter,” sagði eldri maður sem stóð á brautarpalli 9 ¾ við hliðina á smávöxnum, skolhærðum dreng sem hélt þéttingsfast utan um bakpokann sinn. “Farangurinn þinn er kominn um borð og ef ég væri þú myndi ég drífa mig inn og ná sæti, það er alltaf fljótt að fyllast.” Smávaxni drengurinn, Peter, sneri sér að eldri manninum.
“Takk Brian, fyrir að fara með mér hingað.” Hann leit aftur að lestinni og titraði af samblöndu af spenningi og stressi. Brian horfði samúðarfullur á litla drenginn.
“Peter minn, föður þínum langaði að fara með þér. Hann tafðist bara í ráðuneytinu. Svona er það að vera skyggnir, enginn fastur vinnutími.” Peter sýndi engin viðbrögð við þessu heldur hélt áfram að horfa á lestina. Krakkar á hans aldri og eldri voru farin að streyma um borð, flest hlæjandi og brosandi. Alls staðar í kringum hann voru foreldrar að kveðja börnin sín, sumir brosandi og sumir grátandi. Og hér stóð hann, Peter Pettigrew, með bryta fjölskyldunnar sem var sá eini sem kom til að kveðja hann. Sá eini sem var nógu góður til að koma og kveðja hann.Hann sneri sér að Brian og faðmaði hann. Brian brosti og klappaði honum á bakið.
“Takk Brian,” sagði Peter. “Þú ert besti bryti sem við höfum nokkurn tímann haft.” Hann brosti snöggt til Brians, setti litla bakpokann sinn á bakið og gekk um borð í lestina.
Á ganginum voru krakkar að dröslast fram og til baka, með alls kyns gæludýr, og reyndu að finna sér sæti.Allt í einu var honum ýtt til hliðar.
“Vertu ekki fyrir, stubbur,” sagði hávaxinn, ljóshærður drengur sem nú þegar var kominn í skikkjuna sína. Framan á skikkjunni var Slytherinmerki en þó virtist drengurinn vera á hans aldri. Auk þess voru í kringum hann aðrir strákar sem voru í merkislausum skikkjum.“Þú virðist vera alltof lítill til að vera hérna,” sagði ljóshærði drengurinn. “Af hverju ferðu ekki bara aftur út til afa þíns og ferð heim.” Hinir drengirnir hlógu og þeir sneru sér við og byrjuðu að ganga á brott. Peter, sem þoldi það ekki að vera kallaður lítill, horfði illilega á eftir þeim. Hann tók þá skyndiákvörðun að rjúka í þá og sýna þeim fram á það að margur sé knár þó hann sé smár. En þegar hann ætlaði að rjúka af stað var gripið um öxlina á honum. Hávaxinn svarthærður drengur stóð við hliðina á honum og horfði niður á hann. Hann hristi höfuðið.
“Ekki gera neitt sem þú átt eftir að sjá eftir.” Hvíslaði hann. “Þú ræður ekki við þá alla. Treystu mér.” Hann horfði um stund á Peter og gekk svo á eftir drengjunum. Hann slóst í hóp með þeim og þeir gengu áfram eftir ganginum. Peter stóð eftir, undrandi. Af hverju ætti einn af þeim að vara hann við og reyna að hjálpa honum á þennan hátt? Hann gekk áfram eftir ganginum og leit inn um klefadyrnar. Allir klefarnir virtust vera orðnir fullir, þar til hann kom að einum fyrir miðju lestarinnar. Hann gægðist inn og sá tvo drengi, annan dökkhærðan og hinn skolhærðan, sem voru í hrókasamræðum. Þegar hann leit inn stöðvuðu þeir og litu á hann.
“Hæ,” sagði sá dökkhærði. “Vantar þig sæti?” Þeir brostu báðir til hans svo hann kinkaði kolli og gekk inn fyrir.
“Ég heiti James, James Potter,” sagði sá dökkhærði, “og þetta er Remus Lupin.”
“Peter Pettigrew,” sagði Peter. “Eruð þið á fyrsta ári?” Spurði hann og þeir kinkuðu kolli.
“Pettigrew…” sagði James. “Ég kannast við þetta nafn, Pettigrew. Vinnur pabbi þinn í ráðuneytinu?” Peter hlaut að hafa virkað skelkaður um stund, því James fór að hlæja. “Rólegur, pabbi minn vinnur þar líka. Hann hlýtur að hafa minnst á pabba þinn einhvern tímann heima.” Peter brosti og andaði léttar. Þeirri hugsun hafði allt í einu skotið upp í kolli hans að kannski væru Remus og James úr Slytherin fjölskyldum sem þoldu ekki ráðuneytið.

****

Lily Evans sat ein inni í einum klefa lestarinnar og horfði út um gluggann á seinustu nemendurna klifra um borð í lestina. Henni dauðbrá þegar einhver bankaði allt í einu á hurðina hjá henni og hún leit snöggt við. Í dyragættinni stóð hávaxin stelpa með ljóst liðað hár og skærblá augu. Hún var með mjög fallegt andlitslag og fallegt bros og hún vissi greinilega af því, því hún bókstaflega geislaði af sjálfsöryggi.
“Hæ, má ég sitja hjá þér?” Söng í henni og hún brosti svo skein í hvítar tennurnar. Lily kinkaði rólega kolli og færði fæturna af sætinu fyrir framan hana svo stelpan gæti sest niður. Lily var ekki viss hvað henni fannst um þessa stelpu. Hún var ekki vön að umgangast svona manneskjur sem virkuðu alltof sjálfsöruggar fyrir hana. Svona stelpur sem voru frekar sætar og vissu vel af því fóru óendanlega mikið í taugarnar á Lily. Stelpan hlammaði sér niður í sætið á móti henni, en með tannkremsbrosið uppi, og um leið mjakaðist lestin af stað.
“Ég heiti Ashley,” sagði ljóshærða stelpan. “Ashley Melissa D'Argon” Bætti hún við og fiktaði eitthvað í hárinu á sér. ‘Þvílíkt nafn,’ hugsaði Lily en kynnti sig svo.
“Ég heiti Lily…Bara Lily Evans.” Ashley hló.
“Ég veit, nafnið mitt er frekar langt. Vá, hvað þú ert með fallegt hár.” Lily varð hálf hvumsa enda bjóst hún ekki við því að fá svona hrós allt í einu.
“Takk…” Stundi hún upp úr sér og Ashley brosti. Þær sátu í þögn í smá tíma á meðan lestin brunaði út úr London.
“Ertu á fyrsta ári?” Spurði Ashley og braut þögnina. Lily kinkaði kolli. “Ég líka. Hvaða heimavist heldurðu að þú verðir á?” Lily starði á hana um stund og vissi ekkert um hvað hún væri að tala.
“Eru heimavistir?”Ashley greip fyrir munninn á sér.
“Gvöð, fyrirgefðu. Ég er svo ótillitssöm, ég bara hugsaði ekki útí það að foreldrar þínir væru muggar…” En og aftur starði Lily á hana. ‘Hvað í fjandanum eru Muggar?’ velti hún fyrir sér með tilheyrandi svip.
“Ekki galdramenn,” bætti Ashley við og brosti, nú án þess að sýna tennurnar og einhvern veginn virkaði hún afslappaðari þannig.
“Allt í lagi, það eru fjórar heimavistir í Hogwarts. Gryffindor, Hufflepuff, Ravenclaw og Slytherin…”
“Slytherin er og verður alltaf besta heimavistin, ekki sammála Ashley?” Sagði allt í einu einhver og þær litu báðar í áttina að opnum dyrunum. Í dyragættinni stóð hópur af strákum sem allir voru klæddir í skikkjurnar sínar. Fremstur, og sá sem hafði talað, var ljóshærður strákur sem var með grænt merki framan á skikkjunni sinni. Grænt merki með mynd af slöngu sem hringaði sig utan um stafinn S. Lily sá að Ashley roðnaði smávegis.
“Þegiðu, Faulkner. Þú ert ekki einu sinni í Slytherin ennþá.” Hreytti hún í hann en hann hló bara ásamt vinum sínum.
“Þú veist vel í hvaða heimavist ég á eftir að fara í. Slytherin, líkt og öll mín fjölskylda. Við sjáumst þar, D'Argon” Sagði Faulkner fremur smeðjulega.
“Ég fer ekkert í Slytherin,” muldraði Ashley og það hnussaði í Faulkner. “Nú, hefur ekki öll þín fjölskylda verið þar? Allir nema blóðníðingurinn hún móðir þín…” Lily dauðbrá þegar Ashley skaust á fætur með sprotann sinn í hendinni. Hún beindi honum að Faulkner og augun hennar skutu gneistum.
“Komdu þér út…Núna..” Hvæsti hún í gegnum samanbitnar varirnar. Strákarnir bökkuðu allir og með þeim Faulkner strákurinn.
“Ég myndi passa mig, Ashley. Þú vilt örugglega ekki að það fari fyrir þér eins og fór fyrir pabba þínum.” Sagði Faulkner, pírði augun og skaust svo á brott eins og rotta með öllum vinum sínum.Ashley starði augnablik á hurðina, sneri svo við, settist aftur í sætið sitt og starði á gólfið. Lily sá ekki lengur þessa sjálfsöruggu og vægast sagt pirrandi manneskju sem hafði komið inn í klefann hennar áðan, heldur óörugga, sorgmædda og viðkvæma manneskju. Lily hugsaði um hvað hún ætti að segja. Ashley vildi örugglega ekki fara að tala um þetta sem hafði gerst við manneskju sem hún þekkti lítið sem ekki neitt.
“Hvað varstu að aftur að segja um heimavistirnar?” Spurði Lily hana að lokum. Ashley leit upp og horfði um stund á Lily. Að lokum brosti hún út í annað til Lily og hóf að segja henni frá öllum heimavistunum, eins og hún hafði búið þarna í fleiri, fleiri ár. Lily fann hvað henni var farið að líka betur við Ashley.

*****

“….alveg óeðlilega pirrandi manneskja, hún virtist hata mig um leið og hún gekk inn!” sagði James. Hann var nýbúinn að segja þeim Remusi og Peter frá því þegar hann hitti Lily Evans, eða “snobbið” eins og hann kaus að kalla hana, á Leka Seiðpottinum. “Ég var svo fegin að pabbi bauð þeim ekki að eyða deginum með okkur, ég hefði dáið úr leiðindum” Strákarnir hlógu og James gat ekki annað en glottað yfir þessu.
“Ég fór ekki á Skástræti. Brytinn okkar, Brian, fór og keypti allt fyrir mig,” sagði Peter annars hugar á meðan hann nartaði á súkkulaðifroski.
“Ertu með bryta?” spurði Remus og fékk sér annan súkkulaðifrosk. Mamma hans hafði gefið honum öskju með súkkulaðifroskum fyrir ferðina og hann hafði ákveðið að deila þeim með þessum nýju vinum sínum. Peter kinkaði kolli og roðnaði smávegis.
“Hann er voðalega fínn. Pabbi er alltaf að vinna þannig að ég er eiginlega alltaf með Brian.” Hvorki James né Remus þorðu að spyrja um mömmu hans. Hurðin að klefanum þeirra opnaðist og inn gekk hópur af skikkjuklæddum strákum.
“Ert þú ennþá hér, stubbur?” Sagði sá fremsti við Peter, þetta var sami ljóshærði strákurinn og hafði hrint honum áður. “Ég hélt að við höfðum sagt þér að fara.” Peter reiddist. Þurftu þeir að koma og niðurlægja hann fyrir framan nýju vinina hans? Hann tók á honum stóra sínum og stóð upp.
“Af hverju ferð þú ekki bara?” sagði hann og hljómaði hugrakkari heldur en hann hafði nokkurn tímann hljómað. Ljóshærði strákurinn starði á hann.
“Hvað sagðirðu?!” Sagði hann reiðilega og ætlaði að rjúka í hann en svarthærður strákur sem hafði staðið aftarlega í hópnum hélt honum aftur.
“Láttu hann bara í friði, Faulkner” sagði hann.
“Þegi þú, Black. Vertu ekki að skipta þér af þessu.” Hreytti Faulkner í Sirius. James stóð snögglega upp og Remus ákvað að fylgja fordæmi hans.
“Veistu, ég er alveg sammála Peter og Siriusi. Af hverju ferð þú ekki bara og lætur vin okkar í friði,” sagði James og krosslagði hendurnar. Hann hlaut að hafa litið mjög ógnvekjandi út því að Faulkner starði á hann um stund og sagði svo:
“Komum okkur strákar, við viljum ekki eyða tíma okkar of mikið í þessa aumingja.” Vinir hans muldruðu allir eitthvað sem hljómaði eins og samþykki og voru að ganga út þegar James steig eitt skref fram.
“Sirius?” sagði hann. Sirius, sem var að ganga niðurlútur á eftir strákunum, sneri sér við og það sama gerði Faulkner, sem stóð fremstur í vinahópnum. “Langar þig að vera með okkur?” spurði James og horfði beint á Sirius, ákveðinn í framan. Sirius starði til baka, hissa yfir þessu boði. Faulkner horfði á James og Sirius til skiptis.
“Komdu, Sirius” Hvæsti hann svo, en Sirius lét ekki truflast.
“Já já” sagði hann að lokum og gekk inn í klefann. Faulkner starði bæði hissa og illgirnislega á hann. Svo hristi hann höfuðið og glotti.
“Þú veist ekki hvað þú varst að gera, hálfvitinn þinn.” Hann hristi höfuðið, sneri svo við og gekk á brott með vinum sínum. Sirius dróg djúpt andann og settist svo niður.
“Súkkulaðifrosk?” spurði Remus og brosti til hans.

*****

“Fyrsta árs nemar hér!” Heyrði Lily kallað þegar hún og Ashley stigu út úr lestinni. Hópur fyrsta árs nema hafði nú þegar safnast saman og voru farnir að stíga um borð í litla báta. Lily leit til hliðar og sá Potter strákinn vera að klifra um borð í bát ásamt þremur öðrum strákum. Hún leit fljótt í burtu og dróg Ashley í hina áttina, að báti þar sem nú þegar sátu tvær stelpur.
“Megum við verða samferða ykkur?” Spurði Lily og stelpurnar kinkuðu kolli. Lily og Ashley klifruðu um borð og stutt eftir það fóru bátarnir af stað.
“Ég heiti Sheila og þetta er Petra” sagði ljóshærð lágvaxin stelpa og brosti. Hin stelpan, Petra, kinkaði kolli brosandi til þeirra. Lily og Ashley kynntu sig.
“Vááá….” stundi Petra allt í einu upp og Lily og Ashley sneru sér við. Þau voru komin í sjónarmál við Hogwarts. Lily hafði aldrei séð neitt svo stórkostlegt. Kastalinn stóð á háum hól og bókstaflega glansaði í birtu tunglsins og stjarnanna.
“Velkomin til Hogwarts, Lily.” Hvíslaði Ashley að henni og brosti. Lily gat ekki annað en brosað líka. Þetta var farið að virka svo miklu raunverulegra núna heldur en þetta hafði verið þegar hún fékk bréfið. Bátarnir sigldu að landi undir kastalanum og þau fóru frá borði. Lily og Ashley gengu með Sheilu og Petru upp nokkur þrep að stórri hurð og smám saman söfnuðust allir saman þar. Þá var hurðinni lokið upp og hávaxin, miðaldra kona í dumbrauðri skikkju með hatt í stíl horfði á þau.
“Velkomin til Hogwarts, kæru fyrsta árs nemar. Ég er prófessor McGonagall. Ef þið vilduð vinsamlegast fylgja mér, þá er allt tilbúið fyrir flokkunarathöfnina,” sagði konan stíflega og gekk inn, í fylgd nemandanna. Lily skalf af spenningi og þegar hún leit í kringum sig sá hún að langflestir gerðu slíkt hið sama. Þau gengu inn eftir löngum göngum sem skreyttir voru með alls kyns málverkjum og styttum. Lily starði opinmynnt á málverkin þar sem að fólkið í þeim hreyfðist. Þau spjölluðu við hvort annað og bentu á fyrsta árs nemana, eins og ekkert annað væri eðlilegra. Lily var svo upptekin af því að fylgjast með þessu öllu að hún tók ekki eftir því að þau væru komin inn í stóran sal, fullan af öðrum nemendum, fyrr en þau staðnæmdust. Hún leit í kringum sig.
“Ashley..” Hvíslaði Lily og hnippti í Ashley. “Sjáðu loftið..” Loftið í stóra salnum var eins og lifandi spegilmynd himinsins. Ashley flissaði.
“Prófessor Dumbledore lagði álög á loftið svo að það liti nákvæmlega eins út og himininn úti.”
“Af hverju?” Spurði Lily og starði ennþá á loftið. Ashley yppti öxlum.
“Honum hefur örugglega bara þótt það svo flott, eða eitthvað þannig.” Lily hætti nú að stara á loftið og beindi athyglinni að kolli sem settur hafði verið niður fyrir framan kennaraborðið. McGonagall prófessor gekk inn og lét oddmjóan hatt ofan á hann. Lily gapti þegar rifa opnaðist allt í einu á hattinum og hann fór að syngja:

Velkomin í Hogwarts,
Þið munuð njóta þess.
Þið ættuð fljótt að vita
Að hér ég skipa sess.
Í fjórar heimavistir
Ykkur raðað verður í,
Þar er hið nýja heimili
Undir sól og ský.
Gryffindor, hinn hugdjarfi,
Hina hugrökku vill fá.
Ravenclaw, hin knáa,
Hina gáfuðu vill sjá.
Slytherin, hinn lúmski,
Valdi metnaðarfullu fyrst,
Á meðan Hufflepuff, hin góða,
Hafði restina í vist.
Sveiflaðu mér á höfuð þitt
Og þá mun ég segja þér,
Hugsun mína og álit mitt
Og það sem finnst þá mér.
Flokkunin er mitt fag,
Og þvílík undra list.
Þetta snýst allt um þinn hag
Og þína réttu vist.

Þegar sögnum lauk brutust út mikil fagnaðarlæti í salnum. Þeim lauk þó fljótt því að McGonagall prófessor gekk til hattsins með lista og hóf að lesa upp nöfn fyrsta árs nemandanna.
“Ager, Sheila.” kallaði hún upp og Sheila, úr bátnum, gekk rólega að stólnum. Hún settist niður og lét hattinn falla á höfuð sitt. Hatturinn hugsaði sig um í 5 sekúndur og hrópaði svo, svo hátt að Lily dauðbrá,:
“RAVENCLAW!” Fagnaðarlæti brutust út á einu borðinu og Sheila gekk hálfbrosandi til þeirra.
“Avery, Jonathan” kallaði McGonagall upp og meðalhár drengur gekk fram. Hatturinn var á honum í um það bil 2 sekúndur og hrópaði svo: “SLYTHERIN!”
Flokkunin gekk hratt fyrir sig og Lily furðaði sig á því hversu margir höfðu eftirnafn sem byrjaði á A.
“Black, Sirius” Hávaxinn, myndarlegur og svarthærður drengur gekk fram. Lily sá að þetta var einn af strákunum sem hafði verið um borð í bát Potter stráksins. Black virtist vera mjög stressaður. Hann gaut sífellt augunum í áttina að vinum sínum og titraði þegar hatturinn féll niður fyrir augu hans. Hatturinn tók sér langan tíma til að hugsa núna. Sirius virtist ekki taka því svo vel því að grip hans á stólsetunni varð alltaf þéttara og þéttara. Loksins opnaði hatturinn “munninn” og kallaði upp:
“GRYFFINDOR!” Black virtist vera bæði hissa og feginn þegar hann stóð upp og gekk í áttina að borðinu sínu. Lily komst samt ekki hjá því að sjá Faulkner og vini hans horfa illkvittnislega á hann um leið og hann settist niður.
“D'Argon, Ashley Melissa” Kallaði McGonagall upp og Ashley gekk af stað. Hatturinn hafði varla snert höfuð hennar þegar hann hrópaði upp:
“GRYFFINDOR!” Ashley næstum því stökk á fætur og valhoppaði brosandi í áttina að Gryffindor borðinu, þar sem hún settist niður við hlið Siriusar. Lily brosti og var í raun farin að vona að hún myndi lenda í Gryffindor. Sá hópur heillaði hana mest. Davies, John lenti í Hufflepuff og Daber, Sandra lenti í Ravenclaw.
“Evans, Lily” Kallaði McGonagall upp og hjarta Lilyar tók aukaslag. Hún gekk hratt upp að stólnum og lét hattinn falla ofan á höfuð sitt. Hún heyrði litla rödd flissa í eyra sitt.
“Þetta ætti nú ekki að vera erfitt. Þú hefur gáfurnar fyrir Ravnclaw, iðnina fyrir Hufflepuff en mest af hugrekki GRYFFINDOR” Seinasta orðið hrópaði hann upp. Lily áttaði sig ekki alveg á því í hvaða heimavist hann hafði sett hana í en þegar hún sá nemendurnar á Gryffindorborðinu fagna og Ashley standa klappandi upp, brosti hún og flýtti sér yfir til hennar.
“Við erum saman á heimavist!” Kallaði Ashley upp og faðmaði Lily að sér. Þær settust niður brosandi. “Þetta er Sirius Black” sagði Ashley og kynnti Lily fyrir svarthærða stráknum sem hafði áður verið látinn í þessa heimavist. Sirius brosti taugaóstyrkur til hennar og fór svo að fylgjast aftur með flokkuninni. Faulkner og vinir hans lentu allir í Slytherin, eins og við mátti búast. Hatturinn þurfti ekki einu sinni að hugsa sig um heldur hrópaði þetta um leið og hann snerti fyrsta hár á höfði þeirra. Petra Hall, stelpan sem hafði verið samferða þeim Lily og Ashley í bátnum, lenti í Gryffindor og settist brosandi við hlið þeirra.Vinur Siriusar, Remur Lupin, lenti líka í Gryffindor og Lily sá að Sirius geislaði af gleði um leið og hann sá að vinur hans væri í sömu heimavist.
“Pettigrew, Peter” Kallaði McGonagall upp og lítill drengur labbaði af stað. Hann varð fyrir þeirri óheppni að detta á leiðinni og hlátrasköllin glumdu frá Slytherin borðinu. Peter stóð fljótt upp og gekk áfram eins og ekkert hafði gerst, en roðnaði þó heilu ósköpin. Hatturinn var á höfði hans um stund en setti hann svo í Gryffindor til vina sinna. Peter gekk hnakkreistur að Gryffindorborðinu og settist fyrir framan þá Sirius og Remus, sem brostu til hans.
“Potter, James” Kallaði McGonagall upp og James gekk upp að stólnum. Lily pírði augun saman og vonaði heitt og innilega að hann myndi ekki lenda á hennar heimavist. Hann fór svo í taugarnar á henni. Hann virkaði svo montinn og ánægður með sjálfan sig að það var óþolandi. Lily til mikillar óánægju hafði hatturinn rétt dottið yfir augu hans þegar hann hrópaði upp:
“GRYFFINDOR!” Vinir James fögnuðu ákaft er hann settist niður við borðið. Lily gaut augunum illilega á hann og sá að hann gerði það sama. Svo litu þau undan og létu sem þau sæju ekki hvort annað.
“Uss,” hvíslaði Ashley að strákunum, “Dumbledore er staðinn upp.”

*****