Þetta er fyrsti áhugaspuninn sem ég skrifaði - það fara að verða þrjú ár síðan - og ég segi það satt, það var erfiðara að þýða hann en að skrifa hann.

One-shot; þ.e. smásaga, svo það verður ekkert framhald.


“Létt eins og fjöður, stíf eins og tré.”

“Ái, mamma, ekki toga svona!”
“Hættu að hreyfa þig, Hermione og kannski lagast það!”
“Ég þoli ekki fléttur! Og ég vil ekki fara í afmæli til Lydiu! Geturðu ekki hringt og sagt að ég sé veik eða eitthvað?”
“Nei, Hermione, við erum búnar að tala um þetta. Þér var boðið og ef þú ferð ekki væri það mikill dónaskapur. Þú ferð. Búið mál.”
“En afhverju verð ég að fara? Lydia er svo leiðinleg! Hún hefur engan áhuga á neinu nema strákum og að mála sig; ég vil miklu frekar vera heima og lesa eða eitthvað.”
“Lesa eða eitthvað! Þú gerir ekkert nema að lesa. Ég hef ekki séð þig síðustu fjögur árin án þess að þú værir að lesa! Allur þessi lestur getur ekki verið hollur fyrir tíu ára stelpu!”
“En mamma…”
“Ekki segja ‘en’. Þú ferð.”
“Já mamma,” andvarpaði Hermione.

Hálftíma seinna var Hermione ennþá í fýlu, en núna í aftursætinu á bíl móður sinnar. Þær sátu fyrir utan húsið þar sem átti að halda afmælið og frú Granger var farin að hugleiða alvarlega að ná dóttur sinni úr aftursætinu með valdi.
“Hermione, það á eftir að vera gaman. Ekki láta svona. Auðvitað verður gaman, ég held þau ætli að panta pizzu!”
“Ég vil ekki fara! Þetta eru ekki vinir mínir!” Hermione hafði reyndar rétt fyrir sér. Hún var einrænn bókaormur sem eyddi mestum tíma sínum annaðhvort á kafi í bókum eða að læra fyrir skólann. Hún hafði þegar fengið stimpilinn “kennarasleikja” í augum bekkjarsystkina sinna og þau leyfðu henni aldrei að leika sér með þeim.
Eftir mikið þref gafst mamma hennar loksins upp á að reyna friðsamlegar lausnir. “Hermione, ef þú ert ennþá afturí þegar ég lít næst í baksýnisspegilinn getur verið að bækurnar þínar verði ekki allar á sínum stað þegar þú kemur heim. Ég gæti falið ‘Litlu prinsessuna’ í skrifstofunni minni í einhvern tíma!”
Hermione stundi og opnaði bíldyrnar. ‘Litla prinsessan’ var uppáhalds bókin hennar og hún las í henni á hverju kvöldi áður en hún fór að sofa. Hún opnaðist sjálfkrafa á uppáhalds staðnum hennar, við endinn þegar upp kemst hver Sara er í alvörunni og Ermengarde er að segja öllum hinum stelpunum fréttirnar. Hún gat skemmt sér endalaust við að ímynda sér hvernig illgjörnu bekkjarsystur Söru fengu áfall þegar þær komust að sannleikanum. Sara var hetja í augum Hermione, hún dýrkaði hana og þegar lífið í skólanum varð mjög erfitt þóttist Hermione, alveg eins og Sara, búa í einhverskonar töfraheimi þar sem hún var prinsessa… en Hermione var reyndar afskaplega skýr og raunsæ stúlka og vissi vel að töfraheimar eru einfaldlega ekki til.
“Ekki borða mikið nammi!” kallaði mamma hennar áður en hún keyrði í burt. Hermione andvarpaði aftur og þegar mamma hennar var komin úr augsýn togaði hún í hárteygjurnar úr fléttunum. Hún vildi óska að hárið á henni væri ekki svona úfið, en henni var mjög, mjög illa við fléttur.

Veislan var alveg eins og hún hafði átt von á. Það var augljóst allan tímann að foreldrar Lydiu höfðu krafist þess að hún byði Hermione. Stelpurnar átu pizzu og kjöftuðu endalaust um stráka meðan þær æfðu sig í að mála hvor aðra í herbergi Lydiu. Það var ekki fyrr en allir voru málaðir, meira að segja Hermione, og þær voru búnar að tala um allt sem var vert að minnast á í sambandi við stráka að þær fóru að leita sér að einhverju öðru til að gera.

“Eigum við að fara í ‘Sannleikann eða kontór’?” spurði Elisabeth
“Við fórum í ‘Sannleikann eða kontór’ í síðustu viku í partýinu hjá Frederick, þannig að við vitum öll leyndarmálin… svo er það ekkert gaman þegar strákarnir eru ekki með” svaraði Lydia.
Þrátt fyrir að hún væri ekkert hrifin af partýum varð Hermione samt sár. Henni hafði ekki verið boðið í partý til Frederick, hún hafði ekki einusinni vitað af því.
“Afhverju prufum við ekki “Létt eins og fjöður, stíf eins og tré’ aftur?”
“Æi, ég veit ekki, Anne. Það virkaði ekki síðast” svaraði Lydia.
“Já en þá voru strákarnir með okkur. Strákar geta aldrei tekið neitt alvarlega, þú veist það. Reynum aftur, mér fannst það svo spennandi!”
Lydia yppti öxlum. “Hver vill gá hvort við getum fengið “Létt eins og fjöður, stíf eins og tré” til að virka?” Enginn hafði neitt á móti þessari uppástungu, og stelpurnar fóru að undirbúa leik sem Hermione hafði aldrei heyrt neitt um með því að minnka ljósin og kveikja á kertum í staðinn.
“Harriet, þú verður í miðjunni” skipaði Lydia.
“Ókei.” Harriet lagðist á gólfið og stelpurnar settust í hring í kringum hana. Lydia horfði í kringum sig og tók eftir því að Hermione sat ein úti í horni.
“Hermione, ætlarðu ekki að koma? Það verða allir að vera með.”
“Ég kann ekki þennan leik” svaraði Hermione.
“Þá er kannski betra að þú horfir á fyrst…”
“Endilega” Hermione yppti öxlum og fylgdist nokkuð áhugasöm með því sem var í gangi. Hún hafði aldrei séð leik sem virkaði svona.
“Eru allir að einbeita sér?” spurði Lydia. Allar stelpurnar umluðu eitthvað til samþykkis. “Leiðist þá. Ókei. Við erum hér saman komin til að kveðja okkar ástkæru vinkonu, Harriet. Hún var okkur mjög mikilvæg. Hún var – létt sem fjöður, stíf sem tré” Nú tóku allar stelpurnar undir og kyrjuðu síðustu orðin aftur og aftur eins og þau væru töfraþula. Svo hættu þær að leiðast og fóru að reyna að lyfta Harriet með bara einum fingri hver, stöðugt endurtakandi “létt sem fjöður, stíf sem tré”. Harriet var hinsvegar of þung og þær gátu ekki hreyft hana spönn upp af góflinu – og stemmingin var eyðilögð þegar Harriet fór að hlæja því hana kitlaði svo mikið.
“Reynum einu sinni enn” sagði Lydia. “Hermione, afhverju verðurðu ekki með? Þú sást hvernig þetta virkar; þú átt bara að einbeita þér að einhverju mjög sorglegu. Hún á að svífa ef við einbeitum okkur nógu vel.”
Hermione færði sig nær og tók sér stöðu í hringnum, dálítið tortryggin. Henni fannst þetta fáránlegt, það voru engir galdrar til! Hún myndi vita ef þeir væru raunverulegir, eftir að hafa lesið allar þessar bækur! Lydia sagði orðin og hún kyrjaði með, án þess að einbeita sér að neinu nema hversu heimskulegt þetta var. Samt gerðist eitthvað þegar hún setti fingurinn undir Harriet. Henni fannst eins og öldur af hita risu upp í brjóstinu og flæddu niður æðarnar til fingursins – og skyndilega sveif Harriet upp í loftið, líkaminn stífur og hárið hangandi laust og allar stelpurnar skríktu af gleði alveg þangað til þær áttuðu sig á því að Harriet sveif hærra og var komin langt yfir höfuð þeirra, nálægt loftinu.

“Stelpur, þið getið hætt núna!” Harriet hljómaði dálítið skelkuð. “Ekki missa mig! Hleypið mér niður!” Stelpurnar litu á hendur sér og föttuðu að enginn hélt galdrinum lengur við – Harriet sveif algörlega af sjálfsdáðum núna.
“Eeee, Harriet, við finnum út úr því alveg rétt bráðum” sagði Lydia skelkuð.
“Ha?! Þetta er ekki sniðugt! Hættiði! Núna! Hleypiði mér niður! Ég er lofthrædd! Hleypiði mér niður!!” Harriet var komin alveg upp í loft og komst ekki hærra. Hún sveif eins og blaðra og öskraði af öllum lífs og sálar kröftum. Fljótlega heyrðu foreldrar Lydiu hávaðann og komu hlaupandi og fölnuðu þegar þau sáu stelpuna sem sveif um í grennd við loftljósið. Herra Clark reyndi að ná henni til að toga hana niður, en hann vantaði meter upp á að ná taki. Frú Clark varð ofsalega reið og hristi og skók Lydiu til að reyna að komast að því hvað stelpurnar höfðu gert og hvernig ætti að laga það. Enginn tók eftir Hermione sem hafði hörfað út í horn og stóð þar alveg ringluð. Hún fann ennþá fyrir kraftinum í líkamanum og velti fyrir sér hvort þetta væri á einhvern hátt henni að kenna. Þegar herra Clark fór út í bílskúr til að leita að stiga þurfti hún að berjast við hláturinn og henni fannst partýið heldur skemmtilegra en hún hafði átt von á. Henni fannst fyndið að heyra að Harriet væri lofthrædd því að Harriet þóttist ekki vera hrædd við neitt og bara í síðustu viku höfðu hún og vinir hennar haldið Hermione útfyrir handriðið á stiganum í skólanum meðan eitt þeirra stal heimaverkefninu hennar. Harriet var alger skessa – hún hafði einu sinni sagt að það eina sem hún óttaðist væri að vakna upp einn morguninn með hárið hennar Hermione, og Hermione fannst bara ágætt að hún skyldi þjást smá.
Harriet var enn föst við loftið og öskraði stöðugt, þó að hún væri löngu hætt að segja eitthvað af viti. Skyndilega heyrðist hár smellur. Ef Hermione hefði ekki fundið orkustraum fara um sig hefði hún haldið að Harriet hefði lent á rafmagnslínu eða eitthvað. Hárið á henni var skyndilega orðið eins og steinull, það hékk ekki einusinni niður lengur, það var of úfið. Nú var Hermione viss um að það sem var í gangi hafði eitthvað með hana að gera. Hún vissi ekki hvort hún átti að gera, finna leið til að stoppa þetta eða hugsa upp fleiri hluti sem Harriet myndi alls ekki vilja að kæmu fyrir sig, þegar dyrabjallan hringdi.
Herra Clark, sem hafði rétt í þessu birst með stiga, leit á frú Clark. Efasemdirnar voru augljósar á þeim. Hvað ef þetta var mamma Harriet komin til að ná í hana? Hvernig gætu þau útskýrt fyrir foreldri hvað dóttir þeirra var að gera svífandi um í loftinu? Loks hljóp frú Clark út úr herberginu, ákveðin á svip, augljóslega til að reyna að losa sig við gestinn eins hratt og hún gæti. Samt komu fljótlega raddir framan af gangi, hratt fótatak og frú Clark talandi; “…í alvöru, herra, farðu út eða ég hringi á lögregluna…”
Mjög hávaxinn, rauðhærður maður, klæddur einhverju sem líktist grárri skikkju, þeytti hurðinni opinni. Hárið á honum var farið að þynnast, en það sem var eftir var eldrautt. Hann var með ljósblá augu sem renndu yfir óreiðuna fyrir framan hann; stelpuþvöguna á gólfinu og Harriet öskrandi í loftinu. Loks leit hann á Hermione og hún hélt næstum að hún sæi munnvikin hans þokast upp á við, en það gæti hafa verið missýn því að augnabliki síðar hafði maðurinn dregið út… prik… og hrópaði: ’Finite Incantatem’! Allt í einu var eins og Harriet væri þyngdarlaus og svo fór hún að líða rólega í átt að gólfinu. Maðurinn beindi ennþá greininni að henni og skyndilega áttaði Hermione sig á að hann var í rauninni að láta Harriet falla mjúklega til jarðar. Þegar Harriet náði loksins niður á gólf hélst hún upprétt, alveg í losti. Það var dauðaþögn í herberginu þegar maðurinn sneri sér að Hermione, og núna brosti hann alveg áreiðanlega.
“Góðan daginn, fröken Granger. Ef þú vildir vera svo væn og koma með mér…”
Maðurinn ýtti henni út um dyrnar og beindi síðan prikinu sínu inn, muldrandi í barm sér: ’Obliviate’.
“Þau verða dálítið ringluð í einhvern tíma” sagði hann, enn brosandi. “Á meðan langar mig að tala við þig. Ég heiti Artúr Weasley og ég vinn fyrir breska Galdramálaráðuneytið. Yfirleitt vinn ég bara með Mugga hluti, en það vantaði starfsmann í deildina sem snýr við slysagöldrum í dag svo að ég bauðst til að hjálpa til…” Skyndilega tók hann eftir að Hermione hafði greinilega ekki hugmynd um hvað hann var að fara. “Aha, þú hefur enga hugmynd um hvað ég er að tala, er það? Kannski hefurðu aldrei heyrt um Galdramálaráðuneytið?” Hermione hristi höfuðið. Hugsanir þutu um í kollinum á henni. Galdrar? Ráðuneyti? Hún var bæði uppnumin og hneyksluð í einu – maðurinn bara hlaut að vera galinn… “Þú átt þá Muggaforeldra. Hvenær áttu afmæli, fröken Granger?”
“Það eru bara tveir mánuðir þangað til. Ég verð ellefu ára” svaraði hún feimin. Hún vissi ekki alveg hvað hún átti að halda um herra Weasley, með prikið sitt og alla furðulegu hlutina sem hann talaði um.
“Svo þú byrjar þá í Hogwarts á þessu ári. Ég giskaði rétt. Þú verður í bekk með Ron!” Maðurinn brosti eins og þetta væri eitthvað sérstaklega gleðilegt, en Hermione hafði ekki hugmynd um hvað hann var að tala.
“Hvað meinarðu? Hver er Ron?”
“Ron er einn af sonum mínum. Kannski verðið þið vinir? En ég get séð eitt strax; þú verður mjög góð í svifgöldrum, væna mín. Jæja, fröken Granger, ég verð að fara að drífa mig. Það var gaman að hitta þig.” Hann tók í höndina á henni eins og hún væri fullorðin og hún var strax byrjuð að áætla ferð á næsta bókasafn til að leita að upplýsingum um þetta ‘Galdramálaráðuneyti’ þegar hann sneri sér til hennar og beindi fáránlega prikinu sínu að henni og sagði eitthvað…

Hermione stóð utangátta í forstofunni og var alls ekki viss um hvað hún var að gera þar. Það síðasta sem hún mundi eftir var að hafa setið í herbergi Lydiu við að fylgjast með einhverjum heimskulegum leik sem gekk út á töfra sem voru ekki til og vildu ekki virka. Það heyrðist fótatak á stéttinni fyrir utan sem hætti snögglega, eins og einhver hefði sest inn í bíl eða eitthvað, en það heyrðist ekkert vélarhljóð. Skyndilega kom hátt öskur frá svefnherbergi Lydiu. Hermione snerist á hæl, hljóp sem fætur toguðu eftir ganginum og svipti hurðinni upp. Sjónin sem tók á móti henni var svo ótrúleg að hún staðnæmdist strax. Í miðju herberginu stóð Harriet með hár sem minnti einna helst á afrískar krullur.

“Hvernig var svo?” spurði Frú Granger í bílnum.
“Það var ekki svo slæmt eftir allt saman” svaraði Hermione.
Mamma hennar brosti til hennar í baksýnisspeglinum. “Sko til! Ég sagði þér að það yrði gaman! Nú þarftu bara að byrja að skipuleggja hvað þú vilt gera á þínum afmælisdag!”


Fin


Kveðjur
Teleute aka Miss Pince