Aftur til Hogwarts, fimmti hluti
Nokkrar Slytherin stúlkur tóku andköf og Slytherin strákarnir litu undrandi á hvorn annan. Hermione, sem sat fyrir framan Harry, hafði gripið um munn sér og Ariana leit undrandi á prófessor Andreas og Hermione til skiptis.
”Hann átti þetta skilið..” Muldraði Ron við hliðina á Harry. ”Hann hefur örugglega verið að ganga til liðs við hann-sem-má-ekki-nefna aftur og skyggnarnir hafa náð honum…”.
Harry vissi ekki hvað honum ætti að finnast um þetta. Hann var enginn vinur Snapes en einhvern veginn hafði hann það á tilfinningunni að hann væri ekki eins vondur og Ron var alltaf viss um.
”Nóg um það…” Sagði Andreas og sneri sér að töflunni. ”Í dag ætlum við að læra aðeins um drykkinn Hithrandes Potentas.” Hann skrifaði nafnið upp á töfluna með sprotanum sínum og leit svo aftur yfir nemendahópinn. ”Veit einhver eitthvað um þennan drykk?”
Hendin á Hermione skaust upp í loftið, Harry ekki til mikillar undrunar.
Prófessor Andreas kinkaði kolli í áttina að Hermione og hún hóf að útskýra. ”Hithrandes Potentas er eldgamall drykkur, með uppruna frá Egyptalandi. Töfradrykkinn er hægt að nota á tvenna vegu, til góðs og til ills.”.
Þögnin var svo mikil í dýflissunni þegar Hermione lauk við útskýringu sína að það mátti heyra nál detta. Prófessor Andreas horfði á Hermione um tíma, eins og hann væri að hugsa hvað hann ætti að segja, en braut að lokum þögnina.
”Tíu stig til Gryffindors.” Sagði hann og sneri sér að töflunni. Gryffindor nemendurnir litu undrandi og brosandi á hvorn annan á meðan Slytherin nemendurnir litu hneykslaðir á kennarann. Andreas lagði sprotann sinn á töfluna og útskýring Hermione birtist upp á töfluna. ”Jæja…” Sagði kennarinn og sneri sér aftur að nemendum sínum. ”Veit einhver annar en ungfrú Granger hver munurinn er á þessu seyði, annars vegar illu og hins vegar góðu?” Það var þögn eitt augnablik en svo, Harry til mikillar undrunar, rétti Neville upp hönd. ”Tengist það ekki eitthvað efnablöndunni?” Sagði hann hikandi og titrandi röddu.
Prófessor Andreas brosti snöggt og kinkaði kolli. ”Einmitt. Önnur tíu stig til Gryffindors. Jah, þið eruð aðeins gáfaðari heldur en bróðir minn var búin að lýsa ykkur Gryffindor…” Hann glotti og sneri sér aftur að töflunni, sló sprotanum létt á töfluna og upp kom uppskriftin að drykknum. ”Þetta er uppskriftin að drykknum, sem notaður er til góðs. Nú, Hithrandes Potentas er notaður til breytingar. Til nokkurs konar ummyndunar. Þannig að ef að þið eruð léleg í ummyndun en góð í því að gera þennan töfradrykk, þá eigið þið að geta notað hann í staðinn.” Prófessor Andreas glotti og Gryffindorhópurinn flissaði. Frá Slytherinnemendunum heyrðist aftur á móti ekki orð
”Þessi drykkur virkar aftur á móti aðeins á dýr og hluti, ekki á mannverur, en það gerir slæma formúlan aftur á móti. Sú gerð þessa töfradrykkjar var blönduð af illum galdramönnum fyrir mörgum tugum ára, við pyntingar. Síðasta tilvikið sem ég veit um var í Seinni Heimstyrjöldinni þar sem þýskir galdramenn notuðu þennan drykk við tilraunir á fórnarlömbum sínum. Nú, vanalega er hægt að breyta fórnarlömbunum aftur með mjög öflugum og erfiðum göldrum, en oft er ekkert hægt að gera í því.” Andreas horfði alvarlegur yfir hópinn sem horfði skelkaður til baka. ”Aftur á móti hefur uppskriftin af verri drykknum verið týnd í fleiri fleiri ár og enginn hefur getað blandað þennan drykk í langan tíma. Nú skulum við aftur á móti hella okkur í gerð hins töfradrykksins. Efni í drykkinn eru hérna í geymslunni við hliðina á mér. Þið hafið þennan tíma og næsta, þar sem þetta er tvöfaldur tími, til að gera hann og skilið mér svo niðurstöðunni. Ég ætla að ganga hérna á milli og skoða hvernig gengur hjá ykkur. Byrjið núna.”. Allir hófust handan við að ná í efnin í drykkinn og byrjuðu að blanda. Prófessor Andreas gekk á milli og hjálpaði til og tókst meðal annars að bjarga Neville frá því að láta allt of mikið af krókódílagalli í töfradrykkinn sinn.
Ron hnippti í Harry og benti honum á hvað hafði gerst. ”Þetta hefði gamli Snape ekki gert…” hvíslaði hann að Harry er þeir voru að bæta réttu magni af krókódílagalli í þeirra drykk. ”Hann hefði horft á hann gera þetta og dregið svo 50 stig af honum fyrir þetta…” Harry kinkaði kolli og hélt áfram að gera sinn töfradrykk. Í lok tímans fylltu þau á litlar flöskur og skiluðu til kennarans.
”Takk.” Sagði Andreas þegar Harry skilaði sínu inn og brosti til hans. Þegar þau voru komin út úr skólastofunni og gengu fjögur saman eftir ganginum fóru þau Harry, Hermione og Ron að tala um hversu ólíkir þeir bræðurnir væru.
”….og þegar hann gaf okkur stig, ég hélt ég yrði ekki eldri!” Sagði Hermione og brosti út að eyrum, stolt að hafa fengið 10 stig í töfradrykkjum.
”Já, bróðir minn hefur aldrei verið hrifinn af Gryffindor” Heyrðist sagt fyrir aftan þau og þau sneru sér við. Fyrir aftan þau stóð prófessor Andreas með kennaratöskuna sína. ”Ég er á leiðinni uppá kennaraskrifstofu” Sagði hann þegar hann sá undrunarsvipina á þeim. ”Ég komst ekki hjá því að heyra ykkur tala um bróður minn. Sjálfur var ég í Ravenclaw, sá eini í fjölskyldunni sem var ekki í Slytherin.” Hann brosti smá til þeirra, kvaddi og dreif sig svo inn á kennaraskrifstofuna sem var til hliðar.
”Það ætti að skýra muninn á þeim….” Sagði Ron er þau gengu aðeins lengra að töfrabragðastofunni. Þau gengu inn í stofuna sem var nú þegar nærri því full af nemendum og á eftir þeim skoppaði hinn litli prófessor Flitwick inn. Harry og Ron settust við borð aftast og Hermione og Ariana settust við síðasta lausa borðið fremst.
”Upp með sprotana…” Skríkti í Flitwick. ”Mér datt í hug að við gætum haft smá upprifjun, á gleðigaldrinum!” Hann skælbrosti, minnti þau á töfraþuluna og sagði þeim að byrja. Harry og Ron hófust handan að æfa sig og innan skamms var ómaði um stofuna hlátur. Brosandi og hlæjandi, eftir að Ron hafði nýlagt á hann galdurinn, gaut Harry augunum í áttina að Hermione og Ariönu. Hermione lagði galdurinn á Ariönu og um stund horfði Harry á hana brosa og hlæja.
”Og þú neitar að þú sért skotinn í henni…” Sagði Ron glottandi við hliðina á Harry. Harry leit á Ron til að mótmæla en Ron stoppaði hann. ”Félagi? Þú varst nákvæmlega svona í fyrra þegar Cho var nálægt”. Harry lokaði munninum. Kannski hafði Ron rétt fyrir sér. Honum leið mjög svipað og þegar hann var skotinn í Cho.
Tíminn leið eins og ekkert væri, svo skemmtilegur var hann. Brosandi og hlæjandi gekk hersingin saman upp í setustofu Gryffindors og fóru þau vinirnir svo saman niður í Stóra sal til kvöldverðar. Harry var þögull mestallan tímann, enda hugsandi um hvað Ron hafði sagt fyrr um daginn. Til að leiða hugann að einhverju öðru leit hann upp að kennaraborðinu. Prófessor Andreas hafði sest niður við hlið prófessor Donahues og voru þau að spjalla saman. Harry sá vel hversu líkir Andreas og bróðir hans voru í útliti, en hugsaði svo um það hversu ólíkir þeir væru í persónu. Kannski var Andreas svarti sauðurinn í sinni fjölskyldu? Hann var nú einu sinni sá eini sem hafði ekki farið í Slytherin.
Eftir kvöldmat héldu þau aftur upp í setustofu þar sem Ron og Harry fóru út í horn til að spila galdraskák. Hermione og Ariana fóru upp í svefnsal stúlkna, án nokkurrrar útskýringar. Skákin var svo spennandi að Harry vissi ekkert hvað tímanum leið og áttaði sig allt í einu á því að hann átti að vera mættur til prófessor Donahues fyrir tíu mínútum. Hann kvaddi Ron með flýti og hljóp af stað. Leiðin var ekki svo stutt og á hlaupunum reyndi hann að muna eftir styttri leið upp í suðurturninn. Hann var svo djúpt hugsi að hann tók ekki eftir neinu í umhverfi sínu fyrr en hann féll allt í einu harkalega niður á gólfið. Fyrir ofan hann heyrðist kunnuglegur hæðnishlátur svo að Harry stökk upp á fætur. Fyrir framan hann stóð Draco Malfoy með hæðnissvip. ”Þú ættir kannski að passa þig betur Harry. Það mætti halda að þú værir eins lappalangur og fátæklingurinn vinur þinn.”. Harry hvæsti til baka: ”Þegiðu Malfoy, annars fer illa fyrir þér, ” og snerist á hæli. Þegar hann byrjaði að labba af stað fann hann hvað honum var illt í öðrum fætinum, nístandi sársauki sem fór beint upp í höfuð í hvert sinn sem hann steig í fótinn.
”Illa fyrir mér?” Drafaði í Malfoy fyrir aftan hann. ”Það ert þú sem átt eftir að vera í vondum málum. Þeir eru allir á eftir þér og Dumbledore getur ekki passað upp á þig, litla Harry sinn, mikið lengur.” Harry hélt áfram að ganga, hunsandi þennan óvin sinn.
Hann vissi vel hvað Draco var að tala um. Dráparana. Þó það hafi kannski ekki borið mikið á þeim núna undanfarinn mánuð þá voru þeir ennþá þarna úti. Þeir og Voldemort. En einhvern veginn vildi hann ekki hugsa um þetta. Honum leið undarlega vel, betur en honum hafði liðið seinastliðnu sex ár. Honum leið eins og hann þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur að neinu, eins og hann væri bara venjulegur strákur. Ekki Harry Potter með alla sína sögu á bakinu.
Harry klöngraðist upp stigann upp í Suðurturn með sársaukasvip. Hann hlaut að vera orðinn alltof seinn núna. ”Hvernig ætli prófessor Donahue taki á því þegar maður er seinn?” Hugsaði Harry. Hann gat vel ímyndað sér hvernig prófessor Illauga hefði tekið á því og eitt augnablik blasti við honum sú yndislega stund þegar Illauga breytti Draco í mörð. Harry brosti með sér er hann kleif upp seinustu tröppurnar. Hann gekk upp að hurð sem á var letrað með gylltum stöfum:
prófessor Cecilia Donahue
kennari í vörn gegn myrku öflunum.
Hann bankaði laust á hurðina og ákvað svo að ganga inn, hann var orðinn svo seinn að það gerði eflaust ekkert til. ”Fyrirgefðu að ég er seinn prófessor, ég…….” Hann snarstoppaði þegar hann sá Ariönu sitja fyrir framan Donahue. ”Ariana?” Stundi Harry upp. ”Hva….Hvað ert þú að gera hér?” Sagði hann hissa og horfði á þær til skiptis.
Ariana roðnaði og virtist ekki vita hvað að segja en Donahue stóð upp, brosandi. ”Sestu niður, Harry minn.”. Harry haltraði inn, lokaði hurðinni og settist niður við hliðina á Ariönu.
Prófessor Donahue settist niður fyrir framan þau og brosti. Ljóst hárið var greitt aftur í fléttu svo vel sást í álfaeyrun.
”Þú ert eflaust að velta fyrir þér af hverju Ariana er hérna á skrifstofunni hjá mér og af hverju við gengum saman inn í Stóra salinn í morgunn.” Sagði Donahue með sinni rólegu röddu. Harry kinkaði kolli og leit á Ariönu, sem starði niður á gólf.
”Ertu að yfirheyra hana líka?” Sagði Harry og fann reiðina gjósa upp innra með sér. Hann sem hélt að prófessor Donahue hefði trúað honum. ”Ertu fá hennar sögu á því sem gerðist?” Sagði hann aðeins reiðilegra heldur en hann hafði ætlað sér.
”Bíddu bara frammi, Ariana mín.” Sagði prófessor Donahue. ”Ég skal ræða við Harry núna og svo getið þið spjallað saman á eftir, ef það er eitthvað sem þið viljið ræða.”.
Arianda kinkaði kolli, stóð upp og gekk út án þess að líta á Harry. Hún lokaði hurðinni á eftir sér og Harry leit aftur á prófessor Donahue, sem horfði þungbúin til baka.
Þögnin var óbærileg fyrir Harry sem reyndi að halda augnasambandinu við Donahue, en gafst upp að lokum og leit undan.
”Það er ástæða fyrir því að Ariana hefur reynt að halda þessu leyndu.” Sagði prófessor Donahue loksins. ”Henni var ekkert sérstaklega vel tekið í gamla skólanum sínum í Salem þegar fólk frétti af þessu og hún vildi halda þessu leyndu hér.”.
Harry leit á kennarann og hafði ekki hugmynd um hvað hún væri að tala. Donahue virtist vita hvað Harry var að hugsa því hún brosti rólega til hans.
”Harry..” Sagði hún. ”Ariana Carmicheal er dóttir mín.”. Harry starði til baka, ótrúlega hissa. ”haaa?” Var það eina sem hann gat stunið upp og prófessor Donahue brosti til baka. ”Já, Ariana er dóttir mín. Hún hefur reyndar ekki álfaeyru eins og ég, því pabbi hennar var mannlegur. Við bjuggum saman í Salem og ég og stjúppabbi hennar vorum kennarar við skólann. Krakkarnir í skólanum voru ekki að taka því neitt sérstaklega vel að foreldrar hennar voru kennarar þannig að þegar mér bauðst þessi staða hér við Hogwarts þá ákváðum við að flytja hingað, við tvær.”
Harry kinkaði aðeins kolli. Hann var ennþá frekar hissa en nú fannst honum þetta allt passa. Hvíslið á milli Ariönu og Hermione; Hermione hlaut að vita af þessu.
”Segðu mér eitt, Harry.” Sagði Donahue. “Af hverju haltraðirðu hingað inn?” Harry leit á hana. “Dr…” byrjaði hann að segja en breytti frásögn sinni fljótt. ”Ég datt.” Hann nennti ekki að standa í neinu veseni með Draco núna, þetta voru hans orð gegn Dracos.
”Eigum við þá ekki bara að fresta þessum fundi okkar fram á mánudag. Ariana getur fylgt þér upp í sjúkrahúsálmuna og þú getur látið athuga fótinn á þér.” Harry kinkaði kolli og staulaðist á lappir. Fyrir utan sat Ariana á bekk. Þegar Harry gekk út stökk hún upp og horfði á hann. ”Ertu nokkuð fúll að ég sagði þér ekki frá þessu, Harry?” Sagði hún með örvæntingu. Harry horfði um stund á hana. Hún virtist svo áhyggjufull, en samt svo sæt. Hann brosti. ”Nei, ég er ekki fúll.” Sagði hann og Ariana andvarpaði. ”Ég var svo hrædd um að þú myndir ekki vilja vera vinur minn lengur út af þessu.” Sagði hún. ”Ég hef lent í því áður og þú ert orðinn svo góður vinur minn að ég vildi ekki missa þig. Þess vegna sagði ég þér ekki frá því.” Hún roðnaði aðeins og leit niður. Harry fann að hann roðnaði líka svo hann dreif sig að labba af stað í áttina að sjúkrahússálmunni. ”Ég þarf að skreppa upp í sjúkrahúsálmu að láta líta á fótinn á mér.” Sagði hann og leit aðeins við. ”Ég datt áðan. Viltu koma með?” Spurði hann og hélt áfram að haltra. Ariana skokkaði af stað á eftir honum og hægði á sér við hliðina á honum. ”Ég er svo ánægð að við erum ennþá vinir, Harry.” Sagði hún og greip undir hendi hans til að styðja hann. Harry brosti. ”Þú veist það þá núna að þú þarft ekki að halda neinu leyndu fyrir mér, Ron og Hermione. Við erum vinir þínir. Við erum hér fyrir þig til að treysta á.” Ariana þagði um stund en stöðvaði hann svo. ”Harry…” sagði hún. ”Það er svolítið sem ég vil þá segja þér. Ég veit að þér á eftir að bregða alveg eins og mér frá þegar pró…..” hún hikaði en hélt svo áfram: ”þegar mamma sagði mér þetta rétt áður en þú komst.” Hún leit aðeins í kringum sig, eins og til að athuga hvort einhver væri nálægt og hallaði sér svo nær honum.
”Ekki segja Ron og Hermione frá þessu…Ekki strax, alla veganna.” Hvíslaði hún og Harry kinkaði kolli. ”Harry, guðfaðir þinn…” Hvíslaði hún. ”Sirius Black, er faðir minn.” Hún hallaði sér frá honum og beit í neðri vörina á sér, bíðandi eftir viðbrögðum Harrys.