Já, tökur eru hafnar á fjórðu Harry Potter myndinni en samkvæmt heimildum mínum á hún að koma út á næsta ári, eða árið 2005. Leikstjórinn að þessu sinni er Mike Newell, 62 ára gamall Breti sem hefur leikstýrt um 71 leikverki, þar á meðal Mona Lisa Smile, Four weddings and a funeral og The Branch.
Nú, eins og flestir vita þá koma mjög margar nýjar persónur inn í fjórðu bókina sem við fáum að kynnast og gildir það sama, að sjálfsögðu, um kvikmyndina.
Förum aðeins yfir þá sem koma nýjir inn; Cho Chang, prófessor Karkaroff, Madame Maxime, Fleur Delacour, Victor Krum, Mad-Eye Moody, Barty Crouch, Barty Crouch jr. og svo auðvitað hinn eini sanni Cedric Diggory.
Eftir að hátt í 4000 stúlkur komu í áheyrnarprufu fyrir hlutverk Cho Chang's kom í ljós að 16 ára gömul stúlka frá Skotlandi, Katie Leung, hreppti hnossið. Leung er sögð vera fullkomin fyrir hlutverkið og er víst sjálf mjög spennt fyrir þessu verkefni.
Predrag Bjelac hlaut hlutverk prófessor Karkaroffs, en Bjelac hefur sjálfur leikið í tæplega tuttugu kvikmyndum. Ungir Íslendingar sem hafa séð myndina Euro Trip ættu kannski að kannast við hann sem ítalska gaurinn í Vatikaninu. ;)
Madame Maxime, sú gríðarstóra en jafntfram glæsilega kona, verður leikin af Frances de la Tour. Frances hefur leikið í mörgum sjónvarpsþáttum og nokkrum kvikmyndum, líkt og til dæmis nokkrum sjónvarpsmyndum gerðar eftir bókum Agöthu Christie og í sjónvarpsgrínþáttunum Rising Damp.
Brendan Gleeson er sá sem mun leika hið skemmtilega hlutverk prófessors Mad-Eye Moody. Gleeson hefur gert garðinn frægan í mörgum þekktum kvikmyndum, líkt og Troy, Mission Impossible 2, Cold Mountain, Gangs of New York og 28 Days later. Gleeson er 49 ára gamall Íri sem gerðist leikari 34 ára gamall eftir langan feril sem kennari.
Roger Lloyd-Pack leikur galdramálaráðuneytisstarfsmanninn (og fyrirmynd Percys)Barty Crouch, en Roger hefur leikið í m.a. Hamlet, Interview with the vampire og Oliver Twist.
Son hans, Barty Crouch jr., leikur David Tennant sem leikur í þáttunum Blackpool…
Franska válan og merkikertið Fleur Delacour er leikin af Clémence Poésy, sem hefur leikið í mörgum frönskum myndum eins og Petite Sæur og Bienvenue chez les Rozes, eða Welcome to the roses.
Í hlutverk Viktor Krums kemur svo algjörlega ókunnugur leikari að nafni Stanislav Ianevski, en eins og flestir vita þá er J.K.Rowling hrifnust af því að ráða óþekkta leikara í ýmis hlutverk eins og til dæmis þríeykið í kvikmyndunum.
Leikarinn ungi Robert Pattinson hefur svo verið ráðinn í hið mikilvæga hlutverk Cedric Diggorys, en myndin hér að ofan er einmitt af Pattinson.
Þó ungur sé að aldri hefur Pattinson nú þegar leikið í mynd með Reese Witherspoon og hefur nýlokið tökum á kvikmyndinni Kingdom in Twilight, sem er gerð eftir sögunni um Sigurð Fáfnisbana.
Sjálf get ég varla beðið eftir því að sjá 4.myndina og vona að hún sé eins góð (ef ekki betri) og 3.myndin, sem var náttúrulega bara glæsileg. ;)