Klukkan sjö á mánudagsmorgun hittist fríður en syfjaður hópur í anddyri Hogwartsskóla. Hermione var sú eina sem var fersk að sjá þar sem hún stóð tilbúin í sportlegum gráum og bláum íþróttagalla, tilbúin að takast á við fyrsta líkamræktartíma vetrarins. Ron leit út fyrir að hafa verið dreginn öfugur niður stigann, sem var svo sem ekki fjarri lagi. Harry og Neville höfðu þurft að leggja hart að honum að koma með og nánast dregið hann fram úr rúminu nokkrum mínútum áður. Ginny reyndi sitt besta til að líta út fyrir að vera vel vakandi þar sem hún stóð við hlið Hermione. Luna var aftur á móti nokkuð svipuð sjálfri sér nema með hárið tekið upp frá andlitinu í einhverja óreiðu á hnakkanum.
“Jæja, eigum við að leggja í hann?” spurði Hermione hress í bragði, “Við byrjum á rólegu skokki út á Quidditchvöllinn til að hita okkur svolítið upp og svo hlaupum við tvo hringi í kring um völlinn örlítið hraðar. Það ætti að duga svona fyrsta daginn,” sagði hún ákveðin á svip. “Þegar því er lokið gerum við nokkrar teygjuæfingar áður en við skellum okkur í sturturnar. Þegar við erum komin í betri þjálfun getum við farið að hlaupa fleiri hringi og bæta við æfingum. En ég ætla að vara ykkur við strax, þetta er erfitt fyrstu skiptin en það verður léttara eftir því sem við gerum þetta oftar.” Hún sneri sér við, opnaði dyrnar og skokkaði af stað með hópinn á eftir sér. Hermione, sem var í ágætis þjálfun eftir sumarið með mömmu sinni, virtist ekki eiga í miklum vandræðum þennan morgun. Harry, Ginny og Luna voru orðin frekar móð eftir fyrsta hringinn og farin að taka verulega á í lok þess seinni. Neville og Ron hins vegar voru nálægt því að gefast upp eftir hálfan fyrsta hringinn.
“Farið bara svolítið hægar,” kallaði Hermione hughreystandi til þeirra. “Þetta kemur allt saman, þið náið okkur fljótlega.”
Ron hrundi í jörðina við hliðina á Harry og Lunu sem voru að hjálpast að við teygjuæfingar, þegar hann loksins hafði lokið hringjunum tveimur. Harry horfði áhyggjufullur á hann þar sem hann lá og hélt um magann með heljarinnar hlaupasting og krampa í vinstri fæti. Neville settist móður og másandi við hlið hans en virtist þó ekki eins illa haldinn. Þegar Ron hafði jafnað sig og allir höfðu lokið við að teygja var haldið af stað á heimavistirnar til að fara í sturtu.
Stuttu síðar hittist hópurinn aftur við morgunverðarborðið, að Lunu undanskilinni, sem sat með sínum bekkjarfélögum við Ravenclawborðið.
“Úff, þetta var hryllileg pína,” sagði Ron sem enn var ósáttur við sína frammistöðu um morguninn.
“Þetta verður betra eftir því sem við gerum þetta oftar,” sagði Hermione hughreystandi, “fyrir jólin verður þú farinn að geta hlaupið minnst 10 hringi í kring um völlinn án þess að blása úr nös.” Ron leit á hana með vantrú í augum en brosti svo út í annað. Í því heyrðist mikill vængjasláttur og uglurnar flugu inn í salinn með morgunpóstinn. Hermione fékk sitt eintak af spámannstíðindum og hófst þegar handa við að lesa það. Hún hafði þó ekki komist lengra en að skoða forsíðuna þegar hún rak upp stór augu og hrópaði upp yfir sig af skelfingu.
“Hvað?” spurði Harry áhyggjufullur á svip. “Hvað gerðist?” Hermione leit upp og sneri blaðinu við til að hinir gætu séð forsíðufréttina:
VITSUGUR GERA ÁRÁS Á DUNDEE
Nú lítur út fyrir að vitsugurnar sem hurfu
frá Azkaban í vor hafi loksins látið til skarar
skríða. Í gærkvöldi lögðu þær bæinn
Dundee í Angussýslu undir sig. Dundee er
muggabær þar sem enginn galdramaður hefur
haft búsetu svo árum skiptir. Eins og vitað er
sjá muggar ekki vitsugur þó þeir finni
sannarlega jafn sterkt fyrir þeim og galdramenn.
Vitsugurnar virðast hafa gengið um bæinn og
veitt flestöllum bæjarbúum, ungum sem
öldnum, kossinn. Örfáir virðast hafa sloppið en
eru svo illa farnir á sálinni að ekki hefur verið
unnt að yfirheyra þá enn. Muggayfirvöld í
Skotlandi hafa lýst því yfir að hér sé farsótt
á ferðinni sem leggst á andlega líðan sjúklinganna.
Þeir halda að um einhverskonar smitsjúkdóm sé
að ræða.
Nýkjörinn galdramálaráðherra Arthur Weasley
sagði á blaðamannafundi í dag að ráðuneytið fylgdist
vel með gangi mála og nú þegar væru skyggnar frá
ráðuneytinu sveimandi um Angussýslu í leit að
vitsugunum. Auk þess hefðu útsendarar frá
ráðuneytinu komið þeim skilaboðum áleiðis til
muggalæknanna sem nú sinna íbúum Dundee
að súkkulaði sé mikil hjálp.
Spámannstíðindi munu flytja ykkur nánari fréttir af
gangi mála um leið og fréttir berast.
Harry starði á Hermione og vini sína skelfingu lostinn.
“Hvað ætlast hann fyrir?” sagði hann svo ringlaður á svip. “Hvers vegna að ráðast á heilt þorp fullt af muggum? Hvers vegna ekki Hogsmeade eða þorp þar sem galdramenn búa eða eru með mikilvæga starfsemi?
”Er það ekki augljóst?“ svaraði Hermione skelfd á svip. ”Hann ætlar að útrýma muggum!“ Harry missti gaffalinn sinn í gólfið og leit með hryllingi á Hermione,
”Útrýma muggum?“ endurtók hann í spurnartón, ”en hvers vegna?“
”Nú, ef honum tekst að útrýma öllum muggum þá eru bara blóðhreinir galdramenn eftir og engir nýjir “blóðníðingar” bætast í samfélag galdramanna,“ svaraði Hermione með viðbjóði.
Vinirnir sátu þöglir um stund og reyndu að koma niður morgunmatnum sem var ekki auðvelt eftir þessar fréttir. Hermione hélt áfram að blaða í Spámannstíðindum á meðan hún reyndi að borða. Eftir stutta stund leit hún upp og sagði,
”Hér eru allavegana ánægjulegri fréttir.“ Hún lyfti blaðinu upp og sýndi þeim litla grein sem laumað hafði verið aftarlega í blaðið.
AUKIN RÉTTINDI FYRIR VARÚLFA OG
AÐRA HÁLFMENNSKA
Arthur Weasley galdramálaráðherra hefur
nú afnumið reglugerð sem sett var fyrir
nokkrum árum af fr. Dolores Umbridge sem
skerti mjög réttindi varúlfa og annarra
hálfmennskra í samfélaginu okkar. Hr. Weasley
segir þessa reglugerð ómanneskjulega og brjóta
á þeim sem minna mega sín. Í staðinn hefur tekið
gildi ný reglugerð samin af nýráðnum ráðherra
yfir réttindum hálfmennskra, Remusi Lupin.
Hr. Lupin er sjálfur varúlfur og þekkir því
betur en aðrir hvar mesta þörfin er fyrir breytingar.
Hann hefur nú komið á fót alls kyns samhjálparhópum
fyrir varúlfa og aðra hálfmennska. Hann segir að
hálfmennskir þurfi gjarnan stuðning frá öðrum í
svipuðum aðstæðum og þurfi á skilningi í samfélaginu
að halda. Sér í lagi þurfa muggar sem hafa verið
bitnir af varúlfum að fá fræðslu og stuðning við að
útskýra ástand sitt fyrir sínum nánustu. Auk þess
hafa nýjar tunglskinskytrur verið byggðar. Þær nýju
eru talsvert vistlegri en þær gömlu voru og öllum
varúlfum býðst nú að fá úlfsmáraseyði í vikunni
fyrir fullt tungl til að auðvelda þeim umskiptin.
Við megum vænta mikils af þessum nýja ráðherra
og Spámannstíðindi munu fylgjast spennt með þeim
breytingum sem þetta nýja fyrirkomulag kemur til
með að valda.
”Jæja, það eru þó gleðifréttir,“ samþykkti Neville sem hingað til hafði verið hljóður við matarborðið.
”Já, Lupin á þetta hlutverk svo sannarlega skilið og það getur eflaust enginn gert þetta betur en hann,“ svaraði Ron. Hin samþykktu þetta með því að kinka kolli en nú var morgunmaturinn á enda og þau hröðuðu sér í tíma.
Fyrsti tími strákanna þennan morgun var tvöfaldur töfraseyðatími. Þeir skildu því við Hermione sem var á leið í sögu galdranna og héldu niður stigana í átt að töfraseyðastofunni. Ron stundi reiðinnar ósköp yfir þessum óförum þeirra,
”Tvöfaldur tími hjá Snape!“ Harry samsinnti honum einungis lítillega. Þó að nú væri önnur vika skólaársins hafin hafði Harry ekki enn farið í töfraseyðatíma. Hann hafði verið á sjúkraálmunni þegar hann átti að vera í fyrsta töfraseyðatíma vetrarins. Það yrði skrýtið að vera í tíma hjá Severusi Snape nú þegar þeir voru orðnir ágætir vinir utan skólastofunnar. Skyldi hann vera öðruvísi í tímum núna eða myndi hann halda áfram að vera hinn kaldi prófessor Snape? Hann hafði enn ekki sagt Ron og Hermione frá því sem Snape hafði sagt honum og sýnt honum í þankalauginni og hann var ekki viss um að hann ætlaði að gera það. Honum fannst hann hafa brugðist Snape í fyrra þegar hann leit í þankalaugina í leyfisleysi. Nú hafði Snape treyst honum og hann ætlaði ekki að bregðast því trausti. Hann hafði ekki heldur sagt Ron frá fundi Snapes og Aniku á skrifstofunni en það var önnur ástæða fyrir því. Hann hreinlega þorði ekki að vera sá sem segði Ron frá því. Hann vissi að Ron yrði eflaust æfur því ef samband þeirra gengi upp myndu þeir Snape verða tengdir fjölskylduböndum. Harry glotti út í annað, Ron yrði ekki of ánægður með það hlutskipti og hvað þá tvíburarnir.
Þeir gengu inn í töfraseyðastofuna og fundu sér sæti. Í fyrsta skipti á þeirra skólagöngu voru þeir ekki í töfraseyðatímum með Slytherin nemendunum, Ron og Neville til mikillar ánægju. Harry gat ekki varist því að vera örlítið létt, þarna var þó einn vettvangur þar sem hann þurfti ekki að leika óvin Dracos. Í ár voru færri nemendur sem voru í töfraseyðatímum en venjulega vegna valkerfisins. Af Gryffindornemum voru einungis strákarnir þrír og Parvati Patil sem höfðu valið töfraseyði. Það voru álíka margir frá Ravenclaw en örlítið fleiri frá Hufflepuff og var þessum heimavistum því öllum þremur kennt saman. Slytherin nemarnir höfðu hinsvegar nánast allir valið töfraseyði, eflaust vegna þess að Snape var yfirmaður heimavistarinnar þeirra, og þeim var því kennt sér.
Harry og Ron settust saman aftarlega í stofunni. Fyrir framan þá settist Neville við hlið Terry Boot úr Ravenclaw. Fyrir aftan þá sátu svo systurnar Parvati og Padma Patil. Harry fannst hálf skrýtið að vera með Ravenclaw nemum í tímum, það hafði aldrei gerst áður, nema í V.D. og þá var hann kennarinn. Þetta lagðist bara vel í hann.
Nú kom prófessor Snape strunsandi inn í stofuna og bauð þeim góðan dag með ákveðinni og tilfinningasnauðri röddu.
”Í dag ætla ég að kynna fyrir ykkur notagildi aconite plöntunar eða munkahettublómsins eins og sumir kjósa að kalla hana. Þetta er baneitruð planta svo farið varlega ef þið viljið halda lífi,“ sagði hann um leið og hann dreifði plöntum á borðin hjá nemendum sínum. Nemendurnir hörfuðu og drógu að sér hendurnar, enginn þorði að snerta á plöntunum.
”Hver getur sagt mér frá einhverjum af notagildum þessarar plöntu?“ spurði Snape yfir bekkinn og leit ekki út fyrir að búast við svari. Öllum að óvörum rétti Neville skjálfandi upp höndina. Snape leit undrandi á hann og kinkaði kolli til hans með vantrú,
”Longbottom?“ Neville lét höndina síga og svaraði óstyrkri röddu,
”Hún er notuð í úlfsmáraseyði.“ Snape virtist jafnvel enn frekar brugðið við þetta svar og kinkaði kolli,
”Þetta vissirðu,“ svaraði hann hissa, ”og það án hjálpar fröken Granger sem virðist ekki hafa valið þetta fag,“ bætti hann við með vanþóknun í röddinni.
”Aconite plantan er vissulega notuð í úlfsmáraseyði, 10 stig fyrir Gryffindor, hr. Longbottom,“ hélt Snape áfram en Harry tók eftir því að hann varaðist að láta röddina hljóma of vingjarnlega en ólundin í rödd hans hljómaði fremur fölsk. Neville roðnaði allur þar sem hann sat fyrir framan Harry og virtist hreinlega stækka um nokkra sentimetra.
Snape hélt áfram fyrirlestri sínum,
”Úlfsmáraseyði er mjög flókið seyði sem fáir ná tökum á að brugga. Þið munið þó gera ykkar besta til að ná tökum á því en það verður ekki fyrr en seinna í vetur. Nú fer að verða mun meiri þörf fyrir þetta seyði þar sem öllum varúlfum er nú boðið upp á að neyta þess fyrir fullt tungl og því veitir ekki af fleirum sem geta bruggað það. Það er ekkert víst að þið náið því í vetur og reyndar efast ég um að mörgum ykkar takist það en það verður að koma í ljós.“ Hann leit hvasst í áttina til Gryffindorstrákanna sem allir höfðu fengið undanþágu til að sitja þessa tíma. Harry varð hálfvandræðalegur á svip, hann ætlaði að standa sig í vetur, það var á hreinu. Hann ætlaði að sýna Snape að hann gæti gert allt sem hann tæki sér fyrir hendur, að hann hefði átt skilið að fá undanþáguna.
”Í dag ætlið þið að kynnast öðru notagildi plöntunnar en hún er til ýmissa fleiri hluta nytsamleg. Í fyrsta lagi er hún banvæn öllum þeim sem eru nógu fávísir að setja hana upp í sig, þó ekki sé nema að litlu leyti, án þess að meðhöndla hana rétt fyrst. Passið því vel að stinga ekki höndunum upp í ykkur eftir að hafa meðhöndlað plöntuna,“ sagði hann í varúðartón. ”Í dag ætlum við að útbúa nokkurskonar nuddolíu og setja Aconite plöntuna saman við hana. Þessi olía getur dregið verulega úr verkjum í aumum liðum, hvort sem er vegna gigtar, áreynslu, bólgu eða tognunar. Þó þarf að gæta ítrustu varkárni því ef plantan, eða olían fullgerð, kemst í snertingu við opið sár er bráður bani vís.“ Snape hélt áfram að útskýra undur þessarar plöntu og skrifaði svo leiðbeiningar um gerð olíunnar á töfluna og nemendurnir hófust handa við að vinna verkefnin sín.
Tíminn leið hratt og í lok tímans voru allir enn á lífi, sem var góðs viti, og flestum hafði tekist að útbúa olíu af nokkurnvegin réttum gulum lit. Olían hans Nevilles var reyndar talsvert skærari en olía hinna og nánast appelsínugul. Snape horfði með vanþóknun á flöskuna hans og hristi höfuðið þegar hann skilaði henni inn. Neville greyið sem hafði verið svo ánægður í byrjun tímans var nú aftur orðinn álútur og flýtti sér sem mest hann mátti út úr stofunni. Harry og Ron flýttu sér á eftir honum og þeir voru allir samferða í hádegisverð í stóra salnum þar sem Hermione beið þegar eftir þeim.
Dagurinn gekk hratt fyrir sig og fljótlega var komið að síðasta tíma dagsins, umönnun galdraskepna. Harry var með dálítinn hnút í maganum því hann vissi að hann þyrfti að slást í lok tímans. Hann var samt ekki viss hvernig best væri að koma slagsmálunum af stað. Hann vonaði bara að Draco hefði góðar hugmyndir og myndi byrja. Þau komu að kofa Hagrids sem beið eftir þeim á flötinni fyrir utan. Hermione tók allt í einu andköf og greip í Harry og Ron sem voru sitthvoru megin við hana. Harry leit upp og sá risastóran silfurbláan dreka standa við hlið Hagrids. Honum krossbrá,
”Ó, nei,“ heyrði hann Ron tauta við hlið sér en hann veitti því athygli að drekinn var furðulega kyrr.
”Þetta er allt í lagi,“ sagði hann, ”hann er ekki lifandi. Hann er uppstoppaður eða eitthvað svoleiðis.“ Hermione og Ron vörpuðu öndinni léttar í sama mund og Draco Malfoy gekk fram hjá.
”Hræddur við litla drekann, Weasley veslings væskill?“ spurði hann í háðstón og Slytherin nemarnir allt í kring um hann ráku upp hæðnishlátur. Ron rauk til og greip sprotann sinn. Harry greip inn í og stöðvaði Ron.
”Hann er ekki þess virði,“ sagði Harry lágt í róandi tón. Innra með sér hugsaði hann, bíddu með það Malfoy, ég má ekki lemja þig strax.
”Komið nær, komið nær,“ kallaði Hagrid til nemenda sinna og þau nálguðust hægt og rólega. ”Í dag ætlum við að læra um dreka og hvernig best er að meðhöndla þá. Hér sjáið þið Sænska Flatnefju sem eins og nafnið gefur til kynna er ættuð frá Svíþjóð. Sænska Flatnefjan er með sterkari skráp en nokkur annar dreki og það er skal ég segja ykkur þó nokkuð. Allir drekar eru með sérstaklega góðar varnir í hreistri sínu sem ver þá gegn eldi og öllum þeim bölvunum sem hægt er að ímynda sér. Þessvegna er drekaskinn mjög eftirsóknarvert til nota í skikkjur, skó, hanska og allskyns annarslags hlífðarfatnað.“ Hagrid gekk að drekanum og benti nemendum sínum að koma nær til að sjá betur. ”Ef betur er að gáð sjáum við þó að á nokkrum stöðum er brynjan veikari og þar er hægt að hafa áhrif á drekann. Hér undir framfótum þeirra, þar sem handarkrikinn væri ef þeir hefðu nú hendur, er gat í brynjunni og þar eru þeir viðkvæmir. Eftir hryggjarsúlunni er líka lítið bil og þar sem vængirnir koma út frá bakinu er stærra svæði sem er óvarið. Þessir blettir eru einu staðirnir sem hægt er að koma höggi á nokkurn dreka.“ Harry færði sig nær til að sjá betur, hann hafði aldrei tekið eftir því áður en viðkvæmu svæðin voru örlítið dekkri á litinn en þau sem betur voru varin.
”Jæja,“ hélt Hagrid áfram, ”Nú vil ég að þið takið fram verkefnabækurnar ykkar og flettið upp á blaðsíðu 54 og leysið verkefnið um Sænsku Flatnefjuna. Þið getið skoðað þessa betur til að svara ákveðnum spurningum í verkefninu. Ef ykkur vantar aðstoð þá hóið þið bara í mig.“ Allir tóku upp verkefnabækurnar sínar og unnu verkefni sín af miklum áhuga. Meira að segja Slytherinnemendurnir virtust fullir áhuga í þetta sinn og reyndu ekki að gera lítið úr Hagrid.
Þegar tíminn var á enda, sem að mati Harrys var allt of fljótt, héldu Harry, Ron og Hermione samferða upp að kastalanum. Í humátt á eftir þeim fylgdi svo Draco Malfoy með sitt fríða fylgdarlið. Harry fann að hann var farinn að svitna í lófunum af taugaspenningi. Þegar þau gengu inn í anddyri skólans heyrði Harry að hópurinn að baki þeim var að pískra eitthvað og hann heyrði Parvati Patil flissa. Allt í einu heyrði hann rödd Dracos kalla eitthvað sem hann skildi ekki alveg og í sama mund fann hann kaldan gust leika um sig allan. Hann leit niður og sá að skikkjan hans sveif léttilega upp um hann rétt eins og hann hafði séð kjól Marilyn Monroe á myndum. Hann reyndi ákaft að halda skikkjunni niðri til að fela gráar, ljótar nærbuxurnar sem eitt sinn höfðu verið af Dudley, en það gekk illa. Allt í kring um hann heyrði hann nemendur skólans hlæja að honum. Hermione steig hratt fram með sprotan sinn og hrópaði
”Finite incantetem!“ Í sama mund féll skykkjan aftur eðlilega niður að ökklum hans. Hann leit upp og horfði reiður í augun á Draco sem glotti til hans og kinnkaði kolli svo lítið að það var varla hægt að greina það. Harry tók undir sig stökk og réðst á hann með hnefana á lofti og rak honum bylmingshögg á vinstri vangann. Draco flaug aftur fyrir sig á gólfið en rauk jafnskjótt upp aftur og kýldi Harry beint í magann. Í sama mund kom prófessor Snape askvaðandi upp stigann sem lá frá dýflyssunum.
”Potter, Malfoy,“ sagði hann strangri röddu, ”hvað gengur hér á?“ Harry og Draco slitu sig lausan hvor frá öðrum og reyndu að standa sperrtir. Það gekk betur hjá Draco sem þó var farinn að bólgna verulega í kring um vinstra augað en Harry átti í mestu vandræðum með að rétta almennilega úr sér. Hvorugur svaraði spurningu prófessorsins.
”Jæja, þið ráðið hvernig þið viljið hafa þetta,“ hélt Snape áfram, ”annað hvort svarið þið mér eða þið fáið eftisetu á hverju kvöldi næsta mánuðinn, hjá mér,“ bætti hann við með ógnvænlegri röddu.
”Malfoy byrjaði,“ kallaði Hermione, Harry að óvörum. Hann fann hjartað fara að slá örar, nú myndi Hermione klúðra öllu saman.
”Fröken Granger,“ sagði Snape kuldalega, ”ég man ekki eftir að hafa verið að ávarpa þig. Þú skalt halda þig utan við þetta ef þú vilt ekki fá eftirsetu sjálf.“ Hermione hörfaði lítillega og lokaði munninum skömmustuleg á svip.
”Jæja drengir, við sjáumst þá annað kvöld," hélt Snape áfram og leit út fyrir að njóta sín í botn.