Fyrsta kennslustundin eftir veikindin var jurtafræði, tvöfaldur kennslutími. Amanda og vinir hennar gengu út í gróðurhús nr. 4 þar sem Spíra prófessor tók á móti þeim. Gróðurhúsið var galtómt. Flestir voru undrandi á svip.
“Jæja, krakkar mínir. Í dag verður kennslustundin með svolítið öðru sniði en venjulega þar sem við ætlum að takast á við mjög erfiða og vandmeðfarna plöntu. Fyrri tíminn verður þá hafður bóklegur og sá seinni verklegur. Svo að núna skulum við fara aftur upp í skóla í kennslustofu nr. 12 á jarðhæðinni og fræðast svolítið um þessa plöntu. Allt í lagi? Skilja allir?”
“Já, Spíra prófessor,” svöruðu allir í kór.
“En Spíra prófessor, um hvaða plöntu ætlum við að fræðast?” spurði Amanda.
“Það segi ég ykkur þegar við komum kennslustofuna. Svona nú, farið þið af stað.”
Krakkarnir röltu af stað aftur í skólann, fundu stofu nr. 12 og fengu sér sæti. Svo kom Spíra prófessor inn.
“Já, ég held að mörg ykkar séu orðin spennt yfir að fá að vita um hvaða plöntu við ætlum að tala um í dag, er það ekki rétt hjá mér?”
Margir kinkuðu ákaft kolli.
“Nú jæja, við ætlum að fræðast um Jökulrósina.”
Í fáeinar spennuþrungnar sekúndur var dauðaþögn í kennslustofunni. Svo tóku nokkrir krakkar andköf. Amanda vissi ekki neitt, hafði ekki neina hugmynd um hvað jökulrós væri.
“Jökulrósina?” spurði Lissý vantrúuð, “ekki þó…JÖKULRÓSINA?”
“Jú, fröken Brocks, ég ætla að fræða ykkur um jökulrósina. Hún er venjulega ekki tekin fyrir fyrr en á U.G.L. uprófsárinu ykkar, en þar sem það er á næsta ári fannst mér ekkert að því að undirbúa ykkur dálítið fyrir það. Hvernig líst ykkur á?”
Það upphófst mikið skvaldur og kliður fór um bekkinn. Loks þögnuðu allir og flestir kinkuðu kolli, eða sögðu já, hátt og snjallt.
“Jæja, fínt er,” sagði Spíra prófessor. “Jökulrós, eða Rosa Azalea, er af rósaætt og vex bara villt á Balkanskaga, það er að segja í Rúmeníu, Búlgaríu, Albaníu, Serbíu og löndunum þar í kring. Fyrir um 280 árum var fyrsta jökulrósin ræktuð í Bretlandi. Það var Dilys Derwent, skólastýra Hogwartskóla og græðari á Sankti Mungo-sjúkrahúsinu, sem gróðursetti fyrstu plöntuna af þessari tegund hérna. Hún hafði farið til Búlgaríu og tekið eina plöntu með sér heim. Jökulrósin er lágvaxin jurt, með beitta þyrna, beittari en á öðrum rósategundum, og krónublöðin eru ísblá með hvítri rönd yst á blöðunum. Eru ekki allir örugglega að glósa niður hjá sér?” Það síðasta sagði hún frekar hvasst um leið og hún skimaði yfir bekkinn, hún hafði greinilega tekið eftir því að flestir horfðu bara stíft á sig, sumir höfðu jafnvel ekki haft fyrir því að taka upp fjöðurstafina. Eftir fáeinar sekúndur hélt hún svo áfram:
“Jæja, hvert var ég komin, já, það sem þarf að hafa mjög ofarlega í huga þegar jökulrósum er umpottað er að brjóta ekki þyrnana. Ef það gerist visnar plantan og deyr. Jökulrósin hefur gífurlegan lækningamátt, sem hefur verið þekktur í aldaraðir. Sígaunar sem halda til í Rúmeníu nota jurtina mjög mikið í jurtaseiði og smyrsl, íbúar fjallaþorpanna í Búlgaríu nota hana einnig mikið og aðalsmenn í norðurhluta Grikklands búa til rósavín úr rósaknúbbunum sem þeir kalla jöklavín og hefur styrkjandi mátt, bæði fyrir líkama og sál.”
Spíra prófessor tók sér stutta málhvíld. Það eina sem heyrðist var skrjáfið í mörgum fjaðrapennum. Amanda rétti upp hönd.
“Hvað var það, fröken Lockhart?”
“Hvers vegna er jurtin kölluð jökulrós, prófessor? Hún vex ekki beint á köldu svæði…”
“Aha, mjög góð spurning fröken Lockhart, góð og áhugaverð. Það er til saga, ævaforn saga, um að einhverntíman í fyrndinni hafi verið uppi galdramaður að nafni Igor Azelevijsk. Hann var moldríkur og átti heima á glæsilegu óðali í Suður-Rúmeníu. Hann var víst ástfanginn af muggakonu, sem átti heima í Kajena sem er lítið hérað í Búlgaríu. Galdralögin á þessum tíma voru þannig, að galdramenn máttu ekki giftast muggakonum. Þessi muggakona var víst ekki ástfangin af honum og hljópst á brott með öðrum manni, mugga, sem hún hafði elskað lengi. Azelavijsk harmaði þetta mjög og til að hefna sín á konunni leitaði hann ráða hjá sjálfu Frostinu sem ráðlagði honum að leggja álög á rós eina, sem voru þannig að hver sú kona sem fengi þessa rós gefna frá öðrum manni skyldi verða fangi Frostsins að eilífu. Azelevijsk ætlaði að leita muggakonuna uppi og gefa henni rósina, og þannig hefna sín á þeirri ísköldu ákvörðun sem hún hafði tekið, þ.e. að hlaupast á brott. Það tókst hjá honum og eftir þetta spurðist aldrei meir til muggakonunnar, það var eins og hún hefði bara hreinlega gufað upp. Azelevijsk hinsvegar læsti sig inni á óðalinu sínu, talaði aldrei við nokkurn mann, fiktaði við svartagaldur lengst ofan í dimmum kjallarahvelfingum og dó, fjörgamall. Þess vegna er jurtin kölluð jökulrós, því samkvæmt sögunni verða allar konur hnepptar í þessi álög sem muggakonan var hneppt í, þ.e. að verða að eilífu fangi Frostins, ef karlmaður gefur þeim jökulrós.
Þegar Spíra lauk máli sínu heyrðust andvörp frá sumum stelpunum, Lissý sagði: “Ó, en hvað þetta var rómantískt!”
Það hnussaði í Will; “Hvernig getur það verið rómantískt ef maður kemst að því að sú sem maður elskar elskar mann ekki til baka og hverfur svo með öðrum manni? Það get ég bara ekki skilið.”
“Þú ert þá gjörsamlega tilfinningalaus, Will. Og svo segir maður ekki elskar til baka.”
“Nú, hvað segir maður þá? Hefur þú kannski lent í þessu sjálf Lissý?”
Lissý varð eldrauð í framan og horfði á Will með eitruðu augnarráði. Amanda ákvað að taka upp hanskann fyrir vinkonu sína og sagði:
“Æ, láttu ekki svona Will, sérðu ekki að þú hefur sært hana? Í sambandi við þetta ‘elska til baka’ þá segir maður venjulega endurgoldin ást, eða eitthvað í þá áttina.”
Will muldraði eitthvað óskiljanlegt ofan í glósurnar sínar og þagði svo.
“Jæja, ef þið hafið þá lokið ykkur af við að ræða svona kurteislega saman þá langar mig núna…já, hvað var það, fröken Lockhart?”
Höndin á Amöndu hafði rétt í þessu skotist upp, hún var með eina spurningu sem brann á vörum hennar:
“Spíra prófessor, er þetta bara hjátrú eða er þetta satt, þetta með álög jökulrósarinnar?”
“Jah, það er allavega sagt að ef konu er gefin jökulrós eftir miðnætti en fyrir dagrenningu, þá breytist hún þannig, í hverjum mánuði frá miðnætti að dagrenningu, á sama mánaðardegi og hún fékk rósina,að hárið verður silfrað, húðin næstum gegnsæ, augun og varirnar ísblá og mikinn kulda leggur frá henni. Allt sem hún snertir frýs. Þó að sumir segi að þetta sé satt held ég nú samt að þetta sé bara hjátrú til að hræða ungar og ógiftar konur. En ég mundi samt aldrei prófa þetta, aldrei í lífinu. Það gæti verið eitthvað sannleikskorn í þessu.”
Amanda, Lissý og Helen gjóuðu augunum á hver aðra. Hver og ein hugsaði sitt…
“Jæja, fyrri tíminn er víst liðinn, komið þá öll á eftir mér aftur niður í gróðurhús nr. 4. Á eftir mér sagði ég, herra McHein, ertu með banana í eyrunum? Á EFTIR MÉR, EKKI HLAUPA Á UNDAN…”
Amanda, Lissý og Helen ráku lestina og töluðu saman í lágum hljóðum:
“Hvað fannst ykkur?” spurði Amanda.
“Um hvað? Þegar Will (hún gretti sig þegar hún sagði nafnið hans) niðurlægði mig fyrir framan alla eða þegar þessi McHein strákur var næstum búinn að hlaupa á Spíru?” spurði Lissý önuglega, greinilega ennþá reið út í Will.
“Ertu ekki að tala um jökulrósina?” spurði Helen.
Amanda kinkaði kolli. “Jú, ég var að spá í, hvað ætli sé satt í þessu og hvað ekki? Ég meina í álögunum sko…”
“Ég veit ekki, en ef þetta er satt, ef maður breytist í fanga frostsins, ja, eiginlega bara frostið sjálft, þá hlýtur það að vera alveg hræðilegt,” sagði Helen.
“Já, örugglega. Það væri gaman að komast að því,” sagði Amanda hugsandi.
“Hvernig ætlarðu að komast að því? Kannski með því að auglýsa í blöðunum eftir einhverjum sem breytist í frost mánaðarlega?” sagði Lissý í fýlutón.
“Æ, Lissý, ekki láta það bitna á okkur þó þú sért í fýlu út í Will,” sagði Helen þreytulega. Lissý gaut augunum reiðilega á hana. Svo sagði hún, eins og ekkert hefði í skorist:
“Nei, pælið í því. Sjáið það ekki fyrir ykkur? Fyrirsögnin á auglýsingu í Spámannstíðindunum: UNG OG FORVITIN STÚLKA LEITAR AÐ KONU SEM BREYTIST Í FROST Í HVERJUM MÁNUÐI. “ Hún sagði þetta með leikrænum hreyfingum.
Amanda og Helen hlógu. Lissý gat stundum verið svo fyndin þó hún væri í fýlukasti.
Í verklega jurtafræðitímanum umpottuðu krakkarnir jökulrósum og skáru af hluta af hverri rós sem var síðan þurrkað. Seinna áttu þau svo að læra að nota plöntuhlutana í lækningaskyni. Þetta var langt í frá þögul kennslustund. Alltaf mátti heyra allskonar upphrópanir:
“Já, það tókst… – æi, hún visnaði…”
“Oh, ég næ þessu aldrei…..Spíra prófessor má ég fá aðra rós…”
“Loksins….”
“Haha, þú færð sko ekki að visna hjá mér,”
“Átsj, ég stakk mig…”
“Nei, nei…..jú - jess!”
Og þannig leið tíminn.
—–
“Hei, ég er með hugmynd…,”
Will, Mike, Helen, Lissý og Louise sneru sér öll að Amöndu með forvitnissvip. Kvöldmaturinn var liðinn og þau sátu í setustofu Gryffiidors og unnu heimavinnuna.
“Sko,” byrjaði Amanda, “við erum öll að læra á hljóðfæri, er það ekki?”
“Uh…jú,” sagði Will, “en hvað kemur það málinu við?”
“Uss, bíddu rólegur, ég er að koma að þessu.”
Jú, það var satt, allir í vinahópnum lærðu á hljóðfæri; Amanda og Mike lærðu á gítar, Helen á klarinett, Lissý á þverflautu, Louise á píanó og Will á trommur.
“Og við fáum enga kennslu hér í skólanum, við lærum bara á sumrin, ekki satt?”
Hin kinkuðu kolli til samþykkis.
“Hvað finnst ykkur þá um að við stofnum okkar eigin tónlistarklúbb? Væri það ekki sniðugt?” Amanda horfði brosandi á þau.
Það var þögn í nokkrar sekúndur á meðan hin hugsuðu og svo…
“Jú, það er frábær hugmynd” sögðu þau, næstum öll í kór.
“En þarf ekki að fá eitthvað sérstakt leyfi fyrir því að stofna klúbb?” spurði Louise.
“Jú, alveg örugglega, en það ætti ekki að vera neitt mikið mál,” sagði Amanda í léttum tón.
“En hvar eigum við að fá hljóðfæri? Eða stað til að æfa okkur?” Louise efaðist um að þetta gæti gengið.
Amanda hikaði aðeins en þá sagði Helen:
“Við hljótum að geta reddað okkur hljóðfærum. Við getum örugglega látið senda okkur gítarana, klarinettið og þverflautuna og það er alveg örugglega til píanó hérna í skólanum – kannski pínu erfiðara með trommurnar…”
“Stelpur, eruð þið ekki ennþá búnar að komasta að því að við erum í GALDRASKÓLA? Ef Dumbledore eða McGonagal samþykkir þetta þá geta þau ábyggilega fengið hljóðfæri fyrir okkur.” sagði Will.
Þau ákváðu að fara til McGonagal næsta dag.
Loksins kemur næsti kafli, endilega segið ykkar skoðun - allar skoðanir vel þegnar!!
Love is patient, love is kind. It does not envy, it does not boast, it is not proud . . . Love never fails.