Ég hef margt að segja um þennan, sem og komandi, kapítula. Ég skrifaði hann og Tzipporah var svo væn að fara yfir hann. :) Svo áttaði ég mig á því, að það vantaði stórt atriði svo ég bætti því við. (Sá hluti er óyfirfarinn.) En þá var hann orðinn svo fáránlega langur að ég varð að klippa hann aftur. Útkoman er sem sagt tveir blandaðir kaflar og hér er annar þeirra. Vonandi er útkoman í lagi.
Svo vil ég tilkynna það, að mér hefur verið boðinn aðgangur að áhugaspunakubbnum og að þið tryggu lesendur (hvað eruð þið mörg? 3?) verðið héðan af að kíkja þangað, til þess að lesa um Harry, Ron, Laufeyju og hin. :D Ég er svo stolt!
E.S. Hvað finnst ykkur um lengdina á þessum kapítula?
Ellefti kapítuli
Óræðar draumfarir
Á mánudeginum var fyrsta Quidditchæfing Gryffindorliðsins. Harry hafði undirbúið hana daginn áður, úti í sólinni, sitjandi undir sama trénu og hann hafði séð pabba sinn, Sirius, Lupin og Peter Pettigrew sitja undir í minningu Snapes. Þökk sé Hermione og heimavinnuáætlunni hennar, hafði hann haft alla helgina lausa og gat notað tímann í Quidditchundirbúning og skemmtan.
Strax eftir síðasta tímann á mánudeginun hófst æfingin. Það var sól og logn svo Harry rétti öllum derhúfur til þess að þau fengju sólina ekki eins mikið í augun. Meir en helmingur liðsmanna voru nýjir: Andrew Kirke hafði aftur verið valinn í varnarmannastöðuna, enda hafði hann stórbætt sig yfir sumarið, en með honum var núna Taliesin MacFly, svarthærður strákur á öðru ári, sem minnti Harry soldið á hann sjálfan þegar hann var að byrja. Sóknarmennirnir, auk Katie, voru Ginny Weasley og langur og mjór fjórðaársstrákur, ljóshærður með gleraugu að nafni Peter Wells.
„Vá,“ sagði Katie, „Það er langt síðan það voru svona fáar stelpur,“ þótt það munaði nú bara einni.
„Jæja,“ sagði Harry þegar allir voru búnir að kynna sig, „Einfaldasta leiðin til þess að byrja er… að byrja á því að spila einn leik.“
Þau skiptu liðinu í tvennt og spyrntu sér af stað.
Eftir tíu mínútur komst Harry að því að hann varð að breyta aðferðum sínum við æfingar, nú þegar hann var orðinn fyrirliðinn. Nú þurfti hann nefnilega að fylgjast með hinum liðsmönnunum betur til þess að geta bent þeim á hvað þau gerðu vel og hvað mætti bæta. Hann horfði á liðið þaðan sem hann sat á kústinum sínum, hátt yfir markhringjunum og fylgdist með þeim. Þetta gat ekki gengið betur, fullkomin fyrsta æfing, sem myndi hækka sjálfsálit liðsmanna og þar með treysta leikhæfni þeirra. Harry brosti og leit yfir Hogwartsgrundir og Forboðna skóginn. Sólin glampaði á vatninu og efsta hluta turnanna og örlítil gola þarna uppi í háloftunum, kældi sveitta leikmennina í hita leiksins.
Þetta er lífið, hugsaði Harry með sér, svona á þetta að vera!
Hann leit yfir breiðan jaðar skógarins og varð hugsað til allra ævintýranna sem hann hafði lent í, þarna fyrir innan.
Samt er óleyfilegt að fara þangað inn.
Hann tók vart eftir því en gæsahúðin aftan á hnakkanum lét hann vita að hann hafði rekið augun í eitthvað sem glampaði á. Þegar hann skoðaði betur sá hann að ekki var um að villast, þetta voru tvö stór glitrandi augu sem störðu upp til hans úr svörtu loðnu hundsandliti.
Harry saup hveljur. Hann hafði næstum sannfært sjálfan sig um að í hitt skiptið hefði hann bara séð ofsjónir en nú sá hann hann aftur.
„Ron!“ hrópaði hann upp yfir sig og þusti niður á við í átt til gæslumannsins, „Ron, sjáðu Snata!“ Hann tók ekkert eftir því hversu asnalega hann hljómaði, hann gætti þess bara vel að hundurinn hyrfi ekki úr augsýn, áður en hann gæti bent Ron á hann.
“Ron sjáðu! Þarna! Þarna! Líttu við!“ Harry greip í vin sinn og var næstum búinn að rífa hann af kústinum. “Líttu…“ Ron leit augnabliki of seint við, Snati var farinn inn í skóginn á ný.
„Hvað Harry? Hvert á ég að horfa?“ spurði Ron áttavilltur.
„Hann var þarna, hann snéri við!“ sagði Harry vonsvikinn og leitaði eftir silfruðum augunum í skógarjaðrinum.
Æfingunni var slitið. Harry var í of miklu uppnámi til þess að geta haldið áfram. Hann tók sturtu á mettíma og dró Ron á eftir sér í gegn um allan skólann og upp á bókasafn, þar sem þeir hittu fyrir Hermione og Laufeyju sem voru að lesa varnir gegn myrku öflunum saman. Sú yngri virtist í vandræðum.
„Harry!“ sagði Laufey og lýstist öll upp.
„Laufey!“ sagði Ron móður og lagaði bindið.
„Hermione!“ sagði Harry í skipunartón, „Við þufum að tala við þig. Núna.“ Svo dró hann hana frá Laufeyju og upp í Gryffindorturn.
„Hvar er Neville? Hann ætti kannski að vita þetta líka,“ sagði Harry þegar þau settust á uppáhalds afvikna staðinn sinn í turninum.
„Hann er í aukatíma hjá Binns prófessor,“ svaraði Hermione honum, „Hvað er í gangi? Af hverju eruð þið ekki á Quidditchæfingu?“ spurði hún svo hissa á svip.
„Ég sá hann, hann er á lífi!“ sagði Harry æstur.
„Ha?“ spurði Hermione og skildi hvorki upp né niður, „Er Binns prófessor á lífi? Harry, hann er draugur, auðvitað getur þú séð hann.“
Harry hristi höfuðið.
„Nei ekki hann. Heldur Síríus! Ég er búinn að sjá hann tvisvar; núna áðan við útjaðar Forboðna skógarins og á laugardaginn var, á Quidditchfundinum.“
Þessu fylgi örstutt þögn.
„Harry,“ tók Hermione yfirvegað til máls, eins og hennar var háttur á svona stundum, „Það voru vitni að dauða Síríusar…“
„Nei! Það er ekki satt!“ greip Harry fram í fyrir henni og sló með krepptum hnefa á borðið á milli þeirra, „Það voru vitni að því að hann dytti í gegn um bogahlið og á bak við tjald en enginn sá hann deyja!“
Nokkrir Gryffindornemar sem voru að reyna að læra, gjóuðu augunum til þeirra og Hermione sussaði á Harry. Hann dró djúpt andann áður en hann hvíslaði meiru.
„Hvað með drauminn Hermione? Sérðu ekki tenginguna þar á milli? Síríusi var bjargað, hann er enn á lífi en í felum og ákvað svo að láta mig sjá sig svo við vitum að það sé allt í lagi með hann! Okkur dreymdi það alla!“
„Harry!“ sagð Hermione biðjandi, „Lupin og Dumbledore og allir eru búnir að útskýra að eftir að hafa farið í gegn um steinbogann er ekki hægt að snúa aftur, það er einstefna í gegn um hann.“
Aftur mótmælti Harry og hristi höfuðið.
„Nei, þeir útskýrðu aldrei neitt. Það var Lúna sem nefndi það að hinu megin væri heimur þeirra dauðu en hvað ætli maður taki mark á henni.“
Hermione fannst þetta illa sagt en gat samt ekki mótmælt, Lúna var sérstök stelpa. Hún reyndi einu sinni enn að koma vitinu fyrir Harry, sem var viðkvæmari en hún hafði haldið um málefni guðföðurs síns, og lét eins og hún hefði ekki heyrt það sem hann sagði.
„Og svo dreymdi ykkur ekki öll drauminn, það varst þú sjálfur sem bentir mér á það, Tonks dreymdi til dæmis ekki drauminn.“
„Og ekki Dumbledore heldur,“ bætti Ron við, sem hingað til hafði bara fylgst þegjandi með umræðunum.
Harry starði á þau til skiptis.
„Og hvað með það? Þetta var samt enginn venjulegur draumur! Hann var mjög raunverulegur!“ Hann stóð upp þrjóskur á svip og fann hvernig reiðin sauð í honum. Hvað var að þeim? Voru þau ekki glöð yfir þessum fréttum? „Hann er á lífi! Ég veit það, ég sá það, mig og fleiri dreymdi það!“ Hann snéri sér snúðugt við og gekk stórum skrefum upp í herbegðið sitt, dró fram koffortið og var fljótur að finna það sem hann leitaði að, enda vel raðað í það til tilbreytingar. Hann vafði peysunni utan af tvístefnuspeglinum og greip um hann með báðum sveittum höndunum.
„Síríus,“ hvíslaði hann, „Síríus Black!“
En ekkert gerðist.
Þetta kvöld fór Harry Potter ekki niður í Stóra salinn í kvöldmat. Reyndar smakkaði hann hvorki vott né þurrt, heldur sat hann í rúminu sínu með dregið fyrir og sagðist ekki vera svangur. Ef honum hefði ekki verið svona óglatt af tilfinningahrærunni, hefði hann hlaupið inn í Forboðna skóginn eins og skot.
Þriðjudagur. Fyrsti tíminn á þriðjudögum var varnir gegn myrku öflunum hjá fröken Norm. Þótt fyrsti tíminn hjá henni hafði verið hræðilegur höfðu hinir tveir verið alger andstæða hans; þeir höfðu verið athyglisverðir, fræðandi og skemmtilegir. Þess vegna hlakkaði Harry til að vakna þennan morgun og fara í tíma, sérstaklega þar sem hann hafði vart komið dúr á auga þessa nótt.
Þetta reyndist fyrsti tíminn sem hún mætti í á réttum tíma og hún var svo stolt af sjálfri sér að bekkurinn gat ekki varist brosi og óskaði henni til hamingju með árangurinn.
„Jæja,“ tók hún svo til máls, „Áfram með smjörið! Mig langar til þess að kenna ykkur hvernig hægt er að nota það sem þið lærið í öðrum tímum, í vörn, eins og til dæmis einbeitningargaldurinn, kannist þið við hann?“ Flestir nemendurnir kinkuðu kolli og svo hóf hún fyrirlestur þar sem hún skrifaði minnisatriði upp á töflu, sem nemendurnir tóku niður. Hún hafði alveg einstakt lag á því að láta námsefnið vera spennandi og athyglinnar virði, svo Harry þurfti ekki að hugsa um gærkvöldið. Eftir hálftíma kennslu höfðu allir nemendur bekkjarins náð tökum á einbeitingargaldrinum og kunnu að beita honum á aðra, þó í þeirra eigin vil. Frökenin stóð þá kyrr í sporunum og vatt hendurnar vandræðalega rétt eins og í fyrsta tímanum. Í nokkur andartök var þrúgandi þögn í stofunni.
„É…Ég,“ stamaði hún, „Ég… Þetta tók ekki eins langan tíma og ég hélt að það myndi gera. Ég er ekki með neitt annað efni handa ykkur akkúrat núna. En ég má ekki hleypa ykkur strax út.“
Nemendurnir litu hver á annan og hvískruðust eitthvað á. Þá settist fröken Norm niður í kennarastólinn og sagði:
„Æ, þið megið bara spjalla núna það sem eftir er af tímanum.“
Fyrst var alger þögn í bekknum en innan stundar fóru allir að pískra og svo spjalla.
Hermione hafði sest hjá Neville til þess að kenna honum að glósa almennilega en tímarnir hjá fröken Norm voru einkar vel til þess fallnir, svo að Harry og Ron sátu einir fremst.
„Jæja Harry,“ sagði Ron, „Hvað langar þig svo til þess að spjalla um?“ Hann sá strax eftir því að hafa spurt, því hann var nokkuð viss um hvað Harry langaði að tala um. Sjálfur var hann mjög vantrúaður á að Síríus væri á lífi, hafði Dumbledore ekki sagt að þetta hefði bara verið óvenju sterkur galdramannadraumur? Svo voru alls konar skepnur í Forboðna skóginum; þessi hundur hefði getað verið hvað sem var. Eitthvað stórt og svart og Harry svona langt í burtu… Ron var mjög efins um að Harry hefði á réttu að standa.
Harry geispaði stórum.
„Ég veit það ekki,“ svaraði hann. „Ég svaf illa og er þreyttur.“
„Slæmir draumar?“ spurði Ron skilningsríkur.
„Já heldur betur,“ svaraði Harry og nuddaði stírurnar úr augunum.
„Hey krakkar! Ég ætla að segja ykkur smá sögu!“
Harry hrökk við og rakst í bókina sína með þeim afleiðingum að hún datt niður á gólfið við þessi skyndilegu köll í kennaranum. Þeir Ron beygðu sig samtímis niður og ráku höfuðin saman þegar þeir gripu báðir um bókina.
„Ái!“
Þeir nudduðu ennið og glottu þegar þeir snéru sér aftur að fröken Norm, sem var nú staðin upp, tilbúnir að hlusta á það sem hún hafði nú að segja þeim.
Harry stóð upp af klósettinu sem hann hafði setið ofan á og gekk út af básnum. Hann var staddur á klósettinu hennar Völu væluskjóðu og sömuleiðis hópur af flissandi stelpum á svipuðum aldri eða yngri en hann sjálfur. Þær voru allar á iði og þær fremstu voru að varalita sig fyrir framan spegilinn. Þegar þær voru búnar hlóu þær meira og kysstu spegilmynd sína áður en þær hleyptu næstu að. Nokkrar stelpur tróðu sér fram til að varalita sig og kyssa síðan. Harry fylgdist undrandi með Ginnyju, systur Rons, setja á sig hárauðan varalit og flissa eins og vitleysingur áður en hún smellti innilegum kossi á spegilmynd sína. Svo snéri hún sér tístandi við og blandaði sér inn í hópinn á ný.
Harry horfði á þegar heimskulegt brosið hvarf af andlitinu á henni og hvernig hún horfði nú ráðvillt í kring um sig.
Eitt augnablik mættust augu þeirra.
Í sömu andrá opnuðust dyrnar og Filch gekk inn, og þótt Harry sæi hann ekki, þá vissi hann að Dumbledore fylgdi fast á hæla hans.
„Stúlkur mínar,“ sagði Dumbledore með rödd fröken Norm, „Það er gaman að sjá hvernig þið hugsið um útlitið en það væri enn betra að sjá ykkur hugsa líka aðeins um þá sem þurfa að þrífa speglana eftir ykkur á hverju kvöldi. Herra Filch sagði mér að það sé einkar erfitt að þrífa varalit af speglum og til þess að þið skiljið vandamál hans, þá ætlum við að sýna ykkur hvað hann þarf að gera hvert kvöld.“
Og í þeim töluðu orðum strunsaði Filch framhjá stelpuhópnum og inn á klósettbásinn, sem Harry hafði verið á, greip klósettbursta, sem hann dýfði rækilega ofan í klósettið áður en hann tók til við að skrúbba speglana eins og óður væri með honum.
Harry gretti sig og sömuleiðis allar stelpurnar sem voru að enda við að kyssa þennan sama spegil.
„Potter.“
Þetta var ógeðslgt.
„Harry Potter!“
Það skall við hávær dynkur og Harry hrökk upp og starði beint í gráblá augu fröken Norm sem stóð með hendurnar á borðinu hans reiðileg á svip. Hann leit ringlaður í kring um sig og á hina nemendurna sem horfðu þögulir á hann.
„Herra Potter,“ sagði fröken Norm og hann beindi athyglinni aftur að henni, enn óviss um það sem hafði gerst. „Ég veit að sagan mín var ekki beint kennsluefni en það er engin afsökun fyrir því að sofna í tíma!“ Hún reisti sig við, vonsvikin á svip. „Ég bjóst við meiri kurteisi af þér. Fimm stig af Gryffindor fyrir virðingarleysi og eftirseta fyrir þig fyrir að fylgjast ekki með og sofna.“
„Ha?“ Harry rankaði við sér við þetta og leit í ofboði af fröken Norm og á Ron sem horfði eitthvað undarlega á hann.
Fröken Norm blaðaði í dagbókinni sinni, andvarpaði og sagði svo:
„Strax eftir skóla á föstudaginn Potter. Ég bíð eftir þér á skrifstofunni minni.“
„Já kennari,“ sagði Harry vélrænt. Hann mundi ekki eftir því að hafa sofnað. Eða hafa verið að sofna. Hann hafði verið þreyttur, já og var það enn, en ekki að sofna.
Spjalltíminn hélt áfram og eftir tíu mínútur af brandarakeppni, sem Harry tók ekki þátt í en sem tókst samt að hressa hann við, hringdi bjallan út í frímínútur. Ron, sem hafði ekki heldur tekið þátt í keppninni, reis nú hægt á upp og dró á eftir sér fæturna.
„Ég held ég sé veikur,“ tilkynnti hann sljólega og það virtist rétt. Hann rétt drattaðist áfram og augun í honum, sem hann gat varla haldið opnum, voru orðin rauðleit. „Ég er allavegana eitthvað svakalega slappur.“
„Harry, hvað varstu að hugsa?“ Hermione var komin til þeirra. „Að sofna svona í tíma! Ég sá þig, þú bara lyppaðist niður á borðið!“ Svo kom hún auga á Ron og þagnaði í eitt augnablik. „Ron! Er allt í lagi?“ spurði svo hún áhyggjufull, „Ertu nokkuð með hita?“ Hún lagði höndina á ennið á honum og hristi höfuðið, „Nei, ekki sýnist mér það.“
„Ég er samt slappur,“ sagði Ron, „Ég ætla upp í Gryffindorturn, ég held það ekki út að fara í tíma. Bæ.“
Og eftir þessa stuttaralegu kveðju slugsaði hann á brott.
Harry og Hermione horfðu á eftir honum þar sem hann gekk hægt frá þeim.
„Hvað ætli ami að honum?“ spurði Hermione, „Hann var ekki með hita en það er greinilegt að hann er slappur.“
Harry hristi höfuðið,
„Ég veit það ekki.“
Munið áhugaspunakubbinn!