„Ef þú vilt komast að innræti einhvers, veittu því þá athygli hvernig hann kemur fram við undirmenn sína, en ekki jafningja.“ (Sirius Black, Eldbikarinn, bls. 394)
Byrjum á að taka dæmi um hvernig Sirius kemur fram við undirmann sinn Kreacher. Á blaðsíðu 98 í Fönixreglunni segir hann eftirfarandi við húsálfinn:
„Ef þú heldur þessu tuði áfram gæti ég hæglega orðið morðingi!“
Ekki beint fallegt, eða heilbrigt. Sirius Black fór afar illa með húsálfinn Kreacher, baktalaði hann, úthúðaði hann, öskraði á hann og tók af honum það litla sem hann hafði safnað að sér.
Er hann þá eins góður og saklaus og við virðumst öll trúa? Þið vitið hvernig hann var þegar hann var ungur; hann var stoltur, sjálfumglaður, hann var gerandi í grimmilegu einelti. Hann hefur alla tíð verið grimmur maður. Muniði hvað hann gerði eftir að Peter Pettigrew og muggarnir tólf sprungu í loft upp?
Hann hló.
Það er fleira sem skyggir á sakleysi hans.
Í fyrsta lagi neitar hann ekki að hafa drepið foreldra Harrys. Í þriðju bókinni segir orðrétt:„„Þú drapst foreldra mína,“ sagði Harry. [...]
Sirius starði upp til hans sokknum augum.
„Ég neita því ekki,“ sagði hann“. (bls.237)
Og hann endurtekur játningu sína nokkrum blaðsíðum síðar.
Í öðru lagi hefur hann reynt að drepa bæði Peter Pettigrew og Harry, auk þess að hafa hótað Kreacher.
Í þriðju bókinni ræðst Harry á Sirius, eftir að sá hafði rænt Ron og fótbrotið, lokað krakkana inni hjá sér og afvopnað þau. Harry slær hann hvar sem hann kemur á hann höggi „en laus hönd Siriusar greip nú um hálsinn á Harry. „Nei,“ hvíslaði hann, „ég hef beðið of lengi eftir þessu –“
Fingur hans hertu takið; Harry náði ekki andanum og gleraugun skekktust á nefinu á honum.“ (bls.237)
Af hverju í ósköpunum ætti hann að reyna að drepa Harry ef hann er svona góður? Svo vildi hann og reyndi eftir megni að drepa Peter Pettigrew líka. Og það var ekkert stundarbrjálæði, hann flúði meira að segja frá Azkaban til þess eins að fremja morðið og var í felum í hart nær ár.
Morð er morð og það er aldrei réttlætanlegt! Hann hefði verið tekinn i Minority Report.
Í þriðja lagi passa frásagnir Siriusar og vitna að „gassprengingunni“ sem varð tólf Muggum og einum galdramanni að bana, ekki saman. Sirius segir sjálfur: „Þegar ég króaði hann [Peter Pettigrew] af æpti hann svo að allir á götunni heyrðu til hans að ég hefði svikið Lily og James. Og áður en ég náði að leggja á hann bölvun sprengdi hann götuna í loft upp með sprotanum sem hann hélt á fyrir aftan bak“. (bls. 252) En framar í bókinni segir Cornelius Fudge hins vegar: „Peter Pettigrew dó hetjudauða. Sjónarvottar – Muggar, við urðum auðvitað að þurrka út minni þeirra seinna – sögðu okkur að Peter hefði króað Sirius af. Þeir heyrðu hann snökta: Lily og James, Sirius! Hvernig gastu fengið þetta af þér?“ Og svo dró hann fram sprotann sinn. En auðvitað varð Sirius fljótari til. Hann sprengdi Peter í loft upp…“ (bls. 145)
Hér er hægt að benda á þrennt sem stangast á. Eitt held ég að sé bara þýðingarmistök. Sirius segir segir Peter hafa æpt en Fudge segir hann hafa snöktað. Ég er ekki með enska útgáfu af bókinni en ég býst við að hér hafi verið notast við sögnina „to cry“, sem bókstaflega þýðir að gráta => snökta en getur einnig í ákveðnu samhengi (to cry out) þýt að öskra => æpa.
Það sem er hins vegar athyglisvert við þessar tvær frásagnir af sama atburðinum er, að Sirius segist hafa króað Peter af en allir Muggarnir sem voru vitni, sögðu Peter hafa króað Sirius af. Líkurnar á því að allir Muggarnir hafi ákveðið að ljúga því sama eru engar. Hvers vegna ættu þeir að gera það? Sirius gæti hins vegar haft ástæðu.
Hitt sem gengur ekki upp er að Sirius segir Peter hafa haldið sprotanum fyrir aftan bak og ef hann hefði verið króaður af, upp við vegg væntanlega, þá hefði enginn tekið eftir sprotanum. Fudge segir Peter hafa dregið sprotann sinn fram. Hvernig gæti hann vitað að hann náði því að draga hann fram nema að fólk (Muggarnir) hafi séð það og tekið eftir því? Svo notar hann líka sögnina að draga FRAM. Fram er ekki fyrir aftan bak.
Dæmið nú.