Síðast: Harry og Neville fóru á fund Dumbledores sem Lupin mætti líka á. Þeir skýrðu frá draumnum og Dumbledore sagði þeim að hafa engar áhyggjur af þessu.
Tíundi kapítuli
Skuggar og rendur
Vikan var fljót að líða. Tímarnir gengu vel fyrir sig, meira að segja varnir gegn myrku öflunum, nú eftir að fröken Norm vissi hvað hún ætlaði að kenna þeim. Harry varð þægilega hissa þegar hann komst að raun um að hún var ekki eins óþolandi og hún hafði virðst vera við fyrstu kynni. Hún var áfram frekar óörugg og hafði sérstakan áhuga á Harry en hún kunni sko sitt fag. Hún vissi til dæmis ótrúlega mikið um sögu fagsins og ástæður þess að sjálfsvörn væri skyldufag í skólum. Hann hafði aldrei hugsað út í það þannig áður en varnir gegn myrku öflunum voru eins og karate, að læra að verja sig en ekki að berjast. Þar var munur á.
Snape og Draco virtust báðir alveg jafn vonsviknir og hann yfir því að hann þyrfti að sitja töfradrykkjatímana áfram. Andúð beggja á honum virtist líka hafa breyst og færst yfir á annað og verra stig. Draco hafði hann ekki miklar áhygjjur af, hann gæti auðveldlega séð um hann, hvort sem væri með orðum eða sprota en Snape, hins vegar, var annað mál. Svipur hans lýsti nú bæði hatri og fyrirlitningu í hvert einasta skipti sem hann leit á hann. Það var reyndar ekki alveg nýtt en það var eitthvað við þennan svip nú sem fékk Harry til þess að líða illa. Skömmustulega. Hann skildi nú afhverju hann hafði hatað pabba hans og vissi að með því að líta ofan í þankalaugina hafði hann farið langt yfir strikið. Honum leið illa yfir því að hafa kíkt og honum leið illa yfir því að vita hvernig pabbi hans hafði komið fram við Snape.
Harry leit alltaf undan.
En brátt var vikan á enda og klukkan að verða eitt á laugardegi. Harry og Ron gengu saman út á Quidditchvöllinn og sólin skein hátt á lofti. Þeir héldu á kústunum sínum, Harry í stuttermakufli en Ron í sínum venjulega síðerma.
„Er þér ekki heitt?“ spurði Harry Ron, „Ég hef ekkert séð þig í stutterma alla vikuna, samt er búið að vera svo hlýtt.“
Ron fór eitthvað hjá sér,
„Jah, ö, sko…“ stamaði hann. Svo andvarpaði hann og bretti upp ermarnar, „Þau eru ekki alveg gróin. Ég vil ekki að fólk stari. Svo fylgja þeim slæmar minningar.“
Harry starði á handleggina á Ron. Þeir voru frekknóttir með eindæmum og yfir frekknurnar lágu dauf för sem minntu á borða. Þetta voru för eftir hugsanaborðana á heilunum sem höfðu ráðist á Ron. Þótt þau væru ekki áberandi, voru þau mjög sérkennileg og myndu örugglega draga að sér athygli. Ron dró ermarnar aftur niður.
„Þetta er nú ekki svo sæmt,“ sagði Harry þá, „En hvernig stendur á því að þetta er ekki gróið? Það eru liðnir nokkrir mánuðir.“
„Já ég veit,“ svaraði Ron og kinkaði kolli og yppti svo öxlum, „Penninn er máttugri en sverðið og ætli hugsunin sé ekki máttugri en penninn.“
Harry ætlaði að spyrja meira út í örin en þá voru þeir komnir þangað sem Katie Bell beið þeirra.
„Sælir strákar, tilbúnir að velja leikmenn?“
„Jebb,“ svaraði Harry, „Hvar eru hinir?“
„Hinir?“ spurði Katie hissa, „Harry, það eru engir hinir, við erum þau einu sem eru eftir.“
Það tók Harry smá tíma að átta sig á því sem hún meinti; Fred og Georg voru flognir burt og Angelina Johnson og Alicia Spinnet höfðu útskrifast árið áður. Hann, Ron og Katie voru ein eftir.
„Ó,“ sagði hann sauðslega.
Kati kinkaði kolli.
„Og við þurfum að velja nýjan fyrirliða. Mér finnst að þú ættir að vera fyrirliðinn.“
Þetta kom Harry gjörsamlega í opna skjöldu. Hann starði fyrst á Katie, leit síðan á vin sinn sem horfði svipbrigðalaus til baka. Síðan brosti Ron.
„Já félagi! Þú yrðir frábær fyrirliði!“ sagði hann og klappaði honum all hressilega á bakið svo Harry var nærri dottinn.
„Hvað segiru Harry?“ spurði Katie.
„Ja, jú en… af hverju ég? Langar þig ekki sjálfa?“
Kati yppti öxlum.
„Nei, eiginlega ekki. Manstu ekki hvernig Oliver var? Og Angelina varð alveg eins, þetta var svo mikið stress, sagði hún. Ég held ekki að ég geti ráðið við það. Þú hins vegar,“ bætti hún svo áköf við, „Þú hefur þegar sýnt að þú ráðir við þess konar stress að ákveða hvenær við æfum og hvað og hvernig við æfum. Þú varst frábær í VD, ég er viss um að þú ráðir við þetta!“ Og Katie brosti út að eyrum.
Harry brosti feimið ósjálfrátt. Hann leit á Ron sem brosti líka og kinkaði kolli.
„Já maður! Það er alveg satt, þú ert búinn að sanna að þú sért góður fyrirliði og kennari. Sláðu til félagi!“
Harry var í gleðivímu það sem eftir var fundarins og þótt erfiðlega gengi að finna hæfileikaríka varnarmenn gat hann ekki annað en brosað út að eyrum þegar honum varð hugsað til þess að hann væri nú orðinn fyrirliði Gryffindorliðsins í Quidditch. Það var ekki fyrr en þegar hann sat á Þrumufleygnum sínum og var að horfa á Andrew Kirke reyna aftur fyrir sér sem varnarmann að honum fannst hann sjá eitthvað út undan sér sem varð til þess að brosið fölnaði. Hann starði þangað sem hann hafði séð þetta eitthvað og leitaði með augunum. Svo saup hann allt í einu hveljur og fann hvernig hárin aftan á hnakkanum risu. Niðri við einn markhringinn stóð svartur skuggi með stór leiftrandi augu og starði upp til hans. Harry þaut af stað í áttina að þessum stóra svarta hundi.
Því þetta var hundur. Þetta var…
En þá stóð hann upp og fór. Harry sá hvorki né skildi hvert, svo hann snarstansaði og skimaði trylltur í kring um sig. Hjartað hamasðist svo í brjósti hans og maginn í honum var kominn í hnút. Var hann farinn að sjá ofsjónir?
„Ronald Weasley! Hvað kom fyrir andilitið á þér?“ æpti Katie skyndilega skerandi röddu svo Harry var nærri dottinn af kústinum sínum. Katie og Andrew Kirke flugu í áttina að Ron og Harry flýtti sér til þeirra.
„Máttugi Merlín! Ron, er allt í lagi?“ Katie hljómaði áhyggjufull.
Ron muldraði eitthvað og fór greinilega mikið hjá sér og Harry var viss um að hann hefði roðnað ef hann væri ekki rauður í framan fyrir, eftir hitann og Quidditch hamaganginn, svo rauður að frekknurnar hurfu næstum en í staðinn…
„Ron,“ hvíslaði Harry, „Þú ert líka röndóttur í framan!“
Ron leit illilega á hann.
„Takk! Ég veit!“
Þegar Ron hafði slegist við heilana nokkrum mánuðum áður, höfðu þeir vafið utan um hann hugsanaborðum, ekki bara utan um líkamann, heldur líka höfuðið og skilið hann eftir brennimerktan ókunnum hugmyndum. Örin voru næstum farin en ekki alveg, þau komu enn í ljós þegar andlit hans roðnaði upp að vissu marki. Og það var einmitt það sem hafði gerst hér, þegar Ron hamaðist í síðerma rúllukragabolnum í sólinni.
„Það er allt í lagi með mig,“ sagði hann og reyndi að komast undan, „Þetta eru bara ör, höldum áfram!“ Svo flaug hann upp að hæsta markhringnum.
„Ör?“ spurði Katie, „Síðan…?“ Hún og Kirke horfðu forvitin en um leið dálitið hryllt á Harry.
„Síðan í fyrra? Já,“ svaraði hann stuttur í spuna, hann hafði enga meiri löngun en Ron til þess að fara að tala um það sem gerst hafði og flaug þess vegna frá þeim og kom sér aftur fyrir í stöðunni sinni.
„Höldum áfram!“
Harry var ekki viss um hvort hann ætti að segja Ron og Hermione frá því sem honum hafði fundist hann sjá og ákvað að bíða með það. Ron var líka með hugann við annað, það er að segja örin á andlitinu á sér.
„Ansinn!“ bölvaði hann, „Alltaf þegar ég held að nú séu þau farin fyrir fullt og allt, þá birtast þau aftur! Ég held að ég losni aldrei við þau.“ Það var eins konar uppgjafartónn í röddinni sem hræddi Harry.
„Ja, á meðan þau sjást ekki dags daglega eins og á handleggjunum, þá skaltu nú bara prísa þig sælann,“ sagði hann, „Svo dofna þau nú meir og meir, er það ekki?“
„Jú,“ svaraði Ron vesældarlega.
Harry opnaði munninn til þess að segja meira en þá var kallað á eftir þeim og Laufey Needle kom skokkandi.
„Hæ stákar!“ Hún brosti og geislaði eins og sólin. „Ég sá ykkur æfa, þið eruð bara ansi góðir!“
Ron svaraði ekki, Harry vissi að hann var mjög efins um hæfni sína í Quidditch. Sjálfum var honum brugðið.
„Þú mátt ekkert fylgjast með okkur æfa,“ sagði hann hneykslaður, „Gryffindoræfingar eru bara fyrir Gryffindornema.“
Laufeyju virtist brugðið og brosið fölnaði.
„Fyrirgefðu,“ sagði hún lágt, „Ég vissi það ekki. Ég vissi ekki einu sinni að þið mynduð vera hérna, ég var bara á gangi og stoppaði til að fylgjast með.“
Hún virtist svo innilega leið yfir þessu að Harry gat ekki annað en fyrirgefið henni.
„Já, æ, fyrirgef þú mér, þessi æfing var nú ekkert leyndarmál svosem,“ sagði hann skömmustulega.
Hún brosti og tók gleði sína á ný. Harry horfði á freknurnar á nefninu á henni og skær, blá augun og hugsaði með sér að hún væri svakalega sæt. Hún gæti þurft að passa sig. Svo tók hann eftir því að Laufey horfði enn þá á hann. Hann hrökk við og horfði fram fyrir sig í átt að kastalanum. Já, hugsaði hann, útlitið dregur of mikla athygli…
Þegar þau gengu þrjú upp að kastalanum, mættu þau hóp af masandi fjórða árs stelpum og Harry gat ekki annað en tekið eftir því hvernig þær horfðu á þau. Hann sá líka að Laufey var komin í eins konar felur á bak við Ron og starði rauð í vöngum á jörðina þegar þau gengu fram hjá. Ron tók líka eftir þessu. Þegar þau voru komin inn spurði hann strax út í þetta.
„Æi, ekkert,“ var svar Laufeyjar. Strákarnir horfðust í augu og hristu höfuðið.
„Laufey,“ sagði Ron, „Hvaða stelpur voru þetta? Þær eru í Slytherin, er það ekki?“
„Jú,“ svaraði Laufey og var nú komin með tárin í augun. Harry leit aftur á Ron, honum fannst hann ekki geta þolað fleiri grátandi stelpur, Cho hafði algerlega gert útaf við hann á síðasta ári. Ron tók ekkert eftir Harry og hélt áfram að tala við Laufeyju.
„Af hverju störðu þær svona illilega á okkur? Eru þær eitthvað leiðinlegar við þig? Við getum alveg tuskað þær svolítið til fyrir þig!“
Hakan á Harry seig. Var hann virkilega að bjóðast til þess að lumbra á fjórtán ára stelpum? Laufey virtist alveg jafn hlessa yfir hugdettunni.
„Nei! Nei,“ sagði hún, „Í guðanna bænum, þetta eru vinkonur mínar!“
„Vinkonur?“ Nú voru Harry og Ron alveg jafn ringlaðir. „Þær voru nú ekki beint vinsamlegar á svipinn,“ benti Ron á.
Laufey svaraði ekki.
„Rifust þið?“ spurði Harry sem mundi allt of vel eftir því þegar Ron hafði útskúfað hann.
Hún kinkaði kolli.
„Um hvað?“ spurði Ron. Harry gaf honum olnbogaskot, honum fannst það ekki koma þeim neitt við. Svo langaði hann ekkert að sitja yfir sorgum einhverjar stelpu sem hann þekkti varla það sem eftir var dagsins.
Aftur virtist Laufey sama sinnis og Harry því hún hraðaði sér í átt að dyrunum sem leiddu niður að Slytherin heimavistinni.
„Æi, bara. Þú veist,“ sagði hún, „Sjáumst.“ Svo opnaði hún dyrnar og fór.
Harry og Ron stóðu horfðu á eftir henni.
„Afhverju vildi hún ekki segja okkur?“ spurði Ron.
Harry ranghvolfdi í sér augunum.
„Af hverju langar þig að vita það?“ sagði hann og dró Ron með sér upp tröppurnar.