Harry starði ofan í silfrað innihald þankalaugarinnar þar sem hann stóð við hlið prófessors Snapes inni á skrifstofu hans. Báðir voru þeir tilbúnir að skella sér í ferð á vit minninganna.
“Það fyrsta sem þú sérð gerist stuttu eftir að við ég og foreldrar þínir byrjuðum okkar 6. ár hér við Hogwarts,” sagði Snape áður en þeir dýfðu nefbroddunum ofan í þankalaugina og heimurinn hringsnerist fyrir augunum á Harry.
Þeir voru staddir í töfradrykkjastofunni, en þar var ekki alveg eins um að lítast núna og hafði verið fyrir nokkrum mínútum þegar Harry gekk þar inn. Aðrar skálar og krukkur voru í hillunum og stofan var full af nemendum, nemendum á svipuðum aldri og Harry. Aftast í vinstra horni stofunnar sátu drengir sem Harry kannaðist vel við. Þarna voru James Potter og Sirius Black. Framar í stofunni, beint fyrir framan Harry sat svo rauðhærð stelpa, með græn augu, augu alveg eins og Harrys. Þetta var Lily Evans. Harry brosti þegar hann sá hana. Við hlið hennar sat svo renglulegur strákur í skítugri slitinni skykkju með fitugt svart sítt hár, Severus Snape.
“Við Lily vorum látin vinna saman í töfradrykkjum. Ég var bestur í árgangnum í töfradrykkjum, en hún fékk undanþágu til að taka þátt í faginu, svipað og þú ætlar víst að gera núna í ár.” sagði Snape. “Hún var að stefna á skyggnanám, rétt eins og Potter,” bætti hann svo við, “Mér var skipað að hjálpa henni.”
Harry horfði á unga Severus Snape sem leit ekki út fyrir að vera ánægður með þetta hlutskipti sitt. Lily leit heldur ekki út fyrir að vera sem ánægðust.
“Afhverju er þér svona illa við mig?” spurði hún sessunaut sinn allt í einu. Það hnussaði í hinum unga Severusi áður en hann svaraði,
“Afþví að þú ert vitlaus blóðníðingur sem skiptir þér af því sem þér kemur ekki við.” Harry fann hvernig hann hitnaði af reiði og kreppti hnefana í vösunum. Hann leit á prófessor Snape en sá þá, sér til mikillar furðu, að hann var mjög vandræðalegur á svip og leit út fyrir að vilja helst kýla hinn unga Severus sjálfur.
“Ertu ennþá fúll yfir því að ég bjargaði þér í vor þegar strákarnir voru að sýna fólki nærbuxurnar þínar?” spurði Lily sem var örlítið farin að reiðast. “Átti ég bara að láta þig hanga þarna allan daginn eða hvað?” bætti hún svo við.
“Ég get séð um mig sjálfur,” svaraði Severus fullur af þvermóðsku.
“Góði besti, strákarnir höguðu sér eins og fífl og ég get ekki horft uppá svona lagað en þú ert ekkert betri sjálfur að kalla mig blóðníðing og verða svo fúll þegar þér er rétt hjálparhönd.” Það var farið fjúka svolítið í Lily sem var nú orðin rjóð í kinnum af æsingi. Hinn ungi Severus roðnaði nú örlítið og varð ósköp vandræðalegur á svip.
“Við tvö eigum eftir að vinna saman hér í allan vetur,” hélt Lily áfram, nú örlítið rólegri, “og ég nenni ekki að sitja við hliðina á þér í fýlu allan þennan tíma. Getum við vinsamlegast gleymt því sem gerðist í vor? Ég skal lofa að hjálpa þér ekki aftur og þú lofar að kalla mig ekki aftur blóðníðing. Ég segi ekki að við þurfum að vera einhverjir bestu vinir, en það væri allavegana ágætt ef við þyrftum ekki að rífast hérna þrisvar í viku.” Hinn ungi Severus virtist hugsa sig um, kinkaði svo kolli vandræðalegur á svip og sagði,
“Allt í lagi,” Lily leit á hann, kinkaði kolli til hans og virtist ánægðari nú en fyrir nokkrum mínútum.
Kennslustofan leystist upp fyrir augunum á Harry og stuttu seinna fann hann aftur fast land undir fótum sér. Hann leit upp og sá að þeir Snape voru ennþá í töfradrykkjastofunni en í þetta skiptið voru hinn ungi Severus og Lily þau einu í stofunni. Hinn ungi Severus var nú talsvert snyrtilegri til fara, hárið hreint og greitt í tagl og skykkjan hans snyrtilegri þó hún liti út fyrir að vera gömul og var slitin á nokkrum stöðum.
“Takk fyrir að hjálpa mér aukalega,” sagði Lily og brosti þakklát til Severusar, “Ég er bara ekki að ná þessu, ég skil ekki hvað ég er að gera vitlaust.” hinn ungi Severus brosti til baka og svaraði,
“Ekkert mál, byrjaðu bara og ég skal fylgjast með og sjá hvort ég sé hvað það er sem er ekki rétt.”
Harry og Snape fylgdust með þeim vinna í ró og næði, brosandi og sæl á svip. Þau virtust núna vera orðin hinir mestu mátar og spjölluðu ánægjulega saman á meðan þau unnu. Aftur leystist kennslustofan upp og Harry og Snape svifu í lausu lofti áður en þeir lentu aftur.
Í þetta sinn voru þeir staddir úti við vatnið. Það var myrkur en ljósin frá gluggum Hogwarts lýstu upp skólalóðina. Hinn ungi Severus Snape sat einn í snjónum og horfði út á vatnið sem var að mestu leiti frosið. Hann var með krumpað bréf í höndunum og í augum hans mátti sjá glitta í tár. Harry leit með spurnarsvip upp til prófessors Snape við hlið sér. Prófessor Snape horfði á hinn unga Severus og það mátti lesa sorg úr svip hans. Allt í einu kom Lily hlaupandi niður að vatninu, hágrátandi. Hinn ungi Severus þurrkaði sér um augun í flýti og tróð bréfinu ofan í vasann áður en hann flýtti sér á móti Lily sem kastaði sér grátandi í fang hans.
“Hvað kom fyrir?” spurði hann með áhyggjusvip. Þau settust niður í snjóinn ennþá í faðmlögum. Lily grét nokkra stund í örmum hans áður en hún svaraði.
“Æ, ég var að fá bréf frá Petuniu. Mamma er aftur komin á spítalann og Petunia vill að ég komi heim og hjálpi henni. Hún vill að ég hætti í Hogwarts og fari að vinna eins og hún til að hjálpa henni að borga af húsinu og spítalareikningana. Ég myndi alveg gera það, hiklaust, en mamma er búin að banna mér það, hún vill að ég klári námið mitt. Ég lofaði henni að ég myndi ekki hætta.” Hún fór aftur að gráta.
“Ég veit, ég veit,” svaraði Severus. “Þú mátt ekki láta hana ná svona til þín. Þú veist alveg að hún skilur þetta ekki, en það er allt í lagi, mamma þín skilur það og það er það sem skiptir máli.” Lily kinkaði kolli og saug upp í nefið. Severus teygði sig ofan í vasann sinn og náði í vasaklút sem hann rétti henni, um leið datt bréfið úr vasa hans. Lily tók við vasaklútnum og leit á bréfið sem nú lá í snjónum. Severus greip það í flýti og stakk því aftur í vasann vandræðalegur á svip.
“Severus, hvað var þetta?” spurði Lily sem nú var að þerra tárin. “Varstu að fá bréf?” Severus varð vandræðalegur á svip og varð allt í einu mjög upptekinn af litlu gati sem var að myndast framan á skykkjunni hans.
“Severus” spurði Lily varlega, “Er eitthvað að?”
“Mamma er dáin,” svaraði Severus svo lágt að varla heyrðist. Lily greip andann á lofti og faðmaði hann að sér með tárin í augunum. Nú var komið að Severusi að gráta í hennar faðmi.
“Hvað gerðist?” spurði hún,
“Hún hefur bara fengið nóg,” svaraði Severus með grátstafina í hverkunum, “hún hengdi sig.” Lily tók aftur þétt utan um vin sinn og reyndi hvað hún gat að hugga hann. Severus grét og á milli ekkasoganna heyrði Harry hann stynja upp öðru hvoru, “hún skildi mig einan eftir… einan með honum. Nú þarf ég að berjast einn við hann…. nú er enginn til að hjálpa mér þegar hann verður fullur.” Harry starði forviða á þau þar sem þau sátu í faðmlögum og grétu saman. Hann leit á prófessor Snape sem stóð við hlið hans, dapur á svip.
“Við urðum mjög góðir vinir þennan vetur,” sagði Snape eins og til að svara spurningunni sem Harry hafði enn ekki nefnt. “Við hjálpuðum hvoru öðru í gegn um ýmsa erfiðleika. Í gegn um sorgir og gleði vorum við saman, töluðum saman, unnum saman og vorum hvort öðru til halds og trausts. Það voru fáir sem vissu af þessari vináttu okkar. Eins og þú veist sjálfur hefur alltaf verið mikil óvild á milli Slytherin og Gryffindor og fólk hefði farið að spyrja of margs. Auk þess leið okkur best bara tveimur saman og við vildum hafa þessa vináttu út af fyrir okkur.
Pabbi þinn reyndar sá í töfradrykkjatímum að okkur var farið að koma vel saman og hann varð frekar afbrýðissamur sem bætti nú ekki úr deilunum okkar á milli. Við pössuðum okkur samt að láta Lily aldrei sjá þegar við vorum að senda bölvun hvor á annan. Pabbi þinn var nátturlega ástfanginn af henni frá því á fimmta ári. Við mamma þín vorum aldrei par, bara mjög góðir vinir. Betri vin hef ég aldrei átt.” hann þagnaði örlitla stund og Harry sá votta fyrir söknuði í augnaráði hans.
“Undir lok ársins var ég orðinn yfir mig ástfanginn af henni, en ég sagði aldrei neitt. Ég vildi ekki taka áhættuna á að eyðileggja vináttu okkar. Meira fíflið.
Þegar við vorum svo á sjöunda árinu okkar fór hún svo að vera með pabba þínum. Hún sagði mér strax frá því og ég þóttist bara ánægður fyrir hennar hönd þótt ég væri auðvitað yfir mig afbrýðissamur. Ég fór að forðast hana meir og meir, ég gat ekki horft á hana lengur, vitandi að hún yrði aldrei mín.” Snape þagnaði og horfði á ungu vinina sem sátu þarna við vatnið og hugguðu hvert annað.
“Í lok sjöunda ársins kom svo Lucius Malfoy til mín. Hann vildi fá mig til að ganga til liðs við drápara hins myrka herra. Hann var þá búinn að koma ár eftir ár að safna saman Slytherin útskriftarnemum. Ég vissi svo sem af því, en hafði ekkert hugsað mikið um það. Ég vissi að mamma þín og pabbi væru að stefna á skyggnanámið og ætluðu að gifta sig fljótlega eftir útskriftina. Ég var einmanna og sorgmæddur án hennar og fannst lífið ekki hafa mikinn tilgang. Ég hugsaði með mér að ég gæti alveg eins fylgt arfleið Slytherin, gengið til liðs við hinn myrka herra og verið áfram svarinn óvinur James Potters.” Hann hikaði stutta stund en hélt svo áfram.
“Það átti samt ekki vel við mig að eiga að pína og drepa saklaust fólk og þar sem hinn myrki herra getur allt of auðveldlega lesið hugsanir fólks var mér oft refsað fyrir að vera of linur. Ég fór því að læra hughrindingu sjálfur til að verja mig fyrir honum. Smám saman tókst mér að verða nógu fær í hughrindingu til að blekkja hann og hann hélt að ég væri orðinn harðari. Þegar ég hafði unnið mér inn traust hans fengum við fréttir af spádómi. Spádómi um barn sem ætti að fæðast, barn sem gæti sigrað hinn myrka herra. Við fengum fréttir af því að foreldrar barnsins væru annað hvort Frank og Alice Longbottom eða þá Lily og James Potter. Þegar ég frétti að Lily gæti verið í hættu fór ég beina leið til Dumbledores. Ég var ákveðinn að nú væri nóg komið. Ég gat ekki lengur þóst vilja pína, kvelja og drepa aðra og ég gat ekki horft upp á einu vinkonu mína, eina vininn sem ég hafði nokkru sinni átt, drepna ásamt allri fjölskyldu sinni.
Dumbledore tók vel á móti mér og þakkaði mér fyrir upplýsingarnar. Hann bað mig um að halda áfram að starfa fyrir hinn myrka herra en vera í raun njósnari fyrir hann. Ég féllst á það og upp frá því gaf ég Dumbledore allar þær upplýsingar sem ég komst yfir.” Snape þagnaði og nú hvarf vatnið og skólalóðin og Harry fann að hann sveif um enn á ný. Fyrir augum hans byrjaði veröldin aftur að verða ein heild og þegar hann staðnæmdist aftur sá hann kunnuglega sýn.
Þeir voru staddir á skrifstofu Dumbledores. Hinn ungi Severus var nú í kringum tvítugt og var aftur kominn með fitugt hár sem hékk niður í augun. Hann stóð móður og másandi eins og hann hafi verið á hlaupum í langan tíma, fyrir framan stóra skrifborðið. Dumbledore horfði á hann með spurn í augum.
“Hann… er drápari….” stundi Severus upp úr sér á milli þess sem hann reyndi að ná andanum. “Hann… sveik þau….”
“Hver er drápari Severus? Hver sveik hvern?” spurði Dumbledore yfirvegaður en samt ákveðinn á svip.
“Sá sem geymir leyndarmál Potter hjónanna er drápari…. Hann er búinn að svíkja þau í hendur Volde…” Severus rak upp vein. Hann greip um vinstri handlegg sinn og féll niður í stól, greinilega sárþjáður. “Hann er að fara til þeirra núna, ég reyndi að finna þau, en ég veit ekki hvar þau eru svo ég kom beint til þín.”
Dumbledore stóð upp í flýti og yfirgaf skrifstofuna. Severus reisti sig upp en Dumbledore gaf honum merki um að bíða rétt í þann mund er hann hvarf út um dyrnar. Eftir skamma stund birtist hann aftur, rauðeygur og hryggur á svip. Hryggari en Harry hafði nokkru sinni séð hann.
“Við vorum of seinir.” Severus stóð upp og leit á hann skelfingu lostinn,
“Voldemort kom heim til þeirra, drap bæði James og Lily, hann reyndi svo að drepa Harry litla, en af einhverri ástæðu lifir drengurinn enn, en Voldemort virðist hafa horfið.” Hélt hann áfram. “Ég sendi Hagrid af stað til að sækja drenginn, ég þarf að koma honum fyrir á öruggum stað.” Severus opnaði munninn nokkrum sinnum eins og hann vildi segja eitthvað en kom ekki upp nokkru orði. Hann virtist eiga í erfiðleikum með að ná andanum og augun urðu sífellt rauðari og votari. Að lokum hrundi hann aftur ofan í stólinn og leið út af. Áður en hann missti meðvitund heyrði Harry hann stynja upp
“Lily,”
Herbergið leystist upp og skömmu seinna stóðu Harry og prófessor Snape aftur á skrifstofu töfraseyðaprófessorsins.
Harry leit í augun á Snape og sá að hann var rauðeygur og í svip hans mátti sjá djúpa sorg. Þetta hafði verið erfið ferð um minningarnar.
“Dumbledore leyfði mér að vera kyrrum í kastalanum og fröken Pomfrey hlúði að mér þar sem ég var rúmfastur í heila viku á eftir.” Sagði Snape
“ég var gjörsamlega niðurbrotinn. Dumbledore tók mig að sér og gekk mér nokkurn veginn í föðurstað. Hann leyfði mér að búa í kastalanum fram að jólum og þá bað hann mig að taka við stöðu töfraseyðaprófessorsins hér við skólann þar sem fyrrverandi prófessorinn þurfti að hætta. Ég hef verið hér síðan.”
Harry starði á manninn sem stóð fyrir framan hann. Þessi kaldi, harði maður sem aldrei sýndi neinar tilfinningar aðrar en hatur og grimmd, ekki hafði honum dottið í hug að hann byggi yfir svo mikilli sorg.
“Þú sérð því, Harry, að það ert ekki þú sem ég hata.” hélt Snape áfram, “Það er ég. Það er mér að kenna að mamma þín dó. Það er mér að kenna að þú fékkst ekki að alast upp með foreldrum þínum. Það er mér að kenna að góðvildin og gæskan sem Lily Evans bjó yfir er horfin frá þessum heimi að eilífu.” Hann þagnaði og sneri sér undan. Harry gekk til hans og lagði hönd á öxl hans.
“Þú reyndir þitt besta. Þú gerðir allt sem þú gast til að vernda okkur.” sagði hann hughreystandi. “Þú verður að hætta að ásaka sjálfan þig. Þetta var ekki þér að kenna, þú sveikst þau ekki, þú drapst þau ekki, það voru aðrir. Þú gerðir ekkert nema að reyna að bjarga þeim.” Severus Snape leit upp og horfði í augun á Harry,
“Þú veist ekki hvað það getur verið erfitt að horfa á þig Harry,” sagði hann eftir stutta stund, “að sjá lifandi eftirmynd mannsins sem ég hataði mest alla mína ævi, hann var jú svo sem ágætur skilst mér, en ég hataði hann. Hann sigraði mig og fékk einu konuna sem ég hef nokkru sinni elskað.
En þegar ég horfi í augun þín, þá sé ég augun sem fylgja mér alla ævi, augun hennar sem ég brást, augun sem ég gat ekki bjargað.” Harry sá tár brjótast fram í augnkróka þessa sorgmædda manns, þetta var þá ástæðan fyrir allri óvildinni og reiðinni í hans garð öll þessi ár. Það var þessvegna sem hann var alltaf svona harður við hann og gerði allt til að brynja sig fyrir honum. Það var auðveldara fyrir hann að horfa á það sem hann hataði í Harry en það sem hann hafði elskað og fannst hann hafa brugðist. Hann brosti hughreystandi til prófessorsins og svaraði,
“Ég veit ekki mikið um mömmu mína, en ég er viss um að hún væri þakklát fyrir það sem þú reyndir að gera. Ég er viss um að henni fyndist ekki að þú hefðir brugðist. Ég veit allavegana að ég er þakklátur fyrir að þú skyldir hafa reynt. Það getur enginn gert betur en að reyna. Stundum fara hlutirnir ekki eins og við ætlum okkur, en við getum aldrei betur en að reyna.” Snape leit í augu hans og Harry sá að honum var létt. Hann teygði sig í áttina til Harrys og tók utan um hann.
“Þakka þér fyrir Harry.” sagði hann og leit aftur í augu hans, “Það er meira af móður þinni í þér en þú gerir þér grein fyrir.” Þetta hafði Harry aldrei heyrt áður, allir höfðu sagt honum að hann væri alveg eins og pabbi hans, en enginn hafði áður sagt að hann líktist mömmu sinni. Það breyddist hlýja um brjóst Harrys, rétt eins og einhver hefði kveikt ljós í harta hans. Hann hafði fengið að sjá brot af lífi mömmu sinnar í dag, brot sem hann hafði ekki vitað um áður og nú vissi hann að hann gat treyst Severusi Snape.