Svona fer fyrir köflum sem áttu aldrei að vera með en troða sér svo samt inn í söguna: þeir eru klipptir í tvo misskemmtilega hluta, af því að þeir verða of langdregnir og leiðinlegir fyrir vikið. Boðflennur X(
Ég vona bara að sagan gangi samt vel áfram.
Níundi kapítuli A
Til fundar við skólastjóra
Harry og Neville gengu hröðum skrefum í átt að skrifstofu Dumbledores. Harry var með dálítið þungan hjartslátt og gat ekki annað en velt því fyrir sér hvað Dumbledore hefði að segja. Þegar þeir komu að leyniinnganginum hægðu þeir á sér og námu svo staðar í nokkurra skrefa fjarlægð.
„Hvað nú?“ spurði Harry án þess að búast við svari, „Við erum ekki með leyniorðið.“
Þá stökk ufsagrýlan allt í einu frá og hringstiginn kom í ljós, báðum strákunum til undrunar. Þeir litu hvor á annan, ypptu svo öxlum og komu sér fyrir í hringrúllustiganum sem færði þá rólega upp á við, nær og nær skrifstofu skólastjórans.
Það bárust raddir að innan. Harry var yfir sig spenntur og Neville andaði líka hraðar en venjulega. Hvern var hann að tala við? Var hann að segja einhverjum frá? Þeir bönkuðu á dyrnar og raddirnar þögnuðu rétt áður en dyrnar opnuðust sjálfkrafa og þeir stigu innfyrir.
Suðið í silfurskrapatólunum var lágt og róandi. Dumbledore var í dimmbláum kufli með silfurtunglum og stjörnum á. Hann stóð einn við arinninn en snéri sér við og leit á Neville þegar þeir gengu innfyrir. Harry leit undan, hann vissi að Dumbledore myndi ekki líta beint í augun á honum, það var enn ekki óhætt, en það særði hann samt og gerði hann reiðan.
„Vilduði vera svo vænir að loka á eftir ykkur,“ tók Dumbledore til máls, „Þakka þér Neville. Jæja, svo ykkur dreymdi alla sama drauminn? Og Kingsley Shacklebolt líka segið þið?“ Hann gekk að skrifborðinu sínu, settist og fléttaði fingur, leit á Neville og svo í eldinn. Harry leit þangað og var ekki hissa á að sjá höfuðið á Lupin í miðjum logunum að kinka kolli.
„Sæll Harry, Neville.“
Þeir heilsuðu honum á móti. Dumbledore tók aftur til máls.
„Þið sögðuð mér bara frá þessu í grófum dráttum í bréfinu og Lupin var bara að líta við. Vilduð þið kannski segja mér betur frá þessu. Hvernig var draumurin nákvæmlega?“
„Afsakaðu Dumbledore en áður en við hefjum frásögnina, þá bið ég um leyfi um að fá að koma allur til ykkar, ég bjóst ekki við þeim svona fljótlega, annars hefði ég komið strax.“
„Auðvitað Remus, gakktu endilega í bæinn,“ svaraði Dumbledore. Höfuðið á Lupin hvarf með hvelli og stuttu síðar gekk hann allur út úr eldstæðinu og inn í herbergið og dustaði af sér öskuna. Dumbledore töfraði fram annan stól fyrir Lupin, sem settist og leit á strákana.
„Svo þið ákváðuð að segja Dumbledore frá. Það var viturlegt. En hvað var þetta um tengslin á milli okkar fjögurra? Okkar og Kingsleys?“
„Eigum við ekki að byrja á að segja Dumbledore frá draumnum?“ lagði Neville til.
„Jú, auðvitað,“ svaraði Lupin, „Afsakið mig.“ Svo hóf hann frásögnina af draumnum með hjálp Harrys og Nevilles:
„Draumurinn var sem sagt á þá vegu að við vorum staddir í hringlaga herberginu með steinboganum…“
Hver og einn hafði upplifað hann frá sínu sjónarhorni og þeir höfðu beint athyglinni mislengi að stelpunni sem hafði bjargað Síríusi. Harry hafði ekki tekið mikið eftir henni, hann rámaði bara í að henni hefði verið létt þegar Síríus hafði stokkið frá steinboganum. Lupin og Neville höfðu hinsvegar tekið eftir því hvernig hún leit út; með sítt, ljóst hár, í gallabuxum og dimmgrænum bol. Kingsley hafði líka haft orð á því við Lupin að hún hafði virst óvenju slétt og felld á hörund og hár, líka fötin. Hann gat ekki lýst því betur og því síður Lupin, sem sagðist ekki hafa hugmynd um við hvað hann hafði átt. Enginn þeirra hafði tekið eftir neinum sérkennum.
Dumbledore strauk skeggið á meðan hann velti þessu öllu fyrir sér.
„Hmm,“ sagði hann að lokum, „Og ykkur datt í hug að mig gæti hafa dreymt þetta sama vegna þess að atburðirnir í draumnum voru þeir sömu og áttu sér stað eftir að ég mætti á staðinn síðastliðið vor? Að stúlkunni frátaldri auðvitað.“
„Já,“ svaraði Neville, „En þú ert hins vegar… svo miklu máttugri galdramaður en við…“ Setningin dó út og Neville varð vandræðalegur. Dumbledore kímdi.
„Já, það er rétt hjá þér, Longbottom, ég er langt um máttugri en þið getið ímyndað ykkur. Svo er ég vel verndaður. Enda dreymdi mig ekki þennan draum.“ Hann stóð upp og byrjaði að ganga um herbergið hægum skrefum.
„Já, þetta er undarlegt mál. En það virðist ekki hættulegt. Eða hvað?“ Hann snéri sér að þeim þar sem þeir sátu þrír og hristu höfuðið.
„Nei, það er ekkert sem hefur gerst fyrir utan það að okkur dreymdi þetta,“ sagði Lupin. Dumbledore kinkaði kolli og hélt áfram að ganga um gólf. Harry, Neville og Lupin fylgdust allir með honum og þögðu.
Hann virðist ekki vita hvað þetta sé, hugsaði Harry. Þetta virðist ekki hættulegt, eins og hann sagði en ég er forvitinn að fá að vita hvað draumurinn táknar. Það hlýtur að vera eitthvað, hugsaði hann með sér en var truflaður þegar Dumbledore stansaði aftur og snéri sér að þeim í annað sinn, gætandi þess að líta ekki beint á Harry.
„Ég kann enga skýringu á þessu. Nema bara þá að þetta hafi verið einstakur atburður sem mun líklega ekki eiga sér aftur stað. Þið urðuð allir fyrir hræðilegri lífsreynslu í vor, sérstaklega fyrir ykkur sem enn eruð í skóla og ekki til þess í stakk búin að takast á við svona lagað. Þið urðuð vitni að láti Síríusar Black og það hafði auðvitað mikil áhrif á ykkur alla, þó mismikil. Ég býst við því að ykkur hafi alla dreymt aðra, svipaða drauma í sumar? Drauma um það sem gerðist þetta kvöld?“
„Já, það er rétt.“ Þeir kinkuðu kolli.
„Einmitt. Já, ætli draumarnir hafi ekki skarast þessa einu nótt, þar sem ykkur var alla að dreyma um sömu atburðina. Þeir eiga það til, draumarnir.“
„Ha?“ hváði Harry forviða, „Hvað áttu við?“
Dumbledore leit á hann augnablik og þótt tilfinningin væri ekki eins sterk og hún hafði verið síðasta ár og hann fann ekki til löngunar til þess að ráðast á hann, þá fann hann að hann var óendanlega pirraður út í Dumbledore. Hvort þetta var hans eigin tilfinning eða ekki, gat hann hins vegar ekki sagt til um. Svo leit Dumbledore annað.
„Draumar galdramanna og norna geta verið frábrugðnir draumum Mugga. Það búa í þeim meiri töfrar sem gefur þeim fleiri eiginleika en þú hefur kannski vanist Harry. Til dæmis sá eiginleiki að dreyma fyrir óorðnum atburðum. Það kannast reyndar jafnvel einstaka Muggi við líka.
Mér þykir það líklegast að þessi sameiginlegi draumur ykkar sé bara eftirköst þess sem þið urðuð allir vitni að í vor, þeirrar miður skemmtilegu reynslu sem þið urðuð fyrir; að ykkur hafi verið að dreyma svipaða drauma sem svo blönduðust og urðu að einum sameiginlegum. En ég get engu lofað. Fylgist þið með draumum ykkar og látið mig strax vita ef ykkur dreymir annan svona draum eða ef stúlkan birtist ykkur í öðrum draumi. Ég á erfitt með að átta mig á henni. Enginn ykkar kannast við hana segið þið?“ Dumbledore gekk að skrifborðinu og fékk sér sæti á móti þremenningurnum sem þögðu enn og hristu höfðuðið.
„Jæja þá,“ sagði hann, „Ég get ekki hjálpað ykkur meira með þetta en ég held ekki að þið þurfið að hafa neinar áhyggjur af þessu.“
Lupin stóð upp og Harry og Neville fóru að dæmi hans.
„Jæja, þakka þér samt fyrir það,“ sagði Lupin, „Það er gott að þurfa ekki að vera með áhyggjur af þessu. Þetta er örugglega rétt hjá þér Dumbledore, við ættum ekkert að eyða of mikilli orku í þennan draum, það er í rauninni ekkert sem bendir til þess að hann sé neitt meira en bara sameiginlegur draumur. En ef ykkur er sama þá er ég á hraðferð og verð að fara. Það var gaman að sjá ykkur. Verið þið sælir.“ Að svo búnu gekk Lupin að arninum, kastaði flugdufti í eldinn og gekk svo sjálfur í hann og hvarf. Harry horfði á eftir honum og velti því fyrir sér hvað hann væri að gera. Síðast þegar hann hitti hann á Leka seiðpottinum hafði hann líka verið að vinna.
„Jæja drengir, það er orðið áliðið,“ tók Dumbledore til máls og Harry beindi athyglinni aftur að honum. „Þið ættuð kannski að fara að koma ykkur á heimavistirnar áður en að Filch fer á stjá.“ Harry sá Dumbledore blikka Neville sem hló kurteisislega. Svo stóðu þeir upp, buðu góða nótt og fóru.