Morgunsólin skein björt og fögur, en Arthur Weasley varð þess ekki var er hann gekk þungt hugsi upp stíginn að Hreysinu. Húsið sem hafði verið heimili fjölskyldu hans svo lengi. Hann horfði upp í gluggann á hjónaherberginu. Þarna höfðu öll börnin hans sjö fæðst og hvílík hamingja sem hafði fylgt þeim öllum. Nú var eitt þeirra farið og kæmi aldrei aftur og annar sonur hans hafði ekki talað við nokkurn mann úr fjölskyldunni í rúmt ár. Tár læddist niður vanga þessa manns sem á einu ári hafði elst svo gríðarlega. Hárið sem áður hafði verið eldrautt þrátt fyrir að vera farið að þynnast var orðið nánast grátt, stórir baugar höfðu myndast undir augunum og áhyggjuhrukkurnar á enninu höfðu dýpkað til muna. En hann var sterkur. Hann varð að vera sterkur fyrir hin börnin sín fimm og fyrir yndislegu konuna hans sem hann elskaði svo mjög. Konuna sem stóð sterk við hlið hans í gegn um súrt og sætt og gafst aldrei upp þrátt fyrir fátækt og volæði. Hún sem virkaði svo sterk, en var samt sem áður svo viðkvæm og lítil í sér þegar börnin hennar áttu í hlut. Molly hafði átt afskaplega erfitt síðastliðið árið, þegar Percy, sem alltaf hafði verið meiri mömmustrákur en hinir, hafði flutt út og slitið allt samband við fjölskylduna og þegar fréttirnar bárust í gær hafði það næstum gert útaf við hana. Arthur þurrkaði tárin og beit á jaxlinn, hann varð að vera sterkur núna. Fyrir Molly og fyrir börnin.

Þegar hann kom að útidyrunum sá hann að þær voru ólæstar. Hann var viss um að hann hafði læst þeim áður en þau fóru öll til að vera í Hroðagerði. Hann læddist hljóðlaust inn og reyndi eftir fremsta megni að hlusta eftir ókunnugum hljóðum í húsinu. Hjartað hamaðist svo í brjósti hans að hann átti í erfiðleikum með að heyra nokkuð annað en þung slögin. Hann læddist inn í forstofuna og gægðist inn í eldhúsið. Við eldhúsborðið sat Percy, sonur hans, og grét með miklum ekka. Arthur gekk hratt að syni sínum sem hrökk við, greip hann í fangið, faðmaði hann og þeir grétu saman góða stund. Sonur hans var kominn heim aftur.

Eftir dágðóða stund leit Percy upp á pabba sinn og sagði,
“Fyrirgefðu mér pabbi, fyrigefðu hvað ég var hrokafullur og þrjóskur, fyrigefðu að ég trúði þér ekki. Heldurðu að þú getir nokkurntíman fyrirgefið mér alla hryllilegu hlutina sem ég lét út úr mér áður en ég fór?” Arthur lyfti höndinni og þaggaði blíðlega niður í syni sínum og svaraði honum,
“Elsku hjartans sonurinn minn, ég er bara svo glaður að fá þig aftur heim, ekkert af því sem gerðist á milli okkar síðasta árið skiptir máli núna.”
“Pabbi, ég heyrði um Charlie,” stundi Percy upp og tárin fóru að hrynja á ný, “það getur ekki verið satt… er það… er það satt?”
Arthur varð hryggur á svip en kinkaði kolli, “Já, elsku vinur, það er satt.”
“Ég varð að koma heim,” stundi Percy upp í gegn um ekkasogin, “ég varð að koma heim til ykkar og vera hjá ykkur. Ég var svo hræddur um að ég fengi ekki að koma inn til ykkar aftur, svo var enginn hérna. Ég kom í gærkvöldi, en húsið var mannlaust og enginn kom heim í nótt. Ég var svo hræddur um að þið væruð farin eitthvert og ég hefði misst af tækifærinu mínu til að koma aftur.”
Pabbi hans tók þétt utan um hann og sagði,
“Við förum aldrei langt. Þú veist að þú getur alltaf komið aftur heim.”
Percy grét nokkra stund í faðmi föður síns. Allt í einu reisti hann sig upp í flýti, leit á pabba sinn skelfingu lostinn,
“Pabbi, hvað með hina? Mamma, Ron, Fred og George, Bill og Ginny, ég sagði hryllilega hluti við þau líka. Sérstaklega við mömmu, ég get ekki horft framan í þau aftur.”
“Enga vitleysu ljúfurinn,” svaraði pabbi hans, “systkini þín verða himinlifandi að sjá þig á ný og hún mamma þín… hún mamma þín verður glaðari en orð fá lýst.
- En nú skalt þú koma með mér, það er ýmislegt sem við þurfum að ræða og margt sem hefur gerst sem þú þarft að fá að vita um,” hélt Arthur áfram, “það eru hér nokkrir hlutir sem ég þarf að sækja fyrir vinnuna og svo skulum við koma, fá okkur matarbita og spjalla saman.”

~~~

Harry fékk sér sæti í næstum troðfullu eldhúsinu í Hroðagerði 12. Fundur Fönixreglunnar var í þann mund að hefjast. Ron, Hermione og Ginny voru frekar ósátt við að fá ekki að stija fundinn líkt og hann, en þau vissu að það var ekki til neins að rífast um það. Molly Weasley var ekki að fara að gefa sig. Ron var mjög reiður þessa dagana og virtist helst vilja fara og rífa Voldemort í sig með berum höndum fyrir að hafa drepið bróður hans. Harry gat ekki ásakað hann, ef hann gæti nálgast Bellatrix Lestrange myndi hann eflaust ekki sitja á sér.

“Jæja Harry, fyrsti fundurinn þinn.” Harry hrökk við og leit upp, við hlið hans sátu Fred og George sem báðir voru nú farnir að starfa fyrir regluna, auk þess að reka vinsælustu grínbúð landsins.
“eh.. já..” stundi Harry upp. Hann vissi nú eiginlega ekki hvort að hann ætti að vera spenntur eða kvíðinn. Hann vildi bara fá að vita hvað var í gangi. Hann leit í kring um sig og virti fyrir sér hópinn sem var samankominn í eldhúsinu, þar á meðal mörg andlit sem hann þekkti vel. Þarna sat Lupin, við hlið hans var Tonks, sem í dag skartaði mittissíðu ljósgullnu hári. Við hlið hennar sat svo Severus Snape, svartklæddur með fitugt hárið í andlitinu að vanda, þar næstur sat Bill Weasley. Við hina hlið Harrys sat gamli vinur hans, hann Hagrid. Hagrid virtist utan við sig og Harry sýndist hann sjá glitta í tár.
“Hagrid, hvað er að?” spurði hann. Hagrid leit á Harry og svaraði eftir örlitla stund,
“Þeir tóku líka Norbert,” auðvitað, hugsaði Harry, Norbert var drekaunginn sem Hagrid hafði átt, en Charlie hafði tekið hann að sér og komið honum fyrir á verndarsvæðinu. “Auminginn litli, tekinn höndum af þessum hryllilegu skrímslum.”
Nú stóð Dumbledore upp og ræskti sig.
“Kæru vinir, fundurinn byrjar innan skamms. Við bíðum örlitla stund í viðbót eftir Arthuri Weasley sem hefur tjáð mér að hann verði hér fljótlega með óvæntan gest með sér.”

Kliður færðist yfir hópinn í eldhúsinu.
“Óvæntan gest?” spurði Fred, “Hver skyldi það vera?”
Hann þurfti ekki að velta því fyrir sér lengi því augnabliki síðar opnuðust dyrnar og inn gengu Arthur og Percy Weasley. Arthur skínandi af stolti, en Percy niðurlútur og vandræðalegur.
Molly Weasley hennti frá sér kaffibakkanum sem hún hafði verið í þann mund að setja á borðið, hljóp til sonar síns og faðmaði hann innilega að sér, eins og mömmum einum er lagið. Percy faðmaði mömmu sína þétt til baka og Harry sá tár streyma niður vanga þeirra beggja.

Fred og George sátu með opinmynntir og störðu á bróður þeirra.
Eftir litla stund rétti Percy sig við, þurrkaði burtu tárin og sagði
“Ég hef hagað mér eins og fífl undanfarið og á það ekki skilið að fá að koma inn í þennan hóp sómafólks sem hér er saman kominn. Ef þið getið með nokkru móti fyrirgefið mér orð mín og verk, vildi ég gjarnan fá að nýta krafta mína í þágu þess góða starfs sem hér fer fram. Sérstaklega vil ég fá að biðja fjölskylduna mína að fyrirgefa mér hroka minn og slæmt framferði,” - rödd hans virtist um stund vera að bresta, en hann hélt áfram, “ég hef ekki launað ykkur þá gæsku og elsku sem þið hafið alla tíð sýnt mér. Albus Dumbledore og Harry Potter vil ég einnig biðja afsökunar á framferði mínu og hryllilegum orðum sem ég lét um þá falla.” Percy lauk máli sínu og leit á andlitin í kring um sig kvíðinn á svip, eins og hann væri á milli vonar og ótta um hvort honum yrði fyrirgefið.
Dumbledore brosti blítt til hans og sagði,
“Öllum er heimilt að gera mistök. Velkominn aftur sonur sæll, við höfum saknað þín.”
Percy leit forviða upp á fyrrum skólameistara sinn og vantrúin skein úr augum hans, hann leit í kring um sig og horfði í augun á Harry eins og til að biðja um staðfestingu á þessum hlýju orðum Dumbledores. Harry brosti til hans og kinkaði blíðlega kolli. Það var gott að fá Percy aftur núna þegar Weasley fjölskyldan var svona brotin, það var gott að einn gat snúið aftur, þrátt fyrir að Charlie gæti það ekki.
Fred og George gengu að bróður sínum og slógu létt á bakið á honum,
“En þú gerir þér grein fyrir að nú verður þú sjálfskipað tilraunadýr fyrir nýjustu hrekkjavörunar okkar?” Sagði George og glotti. Við þetta losnaði um undrunarsvipin á Percy og hann skellti uppúr. Bill galdraði fram nýjan stól og bauð yngri bróður sínum sæti sér við hlið.

“Áður en við hefjum fundinn,” sagði Dumbledore, “vil ég biðja ykkur öll að votta þeim sem létust í árásinni í Rúmeníu í gær og Dedalus Diggle sem myrtur var í fyrradag, virðingu ykkar og eiga með mér hljóða stund.”
Það var grafarþögn í eldhúsinu við Hroðagerði, allir sátu álútir á stólunum sínum og hjá nokkrum mátti sjá glitta í tár. Harry hugsaði um Charlie og um Dedalus Diggle gamla, sem hafði alltaf verið svo glaður. Þetta virtist aldrei ætla að enda. Allt í kring um hann var fólk að deyja. Hann vissi að hann yrði að stöðva Voldemort. Einhvern veginn, einhvern tímann skyldi hann sigra hann, í eitt skipti fyrir öll.

Eftir nokkrar mínútur hóf Dumbledore upp raust sína á ný.
“Hefjum þá fundinn. Fyrst ber að nefna að nýji húseigandinn hér á Hroðagerði 12, Harry Potter, hefur góðfúslega gefið okkur leyfi til að halda áfram að hafa höfuðstöðvar Fönixreglunnar hér.”
Fagnaðarlæti kváðu við í eldhúsinu, Harry fann að hann roðnaði upp í hársrætur. Þetta var nú ekki svo mikið mál, fannst honum, eiginlega bara alveg sjálfsagt.
“Harry mun fá að fylgjast betur með fundum og málefnum sem regluna varða héðan í frá. Hann er nú fullgildur meðlimur reglunnar þó að hann sé ennþá í skóla og muni þar af leiðandi ekki taka þátt í öllum verkefnum sem fyrir liggja. Við bjóðum hann því velkominn til starfa ásamt Percy Weasley sem, eins og nú er ljóst, er einnig genginn til liðs við okkur.”
“Það er óþarft að taka það fram að málefnin sem hér eru rædd eru ekki á allra vörum og ekki á að ræða þau við utanaðkomandi aðila, þó að ég geri mér nú grein fyrir að einhver þeirra verið hugsanlega rædd við ákveðna aðila hér á efri hæðinni.” hélt hann áfram og glotti lítillega til Harrys sem roðnaði enn meir.

“Annað mál á dagskrá” hélt Dumbledore svo áfram. “Cornelius Fugde hefur ákveðið að segja af sér sem galdramálaráðherra eftir allan þrýstinginn sem fjölmiðlar og fleiri hafa beitt hann. Ráðuneytið hefur enn á ný beðið mig að taka hlutverkið að mér, en á því hef ég ekki áhuga. Minn staður er í Hogwarts, þar er mín köllun og þar get ég best unnið fyrir regluna og framtíð galdraheimsins. En ég hef fengið leyfi frá ráðuneytinu til að útnefna annan mann í hlutverkið. Mann sem ég tel öllum öðrum hæfari til að sinna því. Mann sem er einstakur á margan hátt. Hann er örlátur, kærleiksríkur, sterkur, sanngjarn og miklum gáfum gæddur, maður sem nú þegar hefur stýrt heilli herdeild með sóma í fjölda mörg ár, þó hann fái reyndar afbragðs hjálp við það frá eiginkonu sinni.” Dumbledore glotti, “Ég er að sjálfsögðu að tala um Arthur Weasley.”
Hver einn og einasti meðlimur Weasleyfjölskyldunnar rak upp stór augu og allir litu á Arthur sem virtist þrumulostinn. Aðrir fundargestir virtust ekki svo hissa heldur hrópuðu hvatningarorð til Arthurs.
“Ég veit ekki um nokkurn mann sem gæti sinnt þessu starfi betur,” hélt Dumbledore áfram yfir kliðinn sem fljótlega þagnaði. “Hvað segið þið um þetta, Arthur og Molly? Þetta er jú ykkar ákvörðun og kemur til með að hafa mikil áhrif á líf ykkar.”

“Ég veit það ekki, Dumbledore,” stundi Arthur efins eftir nokkra stund. “Er ekki einhver sem er betur til þess fallinn en ég?”
“Nei, hreint ekki.” svaraði Molly fljót í bragði. “Arthur, það er rétt sem Dumbledore segir, þú ert sá sem ert best fallinn í þetta starf. Þú hefur starfað í innsta hring ráðuneytisins svo lengi að þú þekkir hvern krók og kima þar, þú ert einn þeirra sem hefur starfað hvað lengst með Fönixreglunni og þú getur leyst þetta starf betur af hendi en nokkur sem á undan hefur gengið.”
“Hún veit hvað hún syngur, Arthur,” sagði Kingsley Shaklebolt. “Hlustaðu á hana.”
Arthur varð hálf vandræðalegur á svip, en kinkaði svo kolli og sagði
“Allt í lagi, ég skal taka þetta hlutverk að mér, en ég krefst þess þá að fá hjálp frá ykkur öllum þegar ég þarf á henni að halda og trúið mér, ég mun þurfa á henni að halda.”
Mikil fagnaðarlæti brutust út og allir reyndu að komast að honum til að færa honum hamingjuóskir og hvatningarorð.
“Þú verður vígður inn í embætti á morgun um hádegi,” sagði Dumbledore yfir kliðinn. “Þakka þér fyrir Arthur og gangi þér vel.”

“Næsta mál,” hélt Dumbledore áfram. “Voldemort hefur ekki setið auðum höndum eins og við höfum nú þegar heyrt. Allir hér inni hafa þegar heyrt um hina hryllegu árás á verndarsvæðið í Rúmeníu. Allir drekarnir 37 sem þar voru hafa verið numdir á brott. Enn sem komið er höfum við ekki vitneskju um hvert þeir voru fluttir eða í hvaða tilgangi en okkar maður í herdeild óvinarins er með augun opin fyrir öllum vísbendingum.” Í þessum orðum töluðum leit Dumbledore á Snape sem kinkaði kolli.
“Hefur þú eitthvað nýtt fram að færa, Severus?” spurði Dumbledore.
“Nei, ekki er það nú margt í bili,” svaraði Snape, “Ég er enn engu nær um hver uppljóstrarinn í ráðuneytinu er en ég veit að hann hefur fært hinum myrka herra upplýsingar um fyrirhugaða afsögn Fudge. Það eina sem ég get gert í bili er að ráðleggja þeim sem starfa innan ráðuneytisins, þá sérstaklega þér núna, Arthur, að fara varlega og hafa bæði augu og eyru opin.”
“Þakka þér fyrir Severus.” sagði Dumbledor “Það er eitt enn sem ég hef að segja frá. Á morgun verðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að fá til okkar unga stúlku sem er sérfræðingur með prófessorsgráðu í vörnum gegn myrku öflunum. Hún ætlar að starfa með okkur að því að leysa vandamálið með vitsugurnar. Eins og við vitum öll hér inni eru vitsugurnar gengnar til liðs við Voldemort og við höfum fáar sem engar leiðir til að stöðva þær ef þær birtast. Við getum hrakið þær burtu með Patronus galdrinum en við getur ekki stöðvað þær eða eytt þeim. Prófessor Anika Weasley, sem er einmitt yngri systir Arthurs, ætlar því að koma frá Svíþjóð og leggja okkur lið við að finna leiðir til að stöðva þær.”
“Ef enginn hefur önnur mál sem þarf að ræða þá segi ég þessum fundi slitið.”