Ég er að hugsa um að gera smá breytingar á vinnulaginu hjá mér.
1. Þar sem ég þarf að berjast við það í hvert sinn, að gera kaflann nógu stuttan, (vitið þið um íslenskar síður fyrir langa áhugaspuna?) þá er ég að hugsa um að skrifa langa kafla en skipta þeim svo og senda bara þá hálfa inn á huga. Ég veit ekki hvernig þetta mun hafa áhrif á það sem ég sendi inn. Vonandi bara til góðs, ef eitthvað.
2. Ég ætla að taka upp þann ágæta sið að minna á það sem gerðist í síðasta kapítula. Svona endaði til að mynda seinasti kapítuli:
Þegar nokkuð var liðið á hátíðarverðinn og dimmur álagahimininn var orðin svartur sem sót og þrumurnar dundu, opnuðust dyrnar á stóra salnum og hleyptu inn köldum gusti. Allir litu við og í annað sinn sló algerri þögn á allan salinn. Það mátti heyra í dropunum sem drupu af aðkomumönnum sem stigu hægt innfyirir.
Sjöundi kapítuli
Nýji kennarinn
Harry starði á parið sem stóð í dyrunum. Það sama gerði hver einasti nemandi og kennari á staðnum. Svo fór að bera á hvísli, fyrst frá Slytherinborðinu tók Harry eftir en svo brast á hávær kliður, öllum var mikið niðrifyrir og hvísluðust hátt á.
Í dyrunum stóð Filch og með honum lagleg ung kona með skollitt hár niður á axlir og regnhlíf í höndunum. Hún var í fleginni blússu, stuttu pilsi og háhæluðum skóm.
Hún var klædd upp eins og Muggi!
Harry var hissa á sjálfum sér, hann hafði oft séð Mugga og klæðnað þeirra, jafnvel oftar en galdramannaklæði. Það var bara það að í þessu umhverfi… Hún átti alls ekki heima hérna.
„Hver er þetta nú eiginlega?“
„Hvaða hræðilegu fötum er hún í?“
„Það sést í hnén á henni!“
Sumir virtust hneykslaðir, aðrir bara undrandi og enn öðrum fannst þetta fyndið þegar þeir voru búnir að meðtaka það sem þeir sáu.
Dumbledore stóð upp og skvaldrið minnkaði töluvert. Unga konan flýtti sér vandræðaleg upp að borðinu til hans og þau töluðu eitthvað saman og allir horfðu á. Þegar Dumbledore benti henni svo á auða sætið hliðina á Snape hváðu við andköf og hvískrið byrjaði aftur.
„Ekki er þetta nýji kennarinn okkar í vörnum gegn myrku öflunum?“ hváði Dean.
„Það lítur útfyrir það,“ svaraði Hermione.
MacGonagall sveiflaði sprotanum sínum og Muggafötin umbreyttust strax í síðan svartan nornakufl með kraga. Harry fannst hann svolítið nunnulegur. Svo gekk konan bak við borðið og settist hjá Snape sem horfði á hana fyrirlitningaraugum. Neville hafði haft rétt fyrir sér, greyið fékk ekki hlýjar móttökur hjá honum og nervus brosið sem hún var með hvarf um leið og varð að eins konar skelfingarsvip.
Svo leið kvöldið og það var mikið skrafað, aðallega um Muggakonuna eins og hún var kölluð á Gryffindorborðinu þetta kvöld. Harry gat ekki beðið eftir að fara í fyrsta tímann í vörnum gegn myrku öflunum og komast að því hver þessi kona væri.
Morguninn eftir vaknaði Harry við það að Ron hristi hann og talaði allt of hátt svona snemma morguns að mati Harrys.
„Vaknaðu svefnpurkan þín! Á fætur, ég nenni ekki að bíða eftir þér í allan morgun! Dean og Seamus eru þegar farnir niður!“
Harry umlaði eitthvað en Ron dró hann úr rúminu með sæng og öllu.
„Veistu hvaða tíma við förum fyrst í? Varnir gegn myrku öflunum! Við verðum fyrstir af öllum skólanum að fara í tíma hjá Muggakonunni!“
Ef Harry hafði ekki vaknað við það að detta framúr, þá glaðvaknaði hann við þessar fréttir. Hann þreif gleraugun sín og stökk á fætur.
„Í alvöru?“
„Aha.“ Ron brosti breitt, „Flýtum okkur niður í morgunmat.“
Þegar þeir komu niður voru margir mættir og byrjaðir að matast, bæði nemendur og kennarar. Nýji kennarinn var þó ekki komin enda samt frekar snemmt.
Þegar Harry var að smyrja sér brauðsneið með marmelaði kom uglupósturinn fljúgandi. Hedwig kom og heilsaði upp á þótt hún væri ekki með neinn póst og Hermione þurfti að benda honum á að það hefði komið önnur ugla. Harry lyfti Hedwig upp og sá þá rólega grábrúna uglu með bréf í gogginum á bak við hana. Hann tók það og opnaði. Honum varð svo mikið niðri fyrir af upplýsingunum í því að bæði Ron og Hermione virtust dálítið áhyggjufull þegar hann leit aftur upp.
„Harry?“ spurði Hermione varfærnislega, „Er allt í lagi? Hvað stóð í bréfinu?“
Harry leit snöggt í kringum sig og hallaði sér síðan fram og hvíslaði.
„Það er frá Lupin.“
„Lupin?“ hváði Ron.
„Já. Það er sko svolítið sem ég þarf eiginlega að segja ykkur.“ Svo sagði hann þeim í grófum dráttum frá draumnum sem þá Lupin og Neville hafði alla dreymt nóttina fyrir bréfið frá Hogwarts.
„Samtengdir draumar,“ sagði Hermione dálítið heilluð.
„Veistu eitthvað um þá?“ spurði Harry strax en Hermione hristi höfuðið.
„Nei ég hef ekki komist yfir það enn þá. En hvað sagði Lupin annars í bréfinu?“
„Já, alveg rétt, ég þarf að segja Neville frá þessu líka,“ Harry lækkaði róminn enn meir og var mikið niðrifyrir, „Lupin veit ekki hvað er í gangi en Kingsley dreymdi líka drauminn!“
„Kingsley?“ spurði Ron hissa og Harry kinkaði kolli, „En hvað eigið þið sameiginlegt? Þú, Neville, Lupin og Kingsley? Það hlýtur að vera einhver tenging þarna á milli ykkar til þess að ykkur fari alla að dreyma sama drauminn. Sem er svo enginn venjulegur draumur heldur bjöguð endurupplifun af því er mér skildist.“
„Ron hefur rétt fyrir sér,“ kvað Hermione, „Og hún er frekar augljós.“
Harry og Ron störðu á hana með svip sem sagði að þeim fyndist tengingin ekki neitt augljós og biðu eftir útskýringu. Hún kom þó aldrei af því að hinir krakkarnir sem voru á leið í varnir gegn myrku öflunum drógu þau á fætur og sögðu að þau mættu ekki vera of sein í fyrsta tímann hjá nýja kennaranum.
Sjöttaárs Gryffindornemarnir voru mættir fyrir utan stofuna á undan kennaranum. Stofan var ólæst svo að þau gengu inn og eins og venjulega settust Harry, Ron og Hermione fremst, upp við kennaraborðið. Það var spjallað og allir biðu spenntir. Fimm mínútum síðar var Peeves mættur á staðinn að kasta einhverju klístruðu í þau og hló að því að þau væru enn að bíða. Eftir tíu mínútur voru þau öll orðin pirruð og reið við Peeves auk þess að vera óþolinmóð og undrandi á fjarveru kennarans.
„Þetta er fyrsti tíminn hennar og hún mætir ekki einusinni!“
„Hey, sá hana nokkur í morgunmatnum?“
Harry dæsti og ákvað að nota tímann til þess að segja Neville frá bréfinu frá Lupin. Það voru svo mikil læti að það myndi enginn heyra neitt og þeir myndu vonandi fá að vera í friði fyrir Peeves.
„Ég ætla aðeins að tala við Neville,“ sagði hann við Ron og Hermione og fór yfir til hans. Hann rétt náði að segja honum fréttirnar, þegar dyrnar opnuðust og unga konan var aftur mætt með Filch á hælunum. Hún var í kuflinum frá MacGonagall og komin með afskaplega kennaralegan hnút í hárið.
„Fyrigefið mér hvað ég er sein! Þessi kastali, ég meina skóli, hann er svo stór!“ Hún brosti vandræðalega um leið og hún hlassaði sér móð í kennarastólinn, „Ég villtist en var svo heppin að rekast á hann Filch, annars hefði ég verið týnd að eilífu!“
Filch rak Peeves út með hótunum og sá hvarf fretandi í gegnum vegginn.
„Jæja ungfrú, nú ertu komin heilu og höldnu á áfangastað. Hóaðu bara í mig ef þig vantar einhverja hjálp.“
Hún brosti til hans.
„Þakka þér fyrir hr. Filch, ég geri það.“ Svo stóð hún upp og leit á bekkinn sem var þögull og starði á hana. „Jæja.“ Hún var vandræðaleg og hikandi og Harry sá að hún var ennþá yngri en hann hafði haldið fyrst, hún var í mesta lagi 24 ára, jafnvel bara 22.
„Jæja já, best að byrja á því að kynna mig,“ sagði hún að lokum og greip krít. „Dumbledore skólastjóri bað mig um að kenna ykkur varnir gegn myrku öflunum í vetur, að minnsta kosti þangað til að hann finnur einhvern hæfari til þess.“
Harry og Neville litu hvor á annan. Hún ætlaði ekki að vera til frambúðar.
„Prófessor!“ kallaði einhver.
„Nei, nei, nei! Ekki kalla mig prófessor!“ svaraði hún strax, „Ég er alls enginn prófessor, bara afleysingakennari. Kallið mig bara fröken.“ Svo snéri hún sér við og skrifaði eitthvað á töfluna. Hún snéri sér aftur við og brosti enn þessu nervus brosi.
„Frk. Norm. Það er ég.“
Hún vissi greinilega ekkert hvað hún ætti af sér að gera og krökkunum fór að líða hálf illa líka. Þá greip hún allt í einu blað sem hún hafði lagt á borðið.
„Æ já! Lesa upp! Viljiði vera svo væn að rétta upp hönd þegar ég les nafnið ykkar svo að ég viti hver er hvað? Jæja. Hmhmm.“ Hún ræskti sig áður en hún byrjaði á upplestinum. Harry beið í makindum eftir að hans nafn yrði lesið upp.
„Potter, Ha…“ Hún tók andköf. „Harry? Harry Potter?“ Hún leit snöggt með áfergju yfir bekkinn. Harry rétti hikandi upp höndina og hún leit beint í augun á honum. Svo færði hún augnaráðið upp að enninu eins og allir gerðu áður en hún leit aftur í augun á honum. Hún var í svo miklu uppnámi að hún roðnaði í vöngum og starði með aðdáunarbrosi á Harry.
„Öö…“ sagði Harry.
„Ótrúlegt,“ stundi fröken Norm, „Harry Potter er í bekknum!“ Svo leit hún á hina nemendurna eins og til að sjá viðbrögðin hjá þeim. Harry leit lika í kringum sig og sá að sumum var skemmt en flestum, þar á meðal honum sjálfum, virtist finnast hún gera allt of mikið úr þessu.
„Harry Potter,“ endurtók hún dreymandi við sjálfa sig.
Fattið þið tenginguna sem Hermione fannst svona augljós?