Harry vaknaði upp með andfælum, hver einasti vöðvi líkamans var spenntur, hann var kófsveittur og allur baðaður tárum. Hann hafði enn á ný dreymt hringlaga herbergið, herbergið þar sem Sirius dó. Nánast hverja einustu nóttu frá því að hann kom aftur heim til Runnaflatar hafði hann dreymt þetta afdrifaríka kvöld. Hann settist upp í rúminu sínu og grét sáran. Af hverju hafði hann ekki lagt harðar að sér við að læra hughrindingu? Af hverju hafði hann verið svona þrjóskur? Af hverju hafði hann ekki munað eftir speglinum frá Siriusi? Af hverju var hann svona vitlaus? Spurningarnar æddu um huga hans, leituðu svara sem hvergi var að fá. Eftir nokkra stund minnkaði táraflóðið og hann greip sér vasaklút til að snýta sér. Hann lagðist aftur niður í rúmið og hlustaði á klukkuna í stofunni slá fjögur högg. Jæja, hann hafði þó sofið í fimm tíma sem var meira en undanfarnar nætur. Hann lá grafkyrr í rúminu sínu og hlustaði á næturkyrrðina og ljúfa næturgoluna leika sér við trén fyrir utan opinn gluggann.

Nú skyldi allt verða öðruvísi. Nú þegar hann vissi hvert hlutverk hans var í þessum heimi skyldi ekkert fá hann stöðvað. Hann ætlaði að nota alla sína þrjósku til að verða betri maður og uppfylla sinn hlut af spádómnum. Foreldrar hans og Sirius skyldu ekki hafa dáið til einskis.
Það fyrsta sem hann ætlaði að gera þegar hann kæmi aftur í skólann var að tala við Snape, biðja hann afsökunar og biðja um að fá frekari kennslu í hughrindingu. Það var rétt hjá Dumbledore, það væri ekki sniðugt að gera það með honum, að opna huga hans fyrir Voldemort andspænis honum gæti leitt til allskyns vandræða. Hann þyrfti bara að fá Snape til að fyrirgefa sér.

Snape… hann hafði svarið að fyrirgefa Snape aldrei fyrir að egna Sirius upp og segja að hann gerði ekki neitt að gagni fyrir regluna, en í sannleika sagt vissi hann vel að Sirius þurfti ekki nokkra hvatningu frá Snape til að fara þetta kvöld. Hann vissi að hann hefði sjálfur ekki látið nokkuð aftra sér ef hlutverkunum hefði verið víxlað. Hann hafði líka mikið hugsað um það sem hann sá í þankalauginni hjá Snape. Hugsað um föður sinn og Sirius sem léku sér að því að fara illa með Snape. Um móður hans sem virtist hata föður hans. Hvernig í ósköpunum höfðu þau endað saman? Hann varð að ræða um þetta við einhver og fá betri botn í málið, en hvern? Lupin! Hann gat rætt við Lupin um þetta, en svo vildi hann gjarnan líka fá að heyra hlið Severusar Snapes. Hvað sem það kostaði þá skyldi hann tala við Snape, fá hann til að fyrirgefa sér og sjá að þrátt fyrir að hann hefði útlit föður síns, þá væri hann ekki eins. Hann myndi aldrei koma svona fram við aðra. Hvað sem það kostaði skyldi honum takast að fá Snape til að kenna sér hughrindingu á ný og í þetta skipti skildi hann leggja sig allan fram.

Hann nuddaði augun og fylgdist með sólarljósinu byrja að skríða inn um gluggann. Hann teygði sig í gleraugun sín, setti þau á nefið og leit á klukkuna sem var langt gengin sjö. Hann vissi að morgunmaturinn yrði kominn á borðið innan skamms eins og venjan var á Runnaflöt 4 og ákvað því að koma sér á fætur og smellti sér í föt. Hann var rétt kominn fram á stigapallinn þegar allt varð svart, hann snerist í hringi og heyrði ómandi hlátur, illgjarnan og hryllilegan hlátur. Hann fann gleði og ánægju streyma um líkama sinn en fannst jafnframt að höfuð hans hlyti að springa von bráðar. Smám saman hætti hann að finna þessa miklu gleði og aðeins brennandi sársaukinn í enni hans var eftir. Hann reis á fætur og það tók hann örlitla stund að ná jafnvæginu almennilega.

Nú hafði eitthvað hryllilegt gerst. Voldemort var aldrei svona glaður nema hann eða fylgismenn hans væru búnir að fremja eitthvert voðaverk. Hann varð að láta vita. Hann yrði að koma skilaboðum til Dumbledores og hinna í reglunni, en hvernig? Dumbledore hafði fyrirskipað strangt uglubann yfir sumarið af hræðslu við að þær yrðu gripnar eða eltar.
Frú Figg! Þar hafði hann það. Hann stökk af stað niður stigann og fram hjá skelfingu lostinni Dursley fjölskyldunni, sem vafalaust hafði heyrt hann öskra og hlæja nokkrum mínútum áður, beina leið út og yfir til frú Figg.
Þar hringdi hann bjöllunni og barðist við að ná andanum á meðan hann beið eftir svari. Frú Figg kom til dyra klædd í náttslopp og flókainniskóna sína með rúllurnar í hárinu.
“Harry minn, hvað gengur á?” spurði hún og horfði hissa á fölan drenginn sem stóð lafmóður og sveittur fyrir framan dyrnar hjá henni, “Hefur eitthvað komið fyrir?”
Harry kinkaði kolli og gekk inn framhjá skelfingu lostinni frú Figg sem lokaði dyrunum á eftir honum.

“Voldemort er of glaður.” sagði hann móður og másandi. “Ég fann fyrir honum áðan, hann er alltof glaður, hann er búinn að gera eitthvað hræðilegt. Við verðum að vara Dumbledore við.”
Frú Figg kinkaði kolli óttaslegin á svip og fór strax inn í setustofuna sína og settist við stórt skrifborð. Þar tók hún upp bréf og fjaðurpenna og skrifaði stutt skilaboð, hún náði sér svo í rauða fallega fjöður sem lá í skúffu í skrifborðinu hennar, festi hana við bréfið og sagði hátt og skýrt “Albus Dumbledore”. Harry horfði forviða á bréfið hverfa í eldglæringum.
“Við ættum að fá svar frá honum von bráðar, en á meðan við bíðum ættir þú að fá þér sæti hjá mér í eldhúsinu og fá þér smá matarbita.” sagði frú Figg “Þú lítur út fyrir að þurfa á staðgóðri máltíð að halda.”
Harry þáði það og fylgdi frú Figg fram í eldhús þar sem hún reiddi fram allskyns góðgæti úr ískápnum, honum til mikillar ánægju.
“Ef þú vildir svo hafa mig afsakaða í augnablik Harry minn, þá ætla ég að skjótast upp og klæða mig áður en ég kem niður og fæ mér bita með þér.”

Þegar þau höfðu lokið við að renna niður ljúffengasta morgunverði sem Harry hafði fengið allt sumarið, birtist allt í einu bréf og rauð fjöður í eldglæringum líkt og það fyrra hafði horfið. Frú Figg greip bréfið og las það upphátt.
<center><i>
Er að athuga málið, þarf aðeins meiri tíma. Harry, haltu kyrru fyrir hjá frú Figg þar til frekari upplýsingar berast. Hef samband eins fljótt og ég get. Dumbledore</i></center>

“Jáh, þar höfum við það. Við ættum þá kannski að flytja okkur yfir í betri stofuna fyrst þú verður hér hjá mér nokkra stund,” sagði frú Figg þegar hún hafði lokið við lesturinn.

Harry og frú Figg höfðu lokið við síðdegishressinguna og sátu við spil þegar loksins birtist annað bréf frá Dumbledore. Í þetta sinn var það stílað á Harry sem las það upphátt fyrir frú Figg.
<center><i>
Harry, það var rétt hjá þér, hræðilegir atburðir hafa átt sér stað.
Voldemort hefur gert árás á drekaverndarsvæðið í Rúmeníu.
Farðu heim að Runnaflöt og pakkaðu niður öllum þínum föggum, þú verður sóttur um miðnætti, vertu tilbúinn.
Sjáumst í kvöld
Kveðja, Albus Dumbledore </i></center>

“Jæja ljúfurinn minn,” sagði frú Figg, “þú ættir þá að flýta þér af stað. Það var gaman að hafa þig hjá mér í dag, ég vildi bara að það hefði verið undir betri kringumstæðum.” Harry tók undir það, þakkaði frú Figg fyrir daginn og kvaddi.

Um miðnætti sat Harry tilbúinn í eldhúsinu á Runnaflöt með allt sitt hafurtask sér við hlið. Hann hafði þegar kvatt frænku sína og frændur og nú beið hann bara eftir að verða sóttur. Hver skyldi sækja hann og hvernig? Myndu þau fljúga aftur líkt og síðasta sumar? Harry var enn að velta þessu fyrir sér þegar hann heyrði í bíl renna upp að hlaðinu. Hann gekk hissa að eldhúsglugganum og leit út. Út úr gráum fólksbíl steig lítill hópur fólks sem hann kannaðist vel við. Tonks, Lupin og Kingsley Shaklebolt gengu upp stíginn að útidyrunum. Harry stökk til, opnaði fyrir þeim og heilsaði þeim glaður í bragði. Lupin leit út fyrir að hafa elst um nokkur ár þetta sumar, grái lokkurinn sem hékk fram á ennið virtist vera að stækka og augun voru þreytt og sokkinn. Kannski var það bara fullu tunglinu nóttina áður að kenna, hugsaði Harry með sér. Tonks var með grænt axlarsítt hár í tilefni dagsins, klædd í samlitar grænar buxur og hvítan magabol, alltaf jafn falleg og glaðleg að sjá. Kingsley hafði greinilega reynt að vanda sig við að líta út eins og muggi en ekki tekist betur upp en svo að hann var klæddur í litríka Hawaii-skyrtu með bindi og sixpensara á kollinum. Harry átti bágt með að verjast brosi. Lupin gerði sér lítið fyrir og tók koffortið hans áreynslulaust af gólfinu og skellti því í skottið á bílnum sem Kingsley hafði fengið lánaðan hjá ráðuneytinu. Harry tók Hedwig og svo var haldið af stað í átt til London.

Morgunstjarnan skein skært þegar bíllinn staðnæmdist loksins fyrir utan Hroðagerði 12. Harry hafði reynt nokkrum sinnum að spyrja fylgdarmenn sína frétta en fékk lítið upp úr þeim svo hann hafði látið sér nægja að horfa út um gluggann meirihluta leiðarinnar.

Það var skrýtið andrúmsloft sem ríkti í Hroðagerði og Harry fann að eitthvað alvarlegt hafði gerst. Ron heilsaði honum stuttlega þegar hann kom inn en fór svo í flýti upp í herbergið þeirra. Ginny sat grátandi úti í horni á eldhúsinu með Skakklappa í fanginu, Hermione var að reyna að hugga hana en virtist ekki vera að ganga mjög vel. Frú Weasley var á þönum í eldhúsinu og sífellt að bjóða fólki mat. Fred og George sátu hljóðir við eldhúsborðið og virtust ekki hafa mikla lyst á öllu því góðgæti sem mamma þeirra hafði staflað fyrir framan þá. Lupin, Tonks og Kingsley þáðu strax mat hjá Molly og settust niður hljóð í bragði og tóku til matar síns. Molly tók sér örlítið hlé til að heilsa Harry og faðmaði hann stuttlega að sér, en virtist forðast að horfast í augu við hann. Harry sá samt að augu hennar voru rauð og bólginn áður en hún sneri sér undan og hélt eldamennskunni áfram.

Í því kom Dumbledore gangandi niður stigann.
“Ah.. Harry, gott að sjá þig,” sagði hann. “Ég vildi gjarnan fá að tala við þig í einrúmi ef ég mætti.”
Harry kinkaði kolli og fylgdi Dumbledore upp tröppurnar á ný.
Þeir settust saman inn í setustofuna þar sem Harry hafði varið síðustu jólum með Siriusi og vinum sínum.

Sirius… Harry fann tárin lauma sér fram í augnhvarmana, hann fann hvernig augun hitnuðu og reyndi allt hvað af tók að halda aftur af sér.
“Já, það er erfitt að koma aftur hingað” sagði Dumbledore. “Margar minningar sem erfitt er að horfast í augu við.”
Harry kinkaði kolli aftur, hann treysti sér ekki til að svara.
“En það er ýmislegt sem við þurfum að ræða hér í kvöld.” hélt Dumbledore áfram. “Það fyrsta sem þú vilt væntanlega vita er hvað gerðist í Rúmeníu í nótt.” Harry kinkaði kolli á ný. “Voldemort hefur verið duglegur að safna sér liðsmönnum undanfarna mánuði og hefur nú náð í lið með sér vampírum og mörgum varúlfum, auk vitsuganna, risanna og hinna ýmsu galdramanna sem hann hafði fyrir. Það er ekki erfitt fyrir hann að fá varúlfa og vampírur á sitt band því þeir sem eru hálfmennskir hafa ekki haft mikil réttindi meðal okkar í galdraheiminum. Margir varúlfanna eru muggar og hafa verið fluttir nauðugir yfir í okkar heim þar sem þeir njóta engra réttinda en þurfa að lúta okkar lögum, vera skráðir sem villidýr og hírast í köldum geymslum í ráðuneytinu á hverju einasta fulla tungli. Það er því ekki erfitt fyrir Voldemort að bjóða þeim betra líf.”
“Hvað sem því líður þá sendi Voldemort hóp af varúlfum og annan hóp af vampírum til að ráðast á verndarsvæði drekanna í gærkvöldi og drepa alla starfsmenn, konur og börn sem þar bjuggu. Þeirra á meðal Charlie Weasley.” Harry saup hveljur, nú skildi hann hversvegna allir voru svona skrýtnir niðri. Harry hafði alltaf líkað vel við Charlie og nú gat hann ekki haldið aftur af tárunum lengur.
“Þegar blóðbaðið var yfirstaðið,” hélt Dumbledore áfram, “komu drápararnir í fylgd með risum og tóku alla drekana. Við vitum ekki hvert þeir fóru með þá eða hvað þeir ætlast fyrir, við vitum bara að það getur ekki verið neitt gott.”
Dumbledore gerði hlé á máli sínu og gaf Harry tækifæri til að melta þessar hryllilegu fréttir.

“En það er fleira sem við þurfum að ræða,” hélt hann svo áfram. “Sirius arfleiddi þig að öllu sem hann átti.” Harry hrökk við, þetta var það síðasta sem hann átti von á að heyra.
“Hvað meinarðu?” spurði hann ringlaður í bragði.
“Sirius vildi ekki að þú þyrftir að hírast mínútunni lengur á Runnaflöt en þú mögulega þyrftir. Hann vildi því sjá til þess að þú ættir öruggt heimili til að snúa til, jafnvel þó að hans nyti ekki lengur við. Það var nú reyndar ekki mikið sem hann átti, eftir öll þessi ár í fangelsinu og á flótta, en þetta hús og allt sem því tilheyrir er núna þitt.” Hélt Dumbledore áfram. “Ég vil gjarnan biðja þig um leyfi til að fá að hafa höfuðstöðvar reglunnar hér áfram því þrátt fyrir að galdramálaráðuneytið sé farið að sjá að sér varðandi stefnu sína í málefnum sem viðkoma Voldemort þá eru ýmsir hlutir sem betra er að ræða í þrengri hóp.”

Harry tók upp vasaklútinn sinn og þurrkaði sér um augun. Eftir örlitla íhugun svaraði hann,
“Auðvitað má reglan hafa höfuðstöðvar sínar áfram hér, en með einu skilyrði; ég vil fá að að vera fullgildur meðlimur reglunnar. Ég ætlast ekki til að fá að taka þátt í öllu sem reglan gerir,” sagði Harry þegar hann sá hve Dumbledore var brugðið, “og ég ætla ekki að hætta í skólanum eða neitt svoleiðis, en ég vil fá að fylgjast með, fá að vita hvað er að gerast. Samkvæmt þessum blessaða spádómi er það ég sem þarf að drepa Voldemort, ef einhver á að gera það, og ég vil vera eins vel undir það búinn og ég get. Þú sagðir það sjálfur í vor að það voru mistök að reyna að halda hlutunum leyndum fyrir mér og nú vil ég vita allt.” Harry var mjög ákveðinn á svip. Dumbledore horfði á hann alvarlegur í bragði nokkra stund, kinkaði svo kolli og svaraði,
“Þú hefur rétt fyrir þér. Það voru mistök að segja þér ekki allt og þú átt fullan rétt á að vera fullgildur meðlimur reglunnar. Fyrsti fundurinn sem þú mætir á er annað kvöld.”