Sólin skein þótt degi væri tekið að halla og enn var mjög heitt eins og venjulega í lok ágústmánaðar í Rúmeníu. Eftir skamma stund myndi sólin setjast og tunglið fara að rísa. Charlie Weasley var að ganga frá eftir störf dagsins og hafði rétt í þessu lokið við að fóðra drekana fyrir nóttina. Vinur hans Julius Clayman stóð rétt hjá honum og var að sinna brunasári sem hann hafði hlotið við gjöfina.
“Er þetta mikið?” spurði Charlie
“Nei, ekki svo.” svaraði Julius.
“Leyfðu mér að líta á þetta.” sagði Charlie og gekk nær til að athuga sárið. Julius rétti að honum vinstri handlegginn, Charlie fletti frá brunnu efninu sem eitt sinn hafði verið skyrtuermi og leit á stórt brunasárið sem náði yfir mest allan upphandlegginn.
“Ekki mikið, nei?” spurði hann aftur. “Ég held þú ættir að kíkja við í sjúkraskýlinu áður en þú kemur í matinn.”
Julius lofaði því og þeir gengu hvor í sína áttina.
Charlie gekk að matsalnum sem var stærsta skýlið á öllu verndarsvæðinu og jafnframt óformleg félagsmiðstöð þessa fimmtíu manna samfélags. Þar inni voru nú allir saman komnir til að snæða kvöldverð. Í kvöld var glaumur og gleði því Lucas Kettlesteen, umsjónarmaður verndarsvæðisins, var fimmtugur í dag. Matsalurinn var allur skreyttur með borðum og blöðrum og kertaljós loguðu víða í gluggum og á borðum. Við enda matsalarins var stórt hlaðborð. Yfirleitt var ekki mikið um dýrðir á þessu borði, einungis næringarríkur og léttur matur, en í dag var borðið hlaðið hinum dýrlegustu krásum sem nokkur gat ýmindað sér. Stór kalkúnn var á miðju borðinu, við hlið hans allskyns meðlæti við hæfi, örlítið lengra til vinstri var heilsteikt svín og allt meðlæti sem fylgir slíkri veislu, ennþá lengra til vinstri mátti sjá alla mögulega forétti sem hugurinn gæti girnst og á hægri helmingi borðsins hverskyns eftirréttir, kökur og sætindi.
Charlie horfði yfir hópinn sem sat í salnum. Fólkið sat prúðbúið og spjallaði við lítil borð sem raðað hafði verið upp líkt og á veitingahúsi. Börn hlupu um á milli borðanna í leik og reyndu sitt besta til að stela sér sælgæti af eftirréttarborðinu án þess að foreldrar þeirra sæju til. Charlie hafði oft hugsað til þess að eitt sinn hefðu hann og Bill bróðir hans dreymt um að fá að alast upp á slíkum stað, á drekaverndarsvæði, en börnin hér höfðu það ekki líkt því eins skemmtilegt og þeir bræðurnir höfðu ímyndað sér. Þau þurftu yfirleitt að vera í felum og fengu lítið sem ekkert að sjá drekana nema út um gluggana á skýlunum sem voru samlit jörðinni. Þó virtust börnin una sér vel, sérstaklega í dag þegar önnur eins veisla var í uppsiglingu.
Þegar allir voru komnir og hátíðarhöldin voru hafin kom Julius aftur og settist hjá Charlie. Hann var með umbúðir um handlegginn en tilkynnti hæstánægður að Jenny hjúkrunarkona hefði sagt að hann myndi ná sér á nokkrum dögum.
“Hún er að koma eftir smá stund,” sagði hann og glotti “verður kvöldið í kvöld stóra stund Charlies?” Charlie roðnaði upp úr öllu valdi og muldraði eitthvað óskiljanlegt. Í því gekk ung, falleg, dökkhærð stúlka að þeim og spurði
“Er þetta sæti laust?” Charlie leit upp og sá þar stúlkuna sem hann þráði svo mjög.
“… uuhhh… mmm.. ” Charlie reyndi eins og hann gat, en fann engin orð, tunga hans virtist vera lömuð og heilinn var svo sannarlega ekki að virka.
“Gjörðu svo vel vinan, aðeins besta sætið í húsinu er boðlegt fyrir ljúfling eins og þig!” sagði Julius og leit á Charlie með augnaráði sem sagði “þú ert vonlaus”. Charlie roðnaði enn meir, en Jenny lét sem hún sæi það ekki.
“Og hvar er svo konan þín Julius?” spurði hún.
“Hún er að baksa í eldhúsinu. Besti kokkurinn hérna megin við miðbaug.” svaraði Julius stoltur í bragði.
Nú fór að óma tónlist og Charlie sá að þó nokkuð af fólki var farið að dansa. Hann ákvað nú að manna sig upp og snéri sér að Jenny
“Má ég… hérna… bjóða þér upp í dans?” spurði hann vandræðalegur.
“Já, það máttu gjarnan” svaraði Jenny. Þau risu á fætur og Charlie tók í hönd hennar, er þau snertust fann hann heita strauma leika um allan líkama sinn. Þau gengu í átt að dansgólfinu en allt í einu kvað við hávaði og læti. Viðvörunarbjöllurnar ómuðu um allt svæðið. Allir hrukku við, tónlistin stoppaði. Að utan heyrðist kallað hárri göldrum magnaðri röddu
“Varúlfar! Varúlfar við hliðið!”
“Varúlfar” “…. hér?” “…. margir?” spurningarnar ómuðu hver yfir aðra. Allir karlmennirnir og mikið af kvenfólkinu stökk til og greip til vopna.
“Finnið allt tiltækt silfur” æpti einhver. Nokkrir karlmenn gripu tertuhnífana á meðan Charlie og fleiri hlupu beina leið í vopnaskýlið og náðu í öll þau sverð sem þeir gátu gripið með sér. Nokkrar konur urðu eftir í matarskýlinu með börnin, þar voru þau öruggust.
Charlie hljóp í áttina að hliðinu með hópinn á eftir sér. Allt í einu snarstöðvaði hann, skelfingu lostinn horfði hann á hópinn sem kom á móti honum. Tugir ef ekki hundruðir varúlfa komu hlaupandi á móti þeim. Edwin, 17 ára strákur sem var nýkominn til starfa á verndarsvæðinu, hlóð byssuna sem hann hafði gripið og skaut í áttina að varúlfunum.
“Til hvers varstu að þessu bjálfinn þinn?” hreytti Albert gamli drekatemjarinn út úr sér. “Byssuskot gera ekkert gagn gegn varúlfum, nema þau séu úr silfri og silfurkúlur höfum við ekki átt hér í mörg ár. Það þarf að höggva af þeim hausinn.”
Charlie horfði óttasleginn á hjörðina sem nálgaðist óðum, þeir myndu ná til þeirra á næstu sekúndum. Allt í einu heyrði hann skrýtin hljóð koma að ofan. Hann leit upp og sá flokk af leðurblökum koma svífandi úr loftinu. Leðurblökurnar sveimuðu inn um gluggana á matarskýlinu.
“Vampírur!” kallaði Charlie “Vampírur eru að ráðast á konurnar og börnin!” Nokkrir karlmannana snéru við og hlupu til baka að skýlinu. Charlie leit upp og sá úlfana nálgast, slefandi með bera skoltina nálguðust þeir óðfluga. Charlie reiddi sverð sitt til höggs og hjó höfuðið af þeim sem næstur honum var. Allt í kring um hann heyrði hann angistaróp og skelfingaröskur. Hann sá útundan sér hvar Edwin féll til jarðar með stóran varúlf ofan á sér. Hann hélt áfram að sveifla sverði sínu eins og brjálæðingur og hjó höfuðið af enn einum varúlfi og í því sá hann Julius stinga silfurtertuhníf á bólakaf ofan í kokið á stórum blóðugum varúlfi með silfraðan feld. Úlfurinn engdist sundur og saman og datt svo dauður niður, en rétt í því kom annar aftan að Juliusi.
“Nei!” æpti Charlie en það var of seint. Höfuðlaus búkur Juliusar féll til jarðar. Charlie leit upp og starði ofan í rotið ginið á stórum úlfi; hann fann nístandi sársauka fara í gegn um höfuðið á sér.
Allt varð svart.