Fimmti kapítulinn í þessari ritröð. Dæmið söguna svo ég læri af því, segið hvað ykkur finnst gott og hvers vegna það höfðar til ykkar, sem og bendið mér á það sem betur mætti fara.
Fimmti kapítuli
Þrír
Harry, Ron, Hermione og Laufey Needle smjöttuðu á fjöldabragðabaunum og töluðu um skólann. Laufey hafði verið dugleg að spyrja þau öll spjörunum úr, sérstaklega um Harry, sem honum fannst dálítið óþægilegt og var því feginn nýju umræðuefni.
„Hvernig haldiði að nýji kennarinn í vörnum gegn myrku öflunum verði?“ spurði Hermione.
„Ég veit það ekki og það liggur við að mér sé sama,“ svaraði Ron, „Eftir að hafa kynnst Umbridge, þá finnst mér allir kennarar vera frábærir!“
Þau samsinntu þessu öll og kinkuðu kolli.
„En hugsaðu þér Ron,“ reyndi Harry að segja með fullan munninn, „Við erum lausir við Umbridge, Trelawney og Snape! Öll á sama brettinu!“
„Ha? Snape líka?“ spurði Laufey hissa og leit á hann með þessum ótrúlegu augum.
„Já,“ svaraði Ron fyrir hann, „Því eftir fimmta árið megum við hætta í tveimur fögum sem okkur gengur illa í…“
„Töfradrykkum,“ skaut Harry inn í.
„…eða finnst ótrúlega tilgangslaus og leiðinleg…“
„Spádómafræði,“ sögðu Harry og Hermione í kór.
„…til þess að einbeita okkur að hinum einfaldari og skemmtilegri fögum.“
„Og við hættum auðvitað hjá Snape og Trelawney,“ lagði Harry áherslu á.
„Auðvitað? Ég er nú ekki hjá Trelawny en töfradrykkir eru heillandi!“ mótmælti Laufey, „Fegurðin í glitrandi gufunum sem stíga upp úr pottunum og lágvært mallið og…“ hún snarþagnaði þegar hún tók eftir augnaráði strákanna sem var blandið hryllingi og ótrú.
„Hún talar eins og lítill Snape,“ hvíslaði Harry ýkt að Ron, nógu hátt til þess hún heyrði. Ron hristi höfuðið og sagði með dálítið ýktum uppgjafartón:
„Slytherinkrakkar.“
„Heyriði nú mig!“ sagði Laufey móðguð, „Þó ég hafi gaman að töfradrykkjatímum, þá þýðir það ekki að ég sé eitthvað vitund lík prófessor Snape! Hann kann margt merkilegt en hann er algert ógeð. Ég meina, hafiði séð hárið á honum? Honum væri nær að þvo það og klippa af og til.“
Við þetta skellihlógu þau öll og strákarnir báðust afsökunar á dónaskapnum, þótt þeir hefðu nú bara verið að grínast.
Dyrnar á klefanum opnuðust í annað sinn og inn gekk…
„Neville!“ hrópaði Hermione upp yfir sig, „Hvað er þetta eiginlega framan í þér?“
Neville bar höndina upp að handlitinu og þreifaði á þremur risavöxnum grænum bólum.
„Æi, komu þær aftur? Ég reyndi að taka þær af…“
„Hvað gerðist eiginlega?“ spurði Hermione áhyggjufull um leið og hún galdraði bólurnar burt.
„Ég mætti Draco Malfoy á ganginum,“ byrjaði hann.
„Ó, gat nú verið,“ stundi hún.
„Og hann er verulega reiður út í þig Harry. Hann var að segja svolítið verulega ljótt um þig og ég var að reyna að verja þig en þá sagði hann að ég væri svo öfundsjúkur út í þig og þína frægð að ég fengi grænar bólur af öfund. Og svo, ja þið sáuð hvað hann gerði.
„Ojbarasta!“ sagði Hermione hneyksluð, „Hvað er að manninum? Ég skil ekki af hverju hann er umsjónamaður, mér fannst hann fyrirgera rétt sínum til þess í fyrra en nú gengur hann of langt! Strákar, Laufey, þið fyrirgefið en skyldan kallar.” Hún hagræddi umsjónamannanælunni og hélt hnarreist af stað út á gang. Ron leit á Harry.
„Laufey er eins og Snape og Hermione er að verða eins og Percy!“ sagði hann skelfdur á svip og stóð upp, „Tókstu eftir þessu?“
Harry glotti. Neville var að kynna sig fyrir Laufeyju og settist í lausa sætið við hliðina á henni.
„En nú get ég ekki haldið í mér lengur, ég verð að fara á klósettið,“ bætti Ron við og flýtti sér út. Laufey og Neville virtust fara hjá sér við þessa yfirlýsingu og Harry sjálfur vissi ekki alveg hvernig hann ætti að bregðast við og það varð dálítið vandræðaleg þögn.
Eftir smá stund tók Harry eftir því að Neville var eitthvað órólegur, eins og honum lægi eitthvað á hjarta. Þegar Neville tók svo eftir því að Harry horfði á hann, hallaði hann sér fram og sagði lágt:
„Harry, hérna, ég veit að þig hefur stundum dreymt ákveðna drauma…“
Harry kiptist við.
„Svona raunverulega drauma sem, hérna, tengjast Þú-veist-hverjum…“
Harry gaut augunum á Laufeyju sem leit strax undan.
„Og ég var að velta því fyrir mér hvort þú, hérna, gætir sagt mér, sko… mig dreymdi ótrúlega raunverulegan draum í fyrrinótt…“
Laufey horfði stíft út um gluggan og reyndi greinilega að hlusta ekki. Harry var feginn en tók samt í handlegginn á Neville og dró hann í hinn endan á klefanum, sem honum fannst allt í einu allt of lítill.
„Hvað segiru? Hvað dreymdi þig svona raunverulegt?“ Harry fann hvernig hjartað hamaðist.
„Um það þegar við vorum í ráðuneytinu, atburðinn þegar hann þarna, þarna morðinginn datt í gegnum bogann…“
„Hann er ekki morðingi!“ hvæsti Harry, hann var orðinn svo spenntur að hann réð ekki við sig.
„Ah, eh, fyrirgefðu, ö, Black, þegar Síríus Black datt í gegnum steinbogann og hvarf. Og það var svo raunverulegt, mér fannst ég vera að upplifa þetta allt saman aftur, nema…“
„Nema hvað stelpa í muggafötum bjargaði honum með því að öskra á hann, já, mig dreymdi þennan sama draum!” Harry var orðinn yfirspenntur og var með andlitið alveg ofan í Neville sem starði á hann í forundran.
„Ha? Dreymdi þig sama draum?“
„Uss! Já og Lupin líka,“ hvíslaði Harry svo lágt að varla heyrðist, „Hann ætlar að gá hvort að einhverja fleiri hefur dreymt hann líka.“
„Helduru að einhverja fleiri hafi dreymt þetta sama?“
„Ja, við erum þrír sem hefur alla dreymt sama drauminn, hvers vegna ekki fleiri? Ég veit samt ekki um aðra ennþá, Ron og Hermione sýna þess hvorug merki um að þau hafi nokkuð dreymt en ég hef nú reyndar ekki spurt þau beint út.“
Harry tók andköf og dró djúpt andann, því hann var orðinn andstuttur. Svo horfðust þeir tveir í augu, drengirnir sem Voldemort hafði orðið að velja á milli einhverntímann í fortíðinni, varð Harry hugsað til. Ef Neville hefði orðið fyrir valinu, ef bara Voldemort hefði valið hann, stóð hann sig að því að hugsa. En ef svo hefði verið, ef Neville hefði orðið að berjast við hinn myrka herra, til dæmis á fjórða árinu, þá hefði hann örugglega ekki komið til baka og tvö lík lægju nú í dimmum kirkjugarðinum.
„Tölum betur seinna, ókei?“ sagði hann upphátt. Hann var farinn að hugsa allt of mikið af drungalegum hugsunum upp á síðkastið. Þeir gjóuðu báðir augunum á Laufeyju sem starði enn út um gluggann og virtist raula eitthvað lágt. Neville kinkaði kolli.
„Allt í lagi.“
Þá heyrðist allt í einu óp fyrir utan og einhver heyrðist detta. Þau hrukku öll við og hlupu út á gang. Þar var Hermione að standa upp, eldrauð í framan af reiði og Draco Malfoy að ryðjast framhjá henni. Hann snarstansaði þegar hann kom auga á þau.
„Potter!” spýtti hann útúr sér. Svo liðu augun til og á Laufeyju og hann gaf frá sér einhvers konar hnuss.